18.03.1980
Sameinað þing: 34. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

92. mál, málefni farandverkafólks

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Vegna umr., sem hér hefur farið fram og ég hef ekki getað hlýtt á nema að mjög litlu leyti, vil ég láta það koma fram, að að undanförnu hefur verið unnið að þessum málefnum í félmrn. Þar hefur verið tekin ákvörðun um að sett verði á laggirnar nefnd til þess að fara ofan í þær reglugerðir, sem sérstaklega snerta farandverkafólk, svo og að endurskoða lög um erlent verkafólk, nr. 39 frá 1951, sem eru um margt orðin úrelt. Hér er sem sagt um það að ræða að sett verði á laggirnar á vegum stjórnvalda nefnd til þess að fjalla bæði um þau atriði, sem snúa að hinu innlenda verkafólki, og einnig endurskoðun á gömlum og úreltum lögum um erlent verkafólk hér á landi. Ég taldi óhjákvæmilegt að þetta kæmi fram vegna þeirrar umr. sem hér hefur átt sér stað. Auðvitað er ljóst að þær aðgerðir, sem stjórnvöld hljóta að grípa til í þessum málum, hljóta að verða unnar í góðu og nánu samstarfi við verkalýðshreyfinguna í landinu, sem hefur látið sig þessi mál verulega miklu skipta.

Ég tek undir það með hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni, að þetta er mjög misjafnt hér í landinu. Sums staðar eru verstöðvar vel búnar. Annars staðar eru verbúðir langt fyrir neðan það að geta heitið mannabústaðir. Það eru undantekningartilvikin sem þurfa að hverfa ef við eigum að geta staðið undir því sómaheiti að vera það sem við höfum viljað kalla okkur: „fiskveiðiþjóð“ — í þessu landi, ef við viljum leggja rækt við þann grundvöll sem við viljum byggja á þjóðlíf okkar.