13.03.1980
Neðri deild: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég held nú að borgarar í þessu landi verði að fara að biðja fyrir sér, ef það er rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að sveitarstjórnirnar ættu að sýna sömu aðhaldssemina í sínum rekstri og ríkisstj. hefur sýnt að hún muni gera. Ég er hræddur um að þá þrengist um hjá mörgum og verði lítið eftir í ráðstöfunartekjur fyrir einstaklinginn, ef þar verður ekki betur haldið á en hjá ríkisvaldinu.

Annars stóð ég nú upp aðallega til þess að láta í ljós undrun mína yfir því, að hæstv. félmrh. skuli ekki grípa tækifærið, þegar hann fær það tilefni frá hv. 10. þm. Reykv., til að gera þingheimi grein fyrir því, hvað við sé átt í málefnasamningnum með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Athuguð verði í þessu sambandi lækkun útsvars af lægstu tekjum, án þess að hlutur sveitarfélaga skerðist.“ Ég held að það sé kominn tími til þess, að helstuforustumenn og talsmenn Alþb., sem hefur haft það að kosningamáli alla sína tíð, fari nú að kveða upp úr um það, hvernig þeir ætli í þessari ríkisstj., sem nýsest er að völdum, að halda vörð um lægst launaða fólkið. Ég sé t.d. að hér á móti mér er einn þm. Alþb., hv. 8. landsk. þm., Guðrún Helgadóttir, og ég geri ráð fyrir að það komi henni jafnmikið á óvart og mér, að ríkisstj. skuli senda frá sér plagg um það, að hún hyggist ekki semja við opinbera starfsmenn fyrr en samningar hafi gengið á hinum frjálsa vinnumarkaði. Hefði maður þó getað vænst þess, þegar Alþb.-maður er sestur í stóli fjmrh., að hann mundi grípa tækifærið, ganga á undan og sýna í verki þá vináttu sem þeir Alþb.-menn hafa á umliðnum áratugum þóst bera í brjósti til verkalýðsins í landinu, launþeganna, ekki síst þeirra sem lægst eru launaðir. En það er nú síður en svo, að þannig blási á þeim bæ. Svar ríkisstj. til opinberra starfsmanna er komið,,þess efnis, að um engar grunnkaupshækkanir verði að ræða á þessu ári. Þeir geta að vísu búist við því að fá einhver réttindi, einhver samningsréttindi sér til handa, en allt skuli það vera á kostnað þess, að kjarabætur verði af þeim teknar. Það á sem sagt að versla við opinbera starfsmenn. Þeir eiga að láta af hendi hluta af launum sínum, hluta af sínum umsömdu kaupkröfum, en fá í staðinn óljós loforð erum eitt og annað í framtíðinni, sem ekki verður betur staðið við — má búast við — heldur en t.d. þann hluta sem sjómenn áttu að bera úr býtum úr félagsmálapakkanum, þar sem við ekkert hefur verið staðið.

Ég held að hæstv. félmrh. eigi nú að sýna það lítillæti að útskýra fyrir þingheimi við hvað hann eigi, þegar hann féllst á það, að í stjórnarsáttmálanum stæði: „Athuguð verði í þessu sambandi lækkun útsvars af lægstu tekjum, án þess að hlutur sveitarfélaganna skerðist,“ — því að hann ber ábyrgð á því sem slíkur gagnvart sveitarfélögunum og gagnvart hinu lægst launaða fólki, að við þetta verði staðið.

