17.03.1980
Sameinað þing: 32. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

116. mál, fjárlög 1980

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. tók þannig til orða í ræðu sinni áðan, og ræddi þá um frv. til fjárlaga sem fjmrh. minnihlutastjórnar Alþfl. lagði fram, að það hefði að sjálfsögðu ekki reynst unnt að byggja núv. frv. á því frv. sem Alþfl. lagði fram. Þetta held ég að ýmsum þyki furðuleg ummæli, því að í meginatriðum eru frv. svipuð. En það, sem auðvitað greinir að frv., sem fjmrh. Alþfl. lagði hér fram, og það frv., sem hér er nú til umr., er að í frv. Alþfl. var gert ráð fyrir skattalækkun og þeirri skattalækkun átti að mæta með sparnaði í ríkisrekstrinum og nokkrum samdrætti í framkvæmdum. Þar var gert ráð fyrir að lækka tekjuskatta á atmenningi um 7.5 milljarða. Í því frv., sem nú er hér til umr., er hins vegar gert ráð fyrir skattahækkunum, þótt hæstv. ráðh. hafi orðað það sem svo, afar óljóst að skattar yrðu væntanlega svipaðir í ár og verið hefði í fyrra. — Það er væntanlega vegna þess sem honum hefur ekki reynst unnt að byggja á frv. Alþfl., að það gerir ráð fyrir skattalækkun, en frv. hæstv. fjmrh. gerir ráð fyrir skattahækkun.

Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum, að aðdragandi þess frv., sem hér er til umr., er með nokkuð sérstökum hætti, að ekki sé meira sagt. Á fáeinum mánuðum hafa þm. fengið til umfjöllunar hvert fjárlagafrv. á fætur öðru og nú hið þriðja. En nú skyldu menn ætla að eftir þennan langa meðgöngutíma fæddist a.m.k. fullburða frv. Svo er þó ekki, því það frv., sem hér er til umr. í dag, er um margt ófullburða, ófullkomið, og það í ríkari mæli en þau tvö sem voru á ferð á undan því. Þó skyldi maður hafa ætlað, þegar fjmrh. Alþb. leggur fram sitt fyrsta frv., en sá flokkur hefur ekki áður farið með fjármál, að þá væri þar að finna einhver nýmæli, einhverja nýja stefnu, eitthvað í líkingu við það sem þessi flokkur hefur boðað. Svo er ekki.

Ég sagði áðan að þetta frv. væri ófullburða, og það er það vissulega. Um þetta nægir að nefna örfá dæmi, sem ég mun víkja nánar að síðar.

Í fyrsta lagi hefur verið tekin út úr þessu frv. tillaga sem var í fyrri frv. um 2.3 milljarða kr. greiðslu úr ríkissjóði til að jafna hitunarkostnað, en jöfnun hitunarkostnaðar er eitthvert mesta réttlætismal sem nú er á döfinni í þessu þjóðfélagi. Það er himinhrópandi ranglæti, sem viðgengst í þeim efnum, þegar munurinn á hitakostnaði íbúðarhúsnæðis getur verið sjö- til áttfaldur eftir því hvar á landinu menn eru búsettir. Auðvitað sjá allir að slíkt getur ekki gengið til lengdar. 2.3 milljarðar voru teknir út úr þessu frv. og þeim peningum ráðstafað til annars. Þingheimi er hins vegar tjáð að ætlunin sé að afla fjár með sérstökum hætti og afla þá væntanlega 5 milljarða kr. með nýrri skattlagningu. Þingheimi er tjáð að þetta eigi nú að gera með sérstökum orkuskatti. En allt um það er afar óljóst og fátt eitt sagt í fjárlagafrv.

Í öðru lagi vantar inn í frv. hækkanir á framlögum til ýmissa orkuframkvæmda, þ. á m. til Rafmagnsveitna ríkisins vegna innanbæjarkerfa og til Kröfluvirkjunar vegna gufuöflunar. Hver veit þó nema máttarvöldin hafi þar tekið fram fyrir hendurnar á stjórnvöldum, það er ekki útséð um hvernig því lyktar. Enn fremur vantar framlag til Orkusjóðs vegna styrkingar dreifikerfa og jarðhitaleitar.

