19.03.1980
Efri deild: 49. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (1229)

124. mál, söluskattur

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 11. landsk. þm., Agli Jónssyni að flytja hér frv. til l. um breyt. á lögum um söluskatt. Ég hafði ekki ímyndað mér að þetta mál kæmi svona skjótlega til umr. hér og þar af leiðandi vil ég segja, að annars hefði ég undirbúið mína framsögu meir en mér hefur gefist ráðrúm til.

Hins vegar fagna ég því, að málið virðist ætla að fara greiðlega af stað, og það eru því meiri líkur til að það nái fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi. Það er líka sagt, að Ed.-menn séu röggsamari menn en þeir í Nd., minni málskrafsmenn, en gangi því ötullegar að verki. Skýringin mun væntanlega sú m.a., að hér eru menn helmingi færri en í Nd.

Það liggur beinast við að skýra frá í upphafi út á hvað þetta litla frv. gengur. Það felur einfaldlega í sér þá till., að felldur verði niður söluskattur af flutningskostnaði innanlands með vöruflutningabifreiðum, skipum eða flugvélum, sem reiknast inn í endanlegt kostnaðarverð vöru. Þetta er sú breyting sem lögð er til á 3. mgr. 7. gr. laganna. Samkv. þessum lögum eru vöruflutningar almennt undanþegnir söluskatti, og það er ekki eina undantekningaratriðið. Undanþágurnar eru fjölmargar, svo að vart verður tölu á komið. En þetta ákvæði um undanþágu vöruflutninga kemur ekki til góða vörum sem fluttar eru frá Reykjavík til verslunarstaða utan Reykjavíkur, þar er söluskatturinn reiknaður inn í sjálft endanlegt kostnaðarverð vörunnar. Ef hins vegar maður austan af Hornafirði eða vestan af Gjögri kemur og kaupir vöruna hér í Reykjavík og sendir hana svo að eigin framtaki með flutningatæki til síns heimastaðar losnar hann við að greiða söluskattinn. Þarna er dálítið ósamræmi í, og segja má að það sé með söluskattslögin okkar eins og margt í okkar háþróaða þjóðfélagskerfi, að þau eru óhæfilega flókin og margbreytileg. Nógu slæmt er það hér í Reykjavík, en enn þá flóknara verður það þegar hinir fjöldamörgu liðir koma til viðbótar í versluninni úti á landi.

Misræmi í álagningarflokkum hvað varðar söluskattinn er líka merkilegt. Og ekki varð þetta auðveldara viðureignar þegar ákveðið var í sept. 1978, að ég hygg, að fella niður söluskatt af öllum matvörum. Allt þetta gerði málið enn þá flóknara. Ég get t.d. nefnt það, sem raunar kom fram í almennum fréttum hér fyrir skömmu að því er varðar matvöruna, að ef þú kemur í verslun og kaupir þér köld svið, þá eru þau söluskattsfrjáls. Ef sviðakjamminn er heitur, þér er seldur hann heitur, borgar þú söluskatt. Ís almennt — ég meina ís til manneldis — er söluskattsfrjáls. Ef ísinn er settur í þar til gerðar umbúðir samkv. kröfum heilbrigðisyfirvalda borgar þú af honum söluskatt, því að þá heyrir hann undir sælgæti. En ef hann er seldur laus er hann ekki sælgæti og þá þarftu ekki að borga söluskatt. Svona úir og grúir af atriðum sem fela í sér mikið misræmi og skringilegheit. En það er ekki hlutverk þessa máls hér að leiðrétta það, heldur er aðeins á þetta bent.

