10.03.1980
Neðri deild: 41. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er ósköp eðlilegt að við þm. í hv. deild hljótum hér á fyrsta fundi að ræða nokkuð þau mál sem helst hafa verið til umræðu í þjóðfélaginu, þegar það er haft í huga að við erum nýkomnir úr fríi, og hver veit hvenær við verðum sendir aftur í sams konar frí því varla hefur gefist mikill tími fyrir ríkisstj. í öllum veisluhöldunum, sem fram fóru í síðustu viku, til þess að undirbúa sín mál.

Það var athyglisvert, sem kom fram hjá hæstv. viðskrh., og ég held að eðlilegt sé að undirstrika þau ummæli, að það var samkv. tilmælum hæstv. ríkisstj. sem Seðlabankinn tók ákvörðun sína. Seðlabankinn tók sína ákvörðun vegna þess að það kom fram loforð um að aðlögunartími lengdist, loforð fram í tímann, og það byggðist á þeim yfirlýsingum sem mátti lesa úr stjórnarsamningnum. Þess vegna er ofureðlileg afstaða Seðlabankans, sem hingað til hefur farið að vilja hæstv. ríkisstj. á hverjum tíma í slíkum málum eins og öðrum, og er það reyndar samkv. íslenskum lögum.

Það þarf ekki að rifja upp fyrir hv. þm. þær umræður sem fóru fram um ávöxtunarmál á 100. löggjafarþinginu, sérstaklega hér í hv. Nd. Þar kom fram sá munur sem er á skoðunum stjórnmálaflokkanna um þessi efni. Þar kom fram svokölluð raunvaxtastefna Alþfl., sem birtist í því að Seðlabankanum yrði skylt að hækka eða lækka vexti eftir verðbólgustiginu á þriggja mánaða fresti. Í þeim umræðum kom einnig skýrt fram sú stefna Sjálfstfl., að Seðlabankinn ætti ekki að fara með vaxtaákvörðunarvaldið nema aðeins fyrir eigin lán. Ég leyfi mér, herra forseti, að lesa hér upp úr plaggi sem samþykkt var á landsfundi Sjálfstfl. Þetta var orðað þannig þar:

„Draga verður úr opinberum afskiptum á peningamarkaði. Ákvörðunarvald um kjör almennra innlána og útlána flytjist frá Seðlabanka til viðskiptabanka, sparisjóða og annarra fjármagnsstofnana. Frjálst verði að semja um tengingu fjárskuldbindinga við skráð gengi erlends gjaldmiðils eða verðtryggingu með öðrum hætti. Seðlabankinn ákveði eftir sem áður vexti og önnur kjör útlána sinna og innlána, einnig fylgist hann náið með breytingum peningamagns og sjái til þess að þær stuðli að hjöðnun verðbólgu.“

Á þessum landsfundi voru, eins og menn kannske muna, allir þeir sjálfstæðismenn sem sitja nú á þingi og sumir hverjir í framboði til trúnaðarstarfa flokksins. Og ég get sagt það hér og nú, að enginn greiddi atkvæði gegn þeirri yfirlýsingu sem ég las áðan. Álíta verður því að þarna sé um að ræða þá skoðun, þá almennu skoðun, nánast undartekningarlausa, sem ríki í forustuherbúðum Sjálfstfl., — og þarf þá ekki að nefna nöfn þm. sem nú um sinn hafa skipt um skoðun af sérstökum viðhorfum sem ég ætla ekki að ræða hér sérstaklega um.

Það gerðist síðan á s.l. vetri, á 100. löggjafarþingi, að ríkisstj. var komin í eindaga með sín mál. Innan hennar voru svokallaðir sprengjusérfræðingar að störfum, sem aðrir kölluðu hreinsunardeild Alþfl., og þar voru til varnar íhaldssömustu öflin í íslenskum stjórnmálum undir forustu Alþb.-mannanna, og gegnir sama máli hvort þar var um að ræða gáfumannafélagið eða glímudeildina, sem nú hefur eignast fulltrúa á þingi.

