18.03.1980
Neðri deild: 45. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Við 60-menningarnir erum kosnir hingað af skattgreiðendum, en ekki af sveitarstjórnum. Nú er hæstv. ríkisstj. að hækka þann skatt sem leggst á lægstu launin. Þrátt fyrir það, að hún lofar í málefnasáttmála sínum að standa þveröfugt að, hefur varla liðið mánuður frá því að sá sáttmáli var út gefinn þangað til hæstv. ríkisstj. brýtur hann með þessum hætti.

Ég hef ekki nokkra trú á því, að hv. stjórnarliðar muni við 3. umr. samþykkja að hækka persónuafslátt til útsvars svo nokkru nemi til þess að hlífa megi lágtekjufólkinu í landinu. Ég óska Alþb. til hamingju með fyrstu sporin í þessari ríkisstj. og segi nei.