13.03.1980
Neðri deild: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Í umræðunum fyrr í dag kom fram að samstaða er um það í meginatriðum hér í hv. þd. að aðlaga tekjustofnalögin hinum nýju lögum um tekjuskatt og eignarskatt, sem hafa verið til afgreiðslu á hv. Alþ. á undanförnum vikum og mánuðum. Ágreiningur er um það, hversu langt á að ganga til móts við sveitarfélögin varðandi ítrekaðar kröfur þeirra og óskir á undanförnum árum um að tekjustofnar þeirra verði verðtryggðir. Í ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, sem kölluð var vinstri stjórn, var uppi tillöguflutningur í þá átt að verðtryggja í rauninni útsvarið alveg, þannig að ef verðbólga næstliðna tólf mánuði hefði verið 20%, ef ég man rétt, þá skyldi heimilt að bæta einu prósenti við útsvarið, ef verðbólga næstliðna tólf mánuði hefði verið 40%, þá skyldi heimilt að bæta enn við einu prósenti eða tveimur prósentum þá alls. Um þessi mál var talsvert rætt í tíð þeirrar ríkisstj., en ekkert var aðhafst.

Nú gerist það hér á hv. Alþ., að meiri hluti félmn. flytur till. um að heimilt verði fyrir sveitarstjórnirnar að óska eftir hækkun á útsvari um 10% ef ákveðnum skilyrðum er fullnægt. Með þessum hætti er komið nokkuð til móts við óskir sveitarfélaganna, en hvergi nærri orðið að fullu við óskum þeirra um verðtryggingu á þeirra tekjustofnum. Á undanförnum árum hefur það verið að gerast, að sveitarfélögin hafa í vaxandi mæli verið að taka hærri útsvarsprósentu. Er nú svo komið, að nær öll sveitarfélög í landinu og allir kaupstaðir nema einn nota ellefu prósentin að fullu. Og það er verulega erfitt fyrir sveitarfélögin að komast af með þessi 11% í þeirri miklu verðbólgu sem hér hefur verið. Þetta viðurkenna allir sanngjarnir menn, í hvaða stjórnmálaflokki sem þeir eru, og af þeim ástæðum er sú till. flutt sem hér veldur einna mestum deilum.

Í málefnasamningi núv. ríkisstj. er ákvæði um málefni sveitarfélaganna. Þar segir svo:

Ríkisstj. telur nauðsynlegt að styrkja fjárhag sveitarfélaga til að gera þeim kleift að ráða við þau mörgu verkefni sem þeim ber að sinna. Haldið verði áfram endurskoðun verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga.“

Ég tel að þessi. tillöguflutningur af hálfu meiri hl. félmn. sé í ákaflega góðu samræmi við fyrri hlutann í þessari mgr. í stjórnarsáttmálanum sem fjallar um fjárhagsmál sveitarfélaganna. Varðandi síðari hluta þessa ákvæðis stjórnarsáttmálans vil ég geta þess, að tekin hefur verið ákvörðun um það, að sú nefnd, sem starfar að endurskoðun á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, ljúki störfum fyrir næstu áramót. Hún hefur nú skilað tveimur hlutum álits síns, annars vegar grundvallarsjónarmiðum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem skilað var í apríl 1978, og hins vegar tillögum sínum um stjórnsýslukerfið, sem skilað var í jan. 1980. Ég verð var við það, að meðal sveitarstjórnarmanna er mikill áhugi á þessu verki, og í samræmi við það hefur sú ákvörðun verið tekin, að nefndin hraði sínum störfum og skili áliti fyrir næstu áramót.

Í þessum umræðum hefur nokkuð verið vikið að stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. og þá einkum tölul. 2 b á bls. 4 í því kveri, sem gefið hefur verið út með sáttmála þessum, en þar stendur orðrétt eftirfarandi:

„Athuguð verði í þessu sambandi lækkun útsvars af lægstu tekjum, án þess að hlutur sveitarfélaga skerðist.“ Til þessa hefur nokkuð verið vitnað og sumir hv. þm. hafa verið með ákaflega málefnalegar athugasemdir um þetta mál, eins og þeir eru vanir, og ætla ég ekki að fara að skattyrðast við þá hér, vegna þess að einhverjir þeirra eru nú líka fjarverandi. En meginatriðið í þessum efnum er það, að þau ákvæði, sem hér eru í tölul. 2 í málefnasamningi núv. ríkisstj., eru yfirlýsingar sem ríkisstj. gefur til þess að draga úr almennum peningalaunahækkunum í tengslum við gerð kjarasamninga. Það er ekki ætlun ríkisstj. að útfæra þessi atriði, þessar yfirlýsingar, í einstökum atriðum nema í tengslum við gerð hugsanlegra kjarasamninga, nema þau atriði sem eru undir tölul. e að því er varðar löggjöf um starfsumhverfi og aðbúnað á vinnustöðum, en fyrir hv. Alþ. hefur legið um hríð frv. til l. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og hefur núv. ríkisstj. og aðildarflokkar hennar tekið ákvörðun um að því máli verði flýtt á yfirstandandi Alþingi.