Enginn vafi er á því, að það er sameiginlegur hagur neytenda og verslunar að verslunin sé rekin á heilbrigðum grundvelli. En á undanförnum árum hefur verslun á Íslandi, eins og raunar aðrar atvinnugreinar, átt mjög erfitt uppdráttar. Þar kemur margt til. Það hefur verið ringulreið, óðaverðbólga og upplausn í efnahagslífi okkar. Það koma til gloppur í tollalöggjöf, úreltar álagningarreglur, reglur í innflutningsverslun sem mikið er búið að berjast við að fá leiðréttingu á, en hefur ekki tekist, en þær eru þannig, eins og við vitum öll, að því óhagkvæmari innkaup sem innflytjandinn gerir, því meira fær hann fyrir sinn snúð, því að álagningin er reiknuð sem prósentutala af vöruverðinu. Það hafa einnig komið til mjög hækkaðir vextir af rekstrarlánum. Það hefur komið til alls konar skattlagning, ekki hvað síst síhækkandi söluskattur og síflóknara form á útreikningi hans, auk þess ýmsir sérskattar á verslunina sérstaklega, stöðugar kaupgjaldshækkanir, sem hafa orðið kaupmanninum síður en svo til hagsbóta, og sitthvað fleira. Þetta hefur snert alla verslun í landinu, en ekki hvað síst hefur strjálbýlisverslunin átt í vök að verjast. Þar kemur margt til viðbótar við almenna erfiðleika verslunarinnar. Markaðurinn er yfirleitt minni, neytendurnir færri, það þarf að flytja vöruna langa vegu, hún rýrnar í flutningum og það þarf að kosta miklu til að reisa geymslur til að geyma birgðir, og sitthvað fleira verður til þess að gera hlutverk smásölukaupmannsins, svo mikilvægt sem það er, sífellt örðugra. Það þarf ekki að útlista það frekar, að verslunarþjónusta hvar sem er, ekki hvað síst úti á landi þar sem sérstakrar árvekni þarf við til að halda versluninni gangandi, — það þarf ekki að leggja mörg orð í það, hve mikilvæg þjónusta það er við hinn almenna neytanda að miðla nauðsynjavörum, hvort sem er um matvörur eða aðrar neyslu- og nauðsynjavörur að ræða.

Það er alkunna, að innflutningsverslun landsmanna fer að yfirgnæfandi meiri hluta um Reykjavík. Vörudreifing til hinna ýmsu staða á landinu, ýmist með skipum, bifreiðum eða jafnvel í flugi, hefur að sjálfsögðu verulegan kostnað í för með sér og kemur óhjákvæmilega fram í hækkuðu vöruverði á hinum ýmsu stöðum úti um land og þá auðvitað því hærra sem fjarlægðin er meiri frá Reykjavík. Við, sem flytjum þetta frv., erum með því að gera tilraun til þess að aflétta einum þeirra mörgu kostnaðarauka sem strjálbýlisverstunin á við að búa, þ.e. að fella niður söluskatt af flutningsgjaldi. En eins og öllum er kunnugt leggst söluskatturinn, sem nú er 22%, á síðasta stig sölu eða þjónustu, þ.e. í þessu tilfelli sölu til neytandans. Ef við tökum sem dæmi vöru sem send er sjóleiðis frá Reykjavík til verslunarstaðar úti á landi verður söluskattstofninn þessi: heildsöluverð vörunnar að viðbættu vátryggingargjaldi, vörugjaldi, útskipunargjaldi, uppskipunargjaldi í heimahöfn og heimakstri, flutningsgjaldi, smásöluálagningu. Ofan á alla þessa kostnaðarliði leggst svo 22% söluskatturinn og þar með er fundið hið endanlega kaupverð neytandans.

Það er augljóst mál, að sjálft flutningsgjaldið hefur ærin áhrif til hækkunar vöruverðsins, og verður að teljast óeðlilegt og engan veginn réttlætanlegt að ríkið seilist með skattheimtu sinni eftir hagnaði af þessum viðauka við almennan framfærslukostnað þess hluta landsmanna sem háður er aðdráttum lífsnauðsynja um langa vegu. Hér er óneitanlega um mikla mismunun og ójöfnuð að ræða og það er hart við hann að una. Og enn þá tilfinnanlegri verður þessi ójöfnuður með æ hækkandi söluskatti á undanförnum árum.

