10.03.1980
Neðri deild: 41. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

Umræður utan dagskrár

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Aðeins örfá orð í framhaldi af því sem hér hefur komið fram. Það væri fróðlegt út af fyrir sig að eiga orðastað við hv. þm. Vilmund Gylfason um lögfræði, því að ýmislegt kom fram hjá honum sem gæfi tilefni til að ræða um, en ég skal ekki fara nánar út í það að þessu sinni. E.t.v. gefst okkur síðar meir tækifæri til þess að ræða svolítið um lögfræði og skilning hans á þeirri fræðigrein.

Ég vil minna hv. þm. á það, þegar hann gagnrýnir nú frestun á því að láta koma til framkvæmda 1. mars hækkun verðbótavaxta, að þetta er nákvæmlega það sama og starfsstjórn Alþýðuflokksins, sem hann sat sjálfur í, gerði 1. des. Þá var áformum Seðlabankans frestað. Það var öðruvísi, það voru aðrar tölur, en í „prinsipinu“ er þetta nákvæmlega sama. Það er verið að fresta framkvæmd aðgerða sem Seðlabankinn hafði áformað og sett reglur um, en það er ekki verið að gera breytingar á lögunum um stjórn efnahagsmála o.fl., eins og glögglega kom fram í ræðu hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar áðan.

Varðandi þau atriði, sem aðrir ræðumenn komu hér inn á, þá minntist hv. þm. Friðrik Sophusson á peningamálakafla stjórnarsáttmálans og sérstaklega það atriði, að opnaðir verði í bönkum og sparisjóðum sparireikningar þar sem sparifé njóti fullrar verðtryggingar samkv. nánari reglum og í samræmi við möguleika til útlána. Það er rétt, að ríkisstj. hefur áhuga á þessu, hefur áhuga á því að taka upp það fyrirkomulag, að fólk geti lagt inn fé sem sé fullkomlega verðtryggt. En sá er hængur á, að þetta er auðvitað ekki mögulegt nema hægt sé að fjármagna þessar aðgerðir, lána þetta fé aftur út með sömu kjörum. Ríkisstj. ætlar að láta framkvæma athugun á því, hvort hugsanlegt sé að koma á svona kerfi. En ekki er ákveðið að það verði gert. Og það verður ekki gert nema það sé mögulegt, eins og hér er tekið fram.

Varðandi verðlagsmálin og umr. um þau hér vil ég geta þess, að það er verið að fjalla um þau í ríkisstj. í samræmi við áform ríkisstj. um niðurtalningu verðbólgunnar. Ég hef haft áhuga á að reglugerð verði sett í samræmi við ákvörðun stjórnarsáttmálans. Hún hefur ekki verið endanlega ákveðin, heldur var hún send til verðlagsráðs til umfjöllunar, því að gert er ráð fyrir því í verðlagslögunum, að þegar slík mál eru ákveðin skuli verðlagsráð segja álit sitt á þeim. Fundi verðlagsráðs um þetta mál var ekki lokið fyrir hádegið, þegar ég fór úr stjórnarráðinu, og ég hef því ekki átt kost á því að ræða við formann verðlagsráðs um það, hvernig honum lyktaði, og þess vegna hef ég ekki aðstöðu til þess að ræða nánar um þetta mál við þetta tækifæri, en vonandi gefst færi á því síðar.

Ég vil að lokum segja í sambandi við umr. eins og þessar utan dagskrár, að ég vil taka undir það sem flestallir eða ég hygg allir þm. séu sammála um, að auðvitað eru utandagskrárumræður sjálfsagðar þegar sérstök tilefni gefast. En það er dálítið varasamt, að slíkar umr. fari út í öfgar og verði miklu tíðari og lengri en eðlilegt er og geti jafnvel truflað þingstörf. T.d. á meðan þessi umr. fór fram hér — og ég var að sjálfsögðu bundinn við hana vegna þess að til mín var beint fsp. — var í Ed., þar sem ég á sæti, verið að fjalla um mál og meira að segja atkvgr. um mál sem ég hafði talsverðan áhuga á, landbúnaðarmál. Þetta sýnir að það þarf a.m.k. að gæta þess í sambandi við það að stofna til slíkra umræðna, að þær trufli ekki beinlínis þingstörf eða þingfundi sem hafa verið auglýstir. Í þessu tilfelli hafði ég ekki tækifæri til að taka þátt í afgreiðslu máls hér í Ed., sem ég hafði áhuga á og bar náttúrlega skylda til sem þm. þeirrar hv. þd. Ég vildi því aðeins í lokin taka fram, að ég hygg að Alþ. ætti að fara varlega í það að leyfa þm. að taka til máls í tíma og ótíma utan dagskrár, því að ef allir þm. tækju upp á því yrði sú regla, sem þingsköp ætlast til að sé viðhöfð í störfum alþingis, náttúrlega að engu. Það gefur auga leið. En ég vil ekki að neinn misskilji mig, og ég tel sjálfsagt og rétt að það séu möguleikar til þess að stofna til umr. utan dagskrár um ýmis efni, en þó ekki að mínu mati nema sérstakt tilefni gefist til þess.

Forseti tók öll dagskrármálin af dagskrá.