17.03.1980
Sameinað þing: 32. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

116. mál, fjárlög 1980

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að fjalla nokkuð um afkomu ríkissjóðs á árinu 1979, þar sem ég var fjmrh. þáv. ríkisstj. og hafði forustu á hendi um að leggja grundvöll að fjármálum ríkisins það ár.

Rekstrarútkoma ríkisins 1979 var raunverulega jákvæð um 1600 millj. kr. þrátt fyrir miklar hrakspár. Samkv. bráðabirgðauppgjöri ríkisbókhaldsins fyrir A-hluta ríkissjóðs á greiðslugrunni 1979 reyndust útgjöldin samtals 241.6 milljarðar kr. en tekjur 238.7 milljarðar. Við tekjurnar bættist skyndilán sem tekið var í desember til nokkurra mánaða, að fjárhæð 4.5 milljarða kr. Þetta lán verður greitt að fullu í þessum og næsta mánuði, þar sem tekjur voru tryggðar til þess þegar um miðjan septembermánuð s.l. og teknar frá í því skyni. Tekjur þær, sem grunnur var þá lagður að, eru nú að skila sér í ríkissjóð.

Samkv. bráðabirgðauppgjörinu varð greiðslujöfnuður ríkissjóðs á árinu 1979 á þann veg, að ríkissjóður bætti hag sinn gagnvart Seðlabanka um 2.2 milljarða kr. Skuldaaukning ríkissjóðs í Seðlabankanum var smáræði á árinu 1979.

31. desember 1978 skuldaði ríkissjóður Seðlabankanum 26.4 milljarða kr. Nákvæmlega ári síðar, í árslok 1979, var skuldin 26.7 milljarðar og hafði aukist um 0.3 milljarða eða 300 millj. kr. Hins vegar átti eftir að bóka hækkun verðbóta, skuld að upphæð 2 milljarðar kr., þannig að heildarskuldaaukning við Seðlabankann varð 2.3 milljarðar kr. á árinu 1979. Lánahreyfingar utan Seðlabankans voru neikvæðar um 3.9 milljarða kr. af ýmsum ástæðum. Verðbólgan átti sinn mikla þátt í þessu svo og ýmiss konar eignabreytingar, svo sem lántökur vegna eignakaupa, hlutabréfakaupa, stofnfjárframlög og margt fleira mætti nefna í því sambandi.

Við árslok 1978 námu skuldir ríkisins við Seðlabankann 15.9% af ríkistekjunum það ár. Í árslok 1979 námu skuldirnar hins vegar ekki nema 12.2% miðað við ríkistekjurnar. Það er því staðreynd, sem ekki verður hnekkt, að á árinu 1979 lækkuðu skuldir við Seðlabankann miðað við ríkissjóðstekjur um 3.8%. Niðurstaða ríkisfjármálanna fyrir árið 1979 er því aldeilis ekki í samræmi við spádóma stjórnarandstæðinga þess tíma er fjárlög voru afgreidd, sem voru mjög svartsýnir og létu í ljós þá skoðun, að naumast væri gerlegt að gera sér nokkra grein fyrir því, hvert stefndi í fjármálum ríkisins, svo mikill væri háskinn fram undan.

Ég get ekki stillt mig um að minna á það, að á árinu 1975, sem var fyrsta árið eftir olíukreppuna 1974 og fyrsta heila árið sem hv. þm. Matthías Á. Mathiesen var fjmrh., — en árið 1975 var á margan hátt hliðstætt árinu 1979 varðandi þróun ríkisfjármála — á var rekstrarhallinn á ríkissjóði 7.5 milljarðar kr., sem mundi samsvara a.m.k. 35 milljörðum eins og nú er komið málum. Með tilliti til þessa samanburðar gæti ég verið himinlífandi með útkomuna árið 1979. En ég vil nú gera meiri kröfur í þessum efnum.

