11.03.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

50. mál, jöfnun húshitunarkostnaðar

Páll Pétursson:

Herra forseti. Þetta er orðin nokkuð löng umr. og það hafa verið mörg sverð á lofti, — það eru mörg mál svipaðs eðlis á ferli hér í þinginu. Þessi till. til þál. á þskj. 63 hljóðar á þá leið, að Alþ. álykti að kjósa 5 manna n. er geri till. um með hvaða hætti húshitunarkostnaður verði jafnaður. N. skal skila áliti fyrir 15. febr. n.k. Ég geri ráð fyrir að dagsetning breytist í þeirri n. sem væntanlega fær þessa till. til afgreiðslu, ef til þess kæmi. En svona nefndir hafa verið að störfum áður, og eins og raunar kom fram hjá síðasta ræðumanni hefur slík n. nýlega skilað skýrslu. Í okt. 1979 skilaði n. skýrslu, og ég er hér með í höndum álit þeirrar n.: Tillögur um leiðir til jöfnunar á hitunarkostnaði. Þessi n. var skipuð af iðnrh. Hjörleifi Guttormssyni í sept. s.l. Skilabréf hennar er dags. 14. okt. 1979. Í erindisbréfi hennar segir m.a.:

„Í nefndina voru skipaðir Gunnar R. Pétursson rafvirki á Patreksfirði, Kristinn V. Jóhannsson skólastjóri á Neskaupstað, sem var formaður n.; Magnús Reynir Guðmundsson bæjarritari á Ísafirði og Matthías Bjarnason alþm. í Garðabæ og Finnbogi A. Jónsson verkfræðingur starfaði með n. af hálfu iðnrh. og var hann ritari nefndarinnar.“

Samkv. erindisbréfi var nefndinni ætlað að fjalla í fyrsta lagi um söfnun upplýsinga um mismun á upphitunarkostnaði heimila víðs vegar um land og gera till. um leiðir til að draga sem fyrst úr honum frá því sem nú er; í öðru lagi um æskilegar fjáröflunarleiðir til að mæta útgjöldum við jöfnun á upphitunarkostnaði, þar með til greiðslu á olíustyrk; í þriðja lagi endurskoðun reglna um greiðslu olíustyrks með það í huga, að í þeim verði fólginn hvati til sparnaðar og meira samræmis gætt en nú er á milli orkunotkunar heimila og upphæðar olíustyrks.

Þá var n. einnig ætlað að taka til meðferðar upphitunarkostnað skólahúsnæðis og úrræði til að minnka hann og draga úr misræmi í tilkostnaði sveitarfélaga vegna hitunar kennsluhúsnæðis og heimavista.

Þessi n. vann sitt verk á skömmum tíma. Einn nm., hv. þm. Matthías Bjarnason, gat raunar ekki starfað í n., segir í skilabréfinu, vegna anna við önnur störf og dvalar erlendis.

Í skýrslu n. kemur ýmislegt fróðlegt fram. Hér er m.a. tafla þar sem er áætlaður kostnaður við hitun 450 rúmmetra einbýlishúss. Ef orkugjafinn er olía er þessi kostnaður 895 þús. kr., en frá dregst þar olíustyrkur, sem þá var 72 þús. kr. á ári fyrir einstakling. Rafmagn frá RARIK 587 þús. kr. Heitt vatn á Akureyri 295 þús. kr. Heitt vatn í Reykjavík 117 þús. kr. Menn sjá af þessum tölum hve gífurlegur mismunur þarna er á ferðinni og að þarna er um mikið óréttlæti að ræða.

Í niðurstöðum í skýrslu n., sem ég les úr — með leyfi forseta að sjálfsögðu — örfáar setningar, segir m.a.: „Í árslok 1978 notuðu 23% landsmanna olíu til húshitunar og greiddu fyrir hana um 60% af heildarkostnaði við hitun húsnæðis í landinu. Þessi 23% landsmanna, sem notuðu olíu, greiddu sem sagt 60% af heildarkostnaði við hitun húsnæðis.“

N. leggur síðan áherslu á að útrýma sem fyrst olíuhitun húsa og bendir á þann gífurlega þjóðfélagslega mismun sem af henni leiðir. Þá telur hún eðlilegt, að upphæð olíustyrks verði miðuð við að hitunarkostnaður með olíu verði greiddur niður sem svarar um þriðjungi af kostnaði, og leggur til að styrkupphæð verði fastsett í lögum, en hækki síðan til samræmis við breytingar á olíuverði. Hún telur enn fremur eðlilegt að breyta núgildandi lögum um jöfnun á hitunarkostnaði þannig að það sé ótvírætt að þeir, sem eingöngu nota olíu til hitunar íbúða sinna, skuli njóta olíustyrks, í öðru lagi, að þeir, sem eiga kost á öðrum hagkvæmari orkugjafa njóti ekki olíustyrks og að meira samræmi sé milli olíustyrks og raunverulegs hitakostnaðar.

