13.03.1980
Neðri deild: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Birgir Ísl. Gunnarsson:

herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í umr. frekar, en orð hv. 1. þm. Vesturl., Alexanders Stefánssonar, gáfu mér nokkurt tilefni til þess.

Hann vitnaði til ræðu minnar áðan, þar sem ég sagði að ég teldi hægt að stjórna málefnum sveitarfélaga án þess að hækka þá tekjustofna sem þau hafa nú samkv. lögum. Hann sagði að ég hefði ekki hugmynd um þetta vegna þess að ég þekkti ekki til hjá öllum sveitarfélögum landsins. Auðvitað sagði ég þessi orð í ljósi þess sem ég þekki best, þ.e. hér í Reykjavík. Mér er fullkunnugt um það og ég stend við það, að málefnum Reykjavíkur er hægt að stjórna án þess að fá 112.1% útsvar.

Hitt veit ég, og það skal ég segja Hv. þm. vegna þess að ég veit að honum er einnig kunnugt um það, ég veit hvaða sveitarfélög það eru sem hafa lagt þyngstu pressuna á bæði stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og þm. til að fá hækkað útsvar. Það eru þrjú sveitarfélög sem þar hafa gengið í fararbroddi. Það er Reykjavík, það er Kópavogur og það er Neskaupstaður. Það er engin tilviljun að það er í þessum þremur sveitarfélögum sem Alþb. hefur úrslitavald. Það er nefnilega þannig, að í þeim sveitarfélögum, sem Alþb. ræður, og þegar Alþb. ræður ríkismálum einnig, er skattpíningin mest, þá er skattþunginn mestur á landsmenn. Það er þeirra erinda sem hv. þm. gengur á Alþingi í dag.