18.03.1980
Sameinað þing: 34. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

59. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Á þskj. 89 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um athugun á úrbótum í flugsamgöngum við Vestfirði ásamt hv. alþm. Sigurgeir Bóassyni og Matthíasi Bjarnasyni. Till. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela samgrh. að láta athuga nú þegar með hvaða hætti tryggja megi sem bestar og öruggastar flugsamgöngur við Vestfirði.

Athugun þessi skal fyrst og fremst beinast að eftirfarandi:

1. Lýsingu og öryggistækjum vegna aðflugs og lendingar á Ísafjarðarflugvelli.

2. Endurbótum og lengingu á flugbrautinni við Holt í Önundarfirði og flugbrautinni í Bolungarvík með það í huga að þær gegni því hlutverki að vera varavellir fyrir Ísafjarðarflug.

3. Öryggisútbúnaði og lýsingu á Þingeyrarflugvelli.

4. Lýsingu og öryggistækjum vegna aðflugs og lendingar á Patreksfjarðarflugvelli.

Athugun þessari skal hraðað svo sem frekast er kostur og skulu niðurstöður liggja fyrir það tímanlega, að hægt verði að gera ráð fyrir fjárveitingum til framkvæmda á fjárlögum 1981.“

Mál efnislega eins og þessi þáltill. hefur verið flutt á tveimur þingum áður. Það var flutt á 98. löggjafarþinginu. Þá var málið ekki afgreitt, dagaði þá uppi í n. Svo var það flutt aftur á 99. löggjafarþinginu. Þá gerðust þeir hlutir, svo einkennilegt sem það nú er og furðulegt, að málinu var vísað frá Alþingi. Ég kem kannske að því síðar, því að ég tel nauðsynlegt að það komi hér fram nú með hvaða hætti málinu var vísað frá og hverjar voru röksemdir fyrir því að málinu var vísað frá á 99. löggjafarþinginu, svo furðulega sem telja má þá afgreiðslu.

Það mun, að ég vænti, öllum hv. alþm. kunnugt, að Vestfirðir búa við hvað óöruggastar samgöngur, hverju nafni sem þær nefnast. Það ætti ekki að þurfa að halda langa ræðu um þetta á hv. Alþ., en einmitt með hliðsjón af þeirri afgreiðslu, sem þetta mál fékk á sínum tíma, er kannske nauðsynlegt að rifja örlítið upp hvernig kringumstæður eru í þessum landsfjórðungi að því er varðar samgöngur almennt.

Það er svo varðandi t.d. samgöngur á landi, bæði innan fjórðungsins og við aðra landshluta, að Vestfirðir eru einangraðir 7–9 mánuði á hverju einasta ári í landsamgöngum. Til skamms tíma hafa verið mjög strjálar skipaferðir til þessa landshluta. Það skal viðurkennt, að það hefur batnað nokkuð, en er þó fjarri því að vera með eðlilegum hætti miðað við það ástand sem er í samgöngumálum á öðrum sviðum.

Varðandi flugsamgöngur við Vestfirði er það svo, t.d. ef við tökum Ísafjörð, að þar getur flug legið niðri svo að dögum skiptir, þó að í almennu tali sé hið besta og prýðilegasta veður. Það er þannig þar, að misvindi er með sérstökum hætti í vissum áttum. Má þá vart hreyfast hár á höfði þannig að ekki þurfi að leggjast niður flug.

Það er rétt að geta þess hér, að frá áramótum, þ.e. frá 2. jan. s.l. til 11. mars, sem eru 70 dagar, féll niður flug á Ísafjörð í 23 daga af 70. Ég veit ekki hvort menn gera sér almennt grein fyrir því, hversu miklum erfiðleikum þetta veldur, þegar tekið er mið af því jafnframt að aðrar samgönguleiðir við fjórðunginn eru meira og minna lokaðar. Mjög svipað og ég var hér að geta gerðist á s.l. hausti. Flug lagðist þá niður til Ísafjarðar svo dögum skipti. Það gefur auga leið að íbúar þessa landshluta sætta sig ógjarnan við að búa áfram — enginn veit hversu lengi — við ástand eins og hér hefur verið lýst og er kannske ekki dregin upp mynd af með nógu sterkum orðum, eins og kringumstæðurnar eru hverju sinni.