Mér finnst að í þessum umræðum hafi menn gleymt því hins vegar varðandi útsvarið, að meginatriðið í sambandi við útsvar á lægstu tekjur kemur fram í 68. gr. laga um tekju- og eignarskatt, þ.e. hve stór hluti af persónuafslætti er notaður til þess að greiða upp í útsvar. Þannig hefur þetta ævinlega verið, að sú hliðin, sem að gjaldendunum snýr, hefur frá því að núverandi tekjustofnakerfi var tekið upp verið leyst í gegnum tekjuskattslögin sjálf og persónuafsláttinn. 68. gr. hinna nýju laga um tekjuskatt og eignarskatt hljóðar svo mönnum til glöggvunar:

„Nemi persónuafsláttur samkv. 1. mgr. hærri fjárhæð en reiknaður skattur af tekjuskattsstofni samkv. 1. málslið 1. mgr. 67. gr., skal ríkissjóður leggja fram fé sem nemur allt að þeim mun og skal því ráðstafað fyrir hvern mann til að greiða útsvar hans, kirkjugarðsgjald og sóknargjald á skattárinu. Sá persónuafsláttur, sem enn er óráðstafað, fellur niður, nema um sé að ræða óráðstafaðan persónuaflátt annars hjóna, sem skattlagt er samkv. 63. gr., og skal þá þessi óráðstafaði hluti persónuafsláttar makans dragast frá reiknuðum skatti hins makans. Nemi þannig ákvarðaður persónuafsláttur síðarnefnda makans í heild hærri fjárhæð en reiknaður skattur af tekjuskattsstofni hans samkv. 1. málslið 1. mgr. 67. gr., skal ríkissjóður leggja fram fé sem nemur allt að þeim mun til að greiða útsvar hans, kirkjugarðsgjald og sóknargjald á árinu.“

Hér er auðvitað um að ræða meginatriði, þegar verið er að athuga að hve miklu leyti útsvör komi við gjaldendur, hvernig persónuafslátturinn kemur út. Það er meginatriði og þess vegna verða menn að skoða tekjustofnalögin og tekjuskattslögin í samhengi. Það er ekki hægt, eins og hv. 5. þm. Suðurl. gerði áðan, að taka tekjustofnalögin ein alveg út úr. Það verður að skoða persónuafsláttarhliðina á málinu líka. Hvernig lítur hún þá út samkv. hinu nýja skattakerfi sem nú er verið að taka upp? Hvað er það mikið sem greitt er upp í útsvar af ónýttum persónuafslætti samkv. þeim áætlunum sem fyrir liggja?

Ef við lítum aðeins til baka til ársins 1978, þá kemur fram að ónýttur persónuafsláttur upp í útsvar nam einum milljarði kr., nákvæmlega 1031 millj. kr. Þá nam álagt útsvar um 20.7 milljörðum kr. Það var sem sagt rétt um 1/20 sem kom þarna til baka í gegnum persónuafsláttinn. Á árinu 1979, á því ári þegar við, ég og hv. 5. þm. Suðurl., sátum saman í ríkisstj., leit þetta þannig út, að heildarútsvarsálagningin á árinu 1979 nemur 33.5 milljörðum kr. samkv. nýlegri skýrslu sem lögð hefur verið fram í félmrn., en ónýttur persónuafsláttur upp í þetta útsvar, þar sem ríkið í raun og veru kemur á móti, nam 1.6 milljörðum kr. Það er 1.6 milljarðar á móti 33.5 milljörðum kr. Hvað er að gerast hins vegar nú? Samkv. þeim skattalögum, sem Alþ. hefur nýlega samþ., eru hjón sérsköttuð. Og þar sem um er að ræða hjón kemur í þeirra hlut tvöfaldur persónuafsláttur nú í stað 150% í raun áður. Hvernig lítur þá þetta út nú árið 1980 — samkv. áætlunum, skal tekið fram, og auðvitað geta þær aldrei verið 100% nákvæmar? Samkv. áætlunum er talið að sú hækkun, sem hér er verið að tala um á útsvarinu, nemi um 4.5 milljörðum kr. yfir landið, ef hún er nýtt að fullu, að mig minnir. (Gripið fram í: 5.1.) Er það nýtt að fullu? Ef það er rétt hjá hv. þm., þá skal ég miða við það, 5.1 milljarður kr., skulum við segja. En ónýttur persónuafsláttur upp í útsvar á þessu ári vegna skattkerfisbreytingarinnar tvöfaldast frá því sem verið hefði að óbreyttum skattalögum. Hann hefði að óbreyttum skattalögum verið 2.3 milljarðar kr., en verður, vegna skattkerfisbreytingarinnar auðvitað fyrst og fremst, milli 4 og 4.5 milljarðar kr. Ég get ekki nefnt nákvæmari tölur, vegna þess að þær geta ekki legið fyrir fyrr en álagning hefur farið fram. (HBI: Liggur þá skattstiginn fyrir? Er þá hægt að gefa upplýsingar um skattstigann?) Það liggur sem sagt fyrir og það er rétt að upplýsa hv. þm. um það, að ég er hér að fjalla um hluti sem verið er að ræða um á vettvangi ríkisstj., og ég vænti þess, að næstu daga verði hér lagt fram stjfrv. um skattstigana. Ég vænti þess. En miðað við það er hér um að ræða verulega hækkun á ónýttum persónuafslætti upp í útsvar. Og jafnvel þó að lítið hefði í rauninni gerst annað en kerfisbreytingin sjálf, þá hefði þarna átt sér stað hækkun. Jafnvel þó að tilfærsla hefði ekki orðið á frádráttartölunum á milli ára, þá hefði þarna átt sér stað hækkun, það geta menn sagt sér sjálfir, þannig, að af þessum 5 milljörðum kr., sem hér er rætt um af hv. þm. Karvel Pálmasyni, sem kann að vera rétt, ég hef ekki skoðað þær tölur nýlega, segjum það, þá skilast til baka í gegnum persónuafsláttarkerfi 1.5–2 milljarðar kr. frá því sem verið hefði að óbreyttum skattalögum. Það er þetta grundvallaratriði sem menn þurfa að hafa í huga, bæði að við erum að ganga hér inn í skattkerfisbreytingu, sem hefur þessar afleiðingar, og líka hitt, að sveitarfélögin í landinu eru að verða að heita má í spennitreyju tekjulega séð. (Gripið fram í.) Það er minni og minni hluti af tekjum sveitarfélaganna sem hægt er að fá til þess að verja til eignahreyfinga og framkvæmda. — Vildi hæstv. forseti reyna að þagga niður í virðulegum ritara sínum?

Þessi meginatriði bið ég menn að hafa í huga, og þess vegna finnst mér nauðsynlegt að menn skoði þessi mál málefnalega og í heild. Það er ekki hægt að taka tekjustofnahliðina út úr þessu án þess að virða um leið fyrir sér persónuafslátt inn í tekjuskattslögunum. (HBI: Og hvað er hann hár?) Það er grundvallaratriði. (Forseti: Ekkert samtal.) Þess vegna vil ég leggja á það áherslu, að menn hér meti þessa hluti af málefnalegri sanngirni, líkt og gert hefur verið hér í umr. í dag að heita má af öllum ræðumönnum og þó kannske alveg sérstaklega af hv. 7. landsk. þm., þar sem málefnaleg afstaða og heildarsýn til málanna kom betur fram en í nokkurri annarri ræðu jafnvel hér í dag og er þá langt til jafnað. En 7. landsk. — til glöggvunar — er hv. þm. Halldór Blöndal.

Ég tel nauðsynlegt fyrir hv. Alþ. að hafa þetta í huga. Ég ætlaði ekki að koma hingað upp til að skattyrðast við menn. Ég ætlaði að koma hingað upp fyrst og fremst til þess að reyna að glöggva þessa mynd sem við verðum að hafa fyrir framan okkur.

Varðandi sveitarfélögin vil ég segja það, að sveitarstjórnirnar eru lýðræðislega kjörnir stjórnendur umræddra stjórnsýslueininga og það á að vera hægt að treysta þessum aðilum til ákvarðana í umboði sinna kjósenda. Ég tel rangt að reyra sveitarfélögin í spennitreyju valdboða og ákvarðana að því tagi sem þrengir mjög verulega þeirra starfssvið. Þess vegna get ég fyrir mitt leyti fallist á að auka möguleika sveitarfélaganna til ákvarðana, eins og gert er með þessu frv. Og ég er þeirrar skoðunar, að aukið svigrúm sveitarfélaganna sé í rauninni mikilvægt skref til þess að treysta lýðræðislega ákvarðanatöku í landinu. Með þetta allt í huga vænti ég þess, að hv. Nd. Alþingis afgreiði þegar á þessum sólarhring það frv. sem hér liggur fyrir.