10.03.1980
Efri deild: 44. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Í þeim ræðum, sem hæstv. landbrh. hefur haldið hér að undanförnu, bæði nú í dag og eins við fyrri hluta þessarar umr. fyrir drjúgt tveimur vikum, hafa komið fram ýmsar dæmalausar fullyrðingar.

Hæstv. landbrh. hefur haldið því fram að með því frv., sem ríkisstj. væri nú að flytja, væri verið að greiða skuld til bænda. Þetta er rangt. Það er ekki um neina skuld til bænda að ræða í þessu sambandi. Það er ótvírætt samkv. lögum, hversu mikið beri að greiða, og það, sem hér er flutt frv. um, er umfram það sem ríkissjóði ber að inna af hendi samkv. lögum. Það er meira að segja tekið svo til orða í þeim lögum sem hér um ræðir, að hámark skuli vera 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar, fram úr því megi ekki fara. Það er kannske líka skýringin á því, að það undurfurðulega form er valið sem er á því frv. sem ríkisstj. hefur hér flutt eða fjmrh. fyrir hennar hönd, að þetta skuli vera heimild til lántöku fyrir aðila úti í bæ, sem fjmrh. lýsir yfir að ríkissjóður muni greiða nema einhverjir aðrir bjóðist til þess að greiða lánin. Þetta er furðulegt form, og eins og ég benti á í ræðu minni þegar þetta var til umfjöllunar hér fyrir drjúgt tveimur vikum á þetta sér tæpast nokkur fordæmi og er ákaflega vafasamt að lögum. En það var einmitt til þess að greiða úr þessari flækju og koma málunum á eðlilegan grundvöll, þannig að það væri í rauninni stætt á því að veita ábyrgðarheimild fyrir láni af þessu tagi, sem ég flutti þá brtt. sem hér liggur fyrir, jafnframt því að vilja með því stuðla að því að menn rifu sig út úr þeim vítahring vitleysunnar sem landbúnaðarstefnan er komin í.

Það kom líka fram í máli hæstv. landbrh., að hann teldi að hér væri um erfðasynd að ræða. Hann vildi ekki kalla þetta stundlega friðþægingu, eins og ég hafði gert, heldur erfðasynd. En það var bara eftir að feðra erfðasyndina, því að ég held að það sé augljóst að sé um erfðasynd að ræða, þá er þetta erfðasynd Alþingis. Þær ógöngur, sem þessi mál eru komin í, eru ekki bændum að kenna, heldur Alþ., sem hefur haldið fram stefnu í atvinnugrein, landbúnaðinum, sem er svo dæmalaus sem raun ber vitni.

Mér heyrðist á ræðu hæstv. landbrh. áðan, að hann teldi að málflutningur Alþfl. í þessum landbúnaðarmálum hefði verið til þess að herða á vitleysunni, ef ég heyrði rétt. Ég skil það svo, að hæstv. ráðh. sé svo stoltur af stöðu og stefnu landbúnaðarmála samkv. þessu að sérhver gagnrýni á hana sé illa þokkuð vegna þess hve þetta sé glimrandi gott — eða hvernig má með öðrum hætti skilja orð ráðh.? Ég hefði haldið að hæstv. ráðh. mundi þiggja með þökkum þær uppbyggilegu tillögur sem við höfum flutt hér um stefnubreytingu í landbúnaðarmálunum, þar sem reynt er hægt og sígandi að beina framleiðslunni inn á þá braut, sem svarar til innanlandsþarfanna, og út af þeirri braut að greiða þurfi 50–75% af kostnaðarverði vörunnar niður fyrir erlenda neytendur. Ég hef talið, að stór hluti bænda væri sammála um að í þessum efnum þyrfti einmitt að skipta um stefnu með þeim hætti sem ég hef hér flutt till. um.