Það er rétt, að nokkuð skorti á að það tækist að ná að fullu þeim markmiðum sem sett voru í ríkisfjármálum í sept. 1978. En þess verður að gæta, að árið 1979 var um margt óhagstætt fyrir þróun ríkisfjármála. Ég vil fyrst nefna hina háskalegu olíukreppu sem jók útgjöld ríkisins verulega, þ. á m. beinan kostnað vegna olíunotkunar ríkis og ríkisfyrirtækja, vaxtahækkanir vegna stóraukinnar verðbólgu af völdum kreppunnar, hækkaðar niðurgreiðslur af sömu ástæðum og margt fleira mætti nefna. Í öðru lagi nefni ég hækkun grunnlauna opinberra starfsmanna, sem ekki var gert ráð fyrir þegar fjárlög voru afgreidd fyrir árið 1979. Í þriðja lagi vil ég svo nefna hækkun verðlags á öllum sviðum tangt umfram það sem gert var ráð fyrir við afgreiðstu fjárlaga.

Af því, sem ég hef nú rakið, er ljóst, að fjármál ríkisins voru nokkurn veginn í jafnvægi árið 1979 þrátt fyrir mjög óhagstæð ytri skilyrði. Skuld ríkissjóðs við Seðlabankann lækkaði talsvert verulega hlutfallslega og verður að telja það stefnu til réttrar áttar.

Nú hafa verið lögð fram á Alþ. þrjú fjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár, en það fjárlagafrv., sem ég lagði fram í haust, hefur verið notað sem grundvöllur, þótt á því hafi verið gerðar talsverðar breytingar. Miðað við aðstæður tel ég að mitt fjárlagafrv. hafi verið það besta, vegna þess að það hafi í senn fullnægt kröfum í velferðarmálum og gengið lengst sem hagstjórnartæki gegn verðbólgunni. Til marks um það er að það fjárlagafrv. skilaði mestum rekstrarhagnaði, tæpum 9 milljörðum kr., og gerði ráð fyrir mestum afborgunum til Seðlabankans, samtals 14.1 milljarði kr., og afborgunum af lánum til annarra, 3.7 milljörðum kr. Má í þessu sem fleiru segja, að hverjum þyki sinn fugl fagur.

Hver var raunverulega verðbólgan á árinu 1979? Það er ástæða til að spyrja þessarar spurningar vegna þess að það er svo oft um þetta skrifað með ýmsu móti. Ég hef leitað upplýsinga um þetta í Þjóðhagsstofnun og fengið þau svör, að verðbólgan var 45%, framfærsluvísitala hækkaði um 45% að meðaltali á árinu 1979. Á árinu 1978 hækkaði verðbólgan hins vegar um 1% minna eða um 44%. Hins vegar mega menn ekki rugla því saman, að verðbólgan í fyrra varð frá upphafi til loka árs um 60%. En sá rétti mælikvarði í þessum efnum samkv. upplýsingum Þjóðhagsstofnunar er 45%.

Þegar árin 1978 og 1979 eru borin saman hvað verðbólgu snertir verður að hafa í huga að olíukreppan, sem skall á 1979, hækkaði verðbólguna um 5–10%. Ef engin olíukreppa hefði skollið á hefði verðbólgan 1979 því orðið 35–40%. Til viðbótar má geta þess, að með aðgerðum sínum í sept. 1978 lækkaði ríkisstj. verðbólguna úr tæpum 53% frá upphafi árs til septemberbyrjunar niður í 38% í árslokin. Þetta hefði vitanlega mikil áhrif til bóta á meðaltal verðbólgunnar 1978, og verður að hafa það í huga, þegar þessi tvö ár eru borin saman. Á árinu 1979 er talið að þjóðartekjur hafi dregist saman um 2% á mann og hafi verið svipaðar og á árinu 1977. Þessi samdráttur þjóðarteknanna á mann á árinu 1979 var auðvitað mikið efnahagsáfall sem fyrst og fremst átti rætur að rekja til olíukreppunnar. Ég er ekki alveg viss um að þjóðin hafi gert sér nægilega skýra grein fyrir því, hversu stórkostlegt efnahagsáfall olíukreppan er. (Gripið fram í.) Ég get svarað þessu hér úr ræðustólnum að gefnu tilefni. Því hefur verið haldið fram af ýmsum, að olíukreppan hafi stóraukið tekjur ríkissjóðs. Þá reikna menn dæmið einfaldlega á þá leið að segja: Jú, tekjurnar af olíuinnflutningnum voru miklu meiri 1979 en 1978 vegna olíukreppunnar. — En menn sleppa því úr dæminu að geta þess, að það er ekki mögulegt að eyða sömu krónunum tvisvar og það var ekki hægt að nota þessa 20 milljarða, sem þurfti til aukinna olíukaupa 1979, til þess að kaupa inn í landið, t.d. hátollavörur. T.d. dróst innflutningur bifreiða verulega saman, m.a. af þessari ástæðu, þannig að þegar upp er staðið tapaði náttúrlega ríkissjóður talsvert verulega á olíukreppunni. Þetta vildi ég segja að gefnu tilefni.

