21.02.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. kvartaði undan því að heyra ekki frá okkur framsóknarmönnum í þessu sambandi. Mér heyrðist hlaupinn á hann eins konar vestfirskur framboðsfundarandi áðan, og þar er venja að við tölum báðir.

Ég vil leggja áherslu á að það stendur á engan máta á okkur framsóknarmönnum að afgreiða málið sem nú liggur fyrir Ed. um ríkisábyrgð vegna lántöku Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Hér hafa hins vegar gerst þau gleðilegu tíðindi, að allir keppast við að lýsa stuðningi við málið, og það er nokkuð nýtt í þessum þingsölum. M.a. liggur fyrir yfirlýsing frá hv. sjálfstæðismönnum um að þeir ætli ekki að ganga út, a.m.k. ekki í Ed., og m.a.s. ætli að flýta fyrir afgreiðslu málsins. Hv. Alþfl.-menn virðast m.a.s. vera í kapphlaupi við aðra um að flýta afgreiðslu þessa máls. Við getum því sagt að málinu sé tryggður framgangur hér á hinu háa Alþingi. Ég held að allir geti verið sammála um það. Það er vitanlega aðalatriðið. Með þessar yfirlýsingar er unnt að fara að vinna að útvegun lánsfjár, sem tekur einhvern tíma, og það getur þá allt legið fyrir þegar Alþ. kemur saman aftur. Þetta sýnist mér svo mikilvægt, sem hér hefur komið fram, að það skipti út af fyrir sig ekki öllu máli hvort málið sé afgreitt í dag eða eftir tvær vikur.

Ég veit að hæstv. forsrh. hefur þegar hafið undirbúning að útvegun þess fjármagns sem þarna er um að ræða, og ég skora á hann að hraða því.