19