Vegna þróttmikillar útflutningsstarfsemi, sem m.a. stafar af hinni gífurlegu uppbyggingu í fiskiðnaðinum sem átti sér stað á seinasta áratug, varð lítill halli á gjaldeyrisviðskiptunum við útlönd á seinasta ári. Er ástæða til þess fyrir fjandmenn byggðastefnunnar að gera sér grein fyrir því, að talsvert verulegur hluti af þessum gífurlega útflutningi á seinasta ári kemur frá frystiiðnaðinum í landinu. En framlag Byggðasjóðs til uppbyggingar frystiiðnaðarins og forganga Framkvæmdastofnunar ríkisins á seinasta áratug var veruleg, og gefst kannske tækifæri til að ræða það mál sérstaklega síðar. Byggðastefnan var náttúrlega ekki tilgangslaus og ekki áhrifalaus í þeim efnum að skjóta sterkari stoðum undir efnahag þjóðarinnar og útflutning.

Þær niðurstöður, sem nú eru fáanlegar um stöðu útflutnings og innflutnings allt árið 1979, upplýsa, að útflutningsvöruframleiðslan hefur numið 278 milljörðum kr., en innflutningur röskum 9 milljörðum minna. Það varð því verulegur afgangur í vöruskiptum við útlönd á árinu 1979. Hins vegar er talið að nokkru meiri halli hafi orðið í þjónustuviðskiptum og þá einkum vegna samdráttar í tekjum af samgöngum, en þarna koma einnig til áhrif olíukreppunnar. Ef þessar upplýsingar reynast réttar hefur orðið mjög lítill halli á viðskiptum við útlönd á árinu 1979 og verður að telja útkomuna þolanlega, ekki síst þar sem birgðir útflutningsvara um s.l. áramót voru meiri en í upphafi ársins. Gjaldeyrisstaðan batnaði um 17 milljarða kr., m.a. vegna lántaka erlendis. Erlendar skuldir hafa sennilega numið rúmlega 280 milljörðum kr. í árslokin, sem er nálægt 1/3 hluti af þjóðarframleiðslu ársins. En það er svipað og var árið áður. Greiðslubyrði vaxta og afborgana af löngum erlendum lánum er áætluð vera 14% af útflutningstekjum. Það mun vera svipað hlutfall og verið hefur s.l. fimm ár.

Þegar á heildina er litið verður árið 1979 sæmilegt hvað efnahagsmálin snertir, þegar frá er talin verðbólguþróunin. Skuldir ríkissjóðs lækkuðu hlutfallslega á árinu. Greiðslubyrði vaxta og afborgana af erlendum lánum var svipuð og undanfarin fimm ár, heildarskuldir út á við svipaðar miðað við þjóðarframleiðslu. Þetta hefur gerst þrátt fyrir olíukreppuna og þá staðreynd, að þjóðartekjur á mann drógust saman um 2%.

