12.03.1980
Neðri deild: 42. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það var vegna fsp., sem fram komu hjá hv. síðasta ræðumanni, að ég óskaði eftir að fá að bæta við nokkrum orðum, þó að hæstv. forseti hafi í huga að láta fundinum ljúka í bili.

Í fyrsta lagi spurði hv. þm. að því, hvort ekki væri tilefni til sams konar rannsóknar á fjárreiðum Framleiðsluráðs vegna væntanlegrar ábyrgðarheimildar, úr því talin væri ástæða til að rannsaka fjárreiður og fjárhagslega stöðu Flugleiða í tilefni af ábyrgðarbeiðni þess félags. Hv. þm. benti á að ábyrgðarbeiðni Flugleiða væri upp á 2 milljarða, en hér væri um þriðjungi hærri upphæð að ræða. Ég mundi frekar segja að þetta væri helmingi hærri upphæð í þess orðs réttu gömlu merkingu. — En ég vildi að sjálfsögðu svara þessu einfaldlega með því, að hér er ekki saman að jafna. Það liggur alveg ljóst fyrir samkv. þessu frv., að bændum er ekki ætlað að greiða þessa skuld endanlega, hún fellur ekki á bændastéttina. Aftur á móti er alveg ljóst að við þurfum að rannsaka allvel fjárhagslega stöðu Flugleiða eins og nú standa sakir, vegna þess að við viljum ekki að ábyrgðarheimild af okkar hálfu verði til þess að 2 milljarða skuld falli á ríkissjóð. Þess vegna þurfum við að átta okkur á því, hvort hægt er að veita viðunandi tryggingar af hálfu Flugleiða til þess að öruggt sé að ábyrgðin falli ekki á ríkissjóð. En eins og hv. þm. sjálfur gerði mjög glögga og góða grein fyrir áðan er einmitt ætlunin að skuld Framleiðsluráðs lendi að hluta til á ríkissjóði, og því gegnir þar allt öðru máli.

Hv. þm. spurði að því, hvenær það hefði gerst að slík ábyrgðarheimild hefði verið veitt. Ég skal játa að ég man ekki eftir því í fljótu bragði að beðið hafi verið um ábyrgðarheimild sem hafi verið nákvæmlega eins og þessi ábyrgðarheimild er. Það má vel vera að hún sé með einhverjum afbrigðum sem geri hana frábrugðna ýmsum öðrum ábyrgðarheimildum sem veittar hafa verið. En það vil ég fullyrða, að hér er um algerlega hliðstæða fyrirgreiðslu að ræða og oft hefur áður verið veitt.

Hv. þm. flutti hér langt mál um að það mætti leysa öll vandamál fjárlagagerðar með þeirri „patentlausn“ að taka lán af þessu tagi, það mætti byggja útvarpshús og framkvæma hitt og þetta á sama hátt. Ég spyr: Í hvaða tilgangi ættum við að fara að finna upp á því? Hver væri skýringin á því, að við færum að leita slíkra leiða? Ég sé ekki að nokkur skapaður hlutur væri unninn við það. En þá er kannske eðlilegt að menn spyrji: Hvers vegna er slík leið farin í þessu tiltekna tilviki? Jú, skýringin er ósköp einfaldlega sú, að nú er verið að veita ábyrgðarheimild fyrir láni sem ekkert liggur fyrir um með hvaða hætti verður greitt. Það verða teknar ákvarðanir um það á síðara stigi. Það er gert ráð fyrir að Byggðasjóður greiði allt að helmingi skuldarinnar þegar þar að kemur, en um hitt er ekki ljóst, hvort hlutur ríkissjóðs í þessari greiðslu verður tekinn af 10% heimildinni sem er í framleiðsluráðslögunum eða hvort féð verður greitt af viðbótafjárveitingu þegar þar að kemur. Það veitur að sjálfsögðu á því, hver þróunin verður í framleiðslumálum landbúnaðarins.