Í frv. segir svo í aths., með leyfi forseta:

„Við undirbúning fjárlagafrv. var frestað að taka afstöðu til tillagna iðnrn. um hækkun á framlögum til ýmissa orkuframkvæmda.“

Hér vantar því enn inn í fjárlagafrv. veigamikinn þátt. Í þriðja lagi mætti svo nefna, að hér hefur verið í meðförum þingsins frv. um lánsfjárheimild til Framleiðsluráðs landbúnaðarins er nemur 3000 millj. kr., vegna of mikillar framleiðslu og vegna útflutnings landbúnaðarafurða á verðlagsárinu sem lauk í lok ágúst á s.l. ári. Ekki er heldur orð um þetta í frv.

Hæstv. fjmrh. vék að því í ræðu sinni áðan, að einhver vandi kynni að vera á höndum vegna of mikillar framleiðslu á þessu verðlagsári. Hann tók svo til orða, ef ég tók rétt eftir, að líklega yrði að veita Framleiðsluráði landbúnaðarins „einhverja fyrirgreiðslu“ á þessu ári. Ætli sé ekki hætt við að sú „einhver fyrirgreiðsla“ skipti milljörðum, og ætli nokkur maður yrði hissa þó að þeir milljarðar yrðu svo sem helmingi fleiri en þeir sem hafa verið til umfjöllunar hér?

Í fjórða lagi má svo geta þess, að ýmis félagsleg atriði, sem upp eru talin í stjórnarsáttmálanum, eru fjarri í fjárlagafrv. Þeirra er ekki getið þar. Þar er einnig um að ræða upphæðir sem skipta milljörðum kr.

Ég hef hér nefnt fjóra veigamikla þætti sem teknir hafa verið út úr fjárlagafrv., en ættu að vera þar. Þegar þetta hefur verið tekið út úr fjárlagafrv. gefur frv. auðvitað engan veginn rétta mynd af ríkisbúskapnum. En ég mun nánar koma að þessu síðar. Það má um þetta segja, að það er í meira lagi verið að fara inn á vafasama braut, að ekki sé meira sagt.

Þegar fjallað er um þetta frv. verður auðvitað að gera það að nokkru leyti í ljósi þess sem á undan er gengið. (SighB: Forseti. Er ekki rétt að óskað sé eftir því, að ráðh. sé viðstaddur þegar frv. hans er rætt?) Það væri kannske ekki fjarri tagi, rétt er það. — Stjórnarmyndunartilraunir sumarið 1978 miðuðu að því að leita aðgerða gegn verðbólgunni. Þegar stjórn var svo mynduð á haustdögum 1978 var það gert með þeim hætti að um var að ræða bráðabirgðaúrræði þar sem verðbólguvandanum var að langmestu leyti breytt í ríkisfjármálavanda. Ég held að það sé ekki fjarri lagi að rifja upp eitt eða tvö atriði úr ræðu sem hæstv. núv. viðskrh., þáv. hæstv. fjmrh., flutti haustið 1978, þegar hann mælti fyrir fjárlögum fyrir árið 1979. Hann sagði þá m.a., með leyfi forseta:

„Verðbólgan er óvinur góðra og jafnra lífskjara. Hún veldur hrikalegu misrétti milli manna og magnar upp það versta í atvinnumálum og fjármálum. Hún vinnur gegn jöfnun lífskjara, gerir þá fátæku fátækari, en þá ríku ríkari. Af þessum ástæðum og raunar mörgum fleirum verða ríkisstj. og Alþingi að snúast gegn verðbólgunni með öllum tiltækum ráðum.

