10.03.1980
Neðri deild: 41. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég hef fengið leyfi forseta til þess að kveðja mér hljóðs utan dagskrár á fyrsta fundi þessar hv. d. að afloknu þinghléi til þess að bera fram fsp. til hæstv. viðskrh. varðandi ákvarðanir eða öllu heldur ákvarðanaleysi hæstv. ríkisstj. meðan á þessu þinghléi stóð.

Þetta ákvarðanaleysi er í tengslum við vaxtamál. Þannig er, að í lögum nr. 13 frá 1979, lögum sem fjalla um efnahagsmál o.fl., er kveðið svo á, að vextir skuli hækka í áföngum þannig að náð hafi verið markmiði raunvaxta fyrir árslok 1980. Framkvæmd þessara laga hefur hingað til verið óumdeild af öllum, þannig að vextir hafa í áföngum verið hækkaðir á þriggja mánaða fresti, svo sem farið er með aðra vísitölubindingu, t.d. laun, í þessu landi. Um þessa aðferð hefur ekki verið deilt. Það er að vísu svo, að deila má um það — vegna þess hversu erfitt getur verið að spá um verðlagsþróun — hversu mikil nákvæmlega vaxtahækkunin skuli vera. En hitt er ljóst, að um nokkra upphæð hafa vextir þurft að hækka á þriggja mánaða fresti í því skyni að því markmiði verði náð, að sparifé landsmanna sé verðtryggt á gefnum tíma, svo sem ívitnuð lög ótvírætt mæla fyrir um.

Okkar kerfisbygging er þannig, að það er Alþ. og ekki ríkisstj. sem fer með vaxtavaldið í landinu. Samkv. lögum um Seðlabanka Íslands frá því í mars 1961 er svo ákveðið, að það er Seðlabanki Íslands sem framkvæmir, vilja Alþingis. Þessi mál, eins og íslensk löggjöf er, koma því ríkisstjórn í landinu hreint ekkert við. Alþingi getur auðvitað hvenær sem er breytt þessum lögum, en lagabókstafurinn er svona.

Það er óþarfi að hafa mörg orð um þær umr. sem urðu um vaxtastefnuna á s.l. ári. Eftir mikil átök innan þáv. hæstv. ríkisstj., ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, þar sem raunar sitt sýndist hverjum, náðist samkomulag um ívitnuð lög nr. 13 frá 1979 og þau voru samþykkt af Alþ. þá. Það er óþarfi að rekja þær röksemdir sem fluttar voru bæði með og á móti því að stefna að verðtryggingu sparifjár og þar með hækkun vaxta, þangað til verðbólgustiginu væri náð. En þessa stefnu samþykkti Atþingi á sínum tíma. Að vísu kom upp sú furðulega staða innan þáv. hæstv. ríkisstj., að þáv. hæstv. bankamrh. var á móti stefnu eigin ríkisstj. og lagðist gegn henni, hvernig sem það kemur nú heim og saman. Málgagn hans, Þjóðviljinn, lagðist einnig gegn þessari stefnu. Hvað um það, engu að síður voru þetta lög samþykkt af Alþingi og lög sem Seðlabanka Íslands var gert að framkvæma, svo sem hann hefur gert til þessa.

Það fer ekkert á milli mála, að t.a.m. skoðanir hæstv. fyrrv. bankamrh. á þessum efnum og sú staðreynd, að fólk fékk á tilfinninguna að óvíst væri hvort þessari stefnu yrði framfylgt í raun, hafa ýtt undir spákaupmennsku og brask ásamt óákveðinni framkvæmd þessarar stefnu. Það er ekki minnsti vafi á því, að það ýtir enn fremur undir spákaupmennsku og brask á lánamarkaðnum hér. Engu að síður er það svo, að einhver virðingarverðasti minnisvarði um þessa hæstv. fyrrv. ríkisstj. eru þau ákvæði í lögum nr. 13 frá 1979 að stefna í áföngum að raunvöxtum. Og þeirri stefnu hefur undantekningarlaust verið framfylgt á þriggja mánaða fresti, síðast fyrir 1, des. 1979. Hitt er jafnljóst, að í hinum sömu lögum er gert ráð fyrir bæði lengingu lánstíma og gert ráð fyrir því, að bankarnir hegði sér í samræmi við það. Á því hefur orðið misbrestur. Eins hefur orðið misbrestur á hinu, að fólk sé upplýst um réttindi sín að því er þetta varðar, og var þó gerð bragarbót þar á í viðskiptaráðherratíð hæstv. ráðh. Kjartans Jóhannssonar.