Það verður því furðulegt að teljast, og þá kem ég að því sem gerðist hér á Alþ. vorið 1978, þegar Alþ. afgreiðir mál eins og þetta með þeim hætti sem þá gerðist, og það sem er enn furðulegra í sambandi við þetta er að sumir hverjir þm. kjördæmisins voru í forustusveit fyrir því að málið væri drepið með þessum hætti. Það er nú hvað furðulegast. (GS: Hvernig var það drepið?) Hvernig var það drepið, spyr hv. þm. Garðar Sigurðsson, sem átti hlut að því að drepa þetta mál, ekki bara sem þm., heldur og sem flugráðsmaður, en við komum að því á eftir. (GS: En hvernig var það drepið?) Það var drepið með þeim hætti að málinu var vísað frá þinginu.

Eins og ég sagði áðan var till. nákvæmlega eins efnislega og þessi lögð fram á því þingi, og var hún send til hv. allshn. sem hafði hana til umfjöllunar nokkurn tíma og sendi málið til umsagnar flugráðs og fékk svar um hæl, að ég held. (GS: Það er ekki nóg að halda.) Ég ætla að lofa hv. þm. og flugráðsmanni að heyra hvað flugráð sagði ef hann er búinn að gleyma því. Það er svo hljóðandi, með leyfi forseta, og vænti ég þess að flugráðsmaðurinn taki nú eftir:

„Bréf yðar varðandi umsögn um till: til þál. um athugun á úrbótum á flugsamgöngum við Vestfirði, 39. mál. var lagt fyrir 931. fund flugráðs og samþykkt að flugmálastjórn veiti umbeðna umsögn um þær úrbætur sem getið er um í till. Verður væntanlega unnið að þeirri umsögn n.k. sumar með það fyrir augum, að hún liggi fyrir n.k. haust fyrir fjárlagaumr.“, þ.e. sumarið og haustið 1978.

Þetta var sú umsögn sem flugráð veitti varðandi þáltill. og allshn. byggði á afstöðu sína í málinu, þ, e. treysti því að flugráð athugaði þetta mál og veitti umsögnina um haustið, og vísaði málinu frá með hliðsjón af því.

Það er nauðsynlegt að rifja líka upp, að á þinginu áður hafði sams konar till. verið lögð fyrir Alþ. Hefði verið áhugi á því hjá flugráði að láta athuga málið og gefa því gaum, þá gat það gert það sumarið 1977 án þess að till., sem flutt var, væri samþykkt. En hvað hefur valdið því, að slíkt var ekki gert, skal ósagt látið. Afstaða mín var a.m.k. sú, að það hefði ekki veitt af, með hliðsjón af þeirri deyfð sem ríkti hjá flugráðsmönnum til þess að veita umsögnina og bæta úr, að samþ. yrði hér á Alþ. að það skyldi gert. Góður hugur nær langt, en hann segir ekki allt.

Ég held að nauðsynlegt sé að víkja örfáum orðum að því, hvað hér er í raun og veru um að ræða. Eins og hv. þm. er væntanlega kunnugt er á engum flugvelli á Vestfjörðum hægt að lenda nema í dagsbirtu. Þeir eru að vísu fáir flugvellirnir hér á landi sem hægt er að lenda á á hvaða tíma sólarhrings sem er, en enginn slíkur er á Vestfjörðum. Ísafjarðarflugvöllur er auk þess, eins og ég sagði áðan, eða kringumstæður þar þannig, að það þarf tiltölulega lítið að hreyfa vind, t.d. í suðaustanátt, þannig að sé gersamlega ólendandi þar, en getur að öllu öðru leyti verið hið besta veður. Ég á ekki von á því og geri ekki ráð fyrir því, að gerðar verði neinar þær breytingar að hægt verði að lenda á Ísafjarðarflugvelli undir slíkum kringumstæðum, að því er varðar vindátt á suðaustan. Við það verður ekki ráðið, úr því verður ekki bætt. Þess vegna verður að leita annarra ráða. Það hefur komið upp sú hugmynd, sem hér er talað um og hefur verið rædd, að hafa varaflugvöll fyrir Ísafjörð undir þeim kringumstæðum að ekki sé þar lendandi vegna suðaustanáttar. Væri hugsanlega hægt að lagfæra svo flugvöllinn að Holti í Önundarfirði að hann gæti þjónað sem varaflugvöllur fyrir Ísafjörð undir þeim kringumstæðum sem hér hefur verið greint frá.