Eins og áður er það verðbólgan sem kvelur okkur og veldur óvissu og ótta um hvort takast muni að halda uppi þeim góðu lífskjörum sem hér hafa ríkt á undanförnum árum. Þótt takist að halda útflutningsframleiðslunni gangandi truflunarlaust á þessu ári eru afkomuhorfur þjóðarinnar óvissar, sérstaklega vegna utanríkisviðskiptanna. Útflutningsvörur okkar gætu lækkað í verði á þessu ári, þar sem verðlag hefur haldist hátt undanfarin ár. Eftir bestu upplýsingum sem ég hef getað aflað mér sýnast mér horfur á að viðskiptakjörin á árinu 1980 gætu versnað að meðaltali um 5–10%. Enginn vafi er á að olíukreppan á seinasta ári mun hækka neysluvörur Íslendinga, sem þeir verða að flytja til landsins, verulega frá því sem áður hefur verið. En þjóðin verður að gæta þess, að versnandi viðskiptakjör valda því, að kaupmáttur kauptaxta landsmanna hlýtur að dragast saman. Það er afar áríðandi að menn geri sér fjósa grein fyrir samhenginu milli viðskiptakjaranna og raunverulegs kaupmáttar launa. Þegar fjölmiðlar skrifa um þessi mál verða þeir að geta þessara atriða, ef þeir vilja vera heiðarlegir í fréttaflutningi. Það er því fyllsta ástæða til þess, að menn gæti samhengis þessara mála, ef þeir ekki vilja stofna bættum lífskjörum og betri efnahag í hættu með verðbólguaukandi aðgerðum.

Við Íslendingar höfum lifað og starfað við 44–45% meðalverðbólgu s.l. tvö ár. Það ríkir þess vegna í raun og veru háskaástand í efnahagsmálum þjóðarinnar, þótt enn þá hafi tekist að halda framleiðslustarfseminni í góðum gangi. Ef ekki tekst að breyta þessu ástandi hljótum við að sjá fram á versnandi lífskjör og atvinnuleysi áður en langt um líður. Það eru mjög góð lífskjör á Íslandi um þessar mundir, ef þau eru borin saman við lífskjör flestra annarra þjóða. Það er meiri atvinna hér en sennilega nokkurs staðar annars staðar. Hver vinnandi hönd hefur nóg að starfa ef hún vill. En þetta ástand byggist á ótraustum grunni og getur hrunið við minnstu áhrif til hins verra, t.d. ef viðskiptakjör þjóðarinnar gagnvart útlöndum versna til muna.

Það er ástæða til þess að minna á það sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, Eið Guðnasyni. Hann vitnaði í ræðu sem ég flutti hér í fyrra, einmitt þegar fjárlagaumr. fór fram. Ég tók svolítinn kafla upp úr þessari ræðu um verðbólguna og ætla að lesa hana á nýjan leik, af því að ég held að góð vísa sé ekki of oft kveðin:

„Verðbólgan er óvinur góðra, jafnra og bættra lífskjara. Hún veldur hrikalegu misrétti milli manna og magnar upp það versta í atvinnumálum og fjármálum. Verðbólgan vinnur gegn jöfnun lífskjara, gerir þá fátæku fátækari og þá ríku ríkari. Af þessum ástæðum og raunar mörgum fleirum verður ríkisstjórn, Alþingi og raunar þjóðin öll að snúast gegn verðbólgunni með öllum tiltækum ráðum. Í lýðræðisþjóðfélagi berjast stjórnmálaflokkarnir og stjórnmálamennirnir um völdin í landinu. En við skulum gæta okkar í þeirri baráttu. Við skulum ekki láta þá baráttu leiða til þess að kippa stoðum undan efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Þessar stoðir væru býsna traustar, ef við byggjum við þolanlega verðbólgu.“

Hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir forsendum fjárlagafrv. og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það sem hann hefur sagt í þeim efnum. Það verður að hafa í huga, að núv. ríkisstj., sem aðeins hefur setið að völdum írúman mánuð, hefur auðvitað ekki haft svigrúm til þess að undirbúa fjárlagafrv. með eðlilegum hætti. Síðan í septembermánuði hefur ríkt meira og minna tómarúm í íslenskum stjórnmálum. Fyrst var ríkisstjórnarsamstarfi slitið, þá var Alþingi rofið, harðvítugar kosningar fóru fram og síðan fylgdi tveggja mánaða stjórnarkreppa á eftir. Á þessum tíma hefur ekkert verið gert sem máli skiptir til þess að hamla gegn verðbólgu og reyna að koma á reglu í fjármálum og efnahagsmálum þjóðarinnar. Það var ekki heldur eðlilegt, þar sem starfsstjórn sat að völdum í landinu og hafði enga aðstöðu til að hefjast handa.

