12.03.1980
Neðri deild: 42. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (1117)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Frv. þetta kemur frá Ed. þar sem það hefur hlotið afgreiðslu með nokkurri breytingu. Hér er um að ræða ávöxt af málefnasamningi núv. ríkisstj., en í þeim samningi er kveðið svo á, að til að bæta bændum óverðtryggðan útflutning landbúnaðarvara frá síðasta verðlagsári verði útvegaðar 3000 millj. kr. Þetta frv. er sem sagt lagt fram til framkvæmda á þessum ákvæðum málefnasamningsins.

Eins og fram kemur í 1. gr. frv. er það Framleiðsluráð landbúnaðarins sem tekur lánið. Hins vegar fellur það í hlut ríkissjóðs að ábyrgjast lánið með sjálfskuldarábyrgð og annast greiðslu þess, afborganir, vexti og kostnað allan — eða þannig var málið upphaflega flutt þegar það kom fyrir Ed. Í hv. Ed. var hins vegar gerð sú bragarbót á frv., að í 2. gr. er kveðið svo á að Byggðasjóður greiði á næstu 3–5 árum allt að helming lánsins. Þessi breyting á frv. var gerð með samþykki ríkisstj. og felur í sér að af þessum 3000 millj. muni Byggðasjóður greiða allt að helming, allt að 1500 millj. kr., en hin upphæðin fellur á ríkissjóð fyrr eða síðar nema skilyrði 2. gr. verði uppfyllt, þ.e. að heimild til greiðslu útflutningsbóta samkv. 12. gr. laga nr. 101/1966, um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verði eigi fullnýtt. Ef svo fer er ríkisstj. heimilt að nota hluta af því, sem upp á vantar til þess að hámarki útflutningsbóta verði náð, til að greiða af þessu láni, og þarf þá ekki að koma til viðbótarfjárgreiðslna af hálfu ríkisins.

Því hefur verið nokkuð á loft haldið, að með þessu frv. væri verið að gera bændum mikinn greiða, gera vel við bændur, og skyti það nokkuð skökku við þegar ríkissjóður teldi sig ekki reiðubúinn til að bjóða grunnkaupshækkanir til opinberra starfsmanna eða stuðla að grunnkaupshækkunum almennt á hinum almenna vinnumarkaði. En ég vil taka það skýrt fram í þessu sambandi, að hér er ruglað saman óskyldum hlutum.

Frv. þetta er flutt til að bæta bændum þá stórfelldu tekjuskerðingu, sem þeir urðu fyrir á verðlagsárinu 1978 – 1979, og nær þó engan veginn að bæta þá tekjuskerðingu að fullu, heldur einungis að 2/3 hlutum. Því er auðvitað ekki hægt að jafna saman við hitt, hvort einstakar stéttir fá grunnkaupshækkanir eða auknar tekjur í sinn hlut frá því sem nú er. Það er talið eðlilegt af flytjendum þessa frv., að samfélagið taki nokkurn þátt í hinum mikla skell sem bændur hafa orðið fyrir, og ekki talið sanngjarnt eða réttlátt að sá skellur lendi á bændastéttinni að fullu. Þess vegna tekur ríkissjóður þátt í að leysa þennan vanda með því að leggja til í fyrsta lagi sjálfsskuldarábyrgð, svo að Framleiðsluráð geti tekið lán í þessu skyni, og í öðru lagi með því að ábyrgjast greiðslu lánsins, þó með þeim fyrirvara að Byggðasjóður greiði allt að helmingi lánsins þegar þar að kemur.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um efni frv., en legg til að að lokinni 1. umr. málsins verði því vísað til hv. fjh.- og viðskn.