13.03.1980
Neðri deild: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Í hv. félmn. Nd. voru menn almennt sammála um að afgreiða skyldi fyrirliggjandi frv. með þeim hætti að taka tillit til allra þeirra skattalagabreytinga sem þingið hafði þegar samþykkt. Ég get þess vegna tekið undir öll þau orð sem frsm. n. hafði um málið að segja áðan, að undanteknum þeim kafla þar sem hann talaði sérstaklega um þá brtt. sem hann flytur ásamt nokkrum öðrum hv. þm. þessarar d., sem reyndar eiga jafnframt sæti í hv. félmn.

brtt., sem við stóðum að í þessari n., eftir að hafa lagt fram brtt. á þskj. 190, var brtt. á þskj. 200, sem nauðsynlegt var að láta koma fram að frekar athuguðu máli. Í þeirri brtt. má segja að gætt sé þess, að aðstöðugjaldsstofninn verði ekki hærri í lögunum eftir breytinguna en hann er nú, þannig að fyrirtæki ættu ekki að fara verr út úr álagningu aðstöðugjalds en þau hafa farið hingað til. Auk þess má segja að brtt. á þskj. 200 feli í sér þau sjónarmið sem komu fram í brtt. sem við hv. þm. Steinþór Gestsson fluttum á þskj. 194, þannig að ég vil nú lýsa því yfir, að við flm. munum draga þá brtt. til baka. Sem sagt, brtt. á þskj. 194 er komin inn í brtt. á þskj. 200, en sú brtt. er aftur til breytingar á 5. tölul. brtt. á þskj. 190.

En varðandi það mál sem hv. þm. Alexander Stefánsson fjallaði um, þ.e. málið á þskj. 191, þar sem gert er ráð fyrir að enn sé gerð ný breyting, vil ég segja þetta:

Þessi brtt. var rædd í n. og það var ákveðið í henni að standa ekki að þessari brtt., þar sem hún var efnisleg og þess vegna frábrugðin þeim till. sem aðeins þóttu nauðsynlegar til leiðréttingar á sjálfu frv. vegna skattalagabreytinganna, eins og ég gat um áðan.

Þessi brtt. er þess vegna flutt af nokkrum nm., en ekki sem minni hl. eða meiri hl.n. Hún gerir ráð fyrir því, að ráðherra geti heimilað sveitarfélögum að leggja 10% ofan á þau 11% sem gert er ráð fyrir að útsvör verði af tekjum manna samkv. till. n. Þetta þýðir það í raun, að sveitarfélögin geta með hægu móti fengið heimild til að leggja á útsvarsgreiðendur 12.1%, þ.e. fengið 12.1% af tekjum þeirra inn sem útsvar. Til að gefa einhverja hugmynd um hvað miklir fjármunir eru þarna í húfi má gera ráð fyrir að þetta séu milli 4 og 5 milljarðar kr., ef öll sveitarfélögin nota þessa heimild. Þetta þýðir að heildarskattheimtan hér á landi er að aukast um u. þ. b. 4.5 milljarða. Heildarskattheimtan samkv. þessari brtt. mun aukast um 4.5 milljarða u.þ.b., ef miðað er við gjaldárið eða árið 1980. Það, sem er einkar athyglisvert við þetta, er að hvergi er í till. aðstandenda þessarar brtt. gert ráð fyrir að niðurskurður komi á móti. Og samt virðist manni að í röksemdafærslu fyrir þessari till. sé þess gætt að koma því að, að heimta þurfi inn þessa auknu fjármuni vegna þess að ríkið hafi ýtt nokkru af sínum verkefnum yfir til sveitarfélaganna.

Það hefur stundum verið rætt um það, og um það var reyndar rætt enn fremur í félmn., að eðlilegast væri að sveitarfélögin sjálf gætu ákveðið, hvernig þau höguðu skattheimtunni, og fengið þess vegna frjálsa álagningu á útsvör, enda eru þau um margt ólík og má vera að innan vissra sveitarfélaga ríki miklu meiri framkvæmdahugur en í öðrum sveitarfélögum, allt eftir því hvernig á stendur hverju sinni. Ég get út af fyrir sig tekið undir þessi sjónarmið. En því miður er ekki hægt að gera það að svo stöddu. Fyrr verður að koma til gjörbreyting á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Sem betur fer má búast við lausn á þeim málum innan tíðar, enda skilst mér að nú sé unnið kappsamlega að því að koma fram með nothæfan verkaskiptingargrundvöll. Og ég vil í þessu sambandi rifja það upp, að núv. hæstv. forsrh., sem nú gengur í salinn, er mikill áhugamaður um þetta mál og setti á sínum tíma á stofn nefnd sem starfaði og skilaði einhverri niðurstöðu, þannig að eflaust verður um talsverðan hraða á þessu máli að ræða á næstunni.