Þetta er mál sem ekki er nýtt af nálinni, þó að það sé fært hér fram í nokkuð afmörkuðu formi, en verðjöfnun vöruflutninga hefur mörg undanfarin ár verið til umr. á Alþ. Sérstök mþn. var á sínum tíma skipuð til að fjalla um málið og skilaði hún árið 1976 mjög ítarlegri grg. og till. Þar var m.a. lagt til að fallið yrði frá hugmynd, sem mjög hafði verið á döfinni, um stofnun sérstaks verðjöfnunarsjóðs til verðjöfnunar allra vöruflutninga. Hins vegar benti nefndin á ýmsar aðrar leiðir, t.d. að aðstöðumunur vegna mismunandi framfærslukostnaðar vegna búsetu víðs vegar í landinu yrði jafnaður í gegnum skattkerfið og einnig með sérstökum styrkveitingum til að tryggja viðunandi verslunarþjónustu í dreifbýli. En þetta er háttur sem hefur verið tekinn upp víða í nágrannalöndum okkar, sérstaklega í norðurhéruðum Noregs og Svíþjóðar og einnig í Finnlandi, og virðist vera viðtekin hefð þar. Mér fannst þessi aðferð, sem hér er stungið upp á, þ.e. að fella niður söluskatt af flutningsgjaldi, eðlilegri og geðfelldari en bein styrkjaleið, en það verður að segjast, að hún nær auðvitað ekki nema skammt. Það verður ekki hjá því komist að benda þeim á, sem e.t.v. gera sér ekki grein fyrir því hér á hv. Alþ., að það fólk sem hér á hlut að máli að því er varðar þetta skattlagða flutningsgjald, er um leið, meiri hlutinn af því, sama fólkið sem nú er að sligast undan húshitunarkostnaði eftir hinar feiknalegu verðhækkanir á olíu. Vonir standa að vísu til að þeirri byrði verði aflétt að nokkru á næstunni með sérstökum aðgerðum stjórnvalda. En Hvað sem því líður og enda þótt ég geri mér grein fyrir því, að hér er farið fram á aðgerð sem hefur í för með sér tekjumissi fyrir ríkissjóð, þá tel ég að það sé svo mikils virði að aflétta því áberandi ranglæti, sem felst í þeirri skattlagningu sem hér er lagt til að fella niður, að málið eigi þess vegna fullan rétt á sér.

Ég minntist á tekjumissi ríkissjóðs. Það fer ekki hjá því, að alþm., sem leggur fram mál af þessu tagi, sem skerðir tekjur ríkissjóðs, hlýtur að finna allajafna til nokkurrar sektartilfinningar að geta ekki um leið sýnt fram á hvað þetta þýði í tekjuskerðingu fyrir ríkissjóð. Mér hefur satt að segja ekki unnist tími til að reyna að gera mér hugmynd eða fá upplýsingar sem veittu nokkra hugmynd um þetta. Og sannleikurinn er sá, að upplýsingar um margt, sem varðar framkvæmd söluskattslaganna, liggja ekki á lausu. Þær liggja sannarlega ekki á lausu í kerfinu. Ég hef snúið mér til ráðuneyta, til skattstofa, til Þjóðhagsstofnunar og það hefur orðið heldur fátt um svör. Ég er hér ekki að deila á starfsmenn viðkomandi stofnana fyrir fávisku þeirra eða óliðlegheit, heldur liggja hreinlega ekki fyrir upplýsingar um hvað eina sem mig langaði til að fræðast um í þessu sambandi. Þó hefur Þjóðhagsstofnun verið hvað jákvæðust og líklegust til þess að koma að liði í þessu máli. Enda þótt ég geti því miður ekki nú við framsögu þessa máls nefnt neina upphæð um hugsanlega tekjuskerðingu ríkissjóðs af framkvæmd þessa frv., ef að lögum yrði, hef ég vonir um að Þjóðhagsstofnun geti hlaupið þarna undir bagga. Menn hjá þeirri stofnun hafa gert nokkrar rannsóknir á verslunarveltu í landinu, og mér voru gefnar vonir um að þeir gætu gert athugun á þessu og veitt upplýsingar og að einhverjar hugmyndir um, hvað þetta þýddi í raun og veru í tekjurýrnun fyrir ríkissjóð, mundu geta legið fyrir um það bil sem þetta mál kæmi frá nefnd.

Í mínum augum er þetta mál öllu meira réttlætismál en fjárhagsmál. Þetta er öfugsnúin skattlagning, og ég hygg að ef við athugum málið hljótum við að samþykkja það. Einhver kann nú að segja með tilliti til frétta að undanförnu um risatekjur sjómanna á togurunum fyrir vestan og annars staðar, að það þurfi ekki að létta undir með þessu fólki fjárhagslega. En ég tel — og það að gefnu tilefni — ástæðu til að minna á að það er ekki réttlátt að miða tekjur almennings í þessum fiskveiðilandshlutum við toppmennina á togurunum. (Gripið fram í: Ekki á Vestfjarðatogurunum.) Ekki á Vestfjarðatogurunum, já, líklega einna helst á Vestfjarðatogurunum, sem eru toppskipin í flotanum. Í þessum landshlutum eru líka ellilífeyrisþegar, ekkjur og barnafjölskyldur sem ekki eiga fyrirvinnu á þessum toppskipum, og það er þetta fólk, það er hinn breiði almenningur sem ber að hafa í huga þegar mál eins og þetta ber á góma.

