12.03.1980
Efri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (1101)

119. mál, Hitaveita Suðurnesja

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Líklega hefði ég látið hjá líða að ganga hér upp í ræðustól, þrátt fyrir talsverða löngun til þess að leiðrétta grundvallarmisskilning í málflutningi hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar varðandi stefnu Alþb. í orkumálum og ímyndaðan árekstur í grundvallaratriðum við stefnu hæstv. núv. forsrh. í orkumálum, sem kannske grundvallast á því, að e.t.v. hefur hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson ávallt misskilið hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen þegar þeir hafa rætt saman um orkumál, eða þeir hvor annan, sem mér er ákaflega minnistætt að maður hafði stundum grun um á árunum 1974–1978, en það er annað mál, — ég hefði ekkert risið úr sæti til þess að ræða þetta atriði sérstaklega núna, til þess munu gefast tækifæri síðar, heldur voru það ummæli hv. þm. Kjartans Jóhannssonar varðandi gufuvirkjanir á landi hér og þá sérstaklega gufuaflsvirkjunina við Kröflu, sem hefði sennilega veitt okkur afl sem meta hefði mátt í olíusparnaði upp á 4.5 milljarða ef þeir Alþfl.-menn hefðu ekki brugðið fæti fyrir það í fyrrv. ríkisstj. að hægt væri að bora þarna eftir gufu, sem sérfræðingar töldu að við ættum nokkurn veginn vísa á þessu svæði til virkjunarinnar. Ég ætla ekki að ábyrgjast það og mun ekki ábyrgjast eitt né neitt á meðan Alþfl.-menn eru enn í stöðu til þess að hafa áhrif á skynsamlegan framgang mála, hvort heldur á Alþ. eða í ríkisstj. Og sannleikurinn er náttúrlega sá, að mann stórfurðar á því, hvers konar brjóstheilindi er þar á bak við, að kratar skuli leyfa sér að nefna Kröfluvirkjun. Maður verður svo sem ekkert meira hissa á því, þó þeir blússi ekki upp af skammarroða í framan þegar þeir nefna þess háttar mál, heldur en að þessir menn skuli leyfa sér að taka sér í munn orð eins og heiðarleika eða spillingu.

Við áttum merkilegan fund m.a. með forustumönnum frá Alþfl. uppi í Mývatnssveit í fyrrasumar, þar sem rætt var um málefni Kröfluvirkjunar og þar sem saman voru komnir þeir sérfræðingar sem helst hafa nú vit á málefnum þeirrar virkjunar, - síðari hluta sumars sem leið. Niðurstöður af rannsóknum voru lagðar á borðið fyrir þá, þar sem í ljós kom að hver borhola, sem kosta mundi í kringum 350 millj. kr., mundi í 12 mánaða notkun að öllum líkindum skila hagnaði sem næmi 1.4 milljörðum. Fyrir þetta var bara brugðið fæti, að hægt væri að leggja í þessar framkvæmdir á Kröflusvæðinu.

Við munum seint róa á hann alveg vísan í sambandi við virkjunarframkvæmdir við jarðhita á landi hér. Hugsanlegt væri að ýmislegt í jarðsögunni benti til þess, að eldsumbrot hafi einnig orðið hér á Reykjanesi, í grennd við Svartsengi. Því hefur jafnvel verið haldið fram, að jarðhitinn þar og jarðhitavirknin séu vísbending um að svæðið sé ákaflega lifandi. Svo sem annars staðar á háhitasvæðunum getum við búist við jarðhræringum. Þá kynni einnig svo að fara, að gufuaflsveita á þessu svæði brygðist um sinn og leggja þyrfti þá e.t.v. í meiri boranir eða tryggja orkuöflun annars staðar að af þessu svæði fyrir gufutúrbínur. Slíka áhættu verðum við að taka á okkur alls staðar á þessu breiða svæði, allt frá Öxarfirði og suður á Reykjanes, — svæði sem er að meðaltali yfir 150 km á breidd, þar sem háhitinn er tiltækur. Við munum aldrei nýta þennan háhita til raforkuframleiðslu með öðrum hætti en þeim að taka á okkur ákveðna áhættu, og er þá mest um vert að menn geri sér grein fyrir því, að þá þurfum við að koma okkur upp samstæðum eða neti af orkustöðvum á þessu svæði, þar sem hvert orkuverið tryggi annað.

Ég er ákaflega ánægður með þá ákvörðun sem tekin var um að nýta þessa tiltæku orku á Svartsengissvæðinu til raforkuframleiðslu. Það er skynsamleg og góð ákvörðun. Sjálfur er ég eindregið þeirrar skoðunar, að við eigum að huga meira að því en gert hefur verið nú á allra síðustu árum að nýta okkur hagkvæma möguleika til smávirkjana, jafnframt því sem við virkjum stærra, og fá þessa orku inn á dreifinetið okkar.