11.03.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

50. mál, jöfnun húshitunarkostnaðar

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er til umr. hið þýðingarmesta mál, og það er ekki að ófyrirsynju. Hv. frsm., hv. 11. landsk. þm., hefur nú lýst því vandamáli sem hér er við að glíma, þar sem er jöfnun upphitunarkostnaðar í landinu. Það er ákaflega þýðingarmikið. Ég vil taka undir það sem hæstv. iðnrh. sagði, að það verði sem mest samstaða um þetta mál, og till. sú, sem hér er til umr., er einmitt flutt í þeim anda.

En ég get ekki látið hjá líða að minna á að í hv. Ed. er frv. til l. um niðurgreiðslu á olíu til upphitunar húsa. Það fjallar einmitt um þetta efni, og þar er þess einnig gætt að reyna að ná sem víðtækastri samstöðu milli flokka. Frv. er flutt af mér ásamt mönnum úr öllum flokkum.

Ég ætla ekki að fara að ræða efni þessa frv. hér. En ég vil með þessum fáu orðum hér leggja áherslu á hversu mikil þörf er á að hraða þessu máli. Við, sem stöndum að frv. í hv. Ed., höfum lagt áherslu á að hraða málinu. M.a. var það svo, að við undirbúning málsins hafði ég sem formaður iðnn. Ed. samband við formann iðnn. Nd., sem þá var hæstv. iðnrh. Okkur kom saman um að málið væri þess eðlis að mjög þyrfti að hraða því. Þess vegna kom okkur saman um að halda sameiginlega fundi um málið, sameiginlega fundi iðnn. beggja deilda. Við höfum haldið nokkra slíka fundi. En í millitíðinni hefur það skeð, að sá, sem var í upphafi formaður iðnn. Nd., er það ekki lengur, en hann er orðinn iðnrh. Og maður hefði ekki átt að halda að slíkt væri lakara fyrir framgang málsins ef hæstv. iðnrh. hefði í huga það sem hann hafði áður í huga, að hraða málinu sem mest.

Eitt af því, sem hinir sameiginlegu fundir iðnn. beggja deilda hafa gert, er að óska eftir umsögnum um þetta frv. M.a. var um miðjan febrúar óskað eftir umsögn iðnrn. um þetta mál. Okkur þótti það ekki veigaminnst að fá að vita hver væri stefna hæstv. iðnrh. og ríkisstj., eins og þá var komið. Við lögðum líka áherslu á að fá svar sem fyrst. Nú er kominn 11. mars og í þessu þýðingarmikla máli höfum við ekki enn þá fengið svar. En iðnn. Ed. barst orðsending frá hæstv. iðnrh. 22. febr., þar sem sagt er að í undirbúningi sé umsögn rn. um þetta frv., en tekið fram, að umsögnin hafi tafist vegna veikinda starfsmanns og annríkis í rn.

Það er mjög alvarlegt mál að mínu viti, að svo þýðingarmikið mál sem verðjöfnun á olíu- og upphitunarkostnaði húsnæðis er skuli tefjast af slíkum sökum. Ég efast ekki um að þarna hafi verið um veikindi að ræða og margs konar annríki í rn. Ég vil spyrja: Hvernig er heilsufarsástandið í rn. í dag? Hefur það batnað? Og hvað um annríkið? Ég vildi gjarnan fá svör við þessu, vegna þess að ég tel að áríðandi sé að við fáum sem fyrst afstöðu rn. í þessu máli. Ég veit að við, sem stöndum að frv., hljótum allir að vera sammála um það. Mér dettur ekki í hug að halda því fram og ég vil ekki láta orð mín skiljast á þann veg, að ég sé að væna hæstv. ráðh. um að hann hafi ekki áhuga á þessu máli. En mér sýnist að áhuginn sé ekki nægilega mikill til að láta þetta mál ganga fyrir og er þó fullkomin ástæða til þess.

Ég skildi orð hæstv. ráðh. áðan á þá leið, að við mættum vænta með vorinu tillagna hans eða ríkisstj. um að leysa þann vanda sem við ræðum hér um. Ég tel að þá sé allt of seint af stað farið. Í frv. því, sem við félagar úr öllum flokkum fluttum í hv. Ed., var gert ráð fyrir að þær ráðstafanir, sem gerðar yrðu samkv. því frv., ef að lögum yrði, tækju gildi frá síðustu áramótum. Og það var engin tilviljun að við gerðum ráð fyrir slíku, vegna þess að við lítum svo á, og ég tel að allir lítum við þannig á, að enginn ónauðsynlegur dráttur megi verða á því að gripið sé til aðgerða til að leiðrétta það ranglæti, sem viðgengst í þessum málum í þjóðfélagi okkar, og létta byrðar þeirra sem búa á olíuhitunarsvæðunum fyrir vestan, fyrir austan og hvarvetna um land þar sem olía er notuð til upphitunar.

Ég sagði áðan að ég ætlaði ekki að fara að ræða það frv., sem ég hef hér vitnað til, efnislega eða fara að hefja almennar umr. um þessi mál. En mér þykja þessi mál svo þýðingarmikil að það sé rétt að leggja áherslu á þau hér með þeim hætti sem ég hef gert að gefnu tilefni.