Það er stórt mál að tala um framfærslukostnað utan Reykjavíkur, úti á landsbyggðinni. Það hefur verið gerð tilraun til þess að meta þetta mál. Hagstofan gerði fyrir nokkrum árum með tilliti til framfærsluvísitölu könnun í hinum ýmsu landshlutum. Hún gaf til kynna að munurinn væri ekki jafnmikill og landsbyggðarmenn vilja halda fram. Ég tel að sú könnun hafi engan veginn verið fullnægjandi og það þurfi að leggja áherslu á að framfærslutala vísitölukostnaðar miðist ekki eingöngu við Reykjavík. Það eru ákaflega ófullnægjandi vinnubrögð, það segir sig sjálft.

Ég vil í þessu sambandi geta um það til fróðleiks frekar en gamans, að ég hitti mann vestur á fjörðum, Reykvíking í húð og hár, sem hefur verið búsettur í sjávarplássi á Vestfjörðum undanfarin 2–3 ár, og ég spjallaði við hann um hvernig honum líkaði þarna úti á hjara veraldar. Hann lét vel yfir því, hér væri gott að vera. En hann sagði án þess að hika: Ég hef reiknað út að það kostar mig 100 þús. kr. meira mánaðarlega í útlögðum útgjöldum fyrir framfærslu hér en það gerir hjá mér í Reykjavík. — Ég hygg að þarna hafi þessi maður, — þetta var í spjalli utan við alla pólitík, — ekki farið fjarri sanni, þannig að þótt létt væri þessum söluskatti af flutningsgjaldi mundi það, eins og ég get um í grg., ekki hrökkva mjög langt til jöfnunar.

Ég vil líka benda á að þegar við erum að tala um verðlag á verslunarstöðum úti á landi er varan ekki alltaf komin á leiðarenda. Hún á eftir að fara út til bænda út um sveitir, og oft og tíðum eru samgöngur ekki mjög svo greiðar þar sem strjálbýlið er mest. Mjög oft er það bóndinn sjálfur sem fer á jeppanum sínum og sækir lífsnauðsynjar sínar á næsta verslunarstað. Það má segja, að hann þurfi ekki að borga flutningsgjald fyrir það, en hvað skyldi það kosta hann þegar bensínlítrinn er kominn í 400 kr. eða því sem næst og fer kannske upp fyrir það á næstunni? Þarna er ekki lítill útgjaldaliður sem leggst ofan á sjálft vöruverðið.

Það hefur verið bent á að allar undanþágur frá söluskatti geri málið flóknara, það væri flókið bókhaldsatriði að fella flutningskostnaðinn þarna út úr. Ég hef enga trú á að svo sé, og ég hef ekki heyrt á kaupmönnum úti á landi, sem hafa sótt þetta mál mjög fast, að þeim vaxi í augum að undanskilja flutningsgjaldið í reikningi söluskattsins.

Ég vil benda á það líka, að í gegnum þessa skattheimtu á sér stundum stað greinileg tvísköttun, — ekki alltaf, en stundum kemur það fyrir, og auðvitað alfarið ef við tökum t.d. rekstrar- og viðhaldskostnað vöruflutningabifreiða, sem auðvitað verða að miða flutningataxta sína við rekstrarkostnað sinn, þannig að sá atvinnurekstur beri sig. Þarna er kominn áreiknaður söluskattur inn í sjálft flutningatækið og rekstur þess, og síðan leggst söluskatturinn auðvitað ofan á fullnaðarverð vörunnar, þegar flutningskostnaður og allir aðrið kostnaðarliðir eru komnir áður. Einnig mun það tíðkast í landflutningum að innheimt eru svokölluð afgreiðslugjöld, og enda þótt vöruflutningar almennt séu söluskattsfrjálsir eru afgreiðslugjöldin það ekki, og afgreiðslugjöldin, sem mér skilst að komi ekki alltaf til, en stundum gera þau það, leggjast ofan á flutningsgjaldið sem leggst svo aftur ofan á vöruna og það er borgaður þar með söluskattur aftur af vöruafgreiðslugjaldinu. (Gripið fram í: Og af snjóruðningnum.) Ja, það er búið að gefa það frjálst, skilst mér, núna nýlega.