Kjarni málsins er þá einfaldlega sá, að það er Alþ. sem fer með vaxtaákvörðunarvaldið. Alþingi tók þessa ákvörðun í apríl í fyrra og fól Seðlabankanum að framkvæma þessa stefnu, sem hann og hefur gert þangað til núna, að lesa má í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands að hæstv. ríkisstj. hefur farið að setja fingurna í þetta mál. Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta, ef ég má vitna í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands sem hann gaf út í vandræðum sínum, þegar hann fékk ekki að framfylgja landslögum: „Jafnframt hefur hún“ — þ.e. hæstv. ríkisstj. — „lýst yfir því, að hún ráðgeri að taka til endurskoðunar ákvæði laga um stjórn efnahagsmála o.fl., að því er varðar lengd aðlögunartíma, uns fullri verðtryggingu verði náð.“

Hér er Seðlabankinn að lýsa óskhyggju hæstv. ríkisstj., með hvaða hætti hún vilji breyta lögunum. En það er óvart svo, að það er ekki ríkisstj. í landinu sem setur lög. Það er Alþ. sem það á að gera, og vaxtastefnan frá því í apríl 1979 er auðvitað vaxtastefna í landinu þangað til Alþ. ákveður annað.

Ég hef fengið um það upplýsingar hjá hagdeild Seðlabanka Íslands, hvert tap sparifjáreigenda er vegna þessa ákvarðanaleysis núv. hæstv. ríkisstj., hverju sparifjáreigendur tapa vegna þess að núv. hæstv. ríkisstj. hefur heykst á því að framkvæma lög eða farið að skipta sér af framkvæmd laga sem henni — og ég endurtek það — í reynd kemur ekkert við. Seðlabankinn gefur upp — og það eru auðvitað erfiðleikarnir á framkvæmd, að það er ekki hægt að gera sér nákvæma grein fyrir um hvaða prósentustig vextir skuli hækka — en Seðlabankinn sagði að nú 1. mars mundu vextir hafa hækkað um 3–5%, eftir því hvernig reiknað er. Það að sparifjáreigendur eru sviptir 3% nemur á þremur mánuðum 1.8 milljörðum kr. Með þessu ákvarðanaleysi núv. hæstv. ríkisstj. er 1.8 milljarðar fluttir til, frá sparendum í þessu landi og til lántakenda. Á heilu ári nemur það 7.2 milljörðum kr. Og ef miðað er við hærri töluna sem Seðlabankinn gefur upp, þ.e. 5%, þá nemur flutningurinn eða tap sparifjáreigenda 3 milljörðum kr. á þremur mánuðum eða um það bil 12 milljörðum kr. á ári. Og þegar þessar tölur eru notaðar, þá er átt við sparifé að viðbættum veltiinnlánum. Það er ljóst, að hér er ekki um neinar smáar upphæðir að ræða sem núv. ríkisstj. hefur í reynd beitt áhrifum sínum til þess að flytja frá sparendum og til lántakenda. — Þessar upplýsingar eru fengnar hjá hagdeild Seðlabanka Íslands.

