10.03.1980
Neðri deild: 41. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hæstv. viðskrh. fyrir þau drög að svörum, sem hann flutti hér áðan, en mér þóttu þó um margt vera ófullnægjandi. Kjarni málsins er auðvitað sá, að stjórnarsáttmáli ríkisstj., jafnvel þó merkileg ríkisstj. sé, verður ekki æðri landslögum. Landstög gilda eftir sem áður þangað til þeim hefur verið breytt af réttum aðilum. Og plaggið, sem hér hefur verið lesið upp úr jafnvel á skakk og skjön, kann út af fyrir sig að vera ágætt plagg, en það er ekki æðra landslögum. Það verður auðvitað að vera ljóst.

Í lögum um Seðlabanka Íslands frá 1961 segir svo í 13. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Seðlabankinn hefur rétt til að ákveða hámark og lágmark vaxta“ o.s.frv. Það er annar kjarni málsins. Hinn kjarni málsins er sá, að í lögum nr. 13 frá 1979, sem stundum eru ranglega kennd við hæstv. ráðh. Ólaf Jóhannesson — mér er satt að segja ekki kunnugt um að hann hafi gegnt öðru hlutverki en að hlaupa þar á milli krata og komma, en allt um það, við hann eru lögin kennd, — er ótvírætt sagt fyrir um hver skuli vera vaxtastefna í landinu til ársloka 1980. Þegar þetta tvennt er lagt saman er auðvitað alveg ljóst, annars vegar hver vaxtastefnan skuli vera og hins vegar hver skuli framkvæma hana. Og hæstv. ríkisstj. kemur það nákvæmlega ekkert við að öðru leyti.

Hins vegar segir svo í hinni vandræðalegu tilkynningu Seðlabankans, sem hann gefur út og er að afsaka þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Bankastjórn Seðlabankans hefur að undanförnu átt viðræður um þetta mál við ríkisstj., og hefur ríkisstj. í dag farið formlega fram á það“ o.s.frv.

Hvað er hér um að ræða? Auðvitað ákvörðun ríkisstj. Auðvitað er ríkisstj. að skipta sér af málum sem henni koma ekkert við, öðruvísi en það, að ef menn gera ráð fyrir að hæstv. ríkisstj. hafi þingmeirihluta, sem við skulum gera ráð fyrir, getur hún auðvitað flutt frv. Í krafti þingmeirihluta getur hún fengið lög samþ. og þar með nýja vaxtastefnu. Þá eru það lög sem menn eiga að beygja sig fyrir, en fyrr ekki.

Með afskiptum sínum eða afskiptaleysi hefur ríkisstj. gripið inn í peningamarkaðinn hér og flutt til stórkostlega fjármuni frá sparendum og til skuldara. Það er út af fyrir sig ákveðið sjónarmið að hafa samúð með skuldurum. En ég vísa hér í tölur sem ég hef fengið hjá hagdeild Seðlabanka Íslands, þar sem það er ljóst að á aðeins þremur mánuðum er verið að flytja til hvorki meira né minna en 1.8 milljarða kr. — og er þá miðað við lægstu útgáfu af þeirri vaxtahækkun sem átti að eiga sér stað samkv. reglum sem við viðurkennum hér — út um allt efnahagslífið. Og hverjar eru þær reglur? Þær reglur eru, að ef um verðbindingu er að ræða, t.d. verðbindingu launa, þá eigi slíkt að koma til framkvæmda á þriggja mánaða fresti. Þannig hafa vaxtalögin hér verið framkvæmd án þess að nokkur maður gerði við það aths., og auðvitað gera menn ráð fyrir að svo verði áfram framkvæmt.

Við verðum að taka tillit til mannsins sem leggur fyrir og er að spara, t.d. í byrjun þessa árs. Einstaklingar hegða sér einu sinni svo í efnahagslífi. Þeir hegða sínu persónulega efnahagslífi svo, að þeir gera áætlanir. Alþ. var búið að gefa mjög nákvæm fyrirheit um það, eftir hvaða reglum lánamarkaðurinn mundi starfa út þetta ár. Hæstv. ríkisstj. er með inngripi sínu að koma í veg fyrir áður ákveðna hegðun á lánamarkaði og flytja til fjármagn frá sparendum til skuldara. Af þessum ástæðum: Því, sem hæstv. viðskrh. sagði að væri misskilningur minn um þetta inngrip, vísa ég til baka. Það er misskilningur hans því að lögin í landinu eru ótvíræð um þetta efni. Það er Alþ. sem tekur þarna ákvörðun. Seðlabankinn framkvæmir fyrir þess hönd. Svo er og verður þangað til öðruvísi hefur verið ákveðið og lögunum frá 1961 hefur verið breytt.

