11.03.1980
Sameinað þing: 29. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

74. mál, Sölustofnun lagmetis

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það fer ekki á milli mála, að almennur áhugi hefur verið fyrir því á Íslandi að efla útflutning lagmetis og efla lagmetisiðnað hér á landi. Stundum hefur þetta reyndar verið kallað niðurlagning, og þegar ég hlustaði á ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar áðan fór ég auðvitað að velta því fyrir mér, hvort hér væri komið að niðurlagningu niðurlagningarinnar. En hvort sem svo er eða ekki, þá held ég að nauðsynlegt sé, þegar umr. af þessu tagi fer fram, að menn geri sér grein fyrir fáeinum grundvallaratriðum varðandi atvinnurekstur af þessu tagi. Þó að áhugi hafi verið almennur fyrir því að efla þessa atvinnugrein, þá held ég að menn megi ekki vaða þann reyk að halda að hér sé um auðvelt svið að ræða, að hér sé um auðtekinn gróða að véla, að þetta sé sérstaklega auðrötuð og ábatasamleg vaxtarleið í íslensku atvinnulífi.

Sannleikurinn er sá, að þetta er mjög erfitt rekstrarsvið. Þetta er mjög vandasöm atvinnugrein. Það er afkomulega þröngt í niðurlagningariðnaði almennt séð. Það er markaðslega erfitt fyrir Íslendinga að vera í þessari grein. Þetta hvort tveggja stafar af því, að við erum fjarri þeim stóru mörkuðum, sem um er að ræða, og tiltölulega stór hluti útflutningsverðmætisins er aðföng af öðru tagi en þau sem finnast hér innanlands. Fiskmetið sjálft er ekki nema tiltölulega lítill hluti af útflutningsverðmætinu.

Það er nauðsynlegt eða a.m.k. mjög æskilegt að vera nálægt mörkuðum, þegar svo háttar til, og ekki síður þar sem fylgjast þarf vel með smekk fólks um þá vöru sem verið er að selja.

Í þriðja lagi er þetta tæknilega vandasöm atvinnugrein og það hefur auðvitað sýnt sig í þeim dæmum, sem hér hafa verið rakin um alla þá galla sem komið hafa fram í framleiðslunni. Ég held að það sé nauðsynlegt, jafnvel þó — og kannske ekki síst vegna þess — að almennur áhugi hafi verið fyrir þessari grein, að menn átti sig á því, hversu vandratað er um þetta hlið, hversu erfið þessi grein er að þessu leyti.

Það er hárrétt, sem kom fram hjá hæstv. iðnrh., að það eru til markaðir, en þá er spurningin bæði um gæði og verð. Og það er þetta tvennt sem þarf að hafa eftirlit með. Ég held að það sé augljóst, að framleiðslueftirlitið verður að vera sífelldur þáttur í framleiðslunni sjálfri. Þáttur ríkisins er að líta eftir því, að framleiðslueftirlitið á vegum verksmiðjanna sjálfra sé í fullkomnu tagi. Hins vegar geta sölusamtök ekki starfað með fullnægjandi hætti og selt vöru nema þau sjálf hafi fullnægjandi gögn um að gæði vörunnar á hverjum tíma séu eins og til er ætlast. Þau þurfa þess vegna annaðhvort sjálf að hafa eftirlit með eftirlitinu eða fela það öðrum aðila. Annars kemur upp óbærileg staða fyrir sölusamtökin.

Um sölumálin, sem er annar meginþátturinn, held ég að það sé rétt, að ekki eigi að binda í einkaleyfi sölumál af þessu tagi, það sé vafasamt eða eigi alls ekki að vera og þess vegna sé nauðsynlegt að endurskoða það.

Þróunarmálin hljóta að verða til sífelldrar umfjöllunar, og var rakið hér áðan hvaða fjármunum hefur verið varið í þeim efnum. Meginatriðið er auðvitað hvort þeir hafa nýst í þeim verkefnum sem þeim hefur verið varið til. Um það er sjálfsagt erfitt að dæma, enda fengust engin svör um það áðan.

Ég vil að lokum bera fram eina fsp. til hæstv. iðnrh. og e.t.v. fyrrv. formanns Sölustofnunar lagmetis, um það, hvort Þróunarsjóðurinn sem slíkur hafi eignast nokkra fasteign eða uppi hafi verið áform um að Þróunarsjóðurinn gerðist fasteignareigandi hér í bæ.