18.03.1980
Sameinað þing: 34. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

59. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Þetta er nú gott mál og gamall kunningi. Þetta mun í þriðja skiptið sem það er flutt hér. Allt kemur það mjög svo kunnuglega fyrir sjónir. Upphafið var það, að árið 1976 flutti ég fsp. til samgrh. um flugsamgöngur við Vestfirði og tiltók þá þessa liði alla, nákvæmlega þessa liði. Fsp. fylgdi að venju grg. Þetta mál vakti strax athygli, ekki hvað síst hv. þáv. 5. þm. Vestf. sem lagði tveimur dögum seinna fram þáltill. sem var samhljóða fsp. og grg. meira að segja svo til sú sama. Það gleður mig að þetta hefur verið vel gerð grg. upphaflega hjá mér, því að enn er hún hér, m.a.s. meinleysisveðrið mitt á Ísafirði er enn á sínum stað. En þetta segi ég ekki till, til lasts. Hún er auðvitað betri fyrir hvað hún er þokkalega samin.

Ég ætla ekki að fjölyrða um málið hér. Hv. 6. landsk. þm. þarf ekki að lýsa fyrir öðrum þm. Vestf. hvað hér er um að ræða. Ég verð að segja það, að ég hefði talið að hv. 1. flm. hefði mátt vanda dálítið betur til sinnar framsögu. Við erum búin að heyra þetta svo oft, þeir sem hafa verið á undanförnum þingum. En það er ýmislegt fleira sem hér ber til, m.a. er eitt atriði sem ég saknaði mjög í máli þeirra sem hér hafa talað um þetta, að ekki var minnst einu orði á sjúkraflugið.

Síðan hv. 6. landsk. þm. flutti fyrst þetta mál hefur orðið óheillaþróun í sjúkraflugi á Vestfjörðum. Það hafa verið lagðir niður þrír litlir vellir sem gegndu ákaflega mikilvægu hlutverki í sjúkraflugi. Það þarf ekki bara lýsingu á stærri völlunum, hversu nauðsynleg sem hún er, ekki síður þurfa litlu brautirnar inn til sveita, inn til dala, út til nesja að vera í lagi. Ég vil ekki kenna mannvonsku eða skeytingarleysi eins eða neins um að þetta hefur farið svona. Það er féleysi flugmála í landinu sem illu heilli hefur orðið til þess að svona hefur farið. Hins vegar má taka undir það sem kom fram hjá hv. 6. landsk. þm.

Ég sagði að mér hefði fundist framsagan nokkuð gloppótt og óþarflega mikið byggð á því gamla. Hv. 6. landsk. þm. hlýtur að hafa verið kunnugt um að framlenging brautarinnar við Holt hefur torveldast og kannske verið gerð ómöguleg með þeirri háspennulínulagningu sem kom fram í máli hv. 5. þm. Vestf., en sú háspennulína gerir, eins og nú standa sakir, ómögulegt að fullnægja þeirri varaflugvallarþörf sem völlurinn við Holt í Önundarfirði var annars líklegur til þess að geta gegnt í framtíðinni.

Við verðum líka að líta á þetta mál í víðara samhengi. Okkur gagnar lítið fullkominn varaflugvöllur á Þingeyri og í Holti í Önundarfirði til að þjóna norðurhluta Vestfjarða á meðan Breiðadalsheiði er svo erfið sem hún er. Þarna hljóta auðvitað flugsamgöngur og landsamgöngur að tengjast. Á það var ekki minnst. En jarðgöngin í gegnum Breiðadalsheiði eru auðvitað annað stórmál sem bíður þess að til sé fé til að framkvæma það.

En svo að ég víki aftur aðeins að sjúkrafluginu. Þá vil ég minnast úr ræðustól á Alþingi á það óhappaverk að mínu mati þegar Vængir felldu niður flugsamgöngur til Vestfjarða og Arnarflugi var veitt heimild til þess að fljúga á staði þá á meðan við höfum flugfyrirtæki í fjórðungnum, á Ísafirði, Erni hf., sem sótti um þetta flugleyfi og taldi sig með öllu móti geta gegnt þeirri flugþjónustu sem þarna var um að ræða. Flugfélagið Ernir á Ísafirði hefur gegnt ómetanlegu hlutverki fyrir Vestfjarðaflug og ekki hvað síst sjúkraflugið. Ég hygg að ég muni það rétt, að á s.l. ári hafi um 150 sjúkraflugferðir verið farnar á hinum litlu vélum frá Örnum hf. En hvað skeður? Þeim mönnum, sem reka Erni, er synjað um flugleyfi á þessar hafnir, en það fengið flugfélagi í Reykjavik. Ég veit að ég þarf ekki að lýsa fyrir þeim sem eru búsettir á Vestfjörðum hvað hér var óeðlilega að farið af þáv. samgrh., að ljúka þessu máli með þessum hætti, og ég veit að vestra er almenn undrun og óánægja, og mega þó líklega sumir sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum sjálfum sér um kenna, en það er hvað verst í málinu.

Ég vildi aðeins benda á að sjúkraflugið er einn stóri þátturinn í flugþjónustu úti á landsbyggðinni, ekki hvað síst þar sem háttar eins til og á Vestfjörðum. Ég heyrði nýlega í útvarpi frá flugmálastjórn í umsögn um Ísafjarðarflugvöll, að þar er talað um að stóru vélarnar muni eiga erfitt með, jafnvel þó lýst væri, að nota sér aðflugslýsingu á Ísafjarðarvelli. Hins vegar væri það stórkostleg bót og öryggi fyrir smærri vélar. Og þá er ég komin aftur að því öryggisflugi sem ég tel að við verðum að leggja áherslu á.

Ég ætla ekki að fara út í hnotabit hv. 6. landsk. þm. um meðferð þessa máls á þingi. Það kom nokkuð greinilega fram hjá hv. þm. Garðari Sigurðssyni, sem á þeim tíma átti sæti í flugráði, um þá meðferð sem málið fékk á sínum tíma, að því var vísað frá á grundvelli þess að flugráð hafði látið svo um mælt skriflega að rannsókn yrði gerð um sumarið. Það, að sú rannsókn var ekki gerð eins og flugmálastjóri sjálfur hafði staðfest í bréfi, stafar auðvitað eingöngu af því að fjármunir voru ekki til.

Það er óþarfi að gleyma þó því sem vel er gert. Gjarnan hefði mátt koma fram hjá hv. frsm. fjölstefnuvitinn í Ögri, sem hefur gerbreytt möguleikum í aðflugi að Ísafjarðarflugvelli þó að engan veginn séu aðstæður þar nógu góðar enn.

Ég fagna því að sjálfsögðu að þetta mál er komið hér enn fram, þó að mér finnist að það mætti vera betur úr garði gert. En ég get dæmalaust vel tekið undir orð hv. frsm., að þetta mál er þannig vaxið að það væri eðlilegt að það hefði forgang fram yfir önnur mál sem flugþjónustu varða. Hér þarf auðvitað til bæði vilja og ötulleik manna til að ná málinu fram, og svo fyrst og síðast, eins og ætíð, þarf fjármuni til að framkvæma það.