Þess vegna er fjárlagafrv. og væntanlegum fjárlögum beitt sem hagstjórnartæki í baráttunni gegn verðbólgunni.“

Undir þetta ber að taka, hvert einasta orð, og ég beið satt að segja eftir því að heyra eitthvað svipað frá hæstv. fjmrh. sem flutti fjárlagaræðu sína áðan, en það fór lítið fyrir því, að talað væri um þetta.

En eitt eða tvö atriði eru í því, sem hæstv. þáv. fjmrh. sagði, sem ástæða er til að vekja athygli á. Hann vék að því, að hverju leyti fjárlagafrv. væri með þessum hætti úr garði gert, og sagði þá, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi, og það er höfuðeinkenni þeirrar stefnu sem fjárlagafrv. boðar, er gert ráð fyrir tekjuafgangi að upphæð 8.2 milljarðar kr. eða rúmlega 4% af útgjöldum fjárlaganna.“

En hvernig er þetta í núv. frv.? Í núv. frv. er samsvarandi tala 5.4 milljarðar eða 1.6%. Í stað þess, að áður voru þau 4%, eru þau nú 1.6% af heildartölunni.

„Í öðru lagi,“ sagði hæstv. ráðh., „er reiknað með að úr ríkissjóði verði greiddir 4.3 milljarðar upp í skuldir umfram það sem tekið kann að verða að láni. Skuldasöfnun ríkissjóðs verður að stöðva og hefja verður endurgreiðslu samningsbundinna lána.“

Þá var þessi tala 4.3 milljarðar. Nú er þessi tala 2.7 milljarðar.

„Í þriðja lagi,“ sagði hæstv. ráðh., með leyfi forseta, í fjárlagaræðu haustið 1978, „er það keppikefli ríkisstj. að ríkissjóður verði rekinn hallalaus fyrstu 16 mánuði starfsferils hennar.“

En hvernig fór um sjóferð þá? Það fór þannig, að hagur ríkissjóðs var eftir þennan tíma um það bil 10 milljörðum lakari en gert hafði verið ráð fyrir. Svo fór um sjóferð þá.

Tilraunir Alþfl. til að koma fram skynsamlegri stefnumörkun báru ekki árangur í þessari ríkisstj. Alþfl. vildi hafa fjárlagagerðina raunhæfa með ákveðnum verðlagsforsendum, en um það var ekki samkomulag því að Alþb., trútt sinni gömlu stefnu, sá ekkert nema aðgerðir sem auðvitað hlutu að leiða til stóraukinnar verðbólgu.

Niðurstaðan af þessu öllu er auðvitað lýðum ljós. Í stað þess, að ríkissjóður væri rekinn með verulegum rekstrarafgangi, varð niðurstaðan allt önnur, eins og ég var að rekja, og rétt er að hafa það í huga, að á þessu tímabili ríkti hér meira jafnvægi í launamálum, minni launahækkanir en sennilega nokkru sinni fyrr í jafnlangan tíma. En þetta gerðist líka þrátt fyrir að 19 nýir skattar eða svo voru lagðir á almenning til þess að framkvæma hinar margumtöluðu bráðabirgðalausnir Alþb. Þeir skattar gáfu ríkissjóði ekki litlar tekjur. Undir þessum kringumstæðum hefði auðvitað átt að vera verulegur rekstrar- og greiðsluafgangur. Þetta snerist allt saman heldur betur við.

Aðgerðir Alþfl. miðuðu að því að fá fram vitræna stefnu og raunhæfa í efnahagsmálum, en við þeim daufheyrðust samstarfsflokkarnir og því fór sem fór. Alþfl. sleit þessu stjórnarsamstarfi vegna þess að enginn árangur náðist.

