18.03.1980
Sameinað þing: 34. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

59. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég tel ekki eftir mér að veita hv. þm. Albert Guðmundssyni þá ánægju að dotta fram að kvöldmat, ef hann tekur frekar þann kostinn að sofa á Alþ. en annars staðar. Ég vil leggja mitt af mörkum í því honum til handa, hvort sem það verður nú í öðru, svo að honum auðnist að hafa það þægilegt fram að kvöldmat.

Hv. þm. sagði að ég væri örugglega í réttum flokki, meinti þá að ég væri kominn í þann flokk sem ég nú er í — (Gripið fram í: Sem er góður flokkur) — segir hann, en væntanlega hefur það ekki verið meining hv. þm. þegar hann sagði þessi orð. Hann hefur kannske gert ráð fyrir að ég væri farinn í flokkinn til þess að drepa hann.

En út af þessu vil ég aðeins segja það við hv. þm.: Ég vona svo sannarlega að hv. þm. Albert Guðmundsson fari ekki verr út úr framtíðarslagnum, sem fyrir liggur, en ég út úr fortíðarslagnum mínum, sem hann höfðaði til, og má hann þá vel við una. (AG: Hvaða slagur er það?) Skyldi ekki hv. þm. vita það? Þyrfti nú að fara að orða það ítarlegar á Alþ. en þetta? Ég vænti þess, að aðrir hv. þm. skilji mig, þó hv. þm. Albert Guðmundsson skilji mig ekki eða þykist ekki skilja. (Gripið fram í.) En þetta er ekki stórvægilegt mál, hvort sem honum tekst betur en mér eða ekki.

En það eru örfá atriði sem ég vil ræða við hann og hv. þm. Garðar Sigurðsson.

Það er ekki mikið lofið sem hv, þm. Albert Guðmundsson ber á samflokksmenn sína, hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson og Matthías Bjarnason. Enn held ég að óhætt sé að nefna þá flokksbræður. (Gripið fram í.) Nei, flokksbræður. Þá þrjá, þrenninguna alla. Hann segir að Vestfirðingar hafi talið sig, margir hverjir, munaðarleysingja að hafa ekki hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur. Ekki er nú hólið mikið eða trúin á hv. þm. Þorvald Garðar og Matthías Bjarnason. En það er auðvitað hans mál.

Albert Guðmundsson tók hér mjög upp hanskann fyrir hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur, og hef ég ekkert við því að segja ef hv. þm. hefði farið rétt með og skilið hvað um var að vera og um að ræða. Hann dró úr því sem ég hafði haldið fram, að m.a. undir forustu hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur hefði málið verið drepið á Alþ. Ég kalla það að drepa mál þegar lagt er til af þm. að málinu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Og ég ætla — með leyfi forseta — að lesa hér aftur til upprifjunar og íhugunar fyrir hv. þm. Albert Guðmundsson, flugráðsmann enn. — Og þá er kannske rétt að skjóta inn í: Ég skil ekkert í því hvernig á því stendur, að þingflokkur Alþb. skuli láta sér koma til hugar að taka jafngreindan mann í flugmálum og hv. þm. Garðar Sigurðsson er út úr flugráði og setja einhvern annan í staðinn. Það er merkileg ákvörðun, en kannske eins og annað í þeim þingflokki. Garðar hefur svo sannarlega, að því hann telur, mikið vit á flugmálum. Það er kannske ástæðan fyrir því að hann var tekinn úr flugráði.

Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa aftur umsögn flugmálastjóra og í áframhaldi af því hvað hv. allshn. lagði til, þannig að það fari ekkert milli mála. Það er frá allshn. fyrst:

Allshn. Sþ. hefur borist umsögn frá flugmálastjóra, sem er dagsett 31. mars s.l., en þar segir:

„Bréf yðar varðandi umsögn um till. til þál. um athugun á úrbótum í flugsamgöngum við Vestfirði, 39. mál, var lagt fyrir 931. fund flugráðs og samþykkt að flugmálastjórn veiti umbeðna umsögn um þær úrbætur, sem getið er um í till. Verður væntanlega unnið að þeirri umsögn n.k. sumar með það fyrir augum, að hún liggi fyrir n.k. haust fyrir fjárlagaumr.“ — Og í framhaldi: „Með vísan til þessarar umsagnar leggur n. til, að þáltill. verði afgreidd með svofelldri rökstuddri dagskrá: Þar sem fram kemur í umsögn frá flugmálastjóra, að þegar hefur verið ákveðið“ — taki menn eftir: að þegar hefur verið ákveðið vorið 1978 þegar till. var til umfjöllunar hér á Alþ. — „að fram fari sú athugun, sem þáltill. fjallar um, tekur Sþ. fyrir næsta mál á dagskrá.“

Nú er að koma vor 1980. Og nú býðst flugráðsmaðurinn hv. þm. Albert Guðmundsson, sem var í flugráði á þessum tíma og er í því enn, til þess að bera upp þetta mál á fundi hjá flugráði. Halda menn að það hafi verið mikið gert í því þegar sjálfur flugráðsmaðurinn tekur upp hjá sér núna að bera það inn á fund í flugráði?