Ég minntist áðan á það, að þessi brtt. þýddi aukna heildarskattheimtu á milli 4 og 5 milljarða kr. Ég kemst ekki hjá því, þegar rætt er um skattheimtuna, að minna enn fremur á það, að í fjárlagafrv., sem var lagt fram á mánudag er gert ráð fyrir að olíustyrkurinn, sem nam 2.3 milljörðum kr., sé tekinn út úr frv. Síðan er það sagt, og það hefur reyndar komið fram í Sþ. af hálfu hæstv. iðnrh., að að því sé unnið í iðnrn. að úfbúa nýtt skattafrv., um orkuskatt eða eitthvað í þá veru, sem mun væntanlega gefa aðra 5 milljarða í nýjum sköttum. Og þá spyr ég: Hvað varð um þessa 2.3 milljarða sem voru í frv? Nú skyldi maður ætla að þeir ættu að notast fyrir það fólk sem hefur orðið fyrir búsifjum vegna þess að olía hefur hækkað á heimsmarkaði. En það er nú öðru nær. Þeir peningar, sem áttu að notast til þeirra hluta hafa nú verið settir í allt önnur verkefni.

Eins og hv. d. er kunnugt voru skattalagabreytingarnar afgreiddar frá Alþ. fyrir skömmu, án þess að því fylgdu lagagreinar sem varða skattstigann. Það er sjónarmið okkar sjálfstæðismanna, að það beri að bíða með afgreiðslu þeirrar brtt., sem hér liggur fyrir, þar til skattstigadæmið verður gert upp hér á hv. Alþ. Þessi mál eru öll í samhengi. Þau horfa ekki aðeins að ríkissjóði, ekki heldur aðeins að sveitarfélögunum eða að ríkissjóði og sveitarfélögum. Þau snerta að sjálfsögðu alla skattgreiðendur í þessu þjóðfélagi. Og við verðum að sjálfsögðu að hugsa um hag þeirra fyrst og fremst.

Ef litið er á stjórnarsáttmála ríkisstj. Gunnars Thoroddsens og spurst fyrir um það, hvað þar megi lesa um útsvör, kemur í ljós að í kaflanum um kjaramál er aðeins rætt um útsvör. Og þar segir í 2. tölul., með leyfi forseta:

„Til þess að draga úr almennum peningalaunahækkunum er ríkisstj. reiðubúin til þess að beita sér fyrir eftirtöldum ráðstöfunum í tengslum við kjarasamninga.“

Síðan kemur a-liður, sem ég ætla ekki að lesa, en þó væri vissulega full ástæða til þess, því að þar verður greinilega um vanefndir að ræða ef trúa má fjárlagafrv. En ég kem að b-lið og þar stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Athuguð verði í þessu sambandi lækkun útsvars af lægstu tekjum, án þess að hlutur sveitarfélaga skerðist.“ Nú langar mig til þess að spyrja hæstv. félmrh.: Hvað er að hans mati það sem kalla má lægstu tekjur? Um þetta hafa menn að vísu rætt og sett fram sjónarmið, en það er full ástæða til þess, þegar rætt er um útsvörin, að fá um það svör hér á hv. Alþ., hvað séu lægstu tekjur samkv. orðum stjórnarsáttmálans. Og í öðru lagi: hve mikilli upphæð má gera ráð fyrir að verði varið í þennan lið? Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðh. jafnframt þeirrar spurningar, hvort þarna sé ákveðin upphæð höfð í huga.

Það er gert ráð fyrir því, að launafúlgan á þessu ári verði um 600 milljarðar kr. lauslega áætlað. Miðað við þær hugmyndir, sem menn hafa gert sér um lægstu tekjur af ræðum manna og ritum, getur maður ímyndað sér að þessi upphæð í 2. tölul. b í kjaramálakafla stjórnarsáttmálans liggi á milli 1 og 2 milljarða kr. Sé þetta rangt, þá bið ég hæstv. félmrh. að leiðrétta það, ef hann hefur sjálfur einhverja hugmynd um hvað felst í þessum orðum stjórnarsáttmálans, sem ég hygg þó að séu komin úr herbúðum hans eigin flokks.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lýsti hér áðan í ræðu brtt. sem hún flytur á þskj. 199. Í þeirri brtt. er gert ráð fyrir að framlag úr ríkissjóði, sem nemur 4% af söluskatti þeim sem innheimtur er í ríkissjóð á þessu ári, verði tekið og látið renna eftir sérstökum leiðum til sveitarfélagann. Ef reynt er að meta þessa upphæð, þá er hún líklega um 4.5 milljarðar eða svipuð upphæð og gert var ráð fyrir að 12.1% eða 10% ofan á 11% mundu ná.

Ég get vel ímyndað mér að þessi leið sé fær, en þó er um hana að segja að æskilegra hefði verið að skattheimtan hefði verið minnkuð beint af ríkisins hálfu, t.d. um eitt söluskattsstig. Þannig hefði skattheimta til ríkisins lækkað, en aftur hefðu sveitarfélögin fengið að hækka sína prósentu á móti. Sú leið er auðvitað beinni. Þarna er um að ræða kannske óþarflega krókótta leið. En allt um það, sú till., sem kemur frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, er þess virði að hún sé skoðuð rækilega. Því miður var hún ekkert rædd í félmn., enda þótt hv. þm. eigi sæti í þeirri nefnd, og mun það vera tilkomið vegna þess, að þessi hugmynd skaut ekki upp kollinum fyrr en nefndarstörfum hafði verið lokið um þessi atriði.

