13.03.1980
Neðri deild: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég mun ekki taka þátt í því með hv. síðasta ræðumanni að verja stjórnarsáttmálann eða gerðir hæstv. núv. ríkisstj. og enn síður að reyna að koma þeim upp af þeim fleti, sem hv. þm. taldi hann vera á, fleti hinnar bersyndugu og föllnu konu. Það verða þeir sjálfir að gera og verður erfitt fyrir a.m.k. mig að hjálpa til við það. Ég hafði ekki ætlað mér að tala langt mál um frv. og þær till. sem hér liggja fyrir, vegna þess að það hefur komið fram, að við sjálfstæðismenn erum samþykkir þeim breytingum á frv. sem félmn. stendur að. Hins vegar hafa þær umr., sem orðið hafa í dag um brtt. tvær, sem hér liggja fyrir, og málið í heild, valdið því, að ég tel ástæðu til þess að segja nokkur orð um leið og ég ætla að kynna munnlega brtt. við brtt. hv. 10. landsk. þm.

Ræða hæstv. félmrh. gaf ástæðu til þess að ræða nokkru frekar í framhaldi af því máli, sem hv. 7. landsk. þm. hóf hér að ræðum fyrr í dag, það samband sem er á milli þeirrar skattlagningar, sem við erum nú að ræða um og höfum verið að samþykkja á Alþ. síðustu daga og fram undan er að ræða, og hinna almennu kjaramála þjóðarinnar og yfirlýsinga ríkisstj. og afstöðu hennar til kaupgjaldsmála, ekki síst ef haft er í huga það sem hér hefur verið bent á í umr. í dag, að það hefur sáralítið breyst í okkar þjóðfélagi frá þeim tíma þegar bæði hæstv. félmrh., flokkur hans Alþb., og aðrir forustumenn, þ. á m. forustumenn launþegasamtaka, sem sitja hér á þingi núna, og reyndar forustumenn allra þeirra flokka, sem stóðu að síðustu vinstri stjórn, nema hluti Framsfl., voru sammála um að þjóðfélagið þyldi að samningarnir frá 1977 tækju óbreyttir gildi. Og ekki nóg með það, því að sömu röksemdum og málflutningi Alþb.-manna fylgdi að hægt væri að stórhækka öll laun. Til viðbótar kom svo sú fullyrðing þeirra, sem væri ástæða til þess að ræða frekar í sambandi við þetta mál, að laun hefðu í raun ekkert að segja gagnvart verðlagi eða verðbólgu í þessu landi, þetta væri einhver afstæður hlutur sem ekkert kæmi verðbólguvandamálinu eða efnahagsvanda þjóðarinnar í heild við.

Ég mun samt sem áður ekki fara út í umr. um þetta því að eins og hér kom fram hjá frsm. félmn. í dag, hv. þm.

Alexander Stefánssyni, þá mun sjálfsagt gefast tækifæri til að ræða þessi mál frekar í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. En sá nauðsynlegi efnisþráður, sem hæstv. félmrh. hafði hér fitjað upp á í sínu máli, en lét samt ógert að fylgja til enda, eru heildaráhrifin af þeirri skattlagningu sem við erum nú að ræða um og höfum þegar rætt um að hluta og afgreitt hér á hv. Alþ., þ.e. lög um tekjuskatt og eignarskatt. Þessi lög hafa vissulega gífurlega mikil áhrif á afkomu allrar þjóðarinnar, allra einstaklinga, launþeganna, gamla fólksins, öryrkjanna, allra þeirra sem þurfa að standa frammi fyrir því, að endar nái ekki saman hjá þeim í þeirri óðaverðbólgu sem ríkir og hefur ríkt um allt of langt skeið. En hæstv. ráðh. lauk ekki þessu máli. Hins vegar gerði hv. 6. þm. Reykv., Birgir Ísl. Gunnarsson, það. Hann benti á að okkur er auðvitað nauðsynlegt að geta haft fyrir framan okkur hvert verður raungildi tekna almennings þegar upp er staðið frá allri skattlagningu sem við vitum um og fram undan er. Og það hefur komið fram hér í dag, bæði hjá hæstv. ráðh., en fyrst og fremst hjá frsm. n., að það vantar að vita hver heildarskattheimta ríkisins verður á þessu ári. Inn í það dæmi, sem hæstv. félmr. var að gefa okkur áðan, og hann skýrði einkar ljóslega það sem komið er, vantar til viðbótar ekki aðeins skattstigana, heldur vantar okkur einnig eða vita um aðra skattheimtu, sem fyrirhuguð er, og hvernig hún muni koma niður á t.d. launþegum þessa lands, hvar sem þeir búa, og svo jafnframt niður á launþegum eftir því hvar á landinu þeir búa.

