13.03.1980
Neðri deild: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. talaði um stöðu sveitarfélaganna, og ég er sammála honum í því, að það þarf að bæta hana. Það hefði þurft að gera fyrir alllögnu. Hann talar um aukin verkefni sveitarfélaganna. Það er vissulega rétt, en þó er það ekki nema sáralítið brot, sem þau kosta sveitarfélögin, miðað við það sem verðbólgan kostar þau. Það var komið nokkuð til móts við sveitarfélögin með því að þau fengu 8% hlutdeild í þeim 2 prósentustigum í aukasöluskatti sem lagður var á s.l. sumar. Það ætlaði ekki að ganga vel, en það fékkst þó í gegn á endanum. Þau fá 8% af aukasöluskattinum, og þar með má segja að það hafi verið bætt úr því, sem þáv. ríkisstj. var búin að leggja aukalega á sveitarfélögin.

Hv. 1. þm. Vesturl. segir að ég hafi sem félmrh. fengið mörg tilmæli frá Sambandi ísl. sveitarfélaga um að bæta stöðu sveitarfélaganna. Það er alveg laukrétt, ég fékk það. Hann segir líka, að það hafi verið Alþfl. að kenna að það náðist ekki í gegn. Þetta er algjörlega rangt. Ég lagði það iðulega til í fyrrv. ríkisstj., í ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, að þau fengju heimild til tólfta prósentsins. Það var ekki Alþfl. sem stöðvaði það. Það reyndi aldrei á það hér á Alþ., vegna þess að það var Framsfl. í ríkisstj. sem stöðvaði málið, einkum þó fjmrh., því allt í einu, þegar var farið að tala um sveitarfélögin, mátti ekki undir neinum kringumstæðum hækka skatta. Þá var komið nóg. Það var því fjmrh. og flokkur hans í þeirri ríkisstj. sem stöðvaði allar umbætur í þessa átt. Það reyndi aldrei á það, hvort Alþfl. mundi styðja það eða ekki. Það reyndi aldrei á fylgi hans við þessi mál hér á Alþingi.

Sami hv. þm. segir að þessi heimildarhækkun sé skilyrt. Hún er ekki meira skilyrt en svo, að það er verið að tala um áætluð útgjöld, þ.e. það sem menn setja í fjárhagsáætlun. Það getur hver sem er sett hvaða tölu sem er inn í fjárhagsáætlun. Aftur á móti voru skilyrði í mínum hugmyndum um það, að það væru nauðsynleg útgjöld og ráðherra yrði þá að meta í hvert skipti hvort þau væru raunverulega nauðsynleg.

Hv. 1. þm. Vesturl. sagði að þetta væri veigamikið mál, till. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Það má vel vera að svo sé. En honum finnst það ekki veigamikið mál þó að lagðir séu 5 milljarðar aukalega á landsmenn án þess að nokkuð komi þar á móti.

Það hefur verið minnst á stjórnarsáttmálann og hvað hann segir um lægri laun. Þetta á að standa við með því, ef þessi brtt. verður samþykkt, að hjón með 900 þús. kr. tekjur fá 60% hækkun á útsvari, hjón með 1 milljón 42% hækkun, hjón með 2 milljónir 16.2% hækkun. Svona er staðið við það að lækka útsvar af lægstu tekjum. Svo lækkar þetta ofan í 10.8% við 10 milljón kr. tekjur. Svipað er að segja um einstaklinga. Þetta er nú allt sem gert er til þess að efna þetta loforð.

Þá er spurningin, úr því að ég var tilbúinn að samþykkja 12% álagningu fyrir ári, hvers vegna það getur ekki gengið núna eða hvers vegna það kannske liggur ekki alveg beint við að gera það núna. Það er vegna þess, að ríkissjóður hefur tekið til sín miklu meiri hlut en hann gerði þá. Okkur er sagt núna að skattar eigi ekki að hækka, tekjuskattar eigi ekki að hækka á einstaklinga, það eigi að vera sama hlutfall og áður var. Ég skil ekki hvernig það má verða, þegar tekjur á árinu 1979 hækkuðu um 45% eða liðlega það frá árinu 1978, en tekjuskattur á einstaklinga á að hækka um 65.1%. Ég veit ekki hvernig það má verða án þess að heildarhækkun verði á skattlagningu.

Ég er sammála því sem fram hefur komið og kom m.a. fram hjá 1. þm. Vesturl., að það er auðvitað nauðsynlegt að bæta stöðu sveitarfélaganna. Það er líka rétt hjá honum, að það eru ekki nema 7.5, og reyndar tæplega 7.5% sem nýtast af þessum 11% fyrir sveitarfélögin miðað við 50% verðbólgu. Það er reyndar nær 7.2%, þannig að þar þarf fyrst og fremst að leita úrlausnar.

Ef þessi till. verður samþykkt, þá þyrfti hún ekki að vera í gildi nema í eitt ár, bara þetta eina ár, þ.e. árið 1980, vegna þess að verðbólgan á að fara ört lækkandi, og auk þess væri upplagt og sjálfsagt, ef tekin yrði um það ákvörðun núna strax eða fljótlega, að breyta útsvarsinnheimtunni yfir í staðgreiðslu um næstu áramót. Það er vel hægt, ef tekin er um það ákvörðun strax, því hún er afskaplega auðveld, útsvarið er mjög auðvelt að innheimta með staðgreiðslu.

Með þessari till. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur er gerð tilraun til þess að færa á milli ríkis og sveitarfélaga. Það er alltaf verið að tala um að sveitarfélögin hafi tekið á sig álögur og ríkissjóður sloppið. Þarna er verið að gera tilraun til þess að færa þar nokkuð á móti. Ef sú till. verður felld, þá mun ég við 3. umr. um þetta mál bera fram till. sem hlífir þeim sem lægstar hafa tekjurnar, að þeir fái ekki þessa hækkun, heldur nokkra lækkun, reyna að ganga þar svolítið í átt til þess sem lofað er í stjórnarsáttmálanum, en stjórnarflokkarnir eru staðráðnir í að svíkja, að því er virðist. Ég mun þá bera fram till. sem gengur í þá átt að draga úr hækkunum hjá þeim lægra launuðu og koma í veg fyrir þær hjá þeim lægst launuðu, án þess að ávinningur sveitarfélaganna af þessu tólfta prósenti, ef það verður samþykkt, breytist — eða án þess að þau tapi verlega við þá breytingu sem ég ætla að leggja til.