Það er fróðlegt að skoða það og velta því fyrir sér, hver þróun skattamála hér hefur verið þegar Alþb. hefur verið í stjórn. Nú vil ég eindregið óska eftir því við hæstv. forseta, að hann mælist til þess við hæstv. fjmrh. að hann sjái sér fært að vera hér við umr. þegar verið er að ræða frumburð hans á þessu sviði og sjálfsagt mesta mál sem hann leggur hér fyrir, a.m.k. að því er efnisþykkt og pappír varðar. Ég mun gera hlé á máli mínu þangað til. (Forseti: Ég hef þegar óskað eftir því, að hann verði hér viðstaddur, og vænti þess, að það verði.) Er hægt að fá að vita hvort hæstv. ráðh. er í húsinu? (Forseti: Já, ráðh. er í húsinu og mun vera rétt að koma.) — Hæstv, ráðh. gengur í salinn, og þá er hægt að halda áfram.

Ég gat þess að það væri fróðlegt að skoða hver þróun skattamála hefði verið hér á landi þegar Alþb., flokkur hæstv. fjmrh., hefur átt sæti í ríkisstj. Ég minntist líka á 19 nýja skatta sem settir voru á sínum tíma til að framkvæma bráðabirgðalausnir Alþb. Ef litið er á skatta til ríkisins sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu var það þannig árið 1970 að þeir voru 22.5%. 1971 var Alþb. komið í ríkisstj. Þá var þessi tala komin upp í 26.1%.

1977 var þessi tala enn 26.1%, en 1979 var hún komin upp í 30%. Þarna er merkileg fylgni. Sömu sögu er að segja ef litið er á töflur um álagða skatta sem prósentu af tekjum fyrra árs og einnig álagða skatta sem prósentu af tekjum greiðsluárs. 1970 voru álagðir skattar 17.1% af tekjum fyrra árs, en 1972 voru þeir 20.2%. 1978 var þessi tala 15.5%, en áætlun 1979 bendir til að þessi tala hafi þá verið um 19%. Nákvæmlega sama er uppi á teningnum ef skoðaðar eru töflur um álagða skatta sem prósentu af tekjum greiðsluárs. Þar er auðvitað um lægri prósentutölu að ræða. 1970 var þessi tala 13.3%, en 1972 er talan 15.4%. 1977 er talan 10.6%, en 1979 var talan 13.4% og fer væntanlega í 14% á þessu ári. Þarna er um algera fylgni að ræða.

Þegar Alþb. á stjórnaraðild hækka skattar, hvernig sem á málið er lítið og hvernig sem málið er reiknað, og þegar Alþb. fer nú í fyrsta skipti með skattamál í ríkisstj. og fjármál vita þegnar þessa lands auðvitað hverju þeir geta átt von á í þessum efnum. Raunar er það þegar farið að koma í ljós, þótt ráðh. kjósi að taka ekki nákvæmar en svo til orða í fjárlagaræðu sinni, að skattar verði „svipaðir“ og þeir voru í fyrra.

Skattbyrðin hefur hækkað þetta mikið eins og ég gat um, en þrátt fyrir það hefur verið jafnvægi í launamálum, grunnkaupshækkanir nánast ekki verið neinar, en samt hefur verðbólgan aukist meir en nokkru sinni fyrr. Alþfl. hefur margsinnis bent á að það eru ekki launin sem ráða mestu um hvernig verðbólgan þróast, heldur eru það fyrst og fremst ríkisfjármálin, aðhaldsleysið, skipulagsleysið og stjórnleysið á sviði ríkisfjármálanna sem hafa magnað elda verðbólgunnar. En þegar fjárlagafrv. Tómasar Árnasonar, sem rætt var um áðan, var tilbúið í síðustu vinstri stjórn haustið 1979 kom í ljós að um það var engin samstaða með stjórnarflokkunum. Alþb. gat ekki stutt frv. Tómasar Árnasonar á s.l. hausti, vegna þess m.a. að það vildi langtum hærri útgjöld til ýmissa mála. Þetta kom mjög greinilega í ljós á haustdögum þegar hæstv. fyrrv. iðnrh. boðaði blaðamenn á sinn fund til að skýra þeim frá hvað þáv. fjmrh. hefði „stolið“ miklu frá iðnaðarmálunum, eins og komist var að orði í blöðum á þeim tíma. Alþfl. gat ekki stutt frv. vegna þess að þar skorti allt aðhald og frv. gerði ráð fyrir skattahækkunum þegar Alþfl. vildi stuðla að skattalækkunum. Ráðh. Alþfl. létu þá bóka í ríkisstj., að þeir væru andvígir því að niðurstöðutölur fjárlagafrv. færu yfir 323 milljarða, þar sem allt, sem þar væri fram yfir, væri bein skattahækkun á almenningi. En nú er auðvitað rétt að hafa í huga að olíuverðshækkunin, sem orðið hefur, hefur skapað hér kjararýrnun eins og annars staðar, og það er þess vegna að bera í bakkafullan lækinn þegar ríkisstj. hnykkir á með hækkuðum sköttum í stað þess að reyna að létta þær byrðar sem við komumst ekki hjá því að taka á okkur vegna atburða og þróunar erlendis. En þá er hnykkt á með því að gera almenningi erfiðara fyrir.