Úrslit málsins urðu þau, að gert var samkomulag sem birtist í lögbundnu samkomulagi vinstri stjórnarinnar, sem nú gildir sem lög á Íslandi, nr. 13 1979, sem kölluð hafa verið í höfuðið á þáverandi hæstv. forsrh., Ólafi Jóhannessyni, Ólafslög. Það er skýrt tekið fram í þeim lögum hvernig standa eigi að þessum málum. Ég skal viðurkenna það hér, eins og ég hef gert áður úr þessum stól á þessu þingi, að eftir lögunum hefur aldrei verið farið í mikilvægum efnum, þannig að það kom mér ekki á óvart að frá þeim væri vikið nú. En niðurstaðan var í stuttu máli sú, að lagt var til að um verðtryggingu skyldi verða að ræða. Þegar við sjálfstæðismenn ræddum um ávöxtunarmál gilti það jafnt um verðtryggingu og vexti.

Síðan kom til starfa núv. hæstv. ríkisstj., og í sáttmála hennar er að sjálfsögðu fjallað um þessi mikilvægu mál. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, í kaflanum um peningamál, 2. lið:

„Verðbótaþáttur vaxta hækki ekki 1. mars og fari síðan lækkandi með hjöðnun verðbólgu. Í stað hárra vaxta verði unnið að útbreiðslu verðtryggingar og lengingu lána.“

Og í þriðja lagi: „Opnaðir verði í bönkum og sparisjóðum sparireikningar, þar sem sparifé njóti fullrar verðtryggingar, samkv. nánari reglum og í samræmi við möguleika til útlána.“

Reyndar er þetta þannig orðað, að það, sem sagt er í fyrri hluta setninganna, er tekið burt í síðari hlutanum. Enginn veit því hvað þetta þýðir. En það er samt ágætt, sýnist þó og heyrist manni, fyrir stjórnmálamenn að geta, þegar þeir vilja, vísað til þessara orða, og maður verður, a.m.k. á meðan maður rekur sig ekki á annað, að telja að þetta séu yfirlýstar skoðanir þeirra manna sem nú fara með völdin hér á landi.

Ef lítið er á það fjárlagafrv., sem var verið að leggja hér fram og liggur hér fyrir, og það er skoðað kemur í ljós að verðlagsforsendur í því frv. eru þær milli ára, þ.e. ef tekið er meðaltal 1979 til meðaltals 1980, að gert er ráð fyrir 47% hækkun. Og samkv. reynslu, a.m.k. hv. fyrrv. þm. Lúðvíks Jósepssonar og margra annarra reyndar, hefur Þjóðhagsstofnunin lengst af verið heldur í neðri kantinum með slíkar spár. Þess vegna má gera ráð fyrir því, og það kemur reyndar fram í gögnum hæstv. ríkisstj., að verðbólgan haldi áfram með sama hraða og hún hefur gert að undanförnu. Þess vegna get ég ekki annað séð en að það atriði sem við vorum að ræða, vextirnir, stangist algjörlega á við þá stefnu sem kemur fram í fjárlagafrv.

En lítum nú á síðari hluta þess máls sem ég las hér upp um vextina, þar sem segir að nú skuli opna í bönkum og sparisjóðum sparireikninga þar sem sparifé njóti fullrar verðtryggingar. Og nú spyr ég hæstv. ráðh.: Hver á að borga þann mun sem fram kemur ef verðbólgan verður meiri á þessu ári, þannig að hún sé hærri en verðbætur og vextir? Hver á að borga þennan mun? (Viðskrh.: Vill ekki þm. lesa alla greinina?) Ég las hana áðan. (Viðskrh.: Nei.) — Ég get bætt því hérna við. Það er væntanlega fjórði liðurinn:

