18.03.1980
Sameinað þing: 34. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

92. mál, málefni farandverkafólks

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er til umr. merkilegt mál sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason hefur talað fyrir. Ég vil lýsa fylgi mínu við þá till. sem hér liggur frammi, og ég vænti þess, eins og hv. frsm. tók fram, að þetta mál fái góða og skjóta afgreiðslu.

Ég hef gert ráð fyrir því, að við gætum verið sammála um þetta. Ég vék mér augnablik út úr þingsalnum og þá var hv. 11. þm. Reykv. að tala og ræddi þá málefnalega um þetta mál. En þegar ég kom hér inn í salinn rétt á eftir, þá var eins og væri kominn umskiptingur í þennan ræðustól. Þá var hv. þm. gersamlega hættur að ræða málefnalega um það mál, sem hér er á dagskrá, og leyfir sér að vera með fúkyrði í garð eins hv. þm. sem ekki er hér viðstaddur eins og stendur, þm. sem er einmitt þekktur fyrir það, bæði hér á hv. Alþ. og af lífsstarfi sínu, að vera einmitt hvarvetna á verði í þjóðfélaginu þar sem þarf að taka til hendi til þess að rétta hlut þeirra sem höllum fæti standa, ekki síst í verkalýðshreyfingunni og hjá því fólki sem stendur að verkalýðshreyfingunni.

Nú leyfir þessi hv. þm., 11. þm. Reykv., sér að ráðast með svívirðilegum hætti að þessum þm. vegna þess að hann er ekki í augnablikinu hér viðstaddur. Þó hefur þessi þm. verið hér í dag og m.a. stjórnað fundum í dag. Og nú vitum við allir, sem það vilja vita, að þessi þm. er einn af samviskusömustu þm. sem nú eiga sæti á Alþ., og er ég þó ekki að gera lítið úr samviskusemi neins annars.

Hv. 11. þm. Reykv. fór svo að tala, eins og honum er ákaflega tamt, um félagslegar aðgerðir til hagsbóta fyrir verkalýðinn. Hann talar allajafna, þegar hann ræðir þessi mál, eins og hann sé í þessum efnum sérstakur málsvari allra lítilmagna í þjóðfélaginu. Um leið og þessi hv. þm. er með þetta á vörunum er hann að ráðast á hv. þm. Pétur Sigurðsson, vegna þess að hann er í augnablikinu ekki viðstaddur. En það hygg ég að satt muni, að það mun langur tími líða þar til hv. 11. þm. Reykv. stendur með tærnar þar sem hv. þm. Pétur Sigurðsson hefur hælana varðandi mál er áhræra aðstöðu og hagsmuni verkalýðsins í landinu, hvort sem það eru farandverkamenn eða aðrir.

Ég vildi láta þetta koma hér fram, um leið og ég óska að gefnu tilefni eftir því, að máli þessu verði frestað. Ég hygg að það geti ekki orðið neinn skaði að því. Það má hæglega halda þessum umr. áfram n.k. fimmtudag.