Ég minntist líka á það í ræðu minni hér fyrir drjúgt tveimur vikum, að eitt einkenni landbúnaðarstefnunnar væru útslitnir bændur. Þetta þótti hæstv. fjmrh. ákaflega furðulegt. Ég veit að vísu ekki hvernig bændur hafa það í Húnaþingi. En ég þekki nokkuð til bænda hér sunnanlands og ég verð að segja það, að reynsla mín hefur verið sú, að þeir hafa lifað ærið hörðu lífi, þeir hafa lagt hart að sér og þeir hafa margir hverjir verið útslitnir fyrir aldur fram vegna þess að eins og kerfið er hafa þeir verið ginntir til þess að slíta sér út við að framleiða vöru sem síðan hefur orðið að leggja stórskatta á þjóðina til þess að greiða niður fyrir útlendinga. Ég kalla þetta sorglegt, og ég endurtek það sem ég sagði fyrr um þetta mál: Þetta er sorgleg staðreynd og það er sorglegt að einn liður í landbúnaðarstefnunni, eins og hún hefur verið í framkvæmd, er það, hversu margir bændur slíta sér út fyrir aldur fram. Það gildir a.m.k. þar sem ég þekki til.

Auðvitað er það svo í landbúnaði, að menn geta orðið fyrir tímabundnum áföllum eins og harðindum, og mér finnst alger óþarfi hjá hæstv. landbrh. að fara að blanda því saman við þetta mál. Það hefur ævinlega legið ljóst fyrir, að við Alþfl- menn vildum leysa úr þeim þætti, við vildum líta á það mál sérstaklega og greiða úr því. En það hefur ekki haggað því, að við töldum jafnbrýnt eftir sem áður að mörkuð yrði landbúnaðarstefna til frambúðar.

Hæstv. landbrh. talaði um að einhverjir væru að egna þjóðina gegn tiltekinni stétt eða hugsanlega aðrar stéttir gegn tiltekinni stétt, nefnilega bændum. Ekkert er fjær sanni. Sannleikurinn er sá, að sú stefna, sem hefur verið fylgt hér undanfarinn áratug, er að egna þjóðina upp á móti landbúnaðinum sem slíkum. Og það er einmitt til þess að forðast að slíkar árásir, slík uppreisn verði og jafnframt uppgjöf eða sprenging í landbúnaðinum, eins og kom fram í fyrri ræðu minni, það er einmitt til þess að afstýra því sem við Alþfl.- menn höfum lagt ríka áherslu á að greitt yrði úr þessu máli, að mörkuð yrði ný stefna, og við höfum talið sjálfsagt að það yrði gert í sambandi við þann stundatvanda sem nú er við að fást.

Er það ekki t.d. augljóst, að sjómenn, sem sætta sig við takmarkanir á veiðum, taka þannig á sig tekjuskerðingu umfram það sem þeir annars gætu haft, og þeir gera það til þess að tryggja frambúðarhag sinn. Er nema von að þeim þyki kúnstugt að þetta skuli gilda fyrir þá, en ekki fyrir aðrar stéttir?

Þær brtt., sem ég hef hér flutt, gera ráð fyrir að bændur taki líka á sig nokkur óþægindi núna, en til þess að tryggja frambúðarhag sinn. Þetta er sannleikurinn í málinu. Það er áreiðanlega nauðsynlegt að vítahringur vitleysunnar verði rofinn, og ég tel að með þeim brtt., sem við höfum flutt hér, höfum við stigið spor í þá átt.

Ég held að það sé alveg augljóst, jafnvel þó að hæstv. landbrh. sé stoltur af ástandinu, að mönnum ógnar það þegar greiða á úr ríkissjóði fyrir verðlagsárið, sem nýliðið er, 8.3 milljarða, um það bil 2 milljónir á hvern bónda í landinu eða um 190 þús. kr. á hverja 5 manna fjölskyldu. Ég held að jafnvel þótt hæstv. landbrh. sé stoltur af ástandinu, þá ógni fólkinu það, bændum ekki síður en öðrum. Horfurnar eru slíkar fyrir yfirstandandi ár, að tilsvarandi tölur verði 4 millj. á hvern bónda eða 333 þús. kr. í skatt á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu, bara til þess að greiða niður útflutning á matvælum ofan í útlendinga. Þetta er mælikvarði sem við komumst ekki fram hjá, og það er út úr þessum ógöngum, sem við verðum að fikra okkur. Ég held að það verði best gert með niðurtalningu útflutningsbóta eins og ég hef lagt fram frv. um.