Allshn. byggir afstöðu sína til þess að vísa málinu frá á umsögn flugmálastjóra, að búið sé að ákveða að umsögn verði veitt haustið 1978. — Nei, þetta nægir ekki til að sannfæra menn um að hér hafi verið með eðlilegum hætti á málum haldið. Málið var drepið, hvort sem menn vilja nota það orð eða ekki, eigi að síður var reyndin sú. Og ég bið ekki hv. þm. Albert Guðmundsson sem flugráðsmann að bera það á flugráðsfund að þm. almennt vilji að Ísafjörður sé látinn njóta forgangs í sambandi við fjárveitingar á þessu ári. Till. er ekki eingöngu um það. Hv. þm. hefur líklega sofið líka þegar ég las upp till. Hún er ekki miðuð við Ísafjörð einan. Hafi hv. þm. verið á þeim flugráðsfundi, sem um þetta hefur fjallað, ætti hann að vita betur. Ætli hann sér að bera þetta inn á flugráðsfund óska ég eftir að hann taki málið í heild, en ekki einhvern anga af því.

En hann sagði líka: Ég vil ekki lofa því að það takist einu sinni að fá athugunina. — Á þessu sjá menn við hversu ramman reip er að draga. Flugráðsmaðurinn sjálfur vill ekki einu sinni lofa því að hægt sé að sannfæra hina flugráðsmennina um að þetta sé svo nauðsynlegt mál að það verði gert. Sjálfur lofar hann fyrir tveimur árum að gera það í flugráði. Þetta er merkilegt. Svona er gangurinn. Þetta eru fulltrúar okkar í kerfinu.

Nei, það er nauðsyn á því að Alþ. sjálft reki endahnútinn á og skipi svo fyrir að þetta skuli gert. Engin beiðni frá einstökum flugráðsmönnum eða loforð frá flugmálastjóra eða flugráðsmönnum skiptir máli. Það er ekkert mark takandi á því. Það sýnir reynslan í þessu máli. Það eina sem dugar er að Alþ. sjálft skipi þessum herrum svo fyrir að þetta skuli gert. Og þá skulum við sjá hvort þeir drattast af stað eða hvort þeir sitja áfram á sömu þúfunni.

Ég gef ekkert afskaplega mikið fyrir þann velvilja eða skilning sem núv. hæstv. samgrh. kann að hafa á þessu máli. Ég ætlaði ekki að draga hann inn í umræður fjarstaddan. En ég minni á að hann var einn af þeim hv. þm. sem stóðu að því að málið fékk þá afgreiðslu sem raun varð á, þ.e. að því var vísað frá. Kannske hefur skilningur hans aukist. Þá fagna ég því.

Það er rétt, sem hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði, að ekki er fram á mikið farið. Það er einungis farið fram á að málið verði athugað. Það er allt og sumt.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson fullyrti að flugráð hefði ekki verið spurt þegar rafmagnslínan við enda brautarinnar í Holti var lögð. Ég hef það fyrir satt og ég læt það koma hér fram, að bæði framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga og flugvallarstjórinn í Holti í Önundarfirði höfðu símasamband við aðstoðarflugmálastjóra, Leif Magnússon, út af þessu máli. En það hefur kannske ekki nægt til þess að flugmálayfirvöld tækju við sér og kæmu í veg fyrir að línan yrði sett upp. En mér er tjáð, og ég rengi það ekki fyrr en annað kemur í ljós, að við aðstoðarflugmálastjóra var haft samband símleiðis af þessum tveimur einstaklingum. Flugmálayfirvöld hljóta því að hafa vitað hvað hér var á ferðinni. Ég tek því a.m.k. með fyrirvara að flugráð hafi ekki haft vitneskju um málið.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði að auðvitað bæru þeir ábyrgðina sem framkvæmdu. Það er nú ekki aldeilis svo einfalt — eða a.m.k. á ég eftir að sjá það. En þó vona ég að ég sjái að sá aðili, sem framkvæmdi verkið, beri ábyrgð á mistökunum og verði látinn bæta fyrir þau. En það á eftir að koma í ljós. Mér finnst ekki líklegt að sú gjörð sjái dagsins ljós, miðað við það sem við höfum átt að venjast af gangi mála á vegum hins opinbera, bæði í kerfinu og utan þess.