Minnihlutastjórn Alþfl. lagði fram á sínum tíma fjárlagafrv., eins og henni bar auðvitað tvímælalaus skylda til. Það er sjálfsagt og rétt að geta þess, að þar var ekki um að ræða verulegar breytingar frá fyrra fjárlagafrv., enda til þess hvorki tími né ráðrúm. Hins vegar skyldu menn minnast þess, þegar um þetta er rætt, að það frv. gerði ráð fyrir lækkun tekjuskatts sem nam 7.5 milljörðum og sú breyting, sem þar var að stefnt, miðaði að því að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum í tveimur áföngum. Ég gat um það áðan — hæstv. fjmrh. var þá ekki í salnum — að það er kannske vegna þessa ákvæðis í fjárlagafrv. fjmrh. Alþfl. sem hann hafði þau orð um það áðan, að það hefði ekki komið til álita að byggja neitt á því við gerð þessa frv. Þessar hugmyndir um lækkun tekjuskatts hafa enga náð hlotið fyrir augum þeirra sem nú stjórna landinu. Þvert á móti er nú stefnt í áttina til skattahækkana.

Það fjárlagafrv., sem hér er til umr. nú, byggist auðvitað að verulegu leyti, eins og þegar hefur komið fram, á frv. Tómasat Árnasonar — frv. sem þeir Alþb.-menn voru andvígir á sínum tíma. En nú hefur verið bætt við það, væntanlega að þeirra skapi. Þá töldu Alþb.-menn allan sparnað og samdrátt vera af hinu vonda. Hér er því haldið áfram sömu vitleysunni og stefnir allt í sömu ófæruna sem áður var. Það er greinilegt, að það er enginn vilji fyrir hendi hjá þeim tveimur og svo sem einum fimmta úr flokki sem nú stjórna þessu landi, — það er enginn vilji fyrir því að breyta um vinnubrögð, setja sér ytri mörk, ákveða hverjar tekjurnar eiga að vera og afnema margumtalaða sjálfvirkni, a.m.k. að hluta. Það kann vel að vera að sjálfvirknina og mörkuðu tekjustofnana sé ekki hægt að afnema að öllu leyti. En þar má þó áreiðanlega draga mjög verulega úr frá því sem nú er. Hér þurfa því að koma til breytt vinnubrögð.

En það er þó athyglisvert við fjárlagafrv., sem nú er til umr., að eftir allar þær deilur, sem um þau mál hafa staðið, hefur Alþb. nú brotið eina af meginreglum sínum, að ekki skuli mótuð launamálastefna samfara fjárlagagerð. Alþb. virðist nú hafa fallist á að slík stefna þurfi að vera fyrir hendi, eins og kemur fram í þessu frv., og er það út af fyrir sig nokkurt framfaraspor. En hvaða stefna er það þá sem boðuð er í þessu frv.? Þar segir, með leyfi forseta, á bls. 169:

„Fjárlagafrv. er fellt að ákveðnum forsendum um þróun launa, verðlags og gengis frá árinu 1979 til ársloka 1980,“ og síðasti segir áfram, orðrétt: „Samkv. þessu hækka laun að meðaltali um 42% og innlent verðlag að meðaltali um 46.5% milli áranna 1979–1980,“ m.ö.o. laun rýrna, kjaraskerðing verður sem þessu bili nemur, 4.5%.