„Beitt verði aðhaldi í gengismálum. Til að treysta gengi gjaldmiðilsins verði gert sérstakt átak til framleiðniaukningar í atvinnuvegunum.“ (GJG: Þetta er af landsfundinum, er það ekki?) Ég veit ekki á hvaða landsfundi þú varst, en hitt er annað mál, að þetta plagg, málefnasamningurinn, var m.a. samið á landsfundi Alþb. Það vita allir menn sem eru læsir á Íslandi. (Gripið fram í: Hvernig er þriðji liðurinn?) Ég las hann áðan. Ef hæstv. ráðh. hefur ekki nennt að hlusta á það sem ég var að segja, þá var ég að lesa upp úr þriðja lið í þessum samningi og er búinn að því einu sinni. Svo getur hann fengið að lesa þetta aftur. (Viðskrh.: Vill hv. þm. gera svo vel að lesa hann aftur?) Já, já. Ég skal lesa þetta hægt þannig að allir skilji — með leyfi forseta:

„Opnaðir verði í bönkum og sparisjóðum sparireikningar, þar sem sparifé njóti fullrar verðtryggingar samkv. nánari reglum og í samræmi við möguleika til útlána.“

Það er einmitt þetta sem ég vildi fá fram. Takið eftir þessu svari, sem reyndar kom ekki hér úr ræðustól. Það er sagt þarna: Þeim vonum, sem sparifjáreigendum eru gefnar í þessu plaggi, er kippt til baka með þessari síðustu setningu. Auðvitað eru engir möguleikar til annars þegar við höfum hæstv. ríkisstj. sem hagar sér eins og sú ríkisstj. sem nú situr hér á landi. Það er þess vegna gott svar sem hér hefur komið fram. Það eru góðar yfirlýsingar sem hér hafa verið gefnar og ég vona að þjóðin þurfi ekki lengi að taka á móti slíkum gjöfum. Það er þess vegna alveg ljóst, hvað sem hver segir úr þessu, að þeir sparifjáreigendur, sem lagt hafa inn í banka og hafa haldið að hæstv. ríkisstj. á Íslandi ætlaði sér að standa við gefnar yfirlýsingar, að hæstv. ríkisstj. ætlaði að fylgja lögum, þessir aðilar hafa verið sviknir. Aðeins er hægt að nota það orð.

En það eru fleiri atriði í málefnasamningnum sem varða þetta mál því að vextir ákvarðast m.a. af verðlagi, eins og allir eru sammála um og kemur nákvæmlega fram í Ólafslögum. Það er annar kafli sem hefur þess vegna ákaflega mikil áhrif á vaxtaákvörðunina. Það er kaflinn í málefnasamningnum um verðlagsmálin. Og af því að hæstv. viðskrh. er nú viðstaddur umr. er ástæða til þess að fá, af því að menn eru svo ferskir og nýkomnir úr fríi, aðeins upplýsingar um hvað gerst hafi í verðlagsmálunum á undanförnum dögum.

Ég ætla fyrst aðeins — með leyfi forseta — að rifja upp fyrir hv. þm. hvað stendur í kaflanum um verðlagsmál. Þar er þessi fræga niðurtalningarleið sem Alþb. samþ. í sínum plöggum með stefnu sinni þegar það hafði með stjórnarmyndunarviðræðurnar að gera. Þar stendur að verðlagið eigi að teljast niður. En þegar búið er að lýsa því yfir eru auðvitað alls konar undantekningar frá því. Þessi aðalregla verður því harla lítils virði, eins og reyndar sú regla sem ég las upp áðan samkv. ósk hæstv. viðskrh.

Síðan segir í sama kafla, og það virðist vera ættað frá öðrum en Alþb.-mönnum, að það eigi að koma nýjum verðlagslögum til framkvæmda — undir eftirliti verðlagsráðs, er reyndar sagt í plagginu. Þannig er enn þá slegið undan. En þetta verður þó varla skilið öðruvísi, því að ég þykist vita að þetta sé frá þeim sjálfstæðismönnum komið sem starfa í hæstv. ríkisstj., en að þarna eigi að koma inn aftur 8. gr. verðlagslaganna, gildistöku, en 8. gr. var frestað á sínum tíma á vinstristjórnarárum síðari í ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, svo að ég rugli þeim ekki öllum saman.

