18.03.1980
Sameinað þing: 34. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

59. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Aðeins nokkrar aths. út af því sem fram hefur komið.

Ég vil fyrst þakka hv. þm., sem hér hafa talað, að ég verð að segja þokkalegar undirtektir, — að vísu með mestum semingi frá hv. síðasta ræðumanni, og er það skiljanlegt og kem ég kannske frekar að því á eftir.

Hv. þm. Ólafur Þórðarson taldi upphafið að þessari þáltill. gott sjálfsagt, en taldi framhaldið ekki eins aðgengilegt vegna þess að það væri ekki nógu tæmandi. Það er út af fyrir sig rétt. Málið snerist eðlilega um hvort ætti að fara að telja upp alla þá þætti, sem auðvitað hefði mátt fella undir málið í sambandi við samgöngur flugleiðis, eða hvort ætti að afmarka málið með þessum hætti og þá með það í huga að það væri líklegra til þess að fá framgang, sem hefur nú því miður ekki sýnt sig vera enn. En ég fellst alveg á að þarna mætti vera meiri upptalning og að málið er ekki nægilega tæmandi. Ég hef síður en svo á móti því, að gerð yrði frekari upptalning í sambandi við það sem gera þarf, en ég óttast að það verði kannske frekar til að drepa málinu á dreif og það verði ekkert framkvæmt. Við höfum mörg dæmi þess.

Varðandi Holtsvöllinn, sem hv. þm. Ólafur Þórðarson minntist á og hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir líka, þá er alveg rétt að þarna hafa verið gerðir hlutir sem eru nánast óskiljanlegir varðandi raflínuna sem lögð hefur verið rétt við brautarenda flugvallarins í Holti. Það er kannske enn eitt dæmið um að það virðist enginn vera ábyrgur í þessu þjóðfélagi og allra síst þeir sem fara með mál fyrir hið opinbera. Ég hygg að það hefði engum viti bornum manni dottið í hug, hefði mann kynnt sér aðstæður, að setja þetta mannvirki — þá á ég við raflínuna — við brautarendann á flugvellinum. Það gengur milli Heródesar og Pílatusar hver beri sökina og hver beri ábyrgðina á þessu óhæfuverki. Ég veit ekki hvort þetta mál hefur komið til flugráðs. Ég geri þó frekar ráð fyrir því, en enn eiga hér sæti á Alþ. flugráðsmenn, þó sumir hverjir bestu drengir séu þaðan farnir nú, og þeir gætu kannske upplýst það. Ég þori ekkert um það að segja, mér þykir ólíklegt a.m.k. að svona framkvæmd sé unnin, að setja raflínu við enda á flugbraut, án þess að flugmátayfirvöld í landinu séu spurð um það einu orði. Það má vera, en það er þá einn anginn af því óheillavænlega kerfi sem við búum við.

Ég er ekkert að svara því hjá hv. þm. Ólafi Þórðarsyni, hvort ég er í slæmum félagsskap í þingflokknum eða ekki. Þetta mál ber þess ekki vott. (GS: Það er engin spurning.) Engin spurning, segir hv. þm. Garðar Sigurðsson. Það mætti ætla að hann þekkti þar betur til en ég. Ég veit ekki hvort svo er, en ég held að ekki skipti máli þó svo væri. Málið, sem við erum hér að ræða, er gott og það skiptir meginmáli.

Út af því, sem hv. þm. Ólafur Þórðarson sagði, hef ég ekki á móti því að hér sé drepið á fleira, málið víkkað, ef það hefur ekki í för með sér að torvelda að málið nái fram að ganga. En verði það er ég algerlega á móti því, þá vil ég heldur afmarka það.

Hv. fyrrv. flugráðsmaður, Garðar Sigurðsson, talaði eins og hans er von og vísa, enda af vestfirsku bergi brotinn, skynsamlega um mál hér. En ég held að hann hljóti að hafa misskilið mig ef hann heldur að ég hafi verið að drótta því að flugráði eða flugráðsmönnum að þeir hafi komið í veg fyrir þetta mál. Ég held að ég hafi orðað það svo, ég hef það að vísu ekki skrifað, að sú umsögn, sem flugmálastjóri veitti, hafi verið þannig, að hv. allshn. notfærði sér hana til að drepa málið. Það býr ekki mér í hug að bera á flugráðsmenn að þeir hafi til þess ætlast, en allshn. þingsins notfærði sér þá umsögn til að drepa málið.

Þá kem ég að hinu líka, sem var eðlilegt í máli hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur. Hún vildi ekki tala um fortíðina í þessu máli að því er varðaði afgreiðslu málsins. Hv. þm. stóð að því sem þm. kjördæmisins að málið var drepið, svo merkilegt sem það nú er, ásamt öðrum hv. þm., lagði það til. Ég man ekki satt að segja hvernig hv. þm. Garðar Sigurðsson greiddi atkv., en ekki kæmi mér á óvart þó að hann hafi verið sammála málsmeðferð allshn. En ég skal ekki fullyrða um það.