En það vantar margt í þetta frv. Það er ófullburða fætt eftir langa meðgöngu. í fyrsta lagi vantar þá 5 – 6 milljarða sem ætlunin er að innheimta sem sérstakan orkuskatt. Hér er farið inn á nýja braut í fjárlagagerð. Nú segja fjárlög aðeins hálfa sögu eða illa það um ríkisbúskapinn. Tillagan um að greiða olíustyrk til jöfnunar á hitakostnaði var tekin út úr fjárlögum og því fé var ráðstafað til annars. Nú eru tekin upp þau vinnubrögð að taka upp ákveðna liði, sem í sjálfu sér er ákaflega erfitt að standa gegn, enda er í þessu tilviki um gríðarlegt réttlætismál að ræða, en þegar þetta er tekið út úr fjárlagafrv. vaknar hins vegar sú spurning, hvert stefni í þessum efnum. Er þetta upphaf þess, að í sívaxandi mæli verði farið að taka einstaka málaflokka, einstaka þætti út úr fjárlögum og láta þingið taka afstöðu til þeirra hvers nm sig? Verða sjúkrahúsmálin næst tekin út með þessum hætti? Verða skólamálin síðan tekin út? Þannig mætti áfram telja. Auðvitað stefnir þetta í þá átt að gera fjárlagafrv. að æ marklausara plaggi eftir því sem fleira er þar tekið út.

En það er fleira sem vantar inn í þetta frv. Eins og ég gat um áðan var frestað að taka afstöðu til tillagna iðnrn. um hækkun á margvíslegum framkvæmdum til orkuframkvæmda, og í frv. segir að þetta séu allt saman liðir er varði fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1980 og verði tekin afstaða til þeirra við undirbúning hennar í ríkisstj. Sama gildir um fjárframlag til annarra þátta orkumála, þ. á m. til hugsanlegra virkjunarframkvæmda sem nú séu á athugunarstigi. Hér hefur sem sagt enn einn málaflokkur verið tekinn út úr frv. Hann bíður lánsfjáráætlunar sem fram kom hér áðan að enginn maður veit hvenær sjá mun dagsins ljós. Það er ekki að ástæðulausu að svo var kveðið á, þegar fyrst var farið að gera sérstaka lánsfjáráætlun, að hún skyldi lögð fram með fjárlagafrv. Það hefur hins vegar raunar sjaldnast tekist, eins og kom fram í þessum umr., og þegar best hefur látið hefur hún séð dagsins ljós við lok fjárlagaumr. Nú virðast næsta litlar horfur á að svo verði, en þó verður auðvitað að gera skýlausa kröfu um það.

En það er fleira sem hvergi sér stað í frv. Feiknarleg útgjöld vegna stefnunnar í landbúnaðarmálum eru þar víðs fjarri og ekki á þau minnst. Nú hefur sem kunnugt er verið tekin upp ný stefna í landbúnaðarmálum þegar framsóknarmenn úr þremur flokkum hafa sameinast í ríkisstj. og ætla sér að sameinast um að halda því áfram sem nefnt hefur verið vítahringur vitleysunnar, — halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið á og hefur ekki aðeins leitt til erfiðleika fyrir neytendur, heldur ekki síður fyrir bændur. Sú stefna, sem fylgt hefur verið og hefur verið mótuð hér af framsóknarmönnum úr þremur stjórnmálaflokkum, hefur haft það í för með sér, að þegar erfiðleikar eru í landbúnaði, þegar illa árar, þarf auðvitað að styrkja landbúnaðinn, en þegar vel árar þarf meira að styrkja landbúnaðinn en nokkurn tíma þarf í harðæri. Þessu ætla menn að halda áfram. Það er greinilegt í samstarfssamningi stjórnarflokkanna og í þessu frv. að hér á ekkert lát að verða á.