Það eru fleiri hlutir sem má velta fyrir sér í þessu sambandi. Sparifjáreigandi, sem lagði inn á 12 mánaða reikning um síðustu áramót t.d. 1 millj. kr. eða 10 millj. kr., reiknaði auðvitað með því að þessi vaxtastefna yrði framkvæmd og að fyrir árslok á þessu ári yrði í áföngum náð því marki að innistæða hans yrði verðtryggð. Landslög segja að það skuli gert. Þessi lántakandi gat einnig átt von á því, að eins og allt verðbindingarkerfi eða vísitölukerfi okkar hefur verið rekið, þá yrði um að ræða hækkanir, ef verðlagsþróun gæfi tilefni til þess, á þriggja mánaða fresti. Þannig hefur launastefnan verið rekin og þannig hefur verðbindingarstefna yfir höfuð verið rekin. Nú hefur það hins vegar gerst, að ríkisstj., að því er segir í tilkynningu Seðlabanka Íslands, hefur gripið inn í framkvæmd landslaga og í reynd komið í veg fyrir að Seðlabankinn gæti framkvæmt landslög. Það er að vísu svo, og það er hryggileg staðreynd að sparifjáreigendur hafa aldrei haft með sér samtök. Sú spurning vaknar engu að síður, hvort sparifjáreigandi mundi ekki vinna mál, sem hann höfðaði á hendur viðskiptabanka sínum eða á hendur viðskrh. eða fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs, og hvort ríkissjóður er ekki skaðabótaskyldur gagnvart þessum sparifjáreiganda sem hefur verið sviptur eignum sínum sem hann réttilega hefur átt tilkall til samkv. ótvíræðum landslögum, samkv. lögum nr. 13 frá 1979. Það er því miður svo - og það skal endurtekið — að sparifjáreigendur hafa ekki haft með sér samtök. Það er þó sjálfsagt mál að hvetja til þess, að það fólk, sem miskunnarlaust er níðst á af stjórnvöldum, athugi vel sinn gang og athugi möguleika á því, að það, eða samtök fyrir þess hönd, t.d. neytendasamtök, reki mál gegn ríkinu og leiti réttar síns, reynt verði að komast að því, hvort ríkisvaldið sé ekki skaðabótaskylt af þessum ástæðum og verði það þangað til vaxtastefnunni verður aftur breytt.

Sé það stefna núv. hæstv. ríkisstj. að ætla að hverfa frá þessari vaxta- og verðtryggingarstefnu, þá verður það væntanlega fyrsta.ógæfusporið sem stigið verður. Og eigi að halda á ný inn í gamla tímann, skömmtunartímann í lánastofnunum, þá verða það vond ógæfuspor sem svo væru stigin. Arðrán sparifjáreigenda í þessu landi er fyrir löngu óþolandi staðreynd. Brask lántakenda er sömuleiðis óþolandi staðreynd og óþotandi lýsing verðbólgusamfélagsins. Það hefur verið kennt hér um áraraðir, að sparnaður sé dyggð, að með því að spara séu menn að leggja inn fé sem síðan nýtist þeim sem á þurfa að halda, hvort sem er einstaklingum eða fyrirtækjum. Sé hæstv. núv. ríkisstj. að heykjast á þessu og hyggist hún í ljósi þingmeirihluta síns — sem við skulum ætla að sé til — leggja fram nýtt frv. um þessi efni, þá væri það ógæfu frumvarp. En enn sem komið er hefur hæstv. ríkisstj. ekki lagt slíkt frv. fram, og meðan hún hefur ekki gert það er í landinu vaxtastefnan sem samþ. var í apríl 1979.

Með aðgerðaleysi sínu hefur hæstv. ríkisstj. framkvæmt stórkostlega tilfærslu enn á ný frá sparendum og til skuldara. Aðeins á þremur mánuðum nemur þessi tilfærsla 1.8 og upp í 3 milljarða kr. eftir því hvernig reiknað er. Það er auðvitað ljóst, að hér eru að takast á hagsmunir annars vegar þeirra, sem aðgang hafa átt að lánum, og hins vegar, þeirra, sem sparað hafa. Það er þetta sem er óþolandi, og það er óþolandi einnig að ríkisstj. skuli með þessum hætti hafa gripið fram fyrir hendurnar á þeim sem með réttu eiga að framkvæma landslög og samkv. tilkynningu frá Seðlabanka Íslands ætluðu að gera það og hefðu gert það ef vond verk ríkisstj. hefðu ekki komið til.

Af þessum ástæðum vil ég fá að bera upp þrjár spurningar til hæstv. viðsk.- og bankamrh. um þessi efni:

1) Hvers vegna heyktist ríkisstj. á því að færa vexti að verðbólgustigi 1. mars, eins og landslög mæla fyrir um?

2) Hefur ríkisstj. gert sér grein fyrir því arðráni sem hún er með þessum hætti að fremja gagnvart sparifjáreigendum?

3) Hefur hæstv. viðskrh. velt fyrir sér þeim möguleika, að sparifjáreigendur eða fulltrúar þeirra höfði mál á hendur ríkisvaldinu og að ríkisvaldið kunni að vera stórkostlega skaðabótaskylt vegna þessarar ákvörðunar?