12.03.1980
Neðri deild: 42. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Hv. þm. Árni Gunnarsson vildi í upphafi ræðu sinnar áðan forðast öfgar í umræðum um landbúnaðarmál. Þeim ásetningi hans vil ég sannarlega fagna. Hann sýndi það í verki að hann hefði þarna góða meiningu, því að að mörgu leyti hóf hann mál sitt betur en ýmsir aðrir úr þeim herbúðum. Ég vitna t.d. til leiðara Alþýðublaðsins frá því í morgun. Segir í upphafsorðum leiðarans, með leyfi forseta:

„Samkvæmt fjárlagafrv. Ragnars Arnalds felur stefna ríkisstj. í landbúnaðarmálum í sér 32 milljarða kr. útgjöld til niðurgreiðslna og útflutningsbóta á landbúnaðarafurðir.“

Hv. þm. Árni Gunnarsson viðurkenndi þó, sem náttúrlega sjálfsagt er og rétt, að niðurgreiðslurnar eru hagstjórnartæki, innanlandshagstjórnartæki og, eins og hann orðaði það ef ég man rétt, mjög sósíaldemókrataískt kerfi. Það er góðra gjalda vert að skilja þetta og viðurkenna, en leggja ekki alla summuna saman.

Hann sagði að Framsfl. og Sjálfstfl. hefðu mótað þá stefnu í landbúnaðarmálum sem fylgt hefði verið. Þetta er rétt að vissu leyti. En það hafa fleiri komið til þeirrar stefnumótunar. Það var t.d. ákveðið af ríkisstj. Ólafs Thors 1961 að haga útflutningsbótum á þann hátt sem síðan hefur verið gert. Það var ákveðið af ríkisstj. Sjálfstfl. og Alþfl. viðreisnarstjórninni, að ríkissjóður skyldi ábyrgjast allt að 10% útflutning landbúnaðarafurða. Þessi útflutningsbótaréttur kom í staðinn fyrir annan rétt sem bændur höfðu fram að þeim tíma og hafði sýnt sig að standast fyrir dómi, þ.e. að halla af útflutningi landbúnaðarafurða yrði jafnað niður á sölu hér innanlands. Mér finnst miklu betri aðferðin sem viðreisnarstjórnin tók upp, og ég er henni þakklátur fyrir að hitta á þetta ráð, því það kemur skynsamlegar og betur við þjóðfélagið. En Alþfl. stóð að þessu.

Hitt er svo annað mál, að þetta hefur þróast nokkuð óheppilega, og það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni, að landbúnaðarstefnunni er ábótavant hjá okkur. Landbúnaðarstefnan, sem við höfum fylgt undanfarið, er ekki hárrétt og hún þarf endurbóta við. En það er engum ljósara en okkur bændum. Við báðum um stjórnunarheimildir á framleiðslumagni upp úr 1970. Það lá fyrir Alþ. 1972 frv. um stjórnunarheimildir á landbúnaðarframleiðslu. Þá lögðust gegn þessu menn sem þá voru í valdaaðstöðu, eins og Hannibal Valdimarsson og Björn Jónsson, og frv. náði ekki fram að ganga. Ef þetta frv. hefði náð fram að ganga 1972 þyrftum við ekki að standa í þrasi dag eftir dag á Alþ. núna, þá væru bændur ekki í þeim vanda staddir sem raun ber vitni. Það hefði betur verið sinnt þá óskum bændasamtakanna.

Það er ekki rétt hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni, að bændur í þingflokki Framsfl. hafi verið að prédika óbreytta stefnu í landbúnaðarmálum. Ég vil leyfa mér að taka það fram, að bændur í þingflokki Framsfl. hafa reynt að beita sér fyrir því að stefnunni yrði breytt.

En þegar nokkuð leið á ræðu hv. þm. Árna Gunnarssonar féll hann því miður niður í öfgahjólfarið og fór að telja upp nokkra liði á fjárlögum sem hann sá ofsjónum yfir. Hv. þm. Steinþór Gestsson er búinn að gera suma þeirra að umtalsefni, og ég ætla ekki að lengja mál mitt með því að fara nánar út í það, en ég vil undirstrika að það var ýmislegt mjög ofmælt hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni.

Hann vitnaði réttilega til þess að fyrrv. landbrh., Steingrímur Hermannsson, hefði beitt sér fyrir nýjungum, og eins og hv. þm. Árni Gunnarsson sagði fékk hann ekki nægar undirtektir. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þm. Steingrímur fékk ekki nægar undirtektir, og sérstaklega var það vegna afstöðu þm. Alþfl. Vegna þeirrar afstöðu er enn þá verið að tala um þessa 3 milljarða lántökuheimild. Til þess að geta breytt stefnunni í landbúnaðarmálum verða menn að ganga að því verki með jákvæðu hugarfari í garð atvinnugreinarinnar og þeirra sem hana stunda, ekki andskotast sí og æ í því fólki sem framleiðir landbúnaðarvörur, telja eftir á alla grein þess rétt, sjá ofsjónum yfir þeim hlutum, sem til landbúnaðar ganga, og ala á úlfúð milli neytenda í þéttbýlinu og bændanna. Bændur eiga rétt á þeim tilteknu peningum sem hér er lagt til að útvegaðir verði, og þeir þurfa á þeim að halda. Þangað til að menn hafa komist á það stig að ná eðlilegri stjórn á framleiðslumagninu er óhjákvæmilegt að til svona ráðstafana geti þurft að koma.

Hv. þm. Steinþór Gestsson taldi hafa bætt frv. breytingar sem gerðar voru á því í Ed. um að skylda Byggðasjóð til að greiða hluta af því fé sem hér er um að ræða. Ég er ekki sammála hv. þm. um að þetta sé réttmætt eða að það hafi bætt frv. Vafasamt er hvort það er réttmætt að gefa út þessa ávísun á Byggðasjóð, þrátt fyrir að ég fyrir mitt leyti hafi samþ. að gera það til samkomulegs til að málið fengi greiðari framgang í þinginu. Það er vafasamt hvort við höfum rétt til að gefa út ávísanir eins og þessa á stofnun eins og Byggðasjóð sem lýtur sjálfstæðri stjórn. Ég veit sem sagt ekki hvort við höfum fullkominn rétt á þessu tékkhefti. En hitt er tvímælalaust, að við höfum náttúrlega fullan tillögurétt um þetta mál.

Það hefur margt komið fram í þessum umræðum sem ástæða væri til að orðlengja meira um. Ég ætla nú að stilla mig um það í þetta skiptið..Ég legg til að þetta frv. verði samþ. Ég tel að það sé réttmætt að útvega peningana og láta málið ná fram að ganga.