Það eru nokkrir útgjaldaliðir í fjárlagafrv. sem telja má óvenjulega. Ég nefni vexti, 16 milljarða kr., vegna skuldasöfnunar undanfarandi ára, útgjöld og fjármagnskostnað vegna Kröfluvirkjunar upp á 3.9 milljarða og lækkun tolla vegna samvinnunnar við EFTA um 4 milljarða. Hér er samtals um að ræða 23.9 milljarða kr., sem í raun og veru má telja óvenjulega útgjaldaliði. Ég tel vaxtaútgjöldin óeðlileg, vegna þess að vitanlega þyrfti ríkissjóður að eiga sitt rekstrarfé sjálfur og ekki taka það að láni hjá öðrum, en það er orðið mjög dýrt eins og öllum er kunnugt um.

Þá eru ýmis ný verkefni í fjárlagafrv., svo sem Framkvæmdasjóður þroskaheftra, félagslegar framkvæmdir Rafmagnsveitna ríkisins, og ýmislegt fleira mætti nefna. Þá varð landbúnaðurinn fyrir sérstökum áföllum á síðasta ári vegna harðinda og hefur það haft í för með sér viðbótarútgjöld fyrir ríkissjóð af ýmsu tagi.

Geysimiklum fjárhæðum er varið á fjárlagafrv.til Lánasjóðs ísl. námsmanna, framlagi sem nemur 5395 millj. kr. og þar að auki 1700 millj. kr. lántöku. Ég er fylgjandi því, að létt sé undir með námsfólkinu í landinu, en ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að svo lengi sem við getum af efnahagslegum ástæðum eigum við að halda því kerfi að námsfólkið vinni á sumrin. Í fyrsta lagi vinnur það fyrir sér og léttir undir næsta vetur, og í öðru lagi kynnist það atvinnulífi landsmanna. Það fer í vöxt, að námsfólkið sé við nám meira og minna allt árið um kring, og ég tel það miður. Það er þegar nokkuð af fólki í landinu sem hefur verið við langskólanám og hefur í raun og veru aldrei skitið út á sér hendurnar við venjulega vinnu í landinu. Ég held að það væri ráð að reyna að fækka því fólki, að haga alltaf málum þannig að langskólanámið sé ekki tætt úr tengslum við atvinnulífið í landinu, en menn haldi áfram þeirri góðu og gildu reglu að skíta út á sér hendurnar, fái nasasjón af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar og því, á hverju þjóðin lifir. Þess vegna álít ég að við eigum að gæta þess, að þessi framlög og þessi fyrirgreiðsla fari ekki út í neinar öfgar. Þess þarf að gæta, að Lánasjóður ísl. námsmanna verði eins og hver annar lánasjóður og standi undir sér og eflist og verði megnugur þess að létta undir með námsfólkinu og þá sérstaklega því fólki sem þarf á því að halda. En það má ekki ganga of langt í þessum málum. Það er óhollt fyrir námsfólkið að safna miklum skuldum á námsárum.

Nokkrir útgjaldaliðir í fjárlagafrv. eru áberandi hæstir. Þar á meðal eru tryggingamál 90.8 milljarðar kr., fræðslumál 45.6 milljarðar, heilbrigðismál 24 milljarðar, búnaðarmál 15.3 milljarðar, dómgæslu- og lögreglumál 14.2 milljarðar kr. Útgjöld samkv. þessum fimm liðum fjárlagafrv. nema 190 milljörðum eða nokkru meira en helmingi allra útgjalda.