Þegar frv. um ábyrgðarheimild af þessu tagi kom fram á Alþ. fyrir einu ári, þegar þeir Alþfl.-mennirnir gerðu sem mest og stærst upphlaup í þinginu á vordögum, var einmitt gert ráð fyrir að þetta lán yrði á síðara stigi greitt af 10% kvótanum samkv. framleiðsluráðslögunum. Það má vel vera að nú um stundir séu menn orðnir svartsýnni en þá var á að slíkt verði hætt, að það sé raunhæft að reikna með því, en þó er of snemmt að fullyrða nokkuð um það. Vegna þess að vafi er á hvernig greiðslunni verði háttað er eðlilegt að ábyrgðarheimildin sé með fremur óvenjulegum hætti hvað þetta snertir.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um fsp. sem fram komu hjá hv. þm. Hann bætti þriðju fsp. við, spurði hvernig háttað yrði greiðslum úr ríkissjóði á þessu ári vegna óverðtryggs útflutnings á síðasta verðlagsári, og benti réttilega á að sennilega stæði Framleiðsluráð frammi fyrir fjárvöntun sem væri allmiklu hærri en nemur fjárlagatölunni upp á 8.4 milljarða í fjárlagafrv. Ég vil aðeins segja um þetta mál, að ég á ekki von á að fjárlagafrv.-talan eigi eftir að breytast. Ég held að við hljótum að miða hana við 10% af heildarverðmæti landbúnaðarvara. En hvort önnur fyrirgreiðsla verður veitt síðar á þessu ári, um það hafa engar ákvarðanir verið teknar enn.

Stefán Valgeirsson: Herra forseti. Þó það væri kannske ástæða til að ræða um eða gera athugasemdir við ýmsar ræður hv. þm. í sambandi við þetta mál mun ég ekki gera það í þetta sinn, því að mér er meira í mun að málið komist til n. og fái afgreiðslu á þinginu sem allra fyrst. Ég kemst þó ekki hjá því að víkja aðeins að örfáum atriðum.

Hv. þm. Árni Gunnarsson ræddi um það í ræðu sinni að mjög væri bagalegt, mikill skaði að því að fólk í þéttbýli annars vegar og í dreifbýli hins vegar skildi ekki afstöðu hvert annars og mikill misskilningur væri á milli þessara hópa. Ég vil taka undir þetta. En einmitt ræður eins og sumt af því sem hv. þm. sagði gera það einmitt að verkum að tortryggni skapast á milli, því miður.

Hv. þm. talaði um að hann vildi fá svar við ýmsum spurningum. Ég ætla ekki að fara út í það. En hann sagði eitt sem ég get ekki annað en mómælt og er eiginlega undrandi á, vegna þess að það hefur komið til umræðu hvað eftir annað hér í þinginu, en þrátt fyrir það segir hv. þm. að Samband ísl. samvinnufélaga hafi hag af útflutningsuppbótunum, ef ég hef skilið hann rétt, noti þær í rekstur sinn. Það hefur komið fram hér hvað eftir annað, að Samband ísl. samvinnufélaga fær þetta fé aldrei undir hendur — aldrei. Það fer beint til þess að borga lán í Seðlabankanum þegar þessar greiðslur eru inntar af hendi. Ég veit að þetta hefur farið fram hjá hv. þm., og ég vil gjarnan, hv. þm. Árni Gunnarsson, ræða þessi mál öðruvísi en hér í þingsölunum og fá til umræðu menn sem þekkja þetta vel, til þess að svona misskilningur og svona málflutningur komi ekki fyrir. Það skaðar alla, ekki síst hv. þm., en líka landbúnaðinn og þá hagsmunaaðila sem þarna eiga hlut að máli.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði að ef menn færu og keyptu föt nytu þeir ekki þeirrar niðurgreiðslu á vöruverði sem væri í landinu, af því að það væri eingöngu um að ræða niðurgreiðslur á búvörum. Gerir hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sér ekki grein fyrir því, hvernig vísitalan er samsett? Hún er fundin út með neyslukönnun sem var gerð 1964 og 1965. Þá var fundið út hvað vísitölufjölskyldan borðaði t.d. eða notaði af landbúnaðarvörum, notaði til kaupa á fötum o.s.frv. Um þessa könnun og hvað var tekið upp í vísitöluna er auðvitað margt hægt að segja, ég ætla ekki að fara út í það hér, en auðvitað njóta allir jafnt þessarar niðurgreiðslu, vegna þess að um er að ræða vörur sem allir þurfa að nota, og sennilega notar tekjulægsta fólkið laun sín hlutfallslega meira til þess að kaupa slíkar vörur en til annarrar neyslu. Ef grannt er skoðað er niðurgreiðslufyrirkomulagið, eins og það er framkvæmt, líklega mesta launajöfnunarleiðin sem hægt er að fara í þessu þjóðfélagi miðað við t.d. fjölskyldur. Og það er ákaflega einkennileg breyting sem hefur orðið á Alþfl. ef Alþfl.-menn eru ámóti því að reynt sé að jafna kjör fólksins í landinu. En hv. þm. ættu að athuga mjög vel, hvort einmitt þessi leið er ekki besta leiðin til að jafna kjörin í þjóðfélaginu.

