18.03.1980
Sameinað þing: 34. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

106. mál, framkvæmdaáætlun í orkumálum vegna húshitunar

Páll Pétursson:

Herra forseti. Mér finnst það vera slæm venja að hafa á kvöldverðartíma umr. í gangi, og fyrir mitt leyti vildi ég miklu fremur mælast til þess að hafa kvöldfundi, ef svo er farið að reka á eftir, og gefa okkur heldur matarhlé, því af skiljanlegum ástæðum sitja menn ekki slímusetur á þessum tíma.

En till., sem hér er til umr., er náttúrlega góð till. og meiningin er góð. Þetta er nokkuð dýrt fyrirtæki og auðvitað dæmigerð till. stjórnarandstæðinga. Málið lítur mjög vel út og hljómar vel í eyrum. Það er gripið á mikilvægum verkefnum og lagt til að samin verði nauðsynleg áætlun. En hitt er náttúrlega látið liggja á milli hluta, hvernig brúsinn verði borgaður. Kannske er stjórnarliðinu ætlað að sjá um það. Menn, sem gefa út svona ávísanir, eiga jafnvel til í sumum tilfellum, — ég á ekki von á því í þessu tilfelli reyndar, — að leggjast á móti nauðsynlegri skattheimtu til þess að borga þær framkvæmdir sem ráðist er í í kjölfarið.

Þessi áætlun er í sex liðum og þeir eru allir markverðir og nauðsynlegir. En það er einn þáttur sem ég vil gera nánar að umræðuefni en frsm. gerði og taka út úr. Það er þátturinn um sveitarafvæðinguna. Það er nefnilega alveg dæmalaust hvaða sinnuleysi hefur dkt nú á síðustu árum varðandi sveitarafvæðingu. Á árunum upp úr 1950 var unnið stórvirki í sveitarafvæðingunni. Allt fram um 1970 eru í því kjördæmi sem ég er kunnugastur, Norðurl. v., þó nokkrir bæir enn þá án rafmagns frá samveitum, m.a.s. nokkrir sem alls ekkert rafmagn hafa. Ég hef verið að reyna að minna á þetta og við þm. verið að þrýsta á um tengingu þeirra við samveitur síðan ég kom til starfa á Alþ. 1974, en það hefur sáralítið áunnist, og það er ekkert gaman fyrir okkur að rifja það upp.

Hvað eftir annað hafa þó dálitlar upphæðir á lánsfjáráætlun eða fjárlögum verið merktar þessu verkefni. En það hefur alltaf tekist að koma þeim í annað. Það hefur alltaf verið músagangur í þessum peningum hjá orkuráði. Í mörgum tilfellum eru ekkert nálægt því 6 km á milli bæja, eins og miðað er þó við í seinustu samþykkt orkuráðs.

Hins vegar höfum við horft upp á að það hefur verið ausið takmarkalitlu fé í verkefni sem manni hefur ekki sýnst vera bráðnauðsynleg. Orkustofnun hefur t.d. ekki búið við neitt fjársvelti undanfarið og er búin að búa þokkalega um sig inni á Grensásvegi. En orkuráð hefur ekki að mínum dómi sýnt sveitarafvæðingunni nægan skilning, og ekki bara orkuráð, fjárveitingavaldið almennt.

Ég vil taka það fram, að formaður orkuráðs hefur verið allur af vilja gerður og gengið upp í þessu verkefni og þrýst á eftir því sem hann hefur haft aðstöðu til, eins og hans var von og vísa. En það er samt sem áður allt of mikið ógert.

Formaður orkuráðs, 1. flm. þessarar till., kemst líka ljómandi skynsamlega að orði í grg. og reyndar í ræðu sinni áðan, sem ég vil fá að endurtaka, með leyfi forseta. Hann segir í kaflanum um sveitarafvæðingu: „Hér er ekki um umfangsmikið verkefni að ræða, en hins vegar mjög þýðingarmikið þeim sem það varðar“. — Það er lóðið. Það er nefnilega mjög þýðingarmikið fyrir fólkið á þessum 40 bæjum að fá þetta fram.

Við verðum að vinda bráðan bug að því að ljúka sveitarafvæðingunni. Það er til háborinnar skammar frammistaða orkuráðs og okkar þm. í þessu máli. Fólkið á þessum sveitabæjum hefur búist við því ár eftir ár að því yrðu útveguð þessi bráðnauðsynlegu lífsþægindi, og ár eftir ár hefur það verið svikið. Það hefur orðið fyrir vonbrigðum. Peningar, sem það hélt að væru greinilega merktir, hafa verið teknir í annað. Það er ekki sæmandi að setja þetta fólk hjá svona lengur. Lífsaðstaða þegnanna á að vera sem jöfnust, hvar sem þeir búa á Íslandi.

Ég styð þessa till., alla þætti hennar, því að mér finnst hún vera skynsamleg og heldur góð. En ég vil leggja mesta áherslu á sveitarafvæðinguna, sem ég hef gert hér sérstaklega að umræðuefni.