21.02.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil láta það koma hér fram, að þingflokkur Alþb. samþ. í gær einróma að standa að því fyrir sitt leyti að afgreidd væru frá þinginu í dag eða á morgun frv. um tekjustofna sveitarfélaga og frv. um fjáröflun Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Það hefur ekki staðið á þm. Alþb. að þessi tvö mál væru afgreidd frá þinginu.

Þarf ekki að rekja fyrir hv. þm. hvers vegna svo er ekki. Fulltrúar annars stjórnarandstöðuflokksins hafa lagst gegn því að frv. um tekjustofna sveitarfélaga væri afgreitt hér. Um það urðu umr. utan dagskrár í Nd. í dag. Það samkomulag, sem ég beitti mér fyrir sem formaður fjh.- og viðskn. Ed. og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson lýsti áðan að gert væri um afgreiðslu málsins, reyndist ekki, þegar á leið, jafnvíðtækt og við hefðum kosið. En staðreyndin er samt sem áður sú, að þingflokkur Alþb. hefur verið reiðubúinn að afgreiða þessi mál hér í þinginu. Það er algerlega rangt, sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði í lok ræðu sinnar, að það hafi að einhverju leyti staðið á þingflokki Alþb. að afgreiða málið. Það var m.a. fyrir okkar frumkvæði í fjh.- og viðskn. Ed. sem náðst hafði það víðtæka samkomulag sem fólst í því að fulltrúar þriggja flokka í n. skiluðu sameiginlegu áliti. Ég vænti þess, að afgreiðsla málsins frá þinginu á sínum tíma verði í sama anda og hv. þm. muni þegar í stað, þegar þing kemur saman aftur, afgreiða frv. um tekjustofna sveitarfélaga í þeim samkomulagsanda sem náðst hafði á sameiginlegum fundum félmn. beggja d., þannig að þjóðin þurfi ekki að horfa upp á að óþarft ósamkomulag í þinginu hindri afgreiðslu mála sem eru lífsnauðsynleg bæði fyrir sveitarstjórnir þessa lands og bændur þessa lands.