11.03.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

50. mál, jöfnun húshitunarkostnaðar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til þess að leggja hér nokkur orð í belg um þetta mál, vegna þess að eins og hér hefur komið fram er um að ræða eitthvert mesta ranglæti sem viðgengst í þjóðfélaginu í dag, þ.e. mismuninn á því kostnaðarlega séð að hita upp húsnæði á olíusvæðunum samanborið við Reykjavíkur eða hitaveitusvæði — svo enginn móðgist skulum við segja hitaveitusvæði.

Eins og hér hefur komið fram, hefur þetta mál verið hér fyrr til umræðu, og ég trúi því satt að segja a.m.k. í lengstu lög að það sé almennur vilji meðal þm. fyrir því að leysa þetta mál þannig að ná sem mestum jöfnuði milli landsmanna í upphitun, hvar svo sem þeir búa á landinu.

Þáltill., sem hér er til umr., gerir ráð fyrir að Alþ. álykti að kjósa 5 manna n. Ég persónulega hef þá skoðun, og það undirstrikar þessa skoðun mína að þetta er 50. mál Alþingis og er fyrst nú að koma til umr. hér í þinginu, líklega tæpum þremur mánuðum eftir að málið er lagt fram að málsmeðferð með þeim hætti, sem hér er gert ráð fyrir, mundi að mínu viti þýða það með þeim vinnubrögðum, sem hér eru viðhöfð, að ef þetta ætti að ná fram að ganga efnislega eftir till., og ég þykist vita hver meining tillögumanna er, þá þýddi það í raun og veru að þetta yrði kannske til lykta leitt á næsta hausti, næsta Alþ., ef þau vinnubrögð eiga hér að ríkja sem verið hafa ekki bara núna, heldur um langan tíma. En þó að ekkert hafi verið annað heldur en það, að þessi till. hafi verið lögð fram og hún verið rædd, þá hefur hún að mínu viti — og ég tek undir með hv. þm. Stefáni Jónssyni um það — hún hefur vissulega skilað árangri í málinu. Ég held að ég muni það rétt, að núv. hæstv. iðnrh., sem er sá hinn sami sem fyrrv. hæstv. iðnrh., skipaði á sínum tíma nefnd til þess að gera könnun á þessu. Sú n. skilaði, að ég held, áliti. Ég held því að fyrir liggi öll plögg um það, hvað þarf í raun og veru að gera, og það er öllum ljóst hvaða leiðir er hægt að fara í þessu máli, þannig að nú vantar bara framkvæmdina. (Gripið fram í: Ákvörðunina). Ákvörðunina, jú, við erum nú búnir að fá ríkisstj. í landið sem hv. þm. styður, og ég vænti þess að þar verði ákvörðunin tekin og eftir henni þurfi ekki lengi að bíða. En af öllum þeim umr. og öllum þeim hugmyndum og skrifum, sem fram hafa komið varðandi þetta mál, held ég að það þurfi hvorki að kjósa nefnd né láta ráðh. skipa nefnd.

Það liggur allt á borðinu. Það þarf einungis — ég skal fallast á það með hv. þm. Stefáni Jónssyni — að taka ákvörðunina og framkvæma. Það er það sem nú liggur fyrir og er hægt að gera án frekari umr. og án frekari málalenginga um málið.

Ég tók eftir því, að hv. þm. Stefán Jónsson sagði áðan að hluti af kjörum launafólks hér í Reykjavík væri sú aðstaða sem það býr við að því er varðar hinn lága upphitunarkostnað. Þetta er að sjálfsögðu.rétt. Og hann sagði áfram, ég held að ég hafi náð því nokkurn veginn orðrétt: Ég er á móti því að auka kostnað hjá Reykvíkingum. Við verðum að fara aðra leið. — En hvaða leiðir á að fara til þess að jafna, ef ekkert á að leggja á þá sem búa við bestu aðstöðuna? Eigum við hinir að borga fyrst og síðan verði það tekið aftur af okkur? Það er auðvitað engin leið til jöfnunar öðruvísi en þeir, sem búá við bestu aðstöðuna, taki á sig aukinn kostnað. Það verður að vera með a.m.k. Þess vegna skil ég ekki það og mér þætti vænt um að heyra það hjá hv. þm. Stefáni Jónssyni, — ég veit að það stendur ekkert í honum að upplýsa það, honum er þá illa aftur farið, — hvaða leið hann á við til jöfnunar ef það á ekki að ganga í þá átt að það verði aukinn kostnaður hjá þeim, sem minnst þurfa kostnaðarlega séð að bera núna. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að það komi niður á þeim líka. Og ég vil nú segja það hreinskilnislega, að auðvitað á það fyrst og fremst að koma niður þar sem minnst er borgað fyrir þetta nú.

