21.02.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Mér er fullkomlega óskiljanlegt að 20 mínúta ræða af hálfu eins af þm. Alþfl. skuli valda því, að frv., sem talið var mjög brýnt að yrði afgreitt fyrir helgi, skuli nú allt í einu vera komið í óefni. Sér auðvitað hver maður að sú getur ekki verið skýringin.

Ég vil bæta því við, að það er yfirlýst af hálfu Alþfl. að hann vilji greiða fyrir framgangi þessa máls, sé reiðubúinn til þess. Ég óskaði meira að segja sérstaklega eftir því, að það yrði afgreitt þegar í stað og afgreiðslu þess hraðað. — Vegna ásakana, sem voru bornar á borð fyrir þm. í Ed. af hæstv. fjmrh., að við værum að tefja fyrir þessu máli, og vegna þeirra ummæla, sem hæstv. forsrh. hafði hér áðan og hnigu til sömu áttar, vil ég að þetta komi fram og að við óskum sérstaklega eftir að afgreiðslu málsins verði haldið áfram og henni hraðað. Ég trúi því, að þm. séu ekki svo kvöldsvæfir að þetta ætti ekki að vera hægt í dag ef vilji er fyrir hendi.