19.03.1980
Efri deild: 49. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

124. mál, söluskattur

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það er svo þegar hin ýmsu landsbyggðarmál koma hér til meðferðar, að þá kemur það alltaf nokkuð við okkur, því af nógu er að taka. Það koma einnig æðioft til umr. hér mál sem snerta landsbyggðina sérstaklega hvað snertir mismunun. Og manni verður það æðiríkt í hug varðandi hvers konar réttindi fólks þegar maður heyrir svo aftur hér á þéttbýlissvæðinu talað um þá óskaplegu mismunun, sem fólk búi þar við, og hin skertu mannréttindi varðandi kosningarréttinn. Mér hefur oft dottið í hug, að vel mættum við landsbyggðarmenn skipta á þessu tvennu ef þá yrði um fullkomið réttlæti að ræða. Mér dettur hins vegar ekki í hug að það sé hægt.

Ég vil líka segja það, að þrátt fyrir ýmiss konar óhagræði af því að búa úti á landi dreg ég ekkert úr þeim kostum sem í því eru einnig fólgnir. Þeir eru vissulega margir. Við erum ábyggilega öll sammála um það, sem þar búum, að við getum tíundað ýmislegt, ekki síst varðandi lífsfyllingu hvers konar, sem er þar að mínu viti miklu meiri en hér í þéttbýlinu. Í ýmsum menningar- og félagsmálum tökum við þéttbýlisbúum langt fram, það fer ekkert á milli mála. Þá á ég við almenning, en ekki þá atvinnumennsku sem hér er stunduð í þessum efnum, og þá á ég, sérstaklega við menningarmálin.

Ég vil sem sagt ekkert draga úr því, hvað gott er á margan hátt að vera úti á landsbyggðinni og búa þar. En það er þeim mun örðugra að sætta sig við það, að þeir, sem svo mikið gera til þess t.d. að afla efnis í þá undirstöðu sem þetta þjóðarbú byggist á, sem aðrir eru þeim mun duglegri aftur að eyða, skuli einmitt af hálfu opinberra aðila vera beittir ýmiss konar ranglæti. Hér er inn á eitt af þeim málum komið.

Ég get fyllilega tekið undir það meginefni sem í þessu frv. felst. Það er reyndar rétt, að það er í allan máta óeðlilegt að ríkissjóður seilist til tekna á þessu sviði. Það er óeðlilegt, það er ranglátt. Það er í raun og veru í þá átt, sem hv, fyrri flm. tók fram, fáránlegt að ríkissjóður skuli seilast svo langt sem hér er gert.

En þetta hefur, eins og hv. 1. flm. tók fram, ærið oft komið til umr. á Alþ. Þetta er alls ekki nýtt mál. Það hefur komið oftast nær þannig upp hér á Alþ., að þeir, sem hafa verið í stjórnarandstöðu á hverjum tíma, hafa flutt þetta mál. Ég gerði það á sínum tíma ásamt hv. þm. Stefáni Jónssyni. Hv. 5. landsk. þm. gerir það nú. Svo höfum við einnig, og ég dreg heldur ekkert úr því, meðan við höfum átt stjórnaraðild, knúið hér á. Það veit ég að hv. 5. landsk. þm. hefur einnig gert meðan hún átti aðild að stjórn, án þess að ég vilji vera að fullyrða um það, því að ég veit ekki svo vel um skiptingu manna í Sjálfstfl., hvort hún er endilega stjórnarandstæðingur, en það er kannske varasamt að gera það.