Kannske finnst hv. flm. þessarar þáltill. að ég sé í andstöðu við þá, en það er síður en svo. Ég tek alveg heils hugar undir það sjónarmið sem ég þykist vita að liggi á bak við þessa þáltill., þó að ég telji að það atriði hennar að fara að kjósa n. núna komi til með að skila árangri svo seint að við getum ekki beðið svo lengi úr því sem komið er. En það er eitt sem vekur athygli manna einmitt þessa dagana, og það snýr kannske að hv. þm. Stefáni Jónssyni líka og ekki síst. Það vekur að sjálfsögðu athygli, að hæstv. ríkisstj. gerir í sínu fjárlagafrv. ekki ráð fyrir einum eyri til þess að jafna þennan mismun, ekki einu sinni að halda því inni sem fyrir var til þess að jafna mismuninn, hvað þá að gert sé ráð fyrir að bæta við hann. Þetta hlýtur að vekja athygli, ekki síst þegar sjálfur hæstv. fjmrh. er úr þeim flokki sem fyrst og fremst hefur talið sig vera aðila í landinu til þess að jafna lífsbyrðunum og hefur oftast kallað sig hinn eina og sanna fulltrúa þeirra sem verst eru settir í landinu.

Menn segja í áframhaldi af þessu: Það á að gera ráðstafanir fyrir utan fjárlög. — Og af því að ég er velviljaður maður hlýt ég að reikna með því, að það sé meining hæstv. ríkisstj. og stjórnarliða að gera það, að það sé meining þeirra að gera sérstakar ráðstafanir í þessu tilfelli. Menn verða þá að bíða eftir að sjá í hvaða formi þær ráðstafanir eiga að vera. En ekki er hægt að bíða lengi. Þetta mál verður að fara að koma inn í þingið til ákvörðunartöku, því að það er rétt, sem hér hefur komið fram, að ef fram heldur sem horfir, leiðir þetta líklega til óstöðvandi fólksflutninga frá olíusvæðunum, sem menn kalla, til þeirra svæða þar sem jarðvarmi eða slík orka er fyrir hendi, vegna þess að hér er auðvitað um stórkostlega kjaraskerðingu að ræða hjá þeim einstaklingum sem búa á olíusvæðunum. (Gripið fram í.) Ekki aldeilis. En ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. fari að taka við sér varðandi þetta, því að auðvitað bíða menn eftir því að hún leggi fram hugmyndir sínar í málinu. Og enn vil ég treysta því, að svo verði gert, og ég vil a.m.k., þar til annað kemur í ljós, treysta á að þar verði leitað fyllsta jafnaðar til þess að koma til móts við þá sem búnir eru að axla þessa byrði í nokkuð mörg undanfarin ár. Auðvitað hefur verið mismunur þarna á ferðinni, en aldrei eins augsýnilegur og mikill og verið hefur nokkur undanfarin ár. Hvort sem hv. þm. eru fulltrúar hitaveitusvæðanna eða olíusvæðanna, þá er þessi munur hróplegur og knýr á sameiginlegt átak þingsins til að létta byrði þessa fólks og létta hana verulega, helst það mikið að við náum því að hér verði jöfnuður á ferðinni. Nóg annað er til þess að íþyngja þeim íbúum þessa lands sem búa utan Reykjavíkursvæðisins og snýr að ójöfnuði, þó að hér verði myndarlega að verki staðið af hálfu Alþingis til þess að létta þessa byrði.