Við Íslendingar verjum stórum fjárhæðum til heilbrigðis- og tryggingamála. Ég er þeirrar skoðunar, að í heilbrigðismátum megi spara talsverðar fjárhæðir með því að efla útivist og íþróttaiðkun landsmanna. Nútímaþjóðfélag eykur á kyrrsetu og hreyfingarleysi. Um 5000 manna starfa að sjálfboðaliðsvinnu og rekstri íþróttahreyfingarinnar. Þessa starfsemi þarf enn að efla og styrkja. Ég vil því beina þeim tilmælum til hæstv. fjvn., að hún athugi sérstaklega hækkun framlaga til Ungmennafélags Íslands og Íþróttasambands Íslands. Ég beindi þessum sömu tilmælum til fjvn. í fyrra, þegar ég var að tala fyrir fjárlagafrv. þá. (LárJ: 1 bæði skiptin óvenjulega mikið skorið niður.) Það er fjvn. ekki til sóma. Það er raunhæf leið til sparnaðar, þótt það skili e.t.v. ekki árangri í krónum þegar á þessu ári. (Gripið fram í.) Margar þjóðir telja sig hafa reiknað það út, að þær spari stórkostlega fjármuni fyrir þjóðfélagið með virkum stuðningi við æskulýðs- og íþróttahreyfinguna. Álíta þær að heilsufar og starfshæfni aukist með skynsamlegum íþróttaiðkunum og útivist. Í heilbrigðismálum mætti eflaust einnig spara með betra skipulagi, en það er mikið mál sem þarfnast úttektar.

Þá er ég sannfærður um að hægt er að spara mikil útgjöld hjá Tryggingastofnun ríkisins með lagbreytingum í þá átt að greiða tryggingabætur fyrst og fremst til þeirra sem þurfa þeirra með. Það er brýnt mál, að rækileg endurskoðun fari fram í tryggingamálunum og breytingar verði gerðar í þessa stefnu.

Á undanförnum árum hefur verið unnið mikið starf við úttekt ýmissa þátta ríkisbúskaparins. Á seinasta ári varð umtalsverður sparnaður í fræðslukerfinu og dómsmálum. Ef eitthvað raunhæft á að gerast í sparnaði og aðhaldi ber brýna nauðsyn til að halda áfram úttekt ýmissa þátta ríkisbúskaparins. Tel ég eðlilegast að hagsýslustofnunin framkvæmi slíka úttekt í samvinnu og samstarfi við viðkomandi fagráðuneyti og forstjóra ríkisstofnana. Ég álít nauðsynlegt að huga að fræðslumálunum í þessu sambandi einnig. Eflaust eru möguleikar á frekari sparnaði og aðhaldi í ríkisbúskapnum, bæði að því er snertir einstakar ríkisstofnanir og stóra málaflokka. Það mætti e.t.v. orða það svo, að ekki sé síður nauðsyn á uppskurði sums staðar í ríkiskerfinu en niðurskurði. Menn verða að gera glöggan greinarmun á eyðslu og eðlilegum útgjöldum. Þýðingarlaust er að standa að aðhaldi eða sparnaði, nema nákvæmlega sé tiltekið í fjárlögum hvar þessi sparnaður eigi að koma niður og viðkomandi ráðherra, stjórnarnefnd og forstjóri ríkisstofnunar beri fulla ábyrgð á framkvæmdinni. Í þessum efnum verður að koma til markvisst starf, yfirborðskák kemur ekki að neinu haldi. Það verður e.t.v. að ákveða hvaða stöðum á að fækka hjá ríkinu, hvar á að draga úr yfirvinnu, hverju á að breyta um framkvæmd mála. Þetta er ekkert vinsældastarf, en verður að vinnast. Og það verður ekki unnið á nokkrum vikum, heldur með þrotlausu starfi og ströngu eftirliti.