Annað er það með Ísafjarðarflugvöll. Hér er nefnt að athuga um lýsingu og öryggistæki vegna aðflugs og lendingar á Ísafjarðarflugvelli. Ég hef heyrt því haldið fram, að það væri fjarstæða að ætla að slíkt væri hægt. Vel má vera að svo sé, en mér vitanlega hefur engin tæknileg athugun verið gerð sem alveg ótvírætt leiði í ljós að ekki sé hægt í tæknivæddu nútímaþjóðfélagi að lýsa þannig Ísafjarðarflugvöll að hægt sé að lenda þar eftir að myrkt er orðið. Því var hreyft fyrir allmörgum árum, að vera mundi hugsanlegt, hvað þá nú, að nota sömu lýsinguna fyrir flugvöllinn og fyrir Ísafjarðarkaupstað, þ.e. að flóðlýsa þannig að sama lýsingin gæti gilt bæði fyrir flugvöllinn og fyrir bæinn sem slíkan. Kannske finnst mönnum þetta óralangt í fjarlægð, en hvað sem um það er tel ég nauðsynlegt að fá úr því skorið, hvort slíkt er hægt eða ekki, og ég trúi því ekki, miðað við nútímaþjóðfélag, að ekki sé hægt að gera þetta svo úr garði að hægt sé að lýsa Ísafjarðarflugvöll án þess að það þurfi að kosta ríkið óbærilegar fjárhæðir.

Menn hafa sömuleiðis haldið því fram, að það væri ógerlegt aðflug að Ísafjarðarflugvelli í myrkri vegna þess, hversu þröngur fjallahringurinn væri og fjöll há. Ég er nærri því viss um það, að á sama hátt og hægt er að lýsa flugvöllinn sjálfan er hægt, kannske kostar það of mikið, að koma fyrir leiðbeiningarljósum að flugvellinum svo að hægt sé að lenda þar í myrkri.

En um þetta er sem sagt fyrsti þáttur till., þ.e. að þessi mál verði könnuð til hlítar og gengið verði úr skugga um hvort þetta er ekki framkvæmanlegt. Að sjálfsögðu mundi liggja fyrir í kjölfar þess, hver kostnaður yrði af slíkri framkvæmd. Og þó að þetta tækist eru, eins og hér hefur komið fram, það mikil úrtök í lendingunni á Ísafjarðarflugvelli vegna veðurfars að nauðsynlegt er að koma upp varaflugvelli fyrir Ísafjarðaflug, og þar hafa menn fyrst og fremst staðnæmst við Önundarfjörð eða flugvöllinn í Holti. Að vísu hafa líka komið fram hugmyndir um að búa til nýjan flugvöll í Önundarfirði og þá fyrir utan þorpið á Flateyri. Þær hugmyndir hafa heyrst, og vel má vera að slíkt sé á einhvern hátt öruggara og æskilegra, en auðvitað kæmi slíkt þá í ljós við athugun á þessu máli öllu í heild, ef það þætti frekar henta en að lengja og gera betur úr garði flugbrautina í Holti.

Það eru í raun og veru þrír aðalflugvellir til notkunar á Vestfjörðum fyrir innanlandsflugið hjá Flugleiðum. Það eru Ísafjarðarflugvöllur, Þingeyrarflugvöllur og Patreksfjarðarflugvöllur. Það hafa líka heyrst um það hugmyndir, að hugsanlegt væri að koma upp varaflugvelli fyrir Ísafjarðarflugið í Bolungarvík. Ég sjálfur er heldur vantrúaður á að þær kringumstæður séu þar fyrir hendi að þær leysi vandann. Ég tel eigi að síður nauðsynlegt, og það kemur fram í till. okkar, að sá möguleiki sé líka kannaður og úr skugga gengið um að aðstæður séu þá ekki fyrir hendi, ef svo virðist vera.

Hér er líka gert ráð fyrir öryggisútbúnaði og lýsingu á Þingeyrarflugvelli. Það má sjálfsagt telja eðlilegra og aðgengilegra að koma fyrir slíku þar, en eigi að síður tel ég nauðsynlegt að ganga úr skugga um með hvaða hætti það yrði gert og eins þá hver kostnaður fylgdi slíku. Nú er ljóst að á Þingeyrarflugvelli er oft og tíðum hægt að lenda þó að ófært sé á Ísafjarðarflugvelli. En fjarlægð milli Ísafjarðar og Þingeyrarflugvallar er svo mikil að ég tel ekki líklegt, a.m.k. eins og samgönguhættir nú eru og örðugleikar í samgöngum milli þessara tveggja staða, að það verði talið eðlilegt að koma upp varaflugvelli á Þingeyri fyrir Ísafjarðarflugið. Það er við bestu akstursskilyrði a.m.k. eins og hálfs klukkutíma keyrsla frá Ísafirði til Þingeyrar. Vart held ég að menn mundu sætta sig við það miðað við eðlilegar samgöngur, hvað þá, eins og hér hefur komið fram, þegar þessi leið er gersamlega lokuð svo mánuðum skiptir.

