18.03.1980
Sameinað þing: 34. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

86. mál, hefting landbrots

Flm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt alþm. Agli Jónssyni og Pálma Jónssyni að bera fram á þskj. 132 till. til þál. um heildaráætlun um aðgerðir til að hefta landbrot. Till. er þannig með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að gera ráðstafanir til að matsnefndir, sem starfa samkv. 2. gr. laga um heftingu landbrots og varnir gegn ágangi vatns, geri á því úttekt, hver í sínu umdæmi, hversu víða sé hætta á landspjöllum af völdum vatna og hversu stór landsvæði megi ætla að eyðist af þeim sökum ef ekki er að gert.

Heildaráætlun um kostnað við varnaraðgerðir og till. um röðun framkvæmda skulu sendar til landbrn., sem lætur samræma álit nefndanna til þess að gera stjórnvöldum kleift að áætla heildarfjárþörf til varnarmannvirkjanna með nokkru öryggi og gera till. um framlög til einstakra verka.“

Eins og fram kemur í grg. með till. voru sett lög um heftingu landbrots af völdum vatnagangs í framhaldi af gróðurverndaráætluninni sem samþ. var á hátíðarfundi á Þingvöllum 1974. Það var eðlilegt og sjálfsagt að láta þær varnaraðgerðir til að hefta landbrot haldast í hendur við aðgerðir til að verjast uppblæstri og aðgerðir til að endurheimta gróðurlönd sem hafa eyðst af veðrum, þ.e. að græða upp örfoka land. Þótt lögin um heftingu landbrots og varnir gegn ágangi vatna hafi þegar orðið til mikils gagns og í krafti þeirra hafi verið tekið á máli sem ekki hafi verið sinnt sem skyldi, þá er það ljóst að landbrot er miklu stærra í sniðum en svo, að varnir hafi verið nægilegar, þrátt fyrir ákvæði gildandi laga. Ég ætla að þar komi tvennt til. Í fyrsta lagi hafa matsnefndirnar ekki haft til þess hvatningu né aðstöðu að fylgjast með landbroti og hættu á landspjöllum af völdum vatna, og í öðru lagi gera lögin ekki ráð fyrir því fortakslaust, að heildarumsjón né eftirlit sé haft með störfum nefndanna, þótt Vegagerð ríkisins sé gert samkv. ákvæðum laganna að annast verkfræðilegan undirbúning þegar um meiri háttar framkvæmdir er að ræða.

Þess er ekki að vænta, að mönnum sé fullljóst að hér sé um stórvirki að ræða. Í flestum tilvikum er landbrot hægfara, að því er virðist, þar sem kannske fellur í vatnið aðeins hálfs til eins metra breið spilda árlega, en verður þó af stór landeyðing meðfram ám sem falla langan veg um gróið land, ræktanlegt eða ræktað. Annað veifið verða stærri skaðar, einkum eftir mikil ísalög og stórar ísahrannir, þegar vetrar- og vorflóð mala niður bakkana þar sem klakahrönnin verður að háskalega mikilvirkri kvörn, og verður þess mest vart þar sem jarðvegur er lausastur fyrir.

Erfitt er að geta sér til um það, hversu stórfellt þetta landeyðingarstarf er, fyrr en heildarathugun er á því gerð. En samkv. athugunum, sem Sigurjón Rist hefur gert og kynnt í erindaflokknum „Árnar okkar“, sem hann flutti í útvarpið 1965, er víða um mikla efnisflutninga að ræða. Hann telur að Jökulsá á Dal sé afkastamest í þessari flutningastarfsemi. Hún mun að mestu hrifa með sér aur af öræfum og undan jökli, en nokkuð verður eftir þegar nær dregur ströndinni og spillir þar löndum með ýmsum hætti. Jökulsá á Fjöllum flytur til sjávar röskar 5 millj. tonna af aur á ári. Ekki er úr vegi að vitna hér nokkuð til upplýsinga sem koma fram í erindi Sigurjóns Rist um Þjórsá, en það birtist í Náttúrufræðingnum 1968. Hann telur að Þjórsá beri til sjávar um 4.5 millj. smálesta af jarðvegi á ári. Meiri hlutann hirðir hún upp á örfoka landi hálendisins, en af 230 km vegferð sinni til hafs fer hún síðustu 80 km um gróin byggðarlönd og veldur þar skaða, oft í stórum stíl, enda er hún það fljót landsins sem ber í sig mestar íshrannir sem gjarnan geta orðið allt að 18 metra þykkar mestu ísaárin.

Ef Þjórsá er tekin sem dæmi um eyðingarafl í þessum skilningi, þá hefur hún leitað harkalega á vesturbakkann eftir að hálendinu sleppir, þ.e. þegar byggðalöndin taka við. Hjá Þrándarholti hafði Þjórsá unnið svo stór spjöll, að menn óttuðust að hún kynni að brjóta sér leið vestur yfir Gnúpverjahrepp og Skeið og sameinast Hvítá sunnan Vörðufells. Með nokkuð stóru átaki, byggingu varnargarðs, hefur tekist að koma í veg fyrir frekara landbrot og bægja hættunni frá til frambúðar. Í Skeiðahreppi hefur Þjórsá verið ágeng og herjað þar á ræktunarlönd og ræktanleg lönd fleiri bæja. Ríkisvaldið hefur á grundvelli þeirra laga, sem í gildi eru, lagt nokkurt fé hin síðari ár til varnaraðgerða þar, en hvergi er það fullnægjandi, enda verður verkið varla unnið til fullra nota nema tekið sé stærra undir og litið til heildarvandans á þessu svæði allar götur suður að Þjótanda.

