13.03.1980
Neðri deild: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. Ég vil aðeins í örfáum orðum koma inn á það, sem hér hefur komið fram, og þá fyrst og fremst víkja að máli hv. 10. landsk. þm., sem hún flutti í sambandi við þá brtt. sem hún flytur á þskj. 199. Ég verð því miður að segja það hér, að mér finnst þessi brtt. vera mjög í takt við það sem hefur verið kallað leiksýningar á hv. Alþingi.

Þessi hv. þm. hefur verið á öllum fundum í félmn., bæði sameiginlegum fundum beggja þd. og eins á fundum félmn. Nd., og það allt fram á síðari hluta næstsíðasta dags, og það hefur aldrei komið eitt orð frá þessum hv. þm. um málefni sveitarfélaga í þeim dúr, sem hún talaði um nú í þessu sambandi. Og ég vil bæta því við, að það er svo mikið mál að gera veigamikla breytingu og hv. þm. leggur hér til, að það þyrfti að hafa æðilangan tíma til þess að fjalla um það, því að það yrði að fara í gegnum allt stjórnkerfið og raunar í sambandi við fjárlagafrv., sem hér hefur verið lagt fram. Það mundi raska þeim málum öllum að verulegu leyti.

En það, sem mér finnst furðulegt, er að þessi hv. þm. hefur verið stuðningsmaður ríkisstj. frá því að hún tók sæti á hv. Alþ., þar sem félmrh. hefur verið úr hennar flokki, félmrh. sem hefur verið beðinn af stjórnendum sveitarfélaga á Ístandi æ ofan á æ að reyna að koma fram umbótamálum fyrir sveitarfélögin, leiðrétta þetta óréttlæti sem ég lýsti í framsögu minni áðan í sambandi við tekjustofna sveitarfélaga. Þetta hefur ekki verið hægt. Og nú skil ég af hverju það var ekki hægt. Það er ekki nema um eitt að ræða, að hans flokkur, þingflokkur hv. 10. landsk. þm., hafi staðið gegn því, að slíkar breytingar yrðu gerðar, því að engar slíkar tillögur hafa komið fram. Ég þarf ekki að lýsa því, hæstv. fyrrv. félmrh. er hér staddur í salnum, að hann hefur oftar en einu sinni tekið jákvætt undir þær óskir sveitarstjórnarmanna að fá hækkun á útsvarsprósentunni. Hann hefur meira að segja haft tilburði til þess að koma því í lög. Hann hefur einnig gert tilraun til þess að útbúa lagafrv. þar sem raungildi tekjustofna sveitarfélaga yrði leiðrétt. En það hefur ekki komist fram. Það, sem vekur furðu mína, er að nú eftir að hv. 10. landsk. þm. er búinn að ræða með okkur öllum hinum hið alvarlega fjárhagsástand sveitarfélaga í landinu, á öllum fundum félmn., og það hefur ekki komið eitt orð um það, að hún hefði nokkurn áhuga á að þetta væri leiðrétt á einn eða annan hátt, fyrr en nefndirnar hafa lokið störfum og birt sameiginlegt nál., þá kemur hér fram till. í þessa veru á þskj. 199. Og ég vil spyrja hv. þm.: Hvernig er hægt að auka útgjöld ríkissjóðs eða réttara sagt taka af tekjum ríkissjóðs 4 – 5 milljarða og afhenda sveitarfélögum til að lagfæra fjárhagsstöðu þeirra án þess að ríkissjóður þurfi að leggja á skatta fyrir sömu upphæð í staðinn? Það hefur aldrei komið fram hér áður rökstuðningur fyrir því að slíkt væri hægt.

Ég verð því miður að segja það, að mér finnst þetta vera furðuleg afstaða og ekki hvað síst þegar tekið er tillit til þess, að fyrrv. hæstv. félmrh. hefur, að því er ég trúi, haft einlægan vilja til þess að leiðrétta stöðu sveitarfélaga. En hvers vegna fékk hann þá ekki stuðning hv. 10. landsk.?

Í sambandi við þetta mál vil ég aðeins segja það til viðbótar, að eins og ég tók fram áðan liggur það skjallega fyrir eftir margra ára umr., að sveitarfélögin hafa ekki haft þá tekjustofna sem þau hafa þurft, og vegna rýrnunar á því heimildarákvæði sem þau höfðu í þeim lögum, sem í gildi eru í dag, hefur það ekki nægt og allflest sveitarfélög hafa þurft að nota sér þetta 10% ákvæði á síðari árum. Hins vegar mundu þau hafa í sambandi við þessa brtt. heimild til þess að notfæra sér þetta á mismunandi hátt. Ég bendi á að eitt sveitarfélag hér í nágrenni höfuðborgarinnar, Seltjarnarnes, hefur notað sér þessa heimild aðeins að hluta og fengið heimild til álagningar um 5%. Ég bendi einnig á það, ef menn halda að það sé svo voðalegt mál að veita sveitarfélögunum þessa heimild, að þessi heimild er skilyrt frá hendi rn. Sveitarfélögin verða að rökstyðja það, að þau hafi ekki tekjur á venjulegan hátt til þess að annast þá nauðsynlegu þjónustu og framkvæmdir sem þau eru skyldug að inna af hendi samkv. sveitarstjórnarlögum fyrir sína umbjóðendur. Þannig er ekki hægt að nota þetta heimildarákvæði eftir því sem einhverjum og einhverjum dettur í hug, heldur verður að rökstyðja það með þörf. Og ég þekki ekki þá sveitarstjórnarmenn, sem vilja íþyngja íbúum síns sveitarfélags með álagningu gjalda sem eru ekki þannig rökstudd, að íbúarnir ekki aðeins krefjist þess heldur verði að fá þá þjónustu sem að er stefnt með slíkum gjöldum. Ég hef ekki nokkra trú á því, að nokkur sveitarstjórnarmaður mundi fara út í neinn leikaraskap í sambandi við þessa álagningu eða þessa heimild. Ég fer ekki ofan af því, að ég tel að sveitarstjórnum sé treystandi til þess að fara með þá tekjustofna sem þeim eru ætlaðir í lögum. Þeim er best treystandi til þess að fara með þá viðbót sem löggjafinn vill heimila þeim að nota sér, ef þau hafa til þess brýna þörf.

Ég ætla að leiða hjá mér að eiga orðaskipti nú við hv. þm. Friðrik Sophusson, 10. þm. Reykv. Ég geri ráð fyrir því, að tækifæri gefist til þess þegar við förum að ræða fjárlagafrv. á lokastigi. Ég geri ekki ráð fyrir að hann sé frekar fær um það en ég að segja til um það hér á hv. Alþ., hvað gjaldþol gjaldenda í þessu landi er mikið. En hitt get ég sagt honum, að ég er alveg viss um það, að sveitarfélögin eða sveitarstjórnir í landinu eru ekki að bruðla með fjármuni á einn eða neinn hátt. Þær ganga eins skilmerkilega frá sínum framkvæmdum og sínum möguleikum til að veita fólki þjónustu og hægt er innan þess ramma sem lög og reglur setja þeim. Og ég er alveg viss um það, að þeirri aðhaldsstefnu, sem núv. ríkisstj. hefur ákveðið að hafa að leiðarljósi, munu sveitarfélögin eða sveitarstjórnir einnig almennt fylgja.