Ég vil ítreka út af því, að hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði að umsögn flugráðs hefði verið svona vegna þess að þeir þurftu að láta sérfræðinga innan stofnunarinnar kanna málið: Hvaða skaði var skeður með því að Alþ. samþykkti að sérfræðingarnir gerðu þetta? Var það til að spilla fyrir málinu? Var það ekki enn þá frekar til áréttingar því, að Alþ. teldi málið nauðsynlegt og vildi að þetta væri gert, en að nota umsögn flugráðs til að drepa málið? Það fer ekki á milli mála, að allshn. öll eins og hún lagði sig notaði þessa umsögn til að drepa málið. Það var það sem gerðist, enda væri hægt að finna það í ótalmörgum ræðum sem fluttar voru á Alþ. þegar þetta mál var hér til meðferðar.

Það er auðvitað alveg rétt hjá hv. þm. Garðari Sigurðssyni, að hvorki lýsing né öryggisbúnaður, þótt til staðar væri, gerði að verkum að alltaf sé hægt að lenda á tilteknum völlum. En það er ekkert vafamál að slíkur öryggisbúnaður mundi auka tíðni flugferða á sömu staði, það er augljóst mál. Og það er út af fyrir sig rétt, að auðvitað er þetta angi af stærra máli. Á undanförnum árum og kannske áratugum hafa menn verið að skipta allt of litlum upphæðum á ótrúlega marga staði. En ég held að það verði ekki komist hjá því öllu lengur og þm. verði að gera upp við sig hvort þeir ætla að horfa á heildarþörfina burt séð frá því hversu brýn nauðsyn er á hverjum stað um sig. Ég hef lýst því og fengið undirtektir undir það og það er skoðun okkar flm. þessa máls, að við teljum að þetta mál sé með þeim hætti og kringumstæður allar, að réttlætanlegt sé og sjálfsagt að það njóti forgangs fram yfir annað.

Hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir sagði að upphafið að þessu máli væri fsp. sín frá árinu 1976 og þess vegna hlyti þetta að vera gott mál, vel til þess vandað. Ekki skal ég þræta fyrir að það gæti verið svo. En það var þó ekki það gott að hv. þm. treysti sér til að mæla með því að Alþ. samþykkti það vorið 1978. Þá snerist hún gegn því. Það var ekki svo gott, þó að hv. þm. telji að upphafið sé hjá henni sjálfri.

Um það, hvort ekki hefði mátt vanda dálítið betur til framsögunnar, ætla ég ekki að deila við hv. þm, né hitt, að menn séu búnir að heyra þetta oft. Ég veit ekki hvort er hægt að haga máli sínu eftir „behag“ ef menn eru að tala efnislega um nákvæmlega sama hlutinn. Ég a.m.k. vil og ætla mér að halda mér við sömu röksemdir í þessu máli og áttu við fyrst þegar málið var flutt. Ég sé ekki að þær hafi breyst neitt. Þær eru nákvæmlega eins, og auðvitað á þá við nákvæmlega sama framsagan. Því er sú ádrepa hv. þm. léttvæg í mínum huga.

Hv. þm. sagði líka að ég byggði málið á því gamla. Það er auðvitað rétt, ég geri það. Og það er kannske það sem þessi hv. þm. vill forðast, að hið gamla sé rifjað upp í þessu máli. En sporin hræða og vítin eru til að varast þau. Það þarf í þessu máli að koma í veg fyrir, að það verði meðhöndlað eða afgreitt á sama — ég vil næstum því segja: svívirðilega hátt og það var afgreitt vorið 1978.

Hitt er alveg rétt hjá hv. þm., sem hann var að tala um áðan, að auðvitað eru fleiri vandamál samtengd þessu vandamáli innan flugsamgangna, þar með talið sjúkraflugið. Það er alveg rétt, og ég tek undir það. En mér hefur fundist og finnst raunar enn, að það hafi lítið lagast. Mér finnst að það sé allt of mikið að því gert að tengja allt saman eða kannske frekar sagt reyra allt saman í einn hnút, sem oftast verður til þess að menn telja verkefnin svo umfangsmikil og fjárfrek að öllu saman er slegið á frest. Það er því betra í mínum huga að fá eitthvað svolítið brot af jákvæðri framkvæmd en teygja mig yfir svo og svo mikið svið, og svo er allt saman drepið vegna þess að menn gera svo mikið úr því hversu mikla fjármuni það kosti að framkvæma lagfæringar sem um er talað hverju sinni. Og það er alveg rétt að vissulega er þörf á því — og þó fyrr hefði verið — að haga málum með betri og skynsamlegri hætti að því er varðar undirstöðuna undir það að hægt sé að reka þá þjónustu sem er rekin á Vestfjörðum í sambandi við sjúkraflug og annað. Ég tek heils hugar undir þann þátt í ræðu hv. þm. sem um það fjallaði. Till., sem hér er flutt, er ekki á einu eða neinu stigi til þess að gera lítið úr eða draga úr því að þörf er á að bæta um betur í sambandi við sjúkraflugið.

Hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir orðaði það svo, held ég, að Holtslínan hefði líklega gert óframkvæmanlegt að lengja flugvöllinn í Holti. Ég efast mjög um það. Ég vil a.m.k. fá að vita hver ber ábyrgð á þeirri framkvæmd og hann sé látinn axla þá ábyrgð. Ef á annað borð er um einhverja ábyrgð að ræða hjá opinberum aðilum eða einstaklingum í verkframkvæmdum, þá þarf það að koma í ljós hver ábyrgð ber, ekki síst ef sú framkvæmd hefur komið í veg fyrir að hægt sé að byggja upp þarna varaflugvöll fyrir Ísafjörð. Ef framkvæmdin við raflínuna hefur komið í veg fyrir það er það enn þá alvarlegra og stærra mál í mínum huga en ella og á þá að koma í ljós.

Það er líka rétt hjá hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur, að það er takmarkað gagn að því að fá varaflugvöll í Holti fyrir Ísafjarðarflug miðað við óbreytt ástand á leiðinni milli Önundarfjarðar og Djúpsins. En skyldi það nú ekki verða svo, að varaflugvöllur staðsettur í Holti knýi meir á um að lagfæring verði gerð á Breiðadalsheiði en óbreytt ástand? Ég er a.m.k. þeirrar skoðunar, að ef sú ákvörðun væri tekin að byggja upp varaflugvöll fyrir Ísafjarðarflug í Holti í Önundarfirði væri það beint framhald af slíkri ákvörðun að lagfæra svo samgöngurnar milli Önundarfjarðar og Djúpsins um Breiðadalsheiði að þar væri fært miklu oftar en raun hefur á orðið á undanförnum árum. Auðvitað er það þáttur í málinu. Það er svo sjálfsagt að a.m.k. þm. kjördæmisins ættu ekki að þurfa að vera að deila um það, svo augljóst sem málið er.

Um þann þátt, að það hafi verið óhappaverk að Arnarflugi hafi verið veitt flugleyfi sem Vængir höfðu með að gera á sínum tíma, skal ég ekki tala. Sjálfsagt þykjast a.m.k. þeir, sem það gerðu á sínum tíma, hafa þau rök bak við þá ákvörðun sem þeir telja sig geta staðið við og réttlætt. Ég ætla ekki að ræða það hér. Ég hef ekki, frómt frá sagt, sett mig nægjanlega vel inn í það mál til þess að geta um það talað eða um það dæmt. Auk þess er það augljóst mál, a.m.k. að því er ég held, að bætt og aukin nýting á þeim flugvöllum, sem hér er talað um í sambandi við áætlunarflugið, hlýtur að koma að notum í sambandi við sjúkraflugið, því að bætt öryggi og aðstaða á flugvöllum fyrir áætlunarflugið hlýtur að koma að sama eða svipuðu gagni fyrir sjúkraflugið. Þetta hlýtur því að fara saman.

Hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir sagði að flugráð hefði ekki framkvæmt þá athugun, sem um var talað í till. frá 1978 og hér er talað um enn, vegna þess að fjármagn hefði ekki verið til. Ég efast mjög um að hér sé rétt frá sagt, heldur sé ástæðan fyrir því, að ekkert hefur verið gert í málinu sú að ekki hafi verið til fjármagn til þess að láta framkvæma athugun. Ég dreg það a.m.k. mjög í efa þangað til það kemur frá þeim sem betur vita um það en ég tel að hv. þm., sem þetta sagði áðan, viti. En sé það rétt er fengin enn ein ástæðan til að víta meðferð málsins 1978. Þá hefur sá aðili, sem umsögnina gaf og lofaði að rannsókn yrði gerð, enn frekar gengið á bak orða sinna, og því er meiri ástæða til þess fyrir hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur að taka nú saman höndum við flm., mig, hv. flokksbróður hennar Matthías Bjarnason o.fl. og reka af okkur það slyðruorð, sem á hefur legið, og sjá til þess að málið nái fram að ganga á þessu þingi og því verði borgið, menn hætti úrtölum í málinu, því að málið er ekki síður nauðsynlegt nú en það var þegar það var drepið með óeðlilegum hætti hér.