Við vitum — og það kemur að sjálfsögðu í framhaldi af þeim umr. sem hér urðu — um vandamál þeirra sem búa við olíukyndingu í sínum húsum. Við vitum að þeir, sem búa við lægri hitunarkostnað, þurfa að taka þátt í hinum gífurlega umframkostnaði þess fólks sem býr við þetta sérstaka vandamál. En við stöndum líka frammi fyrir því hér í Reykjavík, að við þurfum að fá hækkun á hitaveitutöxtum okkar til þess að geta látið það fyrirtæki standa sig og ná eðlilegum vexti og viðhaldi í nánustu framtíð, svo að við horfum fram á gífurlega nýja skattheimtu á þessu svæði suðvestanlands, sem ég a.m.k. persónulega vil fá að sjá og vita hver verði áður en ég fer að rétta upp höndina með nýrri viðbót, stórhækkun á útsvarsgreiðslum okkar. Þar fyrir utan er eitt, sem ekki hefur verið komið hér inn á svo ég viti, ég minnist þess ekki í umr. í dag a.m.k. Það er sá mikli áhugi og atfylgi sem á er lagt af sveitarstjórnarmönnum að ná þessari hækkun fram.

Nú skal ég viðurkenna að ég hef alltaf talið að í sambandi við ýmis staðlæg verkefni væru engir betri til þess að framfylgja þeim og sjá um en sveitarstjórnarmenn. Ég hef verið einn þeirra sem hafa verið fylgjandi þeirri skoðun, að við ættum að flytja bæði verkefni og fjármuni frá miðstýrðu framkvæmdavaldi Alþingis og ríkisstj. og út til sveitarfélaganna og út til borgaranna, til þess að láta þá sjálfa um hin einstöku verkefni á mörgum sviðum, sem bæði sveitarfélög og ríki annast í dag. Ég hef hins vegar aldrei verið þeirrar skoðunar, að þessi valdatilflutningur ætti alfarið að stöðvast hjá sveitarfélögunum eingöngu. Ég hef aldrei verið þeirrar skoðunar, að það vald, sem þeir fengju með tilflutningnum frá Alþ., ætti að stöðvast hjá þeim, þannig að við værum að búa til nýtt valdabákn í þjóðfélaginu þar sem væru sveitarstjórnir þessa lands. g hef nefnilega talið eðlilegt að haldið væri áfram og valdið væri flutt til borgaranna sjálfra. Ég hef verið fylgjandi því, að við flyttum sem mest til borgaranna sjálfra ráðstöfunarrétt yfir þeim fjármunum sem þeir afla, að þeir hefðu sem mest vald til þess að ráðstafa þeim sjálfir á þann veg sem þeir helst kjósa. Og það fyrst og fremst vegna þessara skoðana minna sem ég mun greiða atkv. gegn till. fjórmenninganna, þm. fjögurra, á þskj. 191, einnig vegna þess að ég tel að við þurfum að fá að sjá heildarskattupphæðina, heildarskattheimtu ríkisins, áður en við getum samþykkt slíka tillögu.

Ég hefði gjarnan viljað að við næstu umr. lægju fyrir betri skýringar á því, sem kom hér fram áðan í máli hæstv. félmrh. í sambandi við áhrif persónuafsláttar samkv. 68. gr. laganna, sem við höfum samþykkt nú nýlega um tekjuskatt og eignarskatt — hvað þessi áhrif þýði fyrir skattgreiðendur í landinu. Ég hlustaði að vísu á þetta hjá ráðh. áðan, en ég held að það væri full ástæða til þess arna. Ég er ekki að tala um þetta á gagnrýnishátt, heldur að það sé athygli vert, að það sé full ástæða til þess að vekja meiri og betri athygli á þýðingu þessa atriðis fyrir skattborgarana, ríkissjóð og sveitarfélögin.

