12.03.1980
Neðri deild: 42. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki verða til þess að lengja þessa umræðu um of. Hins vegar tel ég mér bæði skylt og rétt að leiðrétta ýmislegt sem kom fram í ræðum þeirra hv. þm. sem á eftir mér töluðu og nefndu mig á nafn, og mun ég því gera það hér.

Mig langar fyrst að koma örlítið að ræðu hv. þm. Steinþórs Gestssonar, sem hnaut um það í minni tölu að ég hefði verið að agnúast út í framlag til Búnaðarfélagsins, á þeirri forsendu að ég hefði sagt annars staðar í ræðu minni að ég vildi allt til þess vinna að rannsóknir yrðu auknar í landbúnaði til þess að auka möguleika hans á því að standa betur undir eigin tilvist. Nefndi hann í því sambandi ráðunauta Búnaðarfélagsins sem fá greiðslur á fjárlögum. Það, sem ég sagði í ræðu minni var ekki þetta. Það var einfaldlega það sem ég hef á blaði fyrir framan mig, vélritun á þeirri ræðu sem ég flutti og ætla að fá að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá fékk Búnaðarfélag Íslands 300 millj. kr. Ég hef verið að velta því fyrir mér, hvort einhver önnur atvinnugrein á Íslandi, sem rekur skrifstofu af svipuðu tagi og Búnaðarfélagið, fái viðlíka styrki.“

Þetta voru mín óbreytt orð. Ég var ekki að agnúast út í þann rekstur sem Búnaðarfélagið hefur með ráðunautum sínum um landið þvert og endilangt. Ég var að spyrja spurningar.

Þess má geta í sambandi við þetta, að í þeim drögum að fjárlögum ársins 1980, sem nú liggja fyrir þinginu, nemur þessi liður, Búnaðarfélag Íslands, 471 millj. kr., og hefur því hækkað um 171.8 millj. milli áranna 1979 og 1980.

Vegna ræðu hæstv. landbrh. væri hægt að hafa mörg orð. Hann taldi að í því hefði verið fólgin nokkur þversögn af minni hálfu, að ég hefði sagt annars vegar að umræðan um landbúnaðarmálin hefði verið of ofsafengin, en gert mig svo sjálfan sekan um að vera of ofsafenginn í minni tölu. Ég sagði einfaldlega, að ég teldi þessa umræðu of ofsafengna á báða bóga, og stend við það og er sannfærður um að svo er. Kannske er rétt að minna hv: þm. á ummæli sem ýmsir fulltrúar bænda létu falla um forustumenn Alþfl. og Alþýðuflokkinn á árabilinu 1960 og fram undir þetta ár. Það hafa ekki verið fagrar lýsingar á stefnumiðum Alþfl. í landbúnaðarmálum sem þar hafa komið fram.

Hæstv. landbrh. sagði einnig að það þyrfti að draga úr mjólkurframleiðslunni. Undir þetta tek ég auðvitað. En hvað hefur gerst á fyrstu mánuðum þessa árs? Það væri kannske rétt að hæstv. landbrh. svaraði því á eftir. Það hefur gerst nákvæmlega það, að mjólkurframleiðslan hefur stóraukist frá sama tíma í fyrra.

Hann fjallaði líka nokkuð um dilkakjötsframleiðsluna. Hæstv. landbrh. minnist ekki á það einu orði að hér á landi er fjöldinn allur af „bændum“, — sem ég vil hafa innan gæsalappa, þ.e. orðið bændur, — sem hafa að aðalatvinnu eitthvað annað en búskap, en framleiða verulegt magn af t.d. dilkakjöti og leggja inn hjá sláturleyfishöfum. Fyrir þetta eru greiddar útflutningsuppbætur, og aðrir bændur, sem hafa landbúnað að aðalatvinnu, líða fyrir. Væri nú ekki rétt að huga örlítið að þessari framleiðslu? Væri ekki rétt að huga að manninum sem hefur vörubílaakstur að aðalatvinnu og aðaltekjulind, en er með jafnvel 200–300 fjár í fjárhúsi sem hann lætur eiginkonu sína annast? Ég held að þetta sé of algengt, hæstv. landbrh., og ég held að einmitt frá þessum hópi manna í bændastétt komi allt of mikið af dilkakjötsframleiðslunni á hverju ári.

Þá ræddi hæstv. landbrh. um stuðninginn við landbúnaðinn í öðrum löndum. Það hafa fleiri gert í dag. Það er einhver kúnstugasti samanburður sem ég hef nokkru sinni heyrt, þegar menn eru að rekja það að á Íslandi sé stuðningurinn þetta mörg prósent, en í Efnahagsbandalagslöndunum — ja, allt upp undir 70% heyrðist mér einn þm. segja í dag. Hafa menn velt fyrir sér hvaða lönd eru í Efnahagsbandalagi Evrópu og hver er helsta tekjulind þeirra og hefur verið undanfarna áratugi? Hafa þeir tekið með vínyrkjubændur? Hafa þeir áttað sig á að þetta eru landbúnaðarlönd, en ekki land á norðurhjara veraldar sem á mjög erfitt með að framleiða landbúnaðarafurðir? Menn skyldu huga örlítið að þessari staðreynd og athuga hvort þarna komi ekki inn í einhverhluti af stuðningnum, vegna þess að hópurinn er enn þá stærri en hér og framleiðslan enn þá meiri.