Nefndin leggur til að verðjöfnunargjald á raforku og olíuverði verði fellt niður, en í þess stað lagður almennur orkuskattur á alla orkusölu í landinu, þar með talið orkusölu til stóriðju og hitunar húsa. Tekjum af orkuskatti verði varið til verðjöfnunar á raforku, eldsneyti og hitunarkostnaði, til Orkusjóðs vegna framkvæmda í orkumálum og til Orkustofnunar vegna rannsókna á nýtingu innlendra orkugjafa og leiðum til að draga úr olíuinnflutningi. — Lýk ég hér að vitna til skýrslu þessarar nefndar.

Úr þessari skýrslu hafa hugmyndir flotið víðar hér inn í þingið heldur en á þessu þskj. Ég nefni frv. sem hv. fyrrv. ríkisstj. bar fram, stjfrv. um orkugjald. Ég nefni frv. á þskj. 112 sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, Tómas Árnason, Stefán Jónsson og Eiður Guðnason báru fram og hefur nokkuð komið til umr. í þessari lotu, þar sem lagt er til að olía verði niðurgreidd. Það er um margar leiðir að velja. Ég er ekki sannfærður um að enn sé búið að finna þá sem er alveg gallalaus. Frv. hv. þm. Þorv. Garðars, Tómasar Árnasonar, Stefáns Jónssonar og Eiðs Guðnasonar er að ýmsu leyti gott frv. að mínum dómi. Þó er á því ansi mikill galli, að það vantar það sem við á að éta. Það vantar sem sagt tekjuöflunarhliðina. Hugmyndin um orkuskatt er að ýmsu leyti álitleg, en hún er gölluð líka og sumt í henni vitleysa, eins og t.d. að fara að leggja skatt á olíuna sem skipin þurfa til að afla fisksins sem við svo lifum á. Ég held að það geti ekki komið heim og saman. Ef farið er að gera þetta, þá er það hrein vitleysa, og ég óttast að sumt í framkvæmd þess máls, ef að lögum yrði, eða þeirrar hugmyndar yrði meira að segja fyrirhafnarsöm vitleysa. En vonandi erum við öll sammála um að það þurfi að hafa lífsaðstöðu þegnanna sem jafnasta, og það er náttúrlega ekki hægt að líta svo á að lífsaðstaðan sé jöfn að þessu leyti.

Hvað orkuskattinum viðvíkur, þá er aðeins tilraun að klóra þar í bakkann vegna þess að menn hafa samið af sér um orkusölu til stóriðju og láta þar á sportprís rafmagn til að bræða ál suður í Straumsvík eða til að framleiða járnblendi uppi á Grundartanga, meðan það kostar, eins og ég sagði áðan, 587 þús. kr. að hita upp 450 m2 einbýlishús á veitusvæði RARIK. Á RARIK-svæðunum býr reyndar þó nokkur hópur manna í þessu landi. Ef olíustyrkur er greiddur og ég til að hann eigi rétt á sér og sé nauðsynlegur, og ef hann er orðinn hár, þá getur hann náttúrlega gengið út í öfgar, því að þá fer að borga sig betur að brenna olíu en hita upp með rafmagni frá RARIK. Þess vegna þyrfti, jafnframt því sem olíustyrkur væri hækkaður til verulegra muna, jafnframt að koma því svo fyrir, að RARIK seldi mönnum orku á viðráðanlegra verði með einhverjum hætti. Ég held að engin leið, sem búið er að benda á, sé nægilega góð, það þurfi að vinna úr þessum hugmyndum. Þær eru margar á sveimi og það þarf að vinna úr þeim. Það þarf að finna lausn á þessum vanda. Ég vænti þess, að ríkisstj. sé að glíma við það, og treysti henni vel til þess, því að eins og við vitum er þar einvalalið. Ég treysti henni líka til þess að útvega þá peninga sem til þarf, því að eins og menn líka vita eru þar hinir snjöllustu fjármálamenn.