21.02.1980
Neðri deild: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

109. mál, tollskrá

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég þakka þá mildilegu áminningu sem til mín var beint.

Það var erindi mitt hingað að ítreka þá brtt., sem við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir höfum flutt við það frv. sem hér er til umr., og ítreka stuðning minn við frv. í heild eins og það nú liggur fyrir: Á sama hátt held ég að ég verði að ítreka það, sem hefur komið fram í umr. manna í hv. deild í dag, að nánast verða menn furðu lostnir yfir því sem gerðist í deildinni í gær, þegar verið var að ræða jafneinfalt og sjálfsagt mál og þá var til umr., þ.e. frv. sem við erum nú aftur að ræða. Þá fór umræðan í deildinni út í hreinan strákslegan eldhúsdag. Ég tel persónulega að slík vinnubrögð séu gjörsamlega óþolandi og það sé til harla lítils að leggja fram mál í þessari deild og SÞ. ef slíku málaþvargi á að halda áfram. Hér ligg ja mál í bunkum óafgreidd og fá ekki afgreiðslu, hvorki í deildum né Sþ., vegna þess að menn hafa tilhneigingu til að snúa hverri einustu umr., sem hér fer fram, upp í hinn ómerkilegasta eldhúsdag, um stjórnmálaviðhorf og annað sem ég tel að eigi ekki heima í umr. þegar verið er að ræða ákveðin frv. og þáltill.

Fleira ætlaði ég ekki að segja, herra forseti.