Hæstv. landbrh. sagði einnig og í því fælist þvílík rökleysa að það tæki því varla að eyða orðum að því, að það hefði verið fjarstæðukennd fullyrðing af minni hálfu að þeir efnameiri högnuðust meira en þeir efnaminni á niðurgreiðslunum. Hverjir skyldu það vera, hæstv. landbrh., sem fara og kaupa heila kindaskrokka og stinga þeim í frystikisturnar? Eru það þeir, sem litla aura eiga, eða þeir, sem eiga verulega fjármuni? Það skyldi þó ekki vera að þessir menn hagnist meira í 50% verðbólgu á ári, þegar landbúnaðarvörur hækka stöðugt, en þeir sem kaupa hálft kíló í senn í kjötbúðinni og eiga ekki fjóra, fimm skrokka í frystikistunni.

Síðan sagði hæstv. landbrh. að honum fyndist að ekki væri rétt að eyða tíma Alþingis í ræðu af því tagi sem ég flutti. Þetta er nákvæmlega það sem landbúnaðarforustan hér á þingi hefur sagt í hvert einasta skipti sem landbúnaðarmál hafa komið til umræðu: „Þið hinir hafið ekkert vit á landbúnaðarmálum og þess vegna eigið þið að þegja.“ — Ég vil minna hæstv. landbrh. á það, að á aðalfundi Búnaðarsambands Eyjafjarðar, sem haldinn var í marsmánuði 1978, ekki minna búnaðarsambandi en því, var lýst mjög verulegum áhyggjum vegna stefnunnar í landbúnaðarmálum, sömu áhyggjunum og Alþfl. hefur lýst í tvo áratugi. Þar segir orðrétt í ályktun:

„Aðalfundur B.S.E., haldinn að Hótel KEA 21. og 22. mars 1978 lýsir megnri óánægju yfir því skipulagsleysi sem ríkt hefur í framleiðslumálum landbúnaðarins undanfarin ár, þó að sýnt væri í hvert óefni stefndi.“

Það eru bændur sjálfir og samtök þeirra sem svona tala. Og ef Alþfl. má ekki benda á það hér á þingi, sem miður fer í landbúnaðarmálum, án þess að hæstv. landbrh. lýsi því yfir að slíkar ræður skuli ekki haldnar, veit ég yfirleitt ekki til hvers þingið er.

Mig langaði að fara nokkrum orðum um mjög merkilega ræðu sem hv. þm. Ólafur Þórðarson flutti í dag, en ég veit ekki hvort ég nenni því. Ég vil þó'koma að einu atriði í ræðu hans þar sem hann var að bera sig undan því, að Framsfl. hefði verið kennt um stefnuna í landbúnaðarmálum, og vildi bera það nokkuð af sér, piltur sá. Ég man ekki betur en eitt aðalslagorð Framsfl. í síðustu kosningabaráttu, í desember, hafi verið að áratugurinn á undan hafi verið áratugur Framsfl. Það væri kannske rétt að innprenta hv. þm. Ólafi Þórðarsyni þessa staðreynd.

Ég vil endurtaka það vegna margra orða, og jafnvel minna flokksbræðra, í dag, að ég tel, og það er mín bjargföst skoðun og trú, að sú niðurgreiðslustefna, sem hér er ríkjandi, eigi fullan rétt á sér. Ég tel að þær niðurgreiðslur, sem hafa átt sér stað í því árferði sem var vegna offramleiðslu á landbúnaðarvörum m.a., hafi verið sameiginlegir hagsmunir neytenda og bænda í landinu. Þess vegna mun ég verja þá stefnu sem felst í niðurgreiðslunum.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson vék nokkrum orðum að því sem ég sagði um samvinnuhreyfinguna. Ég taldi að hún hefði talið sér til tekna að fá rekstrarfjármuni, m.a. í gegnum útflutningsuppbætur, til rekstrar síns. Ég veit ekki hvort það er satt, en mér er tjáð að það sé ekki fulltrúi Framleiðsluráðs sem fari til ríkisféhirðis til að sækja uppbótartékkann hverju sinni, heldur geri það gjaldkeri Sambands ísl. samvinnufélaga. Og því verður ekki breytt, að Samband ísl. samvinnufélaga tók umboðslaun af útflutningsuppbótum. Það eru ekki nema nokkrar vikur síðan hv. þm. Steingrímur Hermannsson, fyrrv. landbrh., lýsti því yfir hér á þingi að gefnu tilefni, að þetta kerfi hefði verið lagt niður nýlega. Sambandið hefur af þessum sökum í mörg ár tekið umboðslaun af útflutningsuppbótum, sem út af fyrir sig er algert hneyksli.

Ég vil einnig, þó að ég hyggist sitja hjá við afgreiðstu á því frv. sem hér liggur fyrir, taka undir með hv. þm. Stefáni Valgeirssyni um að það er rangt að gera Byggðasjóði það að taka á sig helminginn af þessu. Það er röng stefna. Byggðasjóður hefur úr tiltölulega litlum fjármunum að spila. Á hann hefur verið bætt fleiri og fleiri verkefnum á undanförnum árum og kannske ekki hvað minnst á síðasta ári. Þess vegna tel ég rangt að gera honum skylt að standa undir hluta af þessari byrði. Hann hefur nóg við sína peninga að gera.