Það er nú búið að svara hv. þm. Vilmundi Gylfasyni. Það er hryggilegt að heyra að maður, sem er búinn að vera ráðh., skuli ekki gera sér grein fyrir því, að það er ekki hægt að taka lán í þessu tilviki öðruvísi en að fá ríkisábyrgð. Og varðandi það, að þarna sé um einhverja blekkingu að ræða, þá kemur alveg greinilega fram í 2. gr. frv. hvernig lánið eigi að greiða. Ef hv. þm. skilur það ekki er ekki eyðandi orðum á slíka menn.

Ég hef þrisvar sinnum verið 1. flm.till. til að leysa þetta mál, og því miður náði það aldrei fram að ganga. Ég vildi hafa leiðina aðra. Ég tel t.d. að ekki sé eðlilegt að Byggðasjóður greiði hluta af þessu fé af tvennum ástæðum. Ég tel að Byggðasjóði sé ætlað annað hlutverk. Hann er fjárfestingarsjóður, viðbótarfjárfestingarsjóður fyrst og fremst, og ég taldi að önnur tilhögun væri réttari og eðlilegri og það mundi kannske skapa fordæmi ef þessu yrði að einhverju eða öllu leyti velt yfir á Byggðasjóð. Þess vegna harma ég að brtt. kom fram í Ed. og var samþ. þar. En þó að ég sé ekki ánægður með það fylgi ég samt frv. og geri ekki brtt., því að ég vil ekki stofna þessu máli í hættu.

En ég vil endurtaka að ég hefði kosið að það væri ekki að neinu leyti lagt á Byggðasjóð. Hann mun hafa nóg önnur verkefni sem hann þarf að annast. Ef verður — sem þarf að verða — einhver framleiðslubreyting í landbúnaði þarf sjóðurinn að stuðla að uppbyggingu bæði í dreifbýli og á þeim þéttbýlisstöðum sem missa atvinnu vegna þeirra breytinga sem kunna að verða í framleiðslumálunum. En engin slík spor má stíga öðruvísi en að athuga þau mjög vel vegna þeirra áhrifa sem slík spor leiða af sér. Við viljum halda uppi fullri atvinnu í landinu. Við megum t.d. ekki leggja niður iðnaðinn, útflutningsiðnaðinn úr ull og skinnum, nema um leið a.m.k. sé byggð upp einhver önnur framleiðsla sem kemur í staðinn. Því er það, að það þarf að athuga þessi mál, og um leið og á að breyta framleiðslunni varðandi þetta verður að gera ráðstafanir til þess að eitthvað annað komi í staðinn og fylli upp í það tómarúm sem verður.