Það getur út af fyrir sig verið gott að fá orðakonfekt af og til, en til langframa eru það helst til litlar trakteringar og ekki eitthvað sem menn þakka fyrir eftir á. Þessi þögn hæstv. félmrh. gefur tilefni til þess, að kjaramálin séu tekin hér almennt til umræðu, og það er vissulega bagalegt að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera viðstaddur. Maður gæti þá jafnframt spurt hann um það, hvernig staðan væri í samningsréttarmálunum, hvað það væri sem hann hygðist nú láta opinberum starfsmönnum í té í staðinn fyrir grunnkaupshækkanirnar. Og ég verð að segja í þessu sambandi, að það væri ekki ófróðlegt að heyra eitthvað frá þeim þingmönnum Alþb. tveim, stjórnarmanni BSRB og formanni Verkamannasambandsins, hvað þeim finnst um þá kjararýrnun sem boðuð hefur verið af ríkisstj. með fjárlagafrv., þessum tveim hv. þm. sem á sínum tíma töluðu mest um það á árinu 1978, fyrir tveim árum, að samningunum yrði komið í gildi. Og annar þeirra var svo skáldlegur í því sambandi, að hann talaði um að hann ætlaði ekki að róa með kóngsins mann yfir Skerjafjörð kjaraskerðingarinnar. Síðan hefur hann verið kófsveittur að róa með þá hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds, hæstv, iðnrh. Hjörleif Guttormsson og hæstv. félmrh. Svavar Gestsson. Það mætti segja mér að þeir hafi heitið sjálfum sér því, að þeir skuli hvorki láta skerða hár sitt né skegg fyrr en þeir séu búnir að koma kaupmættinum svo langt niður að við ekkert verði jafnað í sögu lýðveldisins. En þetta held ég að verði sem sagt að liggja ljóst fyrir. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt.

Hér segir enn fremur í stjórnarsáttmálanum, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj. mun leita eftir samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um niðurstöður í kjarasamningum sem geta samrýmst baráttunni gegn verðbólgu og þeirri stefnu stjórnarinnar að jafna lífskjör og bæta kjör hinna lakast settu í þjóðfélaginu.“

Gagnvart opinberum starfsmönnum birtist þetta í því, að kjör þeirra á ekki að bæta að einu eða neinu leyti. Það á engin grunnkaupshækkun að koma til handa þeim sem verst eru settist hjá opinberum starfsmönnum, ef ríkisstj. nær vilja sínum fram. Vitum við þó að ýmsir þar eru ekki allt of sælir og vel haldnir af sínum launum. Og þvílíkur er aumingjadómurinn hjá hæstv. ráðherrum, að það fæst ekki upp úr þeim eitt einasta orð um það, hvernig eigi að rétta hlut þessa fólks gagnvart tekjuútsvarinu, þótt eftir því sé leitað, — ekki eitt einasta orð. Þó man ég ekki betur en það hafi verið á sínum tíma, fyrir síðustu kosningar, höfuðkosningamál Alþb. að ekki skyldi gleymast að rétta hag þessa fólks. Það getur verið ágætt að láta fara vel um sig í ráðherrastólum, en ég er hræddur um að það verði létt í vasa hjá þeim sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Og við sjáum það, ef við hugsum t.d. stöðu atvinnuveganna, að það er ekki allt of mikið hugsað um ýmsa þætti þeirra mála. Hvernig er t.d. komið fyrir ullariðnaðinum? Og hvað ætlar ríkisstj. að gera í því?

En svo er bara á hverjum einasta degi komið hingað inn á hið háa Alþingi og kastað inn frv. á frv. ofan um það, að í dag eigi að hækka álögurnar svona mikið og á morgun enn þá meira. Svo er boðað að nýir skattar eigi að koma sem séu utan við fjárlög. Og áfram á að þyngja skattbyrðina í landinu. Þjóðartekjurnar fara minnkandi og við verðum í heild að láta okkur nægja minna. Allir nema hver? Allir nema ríkið — ríkishítin. Hún tekur meira og meira til sín, vegna þess að þeir menn, sem nú fara með landsstjórnina, kunna ekki með hana að fara og hafa ekki metnað til þess að gæta þess hófs í útgjöldum, sem þjóðin öll verður að gæta ef hún á að komast af, og þeir, sem stjórna atvinnuvegunum, verða að gæta.

