10.03.1980
Efri deild: 44. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Jón Helgason:

Herra forseti. Það er aðeins vegna þess að mér fannst hljóta að gæta nokkurs misskilnings í ræðu hv. 5. þm. Vesturl. áðan. Hann sagðist hafa ætlað að ræða fyrst og fremst um stefnuna í landbúnaðarmálum, en viðurkenndi þó að hann hefði síðan farið að ræða um grátsöng forustumanna bænda í leiðinni, m.a. í sjónvarpi. Það, sem ég vakti athygli á, var að mér finnst furðulegt að hann, svona mikill sjónvarpsmaður, skyldi telja það eitthvað miður að bændur kæmu þar fram og settu fram sín stefnumál. Og það er ekki rétt hjá hv. 5. þm. Vesturl., að hann hafi eingöngu komið fram í sjónvarpi sem starfsmaður þess, a.m.k. er mér tjáð að það séu ekki margar vikur síðan hann einmitt var að ræða landbúnaðarmál í sjónvarpi og þá ekki sem starfsmaður sjónvarpsins, eins og allir vita. En ég sá ekki þann þátt. Ég gaf ekki í skyn að það væri eitthvað óheiðarlegt að koma fram í sjónvarpi, síður en svo. Ég get ekki skilið hvernig hann gat fundið það út úr orðum mínum.

Vegna orða Karls Steinars Guðnasonar, hv. 3. landsk. þm. um að bændur hafi ekki haft neinn áhuga á því síðan 1972 að fá framleiðslustjórn, þá sýnir það aðeins vanþekkingu hans að vita það ekki, af því að um það hefur verið rætt á hverju einasta ári hjá bændasamtökunum.

Að lokum aðeins í sambandi við þessar tölur sem hv. 2. þm. Reykn. var hér með, þar sem hann var að deila niður á bændur og fjölskyldur í landinu þeim tölum sem vantaði upp á útflutning landbúnaðarvara. Ég held að nauðsynlegt sé að hafa í huga þann mikla fjölda fólks í landinu, og margfaldan fjölda á við bændurna, sem vinnur í sambandi við landbúnaðarframleiðstuna, þ.e. veitir bændum þjónustu og vinnur úr vörunum, breytir þeim í söluvöru. Það er vitanlega allur þessi fjöldi sem byggir á landbúnaðarframleiðslunni, og ef við eigum að fara að deila þeim fjárveitingum, sem koma frá ríkinu, niður á þá sem að þessu vinna, þá held ég að það sé óheiðarlegt að hafa ekki allan þennan fjölda í huga, því að þetta fólk er búið að fá sitt fulla kaup áður en farið er að gera upp við bændur. Og ef úr þessu dregur á annað borð, þá bitnar það vitanlega á þessu fólki öllu.