Ýmsir hafa nefnt að hér muni vera um að ræða a.m.k. 10 milljarða útgjöld vegna landbúnaðarins sem ekki eru tekin inn í frv. Þegar hefur verið minnst á 3000 millj. kr. lánsheimild til Framleiðsluráðsins, — lánið sem ríkissjóður á síðan að „annast“ greiðslur á, eins og það er orðað. Svo eru fyrirsjáanlegar miklar greiðslur, eins og ráðh. vék rétt lauslega að áðan, að það mundi þurfa einhverja fyrirgreiðslu vegna vandans á þessu ári. Hætt er við að sú „einhver fyrirgreiðsla“ reynist nokkuð mikil áður en yfir lýkur. Í fjárlagafrv. eru að vísu 8.4 milljarðar sem nú á að greiða með mat sem fluttur er út. Þessi upphæð hefur oft í fjárlögum þótt há, en aldrei hefur hún verið hærri en nú og dugar þó hvergi nærri til. Þarf fleira til að sýna mönnum það og sanna, að stefnan í landbúnaðarmálum er í grundvallaratriðum röng og þessu er ekki hægt að halda lengur áfram? Menn geta gert sér til gamans að reikna út hvernig þetta dæmi lítur út eftir 5 ár með sama áframhaldi. Ég held að það verði ekki ánægjuleg útkoma sem fæst út úr því.

Og enn er það fleira sem vantar inn í fjárlagafrv. Svokallaðs félagsmálapakka eða félagslegra aðgerða, sem heitir svo í málefnasamningi ríkisstj., til að auðvelda kjarasamninga sér ekki stað í þessu frv. Nefndar hafa verið ýmsar tölur um hvað slíkar aðgerðir kynnu að kosta, svo sem einhvers staðar á bilinu 5 – 7 milljarðar.

Þá er það sem stundum hefur verið nefnt félagslegur þáttur framkvæmda RARIK, Rafmagnsveitna ríkisins. Ekki er það heldur í frv. að sinni.

Það, sem hér er verið að gera, er það, að verið er að taka æ fleiri og æ stærri þætti út úr fjárlögunum og ýmist ýta á undan sér yfir í ófyrirsjáanlega óvissa framtíð um það, hvenær eigi að leysa eða flytja yfir í lánsfjáráætlun eða önnur lög. Sem sagt, verið er að gera fjárlögin að marklausu plaggi.

Eins og ég minntist á áðan, er ljóst að þetta frv. mun hafa í för með sér verulegar skattahækkanir. Það er hins vegar öllu óljósara á þessu stigi hverjar þær verða og við hverja þær munu mest koma. í þessu frv. eru vandamálin lögð til hliðar, þeim er ýtt á undan eða til hliðar. En hvað er svo gert til að ná endum saman? Það, sem fyrst verður fyrir, er auðvitað að skerða enn frekar en orðið var framlög til ýmissa fjárfestingarsjóða. Til viðbótar við 15% skerðingu kemur nú 20% skerðing. Sjálfsagt er það rétt, að sumir fjárfestingarsjóðir þola þetta. Það er ekki ólíklegt að einhverjir af fjárfestingarlánasjóðum landbúnaðarins þoli þetta, þar sem ekki er mjög brýn þörf á aukinni fjárfestingu. Aðrir sjóðir, eins og t.d. Byggingarsjóður ríkisins, þola þetta alls ekki. Hvað segir um það í frv. hæstv. ráðh. og nýrrar ríkisstj.? Á bls. 166 segir þar, með leyfi forseta:

„Hins vegar er ráðgert að athuga fjárþörf sjóðanna í tengslum við gerð lánsfjáráætlunar, svo að tryggt sé að þeir geti gegnt hlutverki sínu.“

Enn er málunum ýtt í burtu. Enn eru slitin út úr fjárlagafrv. atriði sem þar eiga að vera og þar eiga heima. Allt stefnir þetta í sömu átt.