Hins vegar hefur þetta mál komið margsinnis til umræðu á Alþ. og þetta ranglæti hefur verið tekið til sérstakrar umfjöllunar, eins og er sagt frá í grg. varðandi störf svokallaðrar byggðanefndar. Byggðanefnd starfaði hér nokkuð á árunum upp úr 1971 og tók þá ýmis þessi misréttismál til meðferðar. Það var afleiðing af till., sem samþ. var hér á Alþ., frá fulltrúum í byggðanefnd sem þessi framfærslukönnun fór fram. Ég er alveg sammála hv. fyrra flm. um að sú könnun var alls ekki nógu ítarleg eða vel gerð, það er alveg ljóst. Hún var, að mig minnir, gerð á fjórum stöðum á landinu. Þetta var eins konar skyndikönnun og gaf í engu algerlega rétta mynd af því sem við búum við, enda tók könnunin ekki líkt því til allra þátta. Afleiðing af starfi byggðanefndarinnar var einnig sú, að komið var á fót samkv. till., sem var samþ. á Alþ., nefnd sem átti að fjalla sérstaklega um flutningskostnaðinn og jöfnun flutningskostnaðar. Hún skilaði ítarlegri grg. og till., eins og segir í grg. með þessu frv. Það, sem mér þótti á vanta í því ágæta áliti, þar sem margt var réttilega og vel tekið fram, var það, að ekki var nógu mikið þar um beinar og ákveðnar tillögur til úrbóta, m.a. beinlínis hvað snertir það einstaka atriði sem hér er komið inn á. Það var bent þar á ýmsar leiðir. Í raun og veru var, að mig minnir, í þessu nál., — það er, langt síðan ég hef lesið það, en mig minnir nokkurn veginn að öllum vandanum væri varpað á eina ágæta stofnun sem heitir Framkvæmdastofnun ríkisins. Til hennar var í raun og veru öllu vísað í nál. Ekki efa ég að þar er vel unnið að mörgu, en mér þykir það stundum um of sem sú ágæta stofnun á að inna af hendi af hvers konar áætlunum og hvers konar verkefnum. Það getur hlaðist um of á þá stofnun þó hún hafi færum sérfræðingum á að skipa og vinni vel.

Ég vil sem sagt taka undir meginefni frv. Ég ætla ekki að fara nánar út í það efni sem í því felst. Það var gert að mínu viti það vel af hv. fyrri flm. að ekki er hægt betur að gera. Þó hefði verið býsna skemmtilegt að fá nánari skýringar á samlokudæminu sem hún tók. Ef framkvæmd laga getur orðið svona fáránleg verðum við sem löggjafaraðili aldeilis að fara að gæta að okkur. Ekki trúi ég því a.m.k., að við höfum samþykkt hér á Alþ. þau ólög að samlokur á Ísafirði skyldu ekki teljast matur, heldur eitthvað allt annað sem endilega þyrfti að taka af söluskatt. (SigurlB Eða heitan sviðakjamma.) Eða mismunurinn varðandi heitan og kaldan sviðakjamma, það er alveg rétt. Þarna er náttúrlega verið að fara út í öfgar í skattheimtu og þarna hlýtur reyndar að vera, eins og hv. fyrri flm. benti á, um ólöglega skatttöku að ræða í þessu sambandi, það fer ekkert á milli mála.

Ég hlýt að vinna málinu núna framgang á þeim vígstöðum sem tiltækastar eru nú fyrir mig, þ.e. sem aðili að ríkisstj., og það munum við svo vissulega gera, alveg eins og ég veit að í þau fjögur ár sem hv. 5. landsk. þm. átti sæti á Alþ. og var aðili að ríkisstj. hefur áreiðanlega verið unnið að því að reyna að fá leiðréttingu. Í þessu máli virðist vera um geysilega þungan róður að ræða, en við höfum hins vegar unnið umtalsverða sigra varðandi söluskattsmálin og niðurfellingu söluskatts varðandi t.d. menningarmálin, svo ég nefni þau. Nú eru leikfélögin okkar úti á landi, sem mörg hver vinna hátt í það jafnmerkilegt starf og Þjóðleikhúsið vinnur hér í Reykjavík, blessunarlega laus við að verða að greiða söluskatt af áhugamennsku sinni. Því verð ég að segja að ýmis söluskattsmál hafa mætt heldur vaxandi skilningi. Þá á ég einnig við það átak sem gert var í því að fella niður söluskatt af landbúnaðarvörunum. Það kann að vera að það hafi eitthvað flækt þetta mál, en það hefur a.m.k. verið fullkomlega framkvæmanlegt, það fer ekki á milli mála, og allt gengur sinn gang jafnt þó að það hafi verið gert. Við skulum þess vegna vona að þetta frv. fái góða skoðun í n., en helst af öllu mundi ég óska eftir því, að hæstv. núv. ríkisstj. tæki tillit til okkar, sem á landsbyggðinni erum og erum að vinna að þessum málum þar innanborðs, og aflétti þessari skattheimtu. Það væri vitanlega best. Ég treysti þeim mönnum mætavel til þess að vinna að því máli og um leið að þeir hljóti að fagna stuðningi jafnágætra þm. og þetta mál flytja á Alþingi.