21.02.1980
Neðri deild: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

109. mál, tollskrá

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Þegar ég mælti fyrir þessu frv. í gærdag gerði ég ekki ráð fyrir því, að þær umr., sem urðu í tilefni þess, færu inn á þá braut sem raun varð á, þar sem ég hélt að hér væri um að ræða mál sem allir hv. alþm. væru sammála um og mundu greiða fyrir jafnvel á hljóðlátan hátt hér í hv. deild. Ég verð því miður að lýsa því yfir, að ég harma mjög þá stefnu sem umr. um málið tóku, þetta litla lagafrv. til lítillar leiðréttingar á málefnum fatlaðra. Og ég hlýt að taka undir þá skoðun, sem kom fram áðan hjá hv. 5, þm. Norðurl. v., að það sé e.t.v. tímabært að sumir hv. alþm. a.m.k. fái þinghlé til að öðlast nauðsynlega hugarró, svo hægt sé á hv. Alþ. að flytja og koma fram nauðsynlegum umbótamálum án þess að hafnar séu harðvítugar eldhúsdagsumræður um stjórnmál í tilefni hvers máls sem fyrir er tekið.

En ég vil trúa því, að fullur einhugur sé hér á Alþ. um að greiða fyrir framgangi þess lagafrv. sem hér er til umr., og vísa ég enn til hástemmdra yfirlýsinga allra stjórnmálaflokka um stuðning við málefni fatlaðra. Okkur flm. er fullkomlega ljóst að ef þetta frv. verður að lögum minnka tolltekjur ríkissjóðs um 180 –200 millj. kr. vegna innflutnings á þessum 400 bifreiðum. Ég vona að hv. alþm. sjái sér fært, þó ekki væri nema samvisku sinnar vegna, að verða valdir að slíkri tekjuskerðingu ríkisins í þágu þeirra sem verða að búa við það vandamál að komast ekki ferða sinna án farartækis. Það eru sjálfsögð mannréttindi fyrir þetta fólk.

Þingflokkur Framsfl. hefur ákveðið einróma að styðja að samþykkt þessarar lagabreytingar. Ég vænti þess, að hv. alþm. sameinist um afgreiðslu þessa máls í dag. Og ég treysti því, herra forseti, að freistað verði að koma þessu máli til nefndar að lokinni þessari umr.