18.03.1980
Sameinað þing: 34. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

59. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að svara hv. 6. landsk. þm., Karvel Pálmasyni. Ég veit ekki við hvern maðurinn er reiður. Hann hellir úr skálum reiði sinnar yfir alla, jafnvel þá sem b jóða honum að styðja það mál sem hann flytur. Einn kemur hann engu máli fram hér á Alþ. Ég lofaði stuðningi í flugráði eingöngu við það sem stendur í þessari till. Ég lít svo á og veit reyndar, að flugráð hefur upplýsingar um það sem þarf að gera á hverjum stað fyrir sig. Till. er því út af fyrir sig óþörf. Ef hv. flm. hefði leitað til flugráðs og beðið um þær upplýsingar, sem hann er að fara fram á í könnuninni, hefði hann líklega fengið þær. Hitt er annað mál, að ef hv. 6. landsk. þm. Karvel Pálmason, telur þann stuðning, bæði minn og annarra sem eru í flugráði, óþarfan og kannske til að skemma málið þegar það er rætt í flugráði, þá vil ég biðja hann afsökunar. En ég vildi gjarnan heyra það frá fleiri þm., ábyrgari þm. kjördæmisins, hvort stuðningur þm. almennt í þeim nefndum, sem þeir sitja í, er talinn frekar andstæður málum en hitt.

Það kom fram í málflutningi margra, sem tóku hér til máls, að óskað væri eftir að framkvæmdir við Ísafjarðarflugvöll og víðar á Vestfjörðum nytu viss forgangs í framkvæmdum á vegum flugráðs á þessu framkvæmdaári. Það var það sem ég var að taka undir. Ég var að taka undir þann málflutning sem hefur verið hér uppi hafður af fleiri en einum. En hv. 6. landsk. þm. hugsar um eigið ágæti og hlustar ekki á nema sjálfan sig, þar af leiðandi er hann flæktur inn í þá einu lausn sem hann finnur á öllum vandamálum Vestfirðinga í flugmálum, þ.e. að halda áfram að kanna málin. Það komu fleiri og stórstígari hugmyndir fram hjá öðrum þm. sem tóku til máls, undir þær hugmyndir og óskir var ég að taka.

Að sjálfsögðu segir það sig sjálft, að ef Alþ. samþykkir að eitthvað verk skuli unnið og útvegað til þess fjármagn verður það verk unnið. En það liggur engin till. hér frá hv. 6. landsk. þm. um að gera nokkurn skapaðan hlut á framkvæmdasviðinu. Ég er því hættur að skilja málflutning 1. fim., og hefði líklega verið langtum betra ef 3. flm. hefði tekið að sér að mæla fyrir þessari till. (Gripið fram í.)

Ég er ekki að betrumbæta fyrir annað en flutningsmennina, því þar er mikill munur á, ég verð að viðurkenna það. En ég sé ekki að persónulegar árásir á einstaka þm., hvort sem það er hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir, ég eða einhver annar, geti verið þessu máli eða öðrum málum yfirleitt til framdráttar. Þær kosningar sem framundan eru, ég geri ráð fyrir að hann hafi verið að tala um væntanlegar forsetakosningar, eiga ekki heima í þessum umræðum. Ég tel ekki ástæðu til að svara þeim orðum hans.

Ég vildi gjarnan fá að vita hvort þm. þess kjördæmis, sem hér um ræðir, óska eftir að við, sem sitjum í flugráði og höfum hér orðið fyrir vissu aðkasti, eigum að láta þetta mál afskiptalaust þegar það kemur til kasta flugráðs eða verður rætt þar eða hvort það er ósk þm. kjördæmisins að við tökum undir tillögur um þessar framkvæmdir eða reynum að hraða væntanlegum framkvæmdum, ekki bara könnunum. (Gripið fram í.) Já, mér datt í hug að svo væri. Þess vegna tók ég til orða eins og ég gerði áðan. Og ég er alveg viss um að það væri samnm. mínum í flugráði, 4. þm. Vesturl., Skúla Alexanderssyni, einnig ljúft að verða við þeirri ósk.