Við höfum líka séð það á undanförnum dögum, að sumir hæstv. ráðherrar eru býsna kröfuharðir um það, að nauðsynlegt sé að opinberar stofnanir fái svo og svo miklar hækkanir til þess að þær geti borið sig. En um leið og þetta er gefið eftir, þá er boðað að það eigi að setjast á atvinnureksturinn í landinu og gera honum enn örðugra en ella að komast úr þeirri sjálfheldu sem síðasta ár hefur komið honum í.

Í þessu sambandi er kannske athyglisvert að lesa það eftir hæstv. iðnrh., að hann er að býsnast yfir því, að á öllu síðasta ári skyldi Hitaveita Reykjavíkur hafa setið eftir með sínar hækkanir, vegna þess að sú gjaldskrá væri í vísitölunni, þess vegna hefði ekki mátt hækka hitaveituna í Reykjavik. í barnaskap mínum skildi ég þetta þannig, að hæstv. ráðh. ætlaði kannske að beita sér fyrir því, að launþegar fengju þann hluta tekna sinna bættan sem þannig hefur ranglega verið frá þeim tekinn, því að þetta þýðir að sjálfsögðu mikla kjaraskerðingu fyrir allt fólk í landinu, einkum og sér í lagi í hans kjördæmi, þar sem svo hefur verið látið líta út sem húshitunarkostnaðurinn hafi verið hér um bil óhreyfður á sama tíma og hann hefur margfaldast, ekki síst á olíusvæðunum. Nema það sé kannske meiningin, að nú eigi að leiðrétta þetta með hitaveituna, og þar sem talað er um að endurskoða eigi vísitölugrundvöllinn, þá sé átt við það, að koma eigi hitaveitunni hér í Reykjavík upp án þess að launþegar fái eina einustu krónu í vasann, þannig eigi í þetta skipti að fara aftan að launþegum í landinu. Maður er orðinn ýmsu vanur. Maður hélt kannske í fyrra, þegar þeir lækkuðu almenn laun í landinu um 2% frá árinu 1979, en hækkuðu um leið skattana þó þeir hefðu lofað að lækka þá, að þeir mundu kannske reyna að standa við það á þessu ári, vegna þess að þessir tveir verkalýðsleiðtogar eru nú komnir í hópinn, 7. þm. Reykv. og hv. 8. landsk. þm., — að þá mundu þeir kannske sjá um að við fyrirheitið um lækkaða skatta yrði staðið núna, þó seint sé, án þess að launþegar þyrftu að færa til þess nýjar fórnir, og fara að standa við þetta lítilræði frá því í fyrra, að lækka beinu skattana. Það er líka í samræmi við stefnu Alþýðusambands Íslands. Svo finnst mér líka að ríkisstj. vinnandi stétta sé ekkert of góð til þess að sýna vináttu sína í verki einstaka sinnum. En það er náttúrlega ekki við því að búast, að við nokkuð af þessu tagi verði staðið. Ég vil ítreka þetta með útsvarið, þá fsp. til hæstv. félmrh., sem um þetta leyti fyrir einu ári stóð hér í þessum stól — ég man nú ekki hvort það var nákvæmlega 14. mars — og hrósaði sér af því að hafa komið verðbólgunni niður í 20% á síðustu þrem mánuðum. Nú er búið að reikna hana út yfir árið í heild, hún fór yfir 60%. Það hefur verið rösklega haldið á síðustu mánuðina. Það má nú segja. Hann þóttist þá hafa fundið upp „patentið.“ Ég er hræddastur við það, að hann muni lýsa því yfir núna að hann sé búinn að koma henni niður í 10%, því þá veit ég að hún fer upp í 120%, því það er nú þannig, að þegar hann talar um peningamál, fyrrv. viðskrh., þá fer nú fyrst allt úr böndunum.

Sem sagt, ég ítreka þessa fsp., hvernig hann ætli að haga sér í sambandi við lækkun útsvars af lægstu tekjum, án þess að hlutur sveitarfélaganna skerðist.