12.03.1980
Efri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

119. mál, Hitaveita Suðurnesja

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. um breyt. á lögum nr. 100 31. des. 1974, um Hitaveitu Suðurnesja. Frv. er svo hljóðandi:

1. gr.: Á eftir 2. mgr. 1. gr. laganna komi ný mgr., sem hljóðar svo:

Enn fremur að reisa og reka raforkuver eftir því sem hagkvæmt þykir.

2. gr.. Á eftir 12. gr. laganna komi ný grein, 13. gr., sem hljóðar svo:

Hitaveitu Suðurnesja er heimilt að stækka raforkuver sitt í Svartsengi um allt að 6 mw. og reisa og reka flutningslínur til þess að tengja orkuverið við orkuflutningskerfi Suðurnesja.

Ríkisstj. er heimilt að takast á hendur ábyrgð á lánum, er Hitaveita Suðurnesja tekur í þessu skyni, allt að 1 þús. millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.

Af efni, tækjum og vélum til virkjunarinnar skal fella niður aðflutningsgjöld og söluskatt.

Röð annarra greina breyttist samkv. þessu.

3. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.

Í orkulögum, nr. 58/1967, 7. gr., segir m.a.: „Til að reisa og reka raforkuver stærra en 2000 kw. þarf leyfi Alþingis.“ En 2000 kw: eru sama og 2 mw. eins og kunnugt er.

Í aths. við lagfrv. er málið rakið allítarlega. Ég tel eigi þörf á að lesa aths. lið fyrir lið, en mun þess í stað draga fram aðalatriðin til stuðnings þeirri breytingu sem áætluð er á lögunum um Hitaveitu Suðurnesja.

Svo sem rakið er í aths. veitti iðnrh. Hitaveitu Suðurnesja hinn 11. jan. 1977 leyfi til að reisa og reka gufuaflsstöð til framleiðslu rafmagns, allt að 2 mw. Hófst rafmagnsframleiðsla þegar í apríl 1978 með fyrri vélasamstæðu og var hin síðari tekin í notkun ári síðar. Fyrst var raforkan eingöngu notuð til eigin þarfa orkuversins, en frá árinu 1979 hefur um helmingi orkumagnsins verið veitt til raforkukerfis Rafmagnsveitna ríkisins. Raforkuvinnslan árið 1979 var um 6.7 gwst. Þessi virkjun hefur reynst mjög hagkvæm og allmiklu ódýrari á hvert uppsett kw. en mögulegt er að fá í vantaflsvirkjunum, eins og á stendur.

Ég vil sérstaklega benda á að ef eigi verður af þeim framkvæmdum, sem frv. gerir ráð fyrir, getur til þess komið að framleiða þurfi með dísilvélum raforku á svæði því sem um er að ræða. Samkv. lauslegri áætlun, sem gerð hefur verið, næmi erlendur kostnaður við það rúmum 1 þús. millj. kr. miðað við núgildandi verðlag á olíu. Heildarkostnaðurinn við 6 mw. vélasamstæðuna er samkv. áætlun sama fjárhæð, þ.e. 1 þús. millj. kr. Þessi heildarkostnaður, sem er miðaður við verðlag í jan. 1980 og byggingarvísitölu 398 stig, sundurliðast þannig í aðalatriðum: Stöðvarhús 100 millj. kr., aflvél 470 millj., rafbúnaður 120 millj., tenging við landskerfi 70 millj., aðstöðukostnaður 40 millj. og verkfræðikostnaður 120 millj.

Áætlað er að 6 mw. vélasamstæðan samkv. frv. þessu verði tekin í notkun í lok þessa árs. Með þessari framkvæmd geta Rafmagnsveitur ríkisins frestað lögn 132 kw. raflínu til Suðurnesja um 4–5 ár og e.t.v. lengur. Þetta er því mjög verulegt fjárhagsatriði fyrir Rafmagnsveitur ríkisins, fyrir utan hina verulega hagkvæmu framkvæmd frá þjóðhagslegu sjónarmiði.

Fullt samráð hefur verið haft við Rafmagnsveitur ríkisins, Landsvirkjun og Orkustofnun, og eru allar þessar stofnanir fylgjandi því, að þessi virkjun verði að veruleika. Tekur Landsvirkjun fram í bréfi til iðnrn. að með hliðsjón af hinum erfiða vatnsbúskap, sem upp er kominn, ætti 6 mw. stöð að geta komið að miklu gagni á tímabilinu nóv. 1980 til maí 1981. Landsvirkjun mælti með því, að vélasamstæðan yrði tekin í notkun haustið 1980. Samþykkti því stjórn Hitaveitu Suðurnesja að fengnum meðmælum ríkisstj. að hefja allan tæknilegan undirbúning verksins og miða við það, að raforkuvinnslan geti hafist næsta haust.

Stjórn Hitaveitu Suðurnesja er því tilbúin til þess að hefja framkvæmdir þegar er Alþ. hefur gefið samþykki sitt. Vélar og útbúnaður var boðið út til átta helstu gufuhverflaframleiðenda. Langlægsta tilboð kom frá japanska fyrirtækinu Fuji Electric, og getur fyrirtækið afhent vélasamstæðuna í lok ágústmánaðar þessa árs. Ég vil taka fram, að til raforkuframleiðslunnar þarf ekki frekari borholur en þarfir hitaveitunnar krefjast. Að sjálfsögðu hefur þetta þó í för með sér nokkra flýtingu á einni til tveim borholum, en kostnaður við þær kemur ekki á raforkuframkvæmdirnar, heldur á hitaveituna, því að borholur þessar eru nauðsyn hennar vegna. Þessum borunum er að mestu leyti lokið og verða holurnar fullfrágengnar í sumar. Enginn vafi er á því, að hér er um nauðsynlega framkvæmd að ræða og mjög hagkvæma frá þjóðhagslegu sjónarmiði.

Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. hér í hv. d. vísað til 2. umr. og iðnn.