10.03.1980
Neðri deild: 41. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

Umræður utan dagskrár

Ég vil fyrst víkja að því, að í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj., sem kom til valda fyrir svo að segja réttum mánuði, segir svo um þau efni sem hér hefur verið fjallað um:

„Í peningamálum verði mörkuð stefna, er stuðli að hjöðnun verðbólgu. Verði í því sambandi m.a. lögð áhersla á eftirgreind atriði:

1) Peningamagn í umferð verði í samræmi við markmið í efnahagsmálum.

2) Verðbótaþáttur vaxta hækki ekki 1. mars og fari síðan lækkandi með hjöðnun verðbólgu. Í stað hárra vaxta verði unnið að útbreiðslu verðtryggingar og lengingu lána.“

Hér er því um að ræða framkvæmd á stjórnarsáttmálanum eða þessu ákvæði stjórnarsáttmálans, og skal ég nú gera grein fyrir hvernig ríkisstj. hefur unnið að þessu máli.

Hinn 29. febr. s.l. sendi ég Seðlabankanum bréf þar sem lagt var til að verðbótaþáttur vaxta verði ekki hækkaður um mánaðamótin febr. og mars. Var það í samræmi við ákvæði stjórnarsamningsins og ákvarðanir sem teknar voru í ríkisstj. um þessi efni. Bankastjórn Seðlabankans féllst á þessi tilmæli og gerði af sinni hálfu nánari grein fyrir málinu í fréttatilkynningu til fjölmiðla þennan sama dag. Það er því misskilningur að ríkisstj. hafi tekið um þetta ákvörðun. Það var leitað til Seðlabankans í sambandi við málið og það tekið upp við Seðlabankann, en hann hefur, eins og kunnugt er, lögum samkvæmt ákvörðunarvald um vexti. Ég tel rétt að lesa upp fréttatilkynningu Seðlabankans — hún er ekki löng — til að skýra samhengi þessara mála. En hún er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Í VI, og VII. kafla laga um stjórn efnahagsmála o.fl. er sú stefna mörkuð að vaxtaákvarðanir á árunum 1979 og 1980 skuli við það miðaðar að komið verði á verðtryggingu sparifjár og inn- og útlána fyrir árslok 1980. Í samræmi við þetta hafa síðan verið gerðar verulegar breytingar á lánskjörum, sem stefnt hafa í átt til aukinnar verðtryggingar, lengingar lánstíma og jákvæðrar ávöxtunar á sparifé. Var sú stefna mörkuð vorið 1979 að þessum markmiðum yrði náð í áföngum, þannig að verðbótaþætti vaxta yrði breytt ársfjórðungslega með hliðsjón af verðbólgustigi á hverjum tíma. Þessar ársfjórðungslegu breytingar hafa verið gerðar í kjölfar hins ársfjórðungslega útreiknings framfærsluvísitölu og hafa þær miðast við 1. júní, 1. sept., 1. des., en samkvæmt reglunni á næsta breyting að eiga sér stað 1. mars n.k.“ — Þessi fréttatilkynning er dagsett 29. febr.

„Miðað við þær reglur, sem notaðar hafa verið við útreikning verðbólgustigs og ákvörðun verðbótaþáttar, ætti verðbótaþáttur vaxta að hækka um 3–5% 1. mars n.k., eftir því hvernig verðlagsþróun næstu mánuði er metin. Í málefnasamningi ríkisstj. er hins vegar tekið fram að hún muni beita sér fyrir því, að verðbótaþáttur vaxta verði ekki hækkaður að þessu sinni, enda er þar gert ráð fyrir lækkandi verðbólgu það sem eftir er þessa árs. Miðað við þær forsendur mun verðbótaþáttur geta farið lækkandi með minnkandi verðbólgu á síðari helmingi ársins.

Bankastjórn Seðlabankans hefur að undanförnu átt viðræður um þetta mál við ríkisstj. og hefur ríkisstj. í dag farið formlega fram á það, að verðbótaþáttur vaxta verði látinn óbreyttur að þessu sinni. Jafnframt hefur hún lýst yfir því, að hún ráðgeri að taka til endurskoðunar ákvæði laga um stjórn efnahagsmála o.fl. að því er varðar lengd aðlögunartíma uns fullri verðtryggingu verði náð. Í samræmi við þetta hefur bankastjórn Seðlabankans í dag ákveðið, að höfðu samráði við bankaráð, að engar breytingar verði að sinni á verðbótaþætti vaxta, en leggur um leið áherslu á mikilvægi þess að ekki verði horfið frá þeirri grundvallarstefnu um verðtryggingu sparifjár og heilbrigða ávöxtun fjármagns sem mörkuð var á síðasta ári með lögunum um stjórn efnahagsmála.“

Þannig hljóðar fréttatilkynning Seðlabankans um þetta mál. Í henni kemur að sjálfsögðu fram að ríkisstj. leitaði til Seðlabankans, sem er ákvörðunaraðili í þessu máli og hefur með höndum framkvæmd þess, og óskaði eftir að hann samþ. þetta ákvæði í stjórnarsamningnum. Og Seðlabankinn varð við því, að sjálfsögðu algjörlega á löglegan hátt, með því að bankaráð bankans tók um þetta ákvörðun. Þannig er suðvitað alls ekki um það að ræða að lög hafi verið brotin í þessum efnum, heldur er hér um að ræða framkvæmd laga.

Eins og fram kemur í fréttatilkynningu Seðlabankans ráðgerir ríkisstj. að taka til endurskoðunar ákvæði laga um stjórn efnahagsmála o.fl. að því er varðar lengd aðlögunartíma uns fullri verðtryggingu hefur verið náð. Er gert ráð fyrir því í lögunum að slík aðlögun fari fram á þessu ári að fullu, ef ég man rétt. Um þetta hefur ekkert verið fjallað, og það þarf breyt. á lögum til að breyta þessum ákvæðum. Ég skal engu um það spá, hvað ofan á verður í því efni. Það liggur ekkert fyrir um að breyta þarna eða lengja þessa aðlögun, og það er ekkert ákvæði um það í stjórnarsamningnum eða í samningum milli stjórnarflokkanna að svo skuli gert. Ég get þess vegna ekki á þessari stundu gefið neina yfirlýsingu til eða frá um málið frekar en það sem ég hef verið að ræða.

Ég vil svo taka það fram, að stefnan í peningamálum verður að sjálfsögðu ákveðin af hálfu ríkisstj. og þess þingmeirihluta, sem að henni stendur, í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. Lögum samkvæmt á að leggja fyrir Alþ. fjárlagafrv. og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun um svipað leyti — eða fjárfestingar- og lánsfjáráætlun í kjölfar fjárlagafrv. Það hefur lítið verið unnið að fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni enn þá og hún hefur ekkert verið rædd í ríkisstj., vegna þess að ríkisstj. hefur verið að fjalla um önnur mál og þá alveg sérstaklega fjárlagafrv. Hins vegar liggur fyrir mikil undirbúningsvinna varðandi fjárfestingar- og lánsfjáráætlunina, sem bæði var unnin af mér á sínum tíma, þegar ég var fjmrh., síðan af þm. Sighvati Björgvinssyni, sem var fjmrh. í starfsstjórn í vetur, og eitthvað hefur verið unnið í framhaldi af þessu. Eitt af næstu stórmálum ríkisstj. verður að sjálfsögðu að fjalla um það mál, sem er eitt af allra stærstu málunum sem lögð eru fyrir Alþ. og ríkisstj. fjallar um á hverju ári, en þar verður að sjálfsögðu mörkuð stefna í peningamálum af hálfu ríkisstj.

Varðandi fsp. hv. þm., hvers vegna þetta hefði verið gert, þá vil ég mega ætla að þessar upplýsingar mínar séu fullnægjandi í því efni, — hvort sem hv. þm. er sammála því eða ekki, það er annað mál. Ástæðan er stjórnarsamningurinn, og framkvæmdin hefur verið eins og ég hef greint hér frá.

Í öðru lagi spurðist hv. þm. fyrir um það, hvort þetta væri ekki arðrán gagnvart sparifjáreigendum og hvort þeir ættu ekki skaðabótarétt á hendur ríkinu vegna þessara mála.

Ég vil í fyrsta lagi taka það fram, að margt fleira en vaxtamálin hefur að sjálfsögðu þýðingu fyrir sparifjáreigendur. Þar á ég við verðbólguna sjálfa eins og hún er á hverjum tíma. Þó að menn fái háa vexti skaðast þeir náttúrlega ef verðbólgan er enn þá hærri. Og í tengslum við þetta mál eru mörg önnur sem varða verðbólguna og þróun hennar, eins og t.d. — svo ég nefni dæmi — hver er grundvöllur útflutningsatvinnuveganna eins og málin standa nú, hvernig verður gengisstefnan o.s.frv. Þannig koma margir fleiri þættir þarna við sögu þegar meta á þessi mál í heild. En án þess að fara nánar út í það álít ég að sparifjáreigendur eigi engar skaðabótakröfur á hendur ríkisvaldinu vegna þessara aðgerða ríkisstj. Þær eru allar saman löglegar, þær eru framkvæmd á máli sem ekki er til lykta leitt. Það er t.d. hugsanlegt, eins og ég ýjaði að áðan, að það verði mögulegt að framkvæma þessa aðlögun á þeim tíma sem lögin gera ráð fyrir þrátt fyrir þessa aðgerð.

Ég skal ekkert um það segja á þessu stigi málsins, hvort menn hyggja að því að breyta lögunum. Það liggur ekkert fyrir um það. Engin ákvæði eru um það í stjórnarsamningnum, engir samningar á milli stjórnarflokkanna, þannig að áform í því efni eru engin umsamin. Það mikið get ég sagt á þessari stundu.