Réttilega hefur verið á það bent, að áður en gripið er til þess að efna til nýrrar skattheimtu þurfi að hafa það í huga, að fram undan er ýmis skattheimta, sem órædd og ósamþykkt er enn hér á þingi og við vitum að á að knýja fram og jafnvel þarf að knýja fram, ég skal viðurkenna það. En þá verðum við um leið að hafa í huga fjárhagserfiðleika þeirra, sem búa við versta aðstöðu í þessu þjóðfélagi, með hliðsjón af boðskap ríkisstj. sjálfrar um það, hvernig hún ætlar að beita valdi sínu í launamálum á næstunni. Ég geri mér fulla grein fyrir því, og það þýðir auðvitað ekki að gagnrýna þessa hæstv. ríkisstj. fyrir að hafa á því ákveðnar skoðanir, en það er ekki heldur sama hvernig á er haldið í þessu vandamáli sem við búum við. Það má ekki, um leið og við komum þannig fram við þá sem standa nú frammi fyrir því að sækja um bætur á sínum launatöxtum, vera að nudda þeim upp úr því að Álþingi sé að leggja á nýja skatta og kannske óþarfa skatta.

Um leið og menn koma hér með háværar kröfur og telja sér nauðsynlegt að halda uppi vörn og baráttu fyrir hagsmunum sveitarfélaganna, þá vil ég að þess sé jafnframt og ekki síður gætt að halda uppi vörn fyrir hagsmuni skattgreiðendanna í þessu landi.

Á þskj. 199 flytur hv. 10. landsk. þm. brtt. sem ég vil taka undir og mun efnislega styðja, því að þessi till. felur það í sér, að hluti af söluskatti, sem innheimtist á árinu 1980, renni til þess að greiða úr sérstökum fjárhagsörðugleikum sveitarfélaganna. Ég fæ ekki annað séð en samþykkt þessarar till. efnislega, og kem ég nánar að því hér á eftir, ráði bót á þeim vanda sem sveitarstjórnarmenn telja að sé við að etja hjá sveitarfélögunum, vegna þess að búið er að lofa, — og við skulum ekki væna hæstv. ríkisstj. um að hún ætli sér að svíkja það loforð eða muni gera það, — það er búið að lofá því, að fyrir næsta haust verði búið að endurskoða tekjuskiptinguna á milli ríkis og sveitarfélaga. Mín skoðun hefur að sjálfsögðu, eins og ég veit allflestra, alltaf verið sú, að þegar við værum að auka tekjur sveitarfélaganna, þá værum við ekki að auka þær á kostnað skattgreiðendanna, heldur með því að flytja ekki aðeins verkefni frá ríkisvaldinu, frá ríkissjóði yfir til sveitarfélaganna, heldur og fjármuni um leið. Og það er þess vegna sem ég tek undir þessa till. hv. 10. landsk. þm., eins og aðrir sjálfstæðismenn sem hér hafa talað í dag, að við teljum að samþykkt hennar efnislega muni hjálpa sveitarfélögunum nægilega þar til endurskoðun þessarar tekjuskiptingar er lokið, sem hefur verið lofað enn einu sinni að verði lokið á þessu ári. Ég veit hins vegar að það getur orðið erfitt fyrir stuðningsmenn ríkisstj. að samþykkja alla þessa upphæð sem fram kemur í till. hv. 10. landsk. þm., og þess vegna leyfi ég mér, herra forseti, að flytja hér skriflega brtt. við brtt. hv. 10. landsk. þm., sem er varatillaga, að í stað 4% komi 2%. Sýnist mér, með hliðsjón af því sem kom fram í máli hæstv. félmrh. áðan, að það muni brúa það bil sem á vanti. Ég hygg að það muni nema um það bil 2.5 milljörðum kr. fyrir sveitarfélögin ef þessi varatillaga yrði samþykkt.

Ég skal svo ekki tefja tímann tengur og læt máli mínu lokið. En ég óska eftir því, herra forseti, að leitað verði afbrigða fyrir því, að þessi till. megi koma til umr.