Í suðurhluta Vestfjarða er Patreksfjörður miðdepill flugsamgangna. Patreksfjarðarflugvöllur er ekki heldur lýstur. Það er nauðsynlegt að gera úrbætur þar, að því er varðar athugun á lýsingu og öryggisútbúnaði öllum, og gera þann flugvöll þar með betur úr garði en nú er.

Ef hv. þm. vita ekki nú þegar um kringumstæður, vita um við hvaða einangrun í samgöngum íbúar á Vestfjörðum búa, vona ég a.m.k. að þeir, sem ekki töldu ástæðu til þess 1978, þá um vorið, að úrbætur yrðu gerðar og hér eru enn, hafi vitkast svo að þeir séu núna betur upplýstir. Málið er svo brýnt og nauðsynlegt að það er allra hluta vegna ekki bara æskilegt, heldur og nauðsynlegt að þetta verkefni verði tekið út úr, vegna þess hversu landshlutinn er í heild einangraður í samgöngum, og það verði framkvæmt, sem hér er talað um, og gengið úr skugga um það í eitt skipti fyrir öll, hvort ekki er hægt með þeim hætti að gera flugsamgöngur við Vestfirði greiðari en þær hafa verið. Ég vænti þess líka að hinir nýkjörnu þm., sem hér sitja nú, en ekki voru 1978 þegar málið var afgreitt með þeim endemum sem ég hef hér lýst, kynni sér málið gaumgæfilega. Geri þeir það veit ég að þeir komast að raun um að þetta er sanngirnismál, — sanngirniskrafa þess fólks sem um árabil hefur búið við mesta einangrun í öllum samgöngum miðað við aðra landshluta. Ég vænti þess a.m.k., að þm. almennt telji Vestfirðinga leggja það ríflegan skerf til þjóðarbúsins, að þeir eigi skilið að búa við sambærilegar samgöngur við aðra landsmenn, og það sé tími til þess kominn, nógu langur tími hefði liðið þannig að þeir væru einangraðir, að hlutur þeirra sé réttur að því er þetta varðar þannig að þeir séu ekki langt aftur úr öðrum landsmönnum varðandi samgöngur, bæði innan fjórðungsins og ég tala nú ekki um við aðra landshluta.

Í trausti þess, að skilningur sé hér fyrir hendi nú, er þetta mál tekið upp og flutt í þriðja sinn. Ég vænti þess, og er raunar viss um það, að málið fær nú betri viðtökur og meiri hljómgrunn en það fékk síðast þegar það var hér til afgreiðslu. Ég hygg að menn hafi sannfærst um að þetta er réttlætismál, sem er full þörf og nauðsyn á að tekið verði til ákvörðunar, og þó að ég á engan hátt sé að sjá eftir þeim samgöngum sem aðrir landshlutar hafa tel ég réttlætanlegt að þetta mál verði tekið út úr eitt og sér og Vestfirðingar verði látnir njóta forgangs að því er varðar samgöngumálin vegna þeirrar einangrunar sem þeir búa við.

Mér vitanlega — nú tek ég fram að ég vil ekki fullyrða neitt — hefur ekki komið hin títtnefnda umsögn frá flugráði um það sem till. fjallaði um á sínum tíma og fjallar um enn. Sé sú umsögn hins vegar fyrir hendi, sem ég skal ekkert fullyrða um, kemur það væntanlega fram í umfjöllun n. um málið og verður þá ekki í annað skipti til þess að bregða fæti fyrir að málið fái eðlilega meðferð á Alþingi. Ég vil fullyrða að það jaðraði við afglöp í meðferð málsins hér á Alþ. síðast. Ég dreg mjög í efa að meðferð málsins hafi verið þingleg, eins og henni var háttað þá, og ég vænti þess, að slíkt komi ekki fyrir aftur.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, nema þá tilefni gefist til frekar í umr., að hafa fleiri orð um till. En ég ítreka, að ég vænti þess, að mönnum sé nú orðið ljóst hversu brýn þörf er á að ráða hér bót á, vegna þess hversu ástandið er alvarlegt, og að málinu verði nú tekið með opnum örmum á Alþingi.

Ég vil svo að lokum leggja til að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.