Samkv. lánsfjáráætlun 1979 máttu nýjar erlendar lántökur nema um 39 milljörðum. Hvað gerðist þá? Þá fóru ríkisfjármálin öll úr böndunum, og þarf ekki að hafa mörg orð um það. Þar var farið 40% fram yfir og lántökurnar urðu yfir 50 milljarða kr.

Hámark þeirra erlendu lána, sem okkur er talið óhætt að taka nú án þess að stofna okkur í hættu, er um 70 milljarðar í áætlun Seðlabankans. Það er ljóst núna, og kom raunar fram í ræðu ráðh., að veruleg hætta er á að erlendar lántökur stefni í 100 milljarða kr. Þetta þýðir auðvitað að hér myndast enn og heldur áfram gífurlegur þrýstingur og spenna, og allt hefur þetta verðbólguáhrif. Það virðist nefnilega hreint ekki vera markmið ríkisstj. að gera eitt eða neitt varðandi verðbólguvandann, þótt á stöku stað í stefnuskrá hennar séu uppi höfð um það fáein orð. En orð og gerðir eru stundum sitt hvað. Það virðist sannarlega ætla að verða raun þessarar ríkisstj. að svo verði.

Það er einkum tvennt sem Alþfl. telur nú vera brýnast. Ég ætla ekki á þessu stigi að ræða um einstaka liði þessa frv., til þess gefst tími síðar.

Alþfl. er þeirrar skoðunar, að það verði að stefna að kerfisbreytingu í gerð fjárlaganna, það verði að stefna að afnámi sjálfvirkninnar að svo miklu leyti sem slíkt er mögulegt og slíkt er hagkvæmt. Svo sem ég áður sagði getur vel verið að þetta sé ekki unnt á öllum sviðum, en víða er það áreiðanlega hægt. Við eigum að taka upp nýjar stjórnunaraðferðir, sem hafa verið að ryðja sér til rúms, en hafa ekki náð hingað nema í litlum mæli enn, og við eigum að brjótast út úr þessu staðnaða kerfi. Í öðru lagi verðum við að marka ríkisumsvifunum bás með tilliti til getu okkar og með tilliti til þess sem við höfum úr að spila. Það er auðvitað kjarni málsins.

Eins og nú háttar, þegar olíuverðshækkanirnar gera það að verkum að við verðum fyrir búskelli, verður að létta almenningi það með skattalækkunum og með aðgerðum á sviði ríkisfjármála. Þetta er vel framkvæmanlegt. Það er mikil þensla í þjóðfélaginu. En það er langt frá því að ekki megi eitthvað draga úr án þess að komi til atvinnuleysis. Það má áreiðanlega slaka töluvert á spennunni án þess að til þess komi. Auðvitað eru allir flokkar um það sammála og enginn ágreiningur um að til atvinnuleysis megi ekki koma. Vandinn er bara að finna þar meðalveginn á milli. En ég sé ekki að þetta frv. eða stefna ríkisstj. sé með neinum hætti í þá átt, heldur miklu frekar að hér verði áfram verðbólga og það ekki minni en verið hefur, a.m.k. sér annars ekki merki í þessu fjárlagafrv.

Alþfl. mun að sjálfsögðu flytja brtt. við þetta frv., m.a. í þá veru að dregið verði úr skattheimtunni. Grein verður gerð fyrir þeim við síðari umr. þessa máls.

Hæstv. fjmrh. óskaði eftir því áðan, að fjvn. og þing treystu sér til að koma þessu frv. fram fyrir páska. Af Alþfl. hálfu verður ekkert gert til að standa gegn því. En það hlýtur, þó að unnt sé að afgreiða fjárlög fyrir páska, að vera háð því skilyrði að þingið fái að sjá drög að lánsfjáráætlun. Þegar þess er gætt, með hverjum hætti fjárlagafrv. er byggt upp og hve margt það er sem þar vantar, hlýtur það að vera skilyrði að menn fái að sjá drög að lánsfjáráætlun áður en frv. er afgreitt.