Á liðnum öldum hefur þráfaldlega orðið að flytja bæina á Mjósyndi í Flóa undan ánni til vesturs. Nokkuð hefur verið gert þar til varnar að undanförnu, en miklum mun minna en þörf er á.

Niður undir sjó stóð bærinn Traustholt á vesturbakkanum. Það mun hafa verið snemma á 18. öld, að Þjórsá hljóp vestur fyrir bæinn og skar hann frá vesturlandinu. Þar sem bærinn stóð er nú hólmi í ánni, en meginvatn Þjórsár rennur þar sem áður var þurrt land.

Það hefur komið fram í máli mínu að því er Þjórsá varðar, að ég hef einvörðungu getið um landbrot á vesturbakka hennar. Ekki er það þó einhlítt, að hún herji aðeins á annan bóginn. Séu náttúrlegar aðstæður slíkar að hún beri undir sig og hækki farveginn, þá veltur hún út af aurnum greiðustu leið. En það er augljóst að vesturbakkinn er í meiri hættu, enda segir Sigurjón Rist svo um þetta efni í ritgerð sinni um Þjórsá, sem ég vitnaði til áðan:

„Hitt er þó sennilegra, að hér sé að verki hið algilda lögmál stórfljóta, sem falla til suðurs á norðurhveli jarðar, að þau grafa vesturbakkann. Því veldur svifkraftur, sem orsakast af snúningi jarðar.“

En hvað um það. Ljóst er að hér er við stóran vanda að fást, — vanda sem þó er viðráðanlegur ef nægilega hart er snúist við og menn fela hann ekki fyrir sjálfum sér.

Ég neita því ekki, að landvernd og gróðurfarslegir landvinningar á hálendinu eða hálendisbrúninni eru mikilvægar varnaraðgerðir fyrir byggðalöndin og eru þeim til verndar með ýmsu móti. En ég tel að meira þurfi að leggja af mörkum í fjármagni og áætlanagerð til þess að fyrirbyggja að verðmætasti hluti landsins fljóti á haf út.

Til skýringar máli mínu hef ég tekið mið af því stórfljóti landsins, sem ég þekki best, og bent á þá hættu, sem af eyðingarmætti þess getur leitt ef ekki er með skipulegum hætti snúist til varnar. Að sjálfsögðu er þessu líkt víða um land. Hver sá sem ferðast hér um breiðar byggðir verður þessa var. Slíkt leynir sér ekki á fjölmörgum stöðum. Ég get minnt á margar ár í því efni, t.d. Markarfljót, Hafursá og Klifanda, Kúðafljót, Kolgrímu, Hornafjarðarfljót, Héraðsvötn o.fl., o.fl. Hér hef ég aðeins nefnt nokkur dæmi, en það má ekki heldur láta sér sjást yfir staði sem vissulega líta út fyrir að vera ekki í hættu, en lítill lækur eða meinleysisleg á veldur þó búsifjum og brýtur niður frjóar lendur ef betur er að gáð.

Ég get ekki stillt mig um að benda á eitt dæmi sem sannar slíka fullyrðingu mína. Þegar farið er úr Landbrotinu niður í Meðalland liggur leiðin yfir Eldvatnið hjá Syðri-Fljótum. Fljótið streymir undir brúna tært og lygnt. Engum dettur í hug að svo sakleysisleg á, þótt allvatnsmikil sé, valdi landbroti. Þó er það svo. Eldvatnið ber undir sig sand, og því hærra sem það stendur, því ákafar nauðar það á sendnum bökkum með þeim afleiðingum, að leitt hefur til stórfellds landbrots, að því er kunnugir tjá mér. Af þessu má sjá að brýna nauðsyn ber til að hafa vakandi auga á því, að lönd spillist ekki af vatnagangi.

Þessi till. er flutt til þess að herða á því, að skipulega verði unnið að þeim varnaraðgerðum, sem lög gera ráð fyrir að hið opinbera hafi afskipti af. Tillöguflutninginn má ekki skoða sem gagnrýni á störf matsnefndanna. Þau verk, sem þær hafa fjallað um, hafa, að því er ég ætla, komið að þeim notum sem gert var ráð fyrir, og þær hafa gert athuganir og áætlanir um aðgerðir þar sem þess hefur verið óskað.

Hér er beinlínis lagt til að stjórnvöld leggi fyrir matsnefndirnar að kanna það og meta, hversu víða sé hætta á landspjöllum af vatnagangi, en þær fjalli ekki aðeins um þau mál eftir beiðni landeigenda.

Í öðru lagi miðar till. að því, að landbrn. láti bera saman álitsgerðir matsnefndanna og samræma þær með það fyrir augum að fjárveitingar til þessa verkefnis verði metnar í heild, heildarfjárþörf liggi sem ljósast fyrir hjá fjvn., og samhliða því verði af ráðuneytisins hálfu leitast við að raða framkvæmdum eftir vægi þeirra.

Það er trú okkar flm., að vinnuaðferðir, sem beint væri í þennan farveg, mundu fljótlega skila árangri þannig að heildarátakið yrði í samræmi við heildarvandann og að fyrst yrði gengið til verka þar sem bráðustu verkefnin biðu og mestur vinningur yrði af framlagi hins opinbera.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara fleiri orðum um þessa till. núna. Ég vænti þess, að henni verði vel tekið á hinu háa Alþingi, og ég vil leggja til að henni verði vísað að lokinni umr, að þessu sinni til hv. fjvn.