21.02.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

Umræður utan dagskrár

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj. hefur nú ákveðið að fresta fundum Alþingis í hálfan mánuð. Af því tilefni vil ég láta þess getið, að þingflokkur sjálfstæðismanna hefur ekkert að athuga við að þingfundum verði frestað vikuna frá 3. mars n.k. vegna þings Norðurlandaráðs. Hins vegar gegnir öðru máli um næstu viku. Það sýnast næg verkefni vera fyrir hendi hjá Alþ. næstu daga. Fjöldi mála er óafgreiddur. Frv. og till. einstakra þm. hafa ekki komist til umr. hér, ýmist ekki komist til 1. umr. eða ekki komist til nefndar.

Hæstv. ríkisstj. rökstyður nauðsyn á frestun þingfunda fyrst og fremst með því, að hún þurfi tíma til að undirbúa mál. Þetta má vera rétt, en hins vegar sýnist það rekast á yfirlýsingar ýmissa aðstandenda hæstv. ríkisstj. fyrir nokkru um að þingstörf hafi verið næsta lítil. Það var jafnvel notað til að réttlæta nauðsyn á myndun ríkisstj. fyrir skömmu, til þess þá væntanlega að koma þingstörfunum í eðlilegt horf. Það skýtur því nokkuð skökku við þegar þingið er sent heim svo skömmu eftir myndun hæstv. ríkisstj.

Í sambandi við þetta er einnig talað nokkuð um virðingu Alþingis, og um hana urðu nokkrar umr. í hv. Nd. í dag. Er það raunverulega til aukinnar virðingar fyrir Alþingi að senda það heim? Ég dreg í efa að svo sé, en það kann að vera skoðun ýmissa hv. þm. Það bryddaði jafnvel nokkuð á þeirri skoðun í umr. í dag. En ég dreg það í efa.

Í þessu sambandi er rétt að hv. þm. og hæstv. ríkisstj. hugleiði nokkuð verkefni Alþingis og ríkisstj. Alþingi fer með löggjafarvaldið, en ríkisstj. fer fyrst og fremst með framkvæmdavaldið. Þótt ríkisstj. kunni að vera í tímahraki með undirbúning sinna mála getur þingið að sjálfsögðu haldið áfram löggjafarstarfi sínu og á að gera það. Þar er margt óunnið.

Þingflokkur Sjálfstfl. hefur ekki ályktað sérstaklega um þá fyrirætlun ríkisstj. að gera nú hálfsmánaðar hlé á störfum þingsins. Ég vil hins vegar láta þess getið, að það er almenn andstaða þm. flokksins við þá ætlun af ástæðum sem ég hef þegar nefnt. Auk þess má telja það fram, að það hlýtur að vera borin von að þingmál, sem þegar eru fram komin, fái afgreiðslu á þessu þingi, hvað þá önnur mál sem ekki hafa enn komið fram.

Mér er sagt að það sé talað um í liði stjórnarinnar að afgreiða fjárlög fyrir páska. Ég hlýt að telja að slíkt sé útilokað, og ekki bætir úr skák að gera nú hálfs mánaðar hlé á störfum þingsins.

Þá hlýtur það einnig að teljast ámælisvert, að þingið sé sent heim áður en stefnuræða hæstv. forsrh. er flutt, þinghlé sé gert áður en stefnuræðan er haldin, þrátt fyrir ákvæði þingskapa.

Ég geri þetta ekki frekar að umræðuefni nú þótt ástæða kynni að vera til þess. Ríkisstj. hefur ákveðið að hafa þennan hátt á, og ég dreg ekki í efa að hún hefur vald til þess. En nauðsynlegt var að koma þessum aths. að til þess að hæstv. ríkisstj. héldi ekki að hún hefði til þessa einróma samþykki þingmanna.