11.03.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

54. mál, aðstoð við fiskflutninga milli Þorlákshafnar, Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyrar

Flm. (Eggert Haukdal):

Herra forseti. Í atvinnuþróun og uppbyggingu Íslands nú á síðari hluta tuttugustu aldar hafa Stokkseyri og Eyrarbakki orðið út undan í grundvallaratriðum í aðstöðusköpun hins opinbera. Á ég þar við að ekki hefur þótt fært, eftir að hin mikla hafnaruppbygging hófst í Þorlákshöfn, að gera þær aðgerðir í hafnarmálum Stokkseyrar og Eyrarbakka sem gera mögulegt að fylgja eðlilegri þróun í útgerðarmálum. Lengst af var stutt sókn í fiskinn og þá risu þessir staðir upp til blómlegs atvinnulífs. Hægt var og hagkvæmt að notast við litla báta sem gátu athafnað sig í höfnum Stokkseyrar og Eyrarbakka. Gerðar voru verulegar hafnarbætur á þessum stöðum til að gera þær öruggari, en ekki talið fært að gera svo dýrar aðgerðir sem þurfti til að stærri bátar gætu athafnað sig.

Hafnaáætlun skilgreinir hafnirnar á Stokkseyri og Eyrarbakka nú sem sumarhafnir, en Þorlákshöfn sé þeirra heimahöfn á öðrum tíma. Eru fjárveitingar til þeirra í samræmi við það. Skilgreiningar þessar munu byggjast á því, að innan tíðar verði brúað yfir Ölfusárósa.

Þótt allir, sem til þekkja, séu sammála um að þarna eigi að byggja brú sem fyrst, er ekki vitað nákvæmlega nú hvenær það verður og fram að því blasa við óyfirstíganlegir erfiðleikar atvinnulífs og búsetu á Stokkseyri og Eyrarbakka, svo að segja í hlaðvarpa mesta þéttbýlis á Íslandi.

Kjarni málsins og grundvöllur þess, að ég flyt þessa till., er sá, að stefnumörkun ríkisvaldsins í hafna- og vegamálum hefur stangast á og þannig orðið til þess að atvinnuþróun á þessum stöðum hefur stöðvast og fiskvinnslan berst í bökkum við núverandi aðstæður. Það er því beinlínis skylda ríkisvaldsins að hlaupa þarna undir bagga með aðstoð vegna fiskflutninga, eins og þessi till. felur í sér. Það er ekki sjáanlegt að verið sé að skapa neitt erfitt fordæmi með samþykkt hennar, einungis verið að koma til móts við aðstæðurnar þangað til hafnarmál þessara staða leysast á viðunandi hátt með brú fyrir Ölfusárósa.

Nú leggja 10 Stokkseyrarbátar og litlu færri Eyrarbakkabátar upp afla sinn í Þorlákshöfn auk togarans Bjarna Herjólfssonar, sem þessir staðir eiga ásamt Selfossbæ. Afla þessara fiskiskipa verður að flytja tæplega 50 km leið á vöruflutningabílum og svo að sjálfsögðu fullunnar afurðir sömu leið aftur til hafnar.

Íbúar Stokkseyrar og Eyrarbakka eru staðráðnir í að berjast fyrir tilveru sinni og hafa ekki látið náttúruhamfarir draga kjark úr sér frekar en margir aðrir Íslendingar.

Þetta bið ég hv. alþm., þótt þeir séu raunar fáir í salnum á þessari stundu, að hafa í huga við umfjöllun þessarar till. og leggja þannig sitt lóð á vogarskálarnar, svo úr rætist að hluta, með því að samþykkja þessa þáltill.

Ég vil svo að lokum leggja til, herra forseti, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn.