13.03.1980
Neðri deild: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil strax taka það fram, að ég er samþykkur þeim breytingum, sem fram koma hjá hv. félmn., á því frv. sem hér liggur fyrir um breytingu á tekjustofnalögunum. Ég kveð mér hér hljóðs fyrst og fremst út af því ágreiningsefni sem rætt hefur verið um hér í dag, þ.e. þeirri brtt. sem meiri hl. hv. félmn. þessarar d. flytur eða fjórir þm. úr þeirri n., þess efnis, að sveitarstjórn sé heimilt að hækka 11% útsvarsstigann um 10% að fengnu samþykki ráðh., þannig að útsvarsálagningin verði þá 12.1%.

Þessi brtt. er hér flutt í nafni sjálfstæðis sveitarfélaga, það sé nauðsynlegt að treysta sveitarfélögin, efla sjálfstæði þeirra og gefa þeim færi á að sinna þeim verkefnum sem þau hafa með höndum.

Ég vil minna á í þessu sambandi, að sjálfstæði sveitarfélaga er að sjálfsögðu tvíþætt. Það er annars vegar hvaða verkefni sveitarfélögin hafa með höndum, hvað það er sem þeim er falið að gera af hálfu ríkisins og hvað þau reyna að taka upp hjá sjálfum sér innan þeirra ramma, sem þeim eru settir, hins vegar hvaða möguleika sveitarfélögin hafa til tekjuöflunar.

Þessir tveir þættir hafa verið til endurskoðunar lengi. En ég er þeirrar skoðunar, að á þessa tvo þætti verði að líta í samhengi. Það er ekki hægt að mínu mati að skilja þarna á milli og krukka nú í þetta mál með því að taka út einn hluta af tekjum sveitarfélaga, hækka hann eins og hér er gerð tillaga um. Þetta verður að fylgjast að. Ég fagnaði því mjög, þegar fram kom hjá hæstv. félmrh. yfirlýsing um það, að því starfi, sem tekið hefur langan tíma, að endurskoða verkefnaskiptingu og tekjuöflunarskiptingu ríkis og sveitarfélaga muni ljúka á þessu ári. Og það styður að mínu mati mjög að því, að það, sem gert er til þess að koma til móts við sveitarfélögin núna, verði bráðabirgðaaðgerð, verði aðgerð sem eingöngu eigi að gilda á þessu ári, en ekki að festa til langframa hækkaðan útsvarsstiga. Það segi ég að sjálfsögðu líka í trausti þess að hæstv. ríkisstj. takist að koma niður verðbólgunni, eins og hún hefur lýst yfir, því ein meginrök þeirra, sem vilja hækka útsvarstigann nú, eru einmitt þau, að verðbólgan hafi leikið sveitarfélögin grátt.

Mikið er um það talað, að halda verði uppi raungildi tekna sveitarfélaga. Það er líka um það talað, að halda verði uppi raungildi tekna ríkisins. Ríkið seilist því æ lengra ofan í vasa skattborgaranna með auknum sköttum í margvíslegu formi og þar er sýnt hið mesta hugvit í slíkum tillögum. En hvað með raungildi tekna almennings? Sannleikurinn er sá, að maður verður allt of sjaldan var við það hér á hv. Alþ., að nokkrum manni detti í hug að tala hér um raungildi tekna almennings. Það liggur ljóst fyrir og um það eru skriflegar yfirlýsingar í sambandi við fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir, að kaupmáttur tekna fjölskyldna í landinu hafi rýrnað. Ég vil leyfa mér að vitna í skjal sem Þjóðhagsstofnun hefur látið frá sér fara og fjvn. fékk við samningu fjárlaga til að styðjast við sem eina af þeim forsendum sem þetta fjárlagafrv. er byggt á. Þar segir, með leyfi forseta:

„Versnandi viðskiptakjör hafa m.a. leitt til þess, að kaupmáttur kauptaxta er á fyrsta fjórðungi 1980 3 – 4% minni en ársmeðaltalið 1979. Forsendur tekjuáætlunar um kauplag og verðlag, sem reistar eru á áætlunum um hækkun verðlags og launa á fyrri hluta ársins, fela í sér að kaupmáttur kauptaxta verði 3 – 4% minni í ár en að meðaltali 1979. Sé gert ráð fyrir að bætur lífeyristrygginga hækki nokkru meira en kauptaxtar og beinir skattar verði svipaðir sem hlutfall af tekjum á árinu 1979, eins og meðfylgjandi áætlun um beina skatta einstaklinga felur í sér, yrði kaupmáttur ráðstöfunartekna í ár nokkru minni en 1979 og mætti því búast við að heldur dragi úr einkaneyslu.“

Þetta kemur og óbeint fram í fjárlagafrv. sjálfu eða í þeim prentuðu aths. sem því fylgja, en þar segir um eina meginforsendu frv., að laun muni hækka að meðaltali um 42% og innlent verðlag að meðaltali um 46.5% milli áranna 1979 og 1980. Það er því alveg ljóst, að hér erum við að tala um minnkandi rauntekjur almennings í landinu, að tekjur þess fólks t.d., sem Guðmundur J. Guðmundsson, hv. 7. þm. Reykv., berst fyrir, a.m.k. utan þingsala, að kaupmáttur tekna þess fólks er að rýrna. En nú kemur hann hins vegar á hv. Alþ. með tillögu á þeirri forsendu að kaupmáttur eða rauntekjur sveitarfélaganna séu að rýrna og þess vegna sé nauðsynlegt að hækka skatta á þessum sama almenningi, sem býr nú við rýrnandi kaupmátt, til þess að sveitarfélögin geti haldið sínu.

Sannleikurinn er sá, að það er ekki endalaust hægt að vega í þennan knérunn, að hækka stöðugt skatta á almenningi eftir þörfum þeirra stjórnmálamanna sem ýmist stjórna hér á hv. Alþ. eða í sveitarstjórnum. Ég tel mig þekkja sveitarstjórnarmál allmikið, hef setið í sveitarstjórn síðan 1962, og ég vil leyfa mér að fullyrða að það er vel hægt að stjórna sveitarfélagi svo að vel fari, halda uppi eðlilegri þjónustu og eðlilegum framkvæmdum án þess að fara í það að hækka útsvar umfram það sem núgildandi lög leyfa. Og jafnframt því sem við erum að tala hér um hækkun á tekjum sveitarfélaga, auknar skattálögur á íbúa sveitarfélaganna til þess að koma til móts við þau, þá er í því fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir boðuð stórkostleg hækkun á öðrum sköttum sem ríkið innheimtir. Ég tel að það sé útilokað að skilja þetta mál frá því dæmi, sem við hér á hv. Alþ. hljótum að fá til okkar innan skamms, þ.e. hver verður heildarskattlagning á allan almenning í landinu, bæði í beinum og óbeinum sköttum. Skattstigar eru ósamþykktir og ræða hæstv. félmrh. hér áðan sannfærði mig meira en nokkuð annað um það, að útilokað er og í rauninni lítilsvirðing við hv. Alþ. að ætlast til þess, að þetta frv. verði nú keyrt í gegn án þess að við fáum heildarmynd af skattlagningu í landinu.

Hæstv. félmrh. var hér með dæmi um, hvernig álagning tekjuskatts mundi verða, og það án þess að við hér á hv. Alþ. höfum fengið nokkuð í hendurnar varðandi skattstiga, hver verði persónufrádráttur og þar fram eftir götunum. Ræða hans er því meiri sönnun, meiri vísbending en nokkuð annað um það, að það er ófært og það er ekki verjandi að keyra þetta frv. í gegnum Alþ. án þess að heildarmynd skattlagningar í landinu liggi fyrir. Og ég fer eindregið fram á það, að því máli verði stýrt hér á þann veg á hv. Alþ. þm. geti fengið fyrir framan sig heildarmynd af því, hvernig landsmenn verði skattlagðir, því það skiptir ekki máli, þegar menn fara hér niður í Gjaldheimtu og greiða gjaldheimtuseðilinn sinn, hvernig ríki og sveitarfélög skipta þessu svo milli sín eftir á. Það sem máli skiptir, er hvernig almenningur í landinu er í stakk búinn til þess að greiða þá skatta sem á hann eru lagðir, og ég held — miðað við þær forsendur sem ég gat um áðan og koma fram í fjárlagafrv. — að fólkið í landinu sé ekki nógu vel í stakk búið til þess að taka á sig stórkostlegar skattahækkanir.

Hv. 10. landsk. þm., Jóhanna Sigurðardóttir, hefur flutt till. þess efnis, að tekjur Jöfnunarsjóðs verði hækkaðar með því að auka hlut þess sjóðs í söluskattsinnheimtu og því fjármagni verði á þessu ári dreift til þeirra sveitarfélaga sem sannanlega eru í fjárhagsvandræðum og þurfa á auknum tekjum að halda. Ég veit ekki hvaða sveitarfélög það eru, en vafalaust eru það einhver, þó að ég haldi reyndar að það séu ekki þau sveitarfélög sem nú virðast ætla að gerast hvað frekust til fjárins. En mér finnst þessi till. mjög athyglisverð og með því ætti að vera tryggt að þau sveitarfélög, sem raunverulega þurfa þess með, fengju aðstoð að þessu leyti. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að þessi till. fái ítarlega meðferð. Og ég styð þá hugmynd og tilmæli sem fram komu hjá hv. 10. þm. Reykv., Friðrik Sophussyni, hér áðan þess efnis, að þessari umr. verði frestað, en félmn. þessarar hv. d. fái færi á að skoða þessa till., átta sig á hvað hún raunverulega felur í sér, áður en endanleg afstaða verði tekin til hennar og áður en þessari umr. lýkur um þetta mál.

Sannleikurinn er sá, að þegar talað er um fjárþörf sveitarfélaganna, þá er reynslan oft sú að mikið vill meira. Ég óttast að þau sveitarfélög, sem að mínu mati hafa þegar gengið of langt í skattheimtu á sína íbúa, muni strax notfæra sér heimildina til að hækka útsvar úr 11% í 12.1%. Ég á hér t.d. við borgarstjórn Reykjavíkur. Það hefur verið mikill pólitískur ágreiningur innan borgarstjórnar Reykjavíkur um þá skattheimtu sem þegar hefur þar átt sér stað. Það gerðist þar árið 1979, að álagningarreglur voru allar hækkaðar frá því sem gilt hafði um árabil, bæði fasteignagjöld og aðstöðugjöld, en það eru þeir tekjustofnar sem hvað drýgst gefa fyrir utan útsvörin, og í ár nemur þessi hækkun, þessi mismunur, 2.6 milljörðum kr., sem Reykvíkingar greiða umfram það sem þeir hefðu þurft ef eldri álagningarreglur hefðu verið í gildi. Um þetta var pólitískur ágreiningur og er. Sú till., sem hér liggur fyrir, mundi hafa í för með sér 2 milljarða auknar skattálögur á Reykvíkinga ef borgarstjórn Reykjavíkur mundi, vilja notfæra sér þetta, og ég er alveg viss um og sannfærður um það, að sá meiri hluti, sem nú ræður ríkjum, mun notfæra sér þetta. Hann hefur reyndar þegar lagt á þunga pressu að þetta verði sett í lög, þannig að hægt sé tafarlaust að hækka útsvörin og hrifsa til sín eins mikið og lög frekast leyfa af skattpeningum borgarbúa. Málið er nefnilega ekki eins einfalt og það er sett fram hér, að annars vegar standi illa haldnar sveitarstjórnir með mikla fjárþörf í hendi sameinaðar og hins vegar við hér á hv. Alþ. sem eigum að samþykkja þá till. sem hér liggur fyrir. Fjárþörf sveitarfélaganna er mjög misjöfn og því miður er reynslan sú, að þau, sem frekust hafa verið til fjárins hingað til, eru líklegust til þess að íþyngja sínum skattborgurum með þessari skattheimtu ef hún yrði að lögum.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, að mér finnst ekki ná nokkurri átt að ætla sér að að afgreiða þetta frv. án þess að heildarskattbyrði landsmanna liggi fyrir og lög um skattstiga og annað sem því fylgi verð lagt hér fram á hv. Alþ., þannig að menn geti skoðað það betur. Og mér finnst till. hv. 10. landsk. þm., Jóhönnu Sigurðardóttur, svo athyglisverð að það sé nauðsynlegt er að hún fái góða meðferð og skoðun í þessari hv. deild.