Hv. þm. Albert Guðmundsson flutti hér fyrirlestur um vaxtamál. Það er ekki rétt, að þessi vaxtastefna hafi ekki skilað árangri. Sannleikurinn er auðvitað sá, að það var lítillega byrjað að þreifa fyrir sér í þessa átt þegar á árinu 1976, þó að hægt væri farið, og ber þeim virðing sem að því stóðu á þeim tíma, en síðan er hið stóra spor stigið með lögum nr. 13 á árinu 1979. Tölur sýna auðvitað að innlán í lánastofnunum hafa t.d. stóraukist, heilbrigð skynsemi segir okkur einnig að gera megi ráð fyrir að öll fjárfesting hafi að því leyti breytt um svip að sjónarmið arðsemi ráði þar í miklu ríkari mæli en áður var. Auðvitað getum við ekki eitt efnahagskerfa í heiminum rekið til lengdar lánastefnu þar sem lánað er langt undir raunvirði. Í þeim efnum vísa ég t.d. til þess sem verið hefur að gerast í vaxtamálum í Bandaríkjum Norður-Ameríku að undanförnu, og eru þeir þó að glíma við nær þrefalt lægra verðbólgustig en það sem við hér erum að glíma við. Hitt er auðvitað rétt hjá hv. þm. Albert Guðmundssyni, og á því hafa raunar komið fram nokkrar skýringar hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni, að mismunur á útlánum og innlánum virðist vera óeðlilega mikill og svo hefur verið um langt skeið. Það er efalítið mál sem þarf sérstakrar skoðunar við. Ég er ekki talsmaður Seðlabanka Íslands með einum eða neinum hætti, en hins vegar eru lög í landinu um þessi efni og þau lög eiga að standa, þau eiga að gilda og eftir þeim á að fara þangað til Alþ. hefur ákveðið öðruvísi.

Hér í salnum situr hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson sem er kannske að verða síðasti „móhí-komminn“, að verða síðasti komminn sem hefur lifandi tengsl við vinnandi fólk í þessari borg og í þessu landi. Ég skil vel og ég er viss um að þm. eins og hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni líður illa undir þessari umr., og mig langar til að upplýsa þingheim um af hverju ég veit að honum líður illa. Umbjóðendur hans eru t.d. þeir sem vinna við höfnina í Reykjavík — fólk sem hefur haft svívirðilega lág laun um svívirðilega langa hríð. Þetta er fólkið sem hefur ekki haft nægilegar tekjur til þess að fjárfesta eins og þeir, sem meiri tekjur hafa, hafa gert. Það sem þetta fólk með svívirðilega lágar tekjur gerir við umframfé sitt, ef það er til, er að leggja það fyrir. Og það sparar. Það er einmitt á þessum sviðum sem eru hin hefðbundnu fórnarlömb, — ekki verðbólgu því að verðbólga er aðeins lýsandi hugtak, heldur sukksins sem viðgengst og þrífst í skjóli verðbólgunnar. Að heill stjórnmálaflokkur hafi látið undan fáránlegum kenningum manns sem hér situr ekki lengur, Lúðvíks Jósepssonar, í þessum efnum er nánast ein af furðulegustu þversögnum íslenskrar hagsögu. Ég veit að þm. eins og Guðmundur J. Guðmundsson, síðasti „móhí-komminn“, veit miklu betur, og hann auðvitað kýs að tala hvergi og þegja stíft. Ég get vel skilið það að því er þetta verðar. En þjónn umbjóðenda sinna er hann ekki — eða þeir kommar — í þessum efnum. Það er eðli málsins samkv. að þeir taka ekki þátt í svona umræðum lengur, og ég get vel skilið það. Það eru hinir stjórnmálaflokkarnir sem um þessi mál ræða og á þeim hafa skoðanir og af þeim hafa áhyggjur.

Sú ákvörðun eða ákvarðanaleysi, sem hæstv. ríkisstj. hefur viðhaft, þýðir stórkostlegan flutning á fjármagni frá sparendum til skuldara, og um það hef ég hér flutt tölur. Kjarni málsins er auðvitað fyrst og fremst sá, að með því að heykjast á þessu er ríkisstj. að hlaða undir spákaupmennsku og brask og framkvæma arðrán á sparendum, að flytja til fjármagn með ósæmilegum hætti, hvernig sem málið er skoðað, og þar að auki að brjóta lög. Það er þá orðið allnokkuð sem hér er um að ræða. Og á þessu verður að verða breyting.

Svör hæstv. viðskrh. eru einnig ófullnægjandi að því er varðar réttarstöðu sparifjáreigenda. Ég veit ekki hvaða heimildir hann hefur fyrir því eða hvar það hefur verið skoðað, að hann telji að sparifjáreigendur geti ekki höfðað mál á hendur ríkisvaldinu. Lögfróðir menn hafa tjáð mér að víst gæti það verið flókið mál fyrir dómstólum, en engu að síður mundu sparifjareigendur eða fulltrúar þeirra, sem lögsæktu ríkisvaldið vegna þessarar ákvörðunar, eiga rétt — a.m.k. má orða það svo, að það væri vel tilraunarinnar virði að reyna það. Auðvitað ætti að hvetja sparifjáreigendur til þess að láta ekki misvitra ríkisstj. hafa af sér réttmætar eignir með þessum hætti, heldur beinlínis að leita réttar síns fyrir dómstólum. Hæstv. viðskrh. taldi það nokkuð öruggt áðan hver yrði niðurstaðan í slíku máli. Ég endurtek það, að mér er ekki kunnugt um hver jar eru heimildir hans fyrir því. En þetta fólk á sinn rétt. Það er búið að troða á því nægilega lengi og það er áreiðanlega tilraunarinnar virði að það reyni að snúa hjólunum við og hafa vit fyrir ríkisstj. sem hefur ekki aðeins tekið löglausa ákvörðun, heldur siðferðilega ranga ákvörðun.