Fjárlagafrv. er byggt á meginstefnu stjórnarsáttmála núv. ríkisstj., en þar segir m.a.: „Meginverkefni ríkisstj. er að teysta íslenskt efnahags- og atvinnulíf, enda er það ein helsta forsenda fyrir sjálfstæði þjóðarinnar. Jafnframt leggur ríkisstj. áherslu á að efla menningarstarfsemi, auka félagslega þjónustu og jafna lífskjör. Ríkisstj. mun berjast gegn verðbólgunni með aðhaldsaðgerðum er varða verðlag, gengi, peningamál, fjárfestingu og ríkisfjármál.“

Meginúrræði ríkisstj. varðandi baráttuna við verðbólguna er að stefna að því að verðhækkunum á vöru og þjónustu í landinu verði sett ákveðin efri mörk á árinu 1980. Hinn 1. maí skulu mörkin vera 8%, 1. ágúst 7% og loks til 1. nóv. 5%. Á árinu 1981 verði ákveðin tímasett mörk í samræmi við markmið um hjöðnun verðbólgunnar.

Til þess að ná þessum markmiðum verður að gæta að því, að verðbólgan er á fleygiferð og lítið hefur verið gert af markvissum ráðstöfunum til hjöðnunar verðbólgu síðan í fyrrasumar, m.a. vegna þingrofsins, kosninga og stjórnarkreppu. Þess vegna þarf að gera vissar ráðstafanir nú, sérstaklega að því er varðar verðhækkunartilefni sem hafa verið að hlaðast upp í kerfinu á undanförnum mánuðum. Má þar nefna stöðu útflutningsatvinnuveganna, gengismálin í sambandi við þá og ýmiss konar þjónustu sem legið hefur verið á verðhækkunum fyrir, en óhjákvæmilegt hefur reynst að taka á. Má þar nefna opinbera þjónustu, eins og t.d. gjaldskrá Pósts og síma, útvarps og sjónvarps, svo og verð á sementi, sem varð að stórhækka, og margt fleira. Það er því nokkuð vandasamt að þræða þann niðurtalningarveg sem ríkisstj. ætlar sér að fara í þessum efnum.

Framfærsluvísitalan hefur hækkað um rúmlega 60% frá upphafi til loka ársins 1979, en meðalhækkun verðlags hins vegar um 45%. Á árinu 1980 er stefnt að því, að verðhækkanir frá upphafi til loka árs verði 31%. Ætlunin er því að snúa dæminu við, að í staðinn fyrir ört hækkandi verðbólgu verði lækkandi verðbólga. Til þess að svo geti orðið verður verðlagspólitíkin, launapólitíkin og gengispólitíkin að stefna að ákveðnu marki á þessu ári. Ég hef áður rætt um stefnuna í verðlagsmálum, en ætlunin er að setja ákveðin efri mörk við verðhækkun. Ég hafði í ráði að setja reglugerð um þetta byggða á lögum um kjaramál frá 1978 og verðlagslögum. Samkv. verðlagslögum er gert ráð fyrir að leita álits verðlagsráðs um slíkar ákvarðanir. Það hef ég gert, en fengið neikvæða umsögn verðlagsráðsins. Það er því í athugun, að ríkisstj. geri samþykkt um þetta efni og sendi til verðlagsráðs til leiðbeiningar.

Um gengismálin er það að segja, að ríkisstj. ætlar að beita þar aðhaldi. Þá verður gert sérstakt átak til framleiðniaukningar í atvinnuvegunum til þess að treysta gengi gjaldmiðilsins. Ég vil leggja áherslu á það, að framleiðniaukningin gerist í fyrirtækjunum sjálfum og þess vegna hlýtur sæmileg afkoma þeirra að vera ein af meginforsendum fyrir því, að um raunverulega framleiðniaukningu geti verið að ræða. En árangur af slíku starfi kemur ekki fram þegar í stað, það tekur sinn tíma.

Um launastefnuna er það að segja, að fjárlagafrv. er reist á þeirri stefnu, að launahækkanir urðu 6.67% 1. mars s.l. og verði 8% 1. júní, 7% 1. sept. og 5% 1. des. Samkv. þessu ættu laun að hækka að meðaltali um 42% á þessu ári. Ég geri mér glögga grein fyrir því, að það er útilokað að telja niður verðbólguna í samræmi við fyrirætlanir ríkisstj. nema stefnan í gengismálum og launamálum verði í takt við þær fyrirætlanir. Ef þessi stefna verður sprengd upp með kröfugerð og aðgerðum til þess að framfylgja þeirri kröfugerð, þá er alveg ljóst að það verður erfitt eða ómögulegt að ná þessum markmiðum. Allt veltur á því, að hin sterku öfl þjóðfélagsins, þ.e. ríkisvaldið og samtök launafólks og atvinnurekenda, nái lágmarkssamvinnu í þessum málum öllum og menn taki tillit til þess, að á öllum sviðum er nauðsynlegt að telja verðbólguna niður. Þetta er höfuðatriði.