Ég vil benda á líka, til viðbótar við það sem ég var að tala um verðmismun, að lítil samloka, sem þægilegt er fyrir vinnandi fólk og skólafólk að kaupa, kostar vestur á Ísafirði 150 kr. meira en hér í Reykjavík. Hér kemur eitt misræmisatriðið enn. Af henni er heimtaður söluskattur vestur á Ísafirði, en hér er hún söluskattsfrjáls af því að hún flokkast að sjálfsögðu undir matvöru, sem er ekki söluskattsskyld. Ég geri ekki mikið úr gildi gosdrykkja sem manneldisvöru, en ég býst við að unglingum fyrir vestan og austan og norðan þyki hart að borga 100% hærra verð fyrir kókflöskuna en þeir gera í Reykjavík. Innihald stórrar lítraflösku af kóki kostar hér í Reykjavík 420 kr. (Gripið fram í.) Er hann kominn á 480? Ja, það hefur skeð á síðustu dögum, verðhækkanir gerast hraðar en sólargangurinn, en hann kostar 710 kr. vestur á Ísafirði. Innihaldið í lítilli kókflösku kostar í Reykjavík 95 kr. (Gripið fram í: 110 kr.) Já, það er nýorðin hækkun. Þessar upplýsingar eru sennilega þriggja vikna gamlar. (Gripið fram í.) Já, en 205 kr. vestur á Ísafirði, austur á Hólmafirði eða hvar sem er langt frá Reykjavík. Þarna kemur flutningskostnaðurinn sérstaklega illa niður, því að umbúðirnar eru það þungar og þarna reiknast eftir þunga. Nú er misjafnt hvernig flutningskostnaðurinn er reiknaður, hvort hann er reiknaður af rúmtaki varanna eða af þyngd. En þetta er sem sagt allt dálítið breytilegt og ákaflega erfitt að henda reiður á hvort réttlætinu og hvort lögum er fullnægt eða ekki.

En að því er varðar útreikning á söluskatti af flutningsgjaldi er ég því miður nokkuð tómhent, eins og áður sagði. Þó hef ég frá Þjóðhagsstofnun lítinn lista sem þar var tekinn saman yfir nokkrar vörur og sundurliðað hvernig kostnaðurinn er. Ég fer ekki að lesa upp alla þessa töflu, en þess má geta að á sófasetti, sem búið er að flytja vestur eða austur á land, munar 50 þús. kr. í verði miðað við Reykjavík. Ég er ekki að segja að það sé allt söluskattur, heldur er það flutningskostnaðurinn og álagningin sem leggst á þessa vöru vegna fjarlægðar frá Reykjavik. En til þess að gefa hv. þm. ofurlitla hugmynd og svo þeir geti áttað sig á þessu hef ég hér útreiknaðan söluskatt af flutningskostnaði, og þá án álagningar, af ísskáp sem er fluttur vestur á Snæfellsnes. Söluverðið út úr búð í Reykjavík er 381 þús., 386 þús. vestur á Snæfellsnesi. Flutningskostnaðurinn er 4200 kr. Þeir reikna það þannig, að sjálfur söluskatturinn af flutningskostnaðinum einum nemi 924 kr., sem mun láta nærri 22% sem söluskatturinn er. Af sófasettinu, sem ég talaði um, nemur söluskatturinn einn af flutningskostnaðinum 2700 kr., en þarna er um stykki að ræða sem kostar á aðra millj. og kostar um 50–60 þús. kr. meira fyrir kaupandann á Patreksfirði en hér í Reykjavík. Varahlutir í bíl: Kúplingsdiskur með pressu, sem stundum liggur á að fá út á land, kostar út úr verslun hér í Reykjavík 32400 kr. Úti á landi, og það er þá Snæfellsnesið enn, sem er nokkuð miðja vegu, ef við förum út á ystu annes verður þetta miklu tilfinnanlegra, — vestur á Snæfellsnesi kostar þessi varahlutur 34836 kr. Söluskatturinn af flutningskostnaðinum þar nemur 396 kr. Mér finnst þessar tölur, sem ég hef fengið útreiknaðar, ekki það ógnvekjandi eða tekjurýrandi fyrir ríkissjóð að það ætti að vera nokkurt áhorfsmál að þarna eigum við að ganga beint til verks og létta af þessum rangláta viðbótarskatti ofan á allar viðbæturnar sem komnar eru á undan á vöruverð til fólks sem býr langt frá Reykjavík.

Ég vona að þetta mál mæti skilningi hv. alþm. Ég veit að þeir, sem til þekkja, vita að ég hef ekki farið hér með ýkjur. En ég vænti þess, að málið fái góða umfjöllun í n., og ég vil leyfa mér að leggja til að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til fjh.- og viðskn.