12.03.1980
Efri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

119. mál, Hitaveita Suðurnesja

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Aðeins fáein orð í framhaldi af þeirri ræðu sem hv. þm. Stefán Jónsson hélt hér áðan. Það var náttúrlega mjög athyglisverð yfirlýsing, frá honum, að hann mundi ekki treysta sér til að taka ábyrgð á einu né neinu svo lengi sem einn krati væri á þingi. Og í framhaldi af því hefði maður mátt ætla að straumarnir í heilabúi hans mundu truflast svo af krötum að jafnvel meðan einn krati væri á landinu væri hann tæplega ábyrgur gerða sinna. Þetta var eiginlega inntakið í svari hans við því, á hverju hann gæti tekið ábyrgð.

En það var fleira sem hv. þm. sagði. Honum fannst alveg furðulegt að kratar skyldu nokkurn tíma leyfa sér að minnast á Kröflu. En sannleikurinn er sá, að gagnrýni Alþfl. á framkvæmdir við Kröflu hefur vakið þjóðina og jafnvel hina flokkana til meðvitundar um það, hversu illa var að staðið í þeim efnum. Menn tóku þar óþarflega mikla áhættu. Og það er kannske þetta sem er skýringin á því, að þegar Kröflu ber á góma fara vissir menn úr jafnvægi.

Ég vil ítreka hversu mikill munur er á því, hvernig staðið er að framkvæmdum í Svartsengi og við Kröflu, vegna þeirrar umr. sem hér hefur verið vakin. Í Svartsengi eru fyrir hendi borholur sem hafa blásið. Þar hafa menn reynslu fyrir því, að þar er gufu að fá. Í Kröflu var byggt stöðvarhús áður en menn höfðu nokkra vissu fyrir því, að þar væri gufu að fá í samræmi við vinnslugetu þeirrar virkjunar sem verið var að reisa. Ég minnist þess, að einn ágætur vinur minn, fyrrv. rafmagnsveitustjóri Valgarð Thoroddsen, sagði einhvern tíma að það hefði verið sagt eitthvað ef hann hefði tekið upp á því að byggja virkjun einhvers staðar á Langanesi og segjast síðan ætla að bíða og vita hvort ekki kæmi á, vatnsfall og foss, til þess að renna í gegnum þessa virkjun. Vinnubrögðin við Kröflu voru eiginlega af sama tagi og að reisa vatnsaflsorkuver þar sem menn vissu ekkert um það, hvort þeir næðu nokkurn tíma í vatn. Þessi vinnubrögð eru náttúrlega að öllu leyti fráleit, og því miður hefur okkur hefnst hörmulega fyrir það að standa svona að málum. Við vonum auðvitað öll að það takist að nýta þetta stórkostlega mannvirki við Kröflu. En í ljósi þeirrar reynslu, sem við höfum haft, held ég að sé augljóst að við eigum að fara fram með nokkurri gát, við eigum ekki að spenna bogann of hátt, við eigum ekki að ætlast um of, við eigum ekki að byggja orkubúskap Íslendinga á einhverri vissu um það, að þarna komi svo og svo mikil orka á tilteknum degi, jafnvel þótt borað verði.

Við sögðum það, Alþfl.-menn, í fyrra, að það væru svo miklar hræringar á þessu svæði að við sæjum ekki ástæðu til þess á þessu stigi að leggja í enn frekari fjárútlát á þessum stað. Við höfum sagt það núna, að bora skuli eina lotu eða svo, en það skuli eingöngu gert í tilraunaskyni. Við skulum ekki byggja orkubúskap landsins á því, að þessi hola muni skila því sem spáð er eða menn gera sér vonir um. En ef hún gerir það, þá er það gott og vel, þá mun það nýtast. Þetta held ég að sé eina skynsamlega leiðin í mál efnum Kröflu, og ég held að það sé mál til komið að þingheimur hlusti á gagnrýni Alþfl. og fylgi ráðum hans í Kröflumálum rétt eins og landbúnaðarmátum, til þess að hér komist eitthvert vit í þá hluti sem' verið er að vinna að. Menn mega ekki vera svo viðkvæmir fyrir fortíð sinni, jafnvel þótt þeim hafi orðið á í messunni eins og í sambandi við Kröfluvirkjun, að þeir ruglist gersamlega að dómgreind og geti ekki tekið réttan pól í hæðina.