Eins og fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. hefur ekki unnist tími til þess að undirbúa svo fjárfestingar- og lánsfjáráætlun að mögulegt sé að gera að neinu leyti grein fyrir henni við fjárlagaumr. Samkv. lögum um stjórn efnahagsmálá o.fl. er gert ráð fyrir að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sé lögð fram í kjölfar fjárlagafrv. Sennilega er rétt túlkun á ákvæðum laganna sú, að ætlast sé til að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sé lögð fram áður en fjárlagaumr. fer fram. En því er ekki hægt að koma við nú vegna hins afbrigðilega ástands sem ríkir í þinginu um þessar mundir og ekki þarf að skýra nánar fyrir hv. alþm. En í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun verður sett fram stefna ríkisstj. í peningamálum sem samkv. stjórnarsáttmála á að stuðla að hjöðnun verðbólgu. Aðatatriði þeirrar áætlunar er stefnan í fjárfestingarmálum. Í stjórnarsamningnum er gert ráð fyrir að heildarfjárfestingin á árinu í ár og næsta ár nemi um fjórðungi af þjóðarframleiðslu. Þjóðarframleiðslan er áætluð 1200 milljarðar kr. á þessu ári, þannig að heildarfjárfestingin yrði þá um 300 milljarðar kr. Ég álít að það sé ákaflega mikilsvert að halda fjárfestingunni á þessum mörkum, þannig að hæfileg eftirspurn myndist í landinu og þá einnig til þess að tryggja jöfnuð í gjaldeyrisviðskiptum út á við. Stefnan í fjárfestingarmálum mun að mínu mati verða talsvert ákvarðandi um það, hvaða árangur næst í baráttunni gegn verðbólgunni á þessu ári.

Ég sé að lokum ástæðu til að minna á hversu ríkisbúskapurinn er stór þáttur efnahagsmálanna. Ætla má að þjóðartekjur þessa árs nemi, eins og ég sagði áður, um 1200 millj. kr. Gjöld í fjárlagafrv. eru hins vegar 334 milljarðar eða rúmlega 1/4 hluti þjóðarteknanna. Er því mjög mikilvægt að ríkisbúskapurinn sé traustur, sérstaklega á miklum verðbólgutímum. Það mun samdóma álit hagfræðinga og stjórnmálamanna, að árangursríkar efnahagsaðgerðir gegn verðbólgunni felist m.a. í nokkuð ríflegum rekstrar- og greiðsluafgangi ríkissjóðs. Af þessum ástæðum er tekið fram í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj., að aðhald í ríkisbúskapnum verði stóraukið og áhersla lögð á jafnvægi í ríkisfjármálum. Það er ákaflega mikilsvert, að Alþingi gæti þess að afgreiða fjárlög bæði með rekstrar- og greiðsluafgangi og síðan verði fjárlög framkvæmd með auknu aðhaldi.

Ég álít að það fjárlagafrv., sem hæstv. fjmrh. hefur lagt fram fyrir hönd ríkisstj., sé ábyrgt fjárlagafrv., enda verði þess gætt, að heildarfjárfesting á fjárfestingar- og lánsfjáráætlun verði um fjórðungur af þjóðarframleiðslu, en ekkert umfram það. Samkv. fjárlagafrv. eru ríkistekjur 28.3% af þjóðartekjum. Þótt nauðsynleg fjáröflun vegna jöfnunar á húsahitun í landinu bætist við, ættu ríkistekjurnar eigi að síður að verða undir 29% af þjóðartekjum, en það eru þau mörk sem við framsóknarmenn viljum miða við sem hámark eins og sakir standa.