Þetta rifja ég hér upp af því gefna tilefni að verðlagsmál hafa áhrif á vaxtaákvarðanir. Og nú langar mig til þess að spyrja hæstv. verðlagsráðh. og viðskrh. hvernig þeirri reglugerð, sem samin var í viðskrn., hafi vegnað þegar hún var send verðlagsráði til umsagnar. Það skiptir nefnilega gífurlegu máli fyrir þjóðina og okkur að fá að vita þetta því að um er að ræða lykilatriði um vaxtaákvarðanir og reyndar lykilatriði um þá verðlagsþróun sem hér hlýtur að verða á næstu vikum og mánuðum. Drög viðskrn. að reglugerð voru lögð fyrir verðlagsráð til umsagnar mánudaginn 3. mars. Formaður ráðsins, Björgvin Guðmundsson, greindi frá því á þeim fundi að ríkisstj. hefði ákveðið að gefa reglugerðina út þriðjudaginn 4. mars. Formaður tók málið af dagskrá, án þess að bera upp fram komnar tillögur. Á fundi, sem viðskrh. hélt síðan með verðlagsráði þriðjudaginn 4. mars, ákvað hann að leggja málið á ný fyrir verðlagsráð og gaf því frest til að skila álitsgerð til dagsins í dag eða þar til í morgun. Nú langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðh. að því, — ég veit ekki hvort að ég á að tala hærra því að hann gekk af fundinum, en vonandi verða honum þá borin þau boð, — hvernig þetta mál hafi farið. Þetta mál er úrslitamál um verðlagsþróun á næstu vikum og mánuðum og þar af leiðandi líka um vaxtamál.

Þar sem hæstv. ráðh. hefur nú horfið af fundi tel ég ekki ástæðu til að fjalla frekar um þessa reglugerð, þótt hún komi vissulega allri hæstv. ríkisstj. við.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Auðvitað væri fróðlegt og reyndar nauðsynlegt að ræða fleiri þætti þeirra mála sem hæstv. ríkisstj. ætlar að standa að. Það er þó eitt sem kemur fram sem ég er neyddur til að nefna, og það er athyglisvert og það varðar líka viðskrn., að í hinni nýju bók — þetta er marsútgáfan af fjárlögunum –hefur verið sparaður einn liður undir viðskrn., og það er liðurinn um jöfnun húsnæðiskostnaðar. En sá niðurskurður kemur ekki fram gjaldamegin þegar maður skoðar frv. í heild. Þvert á móti hækka niðurstöðutölurnar um 10 milljarða. En hvað varð um þessa 2.3 milljarða? Það væri gaman að fá að vita hvort ríkið ætlar sér að spara þá á næstunni eða hvort það sé rétt, sem fram hefur verið haldið í blöðum, þ. á m. af hæstv. sjútvrh., að það eigi að taka þessi mál út úr fjárlagafrv. og það eigi að leggja á sérstakan skatt, án þess að það komi nokkurs staðar fram í fjárlagfrv., og láta þann skatt og þessi útgjöld ekki koma fram í verðbótavísitölu samkv. þeim sömu Ólafslögum sem hæstv. ráðh. núv. ríkisstj. keppast um að troða á og fara ekki eftir.

Ég óska eftir að hæstv. viðskrh. komi hér og skýri hv. þingheimi frá þeim atriðum sem ég hef hér verið að nefna. Öll hafa þau áhrif á verðlagsþróun næstu ára og áhrif á vaxtaákvarðanir Seðlabankans, sem gegnir að sjálfsögðu hæstv. ríkisstj. í einu og öllu í þeim efnum.