Það er þess vegna ósk mín, að meðan þetta mál er hér til 2. umr. gefist hv. félmn. tækifæri til þess að athuga það ítarlega, kalla til sín sérfræðinga. — Það ætti ekki að taka langan tíma, — þannig að við fengjum upplýsingar um hvort þessi leið sé fær. Hún kostar að sjálfsögðu það, að þingið þarf að gera till. um talsverðan niðurskurð, en annað sýnist ekki vera eðlilegt þegar þess er gætt, að skattaukinn, sem rennur til sveitarfélaganna er kominn, til m.a. vegna aukinna verkefna sem hafa horfið frá ríki til sveitarfélaga.

Í ræðu sinni hér áðan vék hv. þm. Alexander Stefánsson að sjónarmiðum sveitarfélaganna og stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga í þessu máli. Annars vegar var minnst á þá röksemd, að ríkið hefði ýtt verkefnum á sveitarfélögin, en hins vegar á hina, að í raun væri það verðbólgan sem hefði rýrt tekjustofna sveitarfélaganna. Hann nefndi í því sambandi að Þjóðhagsstofnun reiknaðist svo til, að í raun hefðu þessi 11% aðeins orðið að 7. 5%, þegar tekið væri tillit til verðbólgunnar. Þetta held ég að hljóti að standast. Þetta er í takt við þá miklu verðbólgu sem hér hefur geisað. En í þessu sambandi vil ég vekja vonir hjá hv. þm. Þannig stendur á, að hann styður þá stjórn sem tekið hefur við völdum hér á landi. Og í margnefndum stjórnarsáttmála þeirra stjórnar er minnst á það markmið, að hér muni verðbólga fara ofan í sama stig og er í nágrannalöndunum árið 1982, eða eftir tvö ár. Þetta þýðir u.þ.b. 10 – 12% samkv. upplýsingum sem ég sá í riti frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu sem liggur nú á borðum sumra þm. Ég nefni þetta hér, því að ef hv. þm. Alexander Stefánsson trúir þeim orðum sem standa í þessum stjórnarsáttmála, þá mun hann með sínum gjörðum hér á þingi, sínu aðhaldi að hæstv. ríkisstj. geta gert íslenskum sveitarfélögum langmestan greiða með aðhaldsstefnu sem mundi þýða lækkandi verðbólgu, þannig að þetta markmið næðist, að sveitarfélögin fengju í raun miklu meiri tekjur til sín en þau hafa í dag. En ekki virðist hv. þm. treysta á þau orð sem eru í þessum stjórnarsáttmála, ef marka má ræðu hans áðan.

Þá kom hv. þm. á framfæri skilaboðum frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga. Í þeirri yfirlýsingu er ályktað á þann veg, að þingið er hvatt til að greiða atkv. með till. hans og annarra hv. þm. um 10% hækkunina. Þetta er gert í samræmi við samþykktir síðasta landsþings. Svo segir orðrétt í þessari yfirlýsingu, með leyfi forseta:

„Í þessu sambandi bendir stjórnin á að æ fleiri verkefni hafa bæst á sveitarfélögin, sérstaklega á sviði skólamála, heilbrigðismála og félagsmála, án þess að auknar tekjur kæmu á móti.“

Þetta undirstrikar þau rök sem hér hafa verið flutt, bæði af mér og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að ríkið ætti að geta sparað eitthvað á móti.

Loks segir í þessari yfirlýsingu stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga:

„Þá bendir stjórnin á að vegna hærra verðbólgustigs hefur skattbyrði gjaldenda af útsvörum á liðnum árum verið minni en hún var við setningu tekjustofnalaganna 1972.“

Þetta styður það, að með minnkandi verðbólgu-sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið okkur miklar vonir um að verði hér á næstu árum — muni þetta atriði lagast.

En í lokin segir svo í þessari yfirlýsingu, með leyfi forseta:

„Í skattheimtu ríkissjóðs verður að taka mið af því, að gjaldþoli manna verði ekki misboðið.“

Og nú spyr ég hann sem einn af þeim mönnum sem standa fremstir í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga: Hvað þýðir þetta? Hvenær er gjaldþoli manna misboðið? Við hvaða mörk telur hann að gjaldþoli íslenskra skattgreiðenda sé misboðið?

Ég vil gefa þá yfirlýsingu hér og nú, að ef svo heldur fram sem horfir hjá þessari hæstv. ríkisstj. og stuðningsmönnum hennar hér á þingi, þá koma þau mörk fyrr en síðar, að íslenskir skattgreiðendur, hvort sem þeir eru að greiða útsvör eða skatta til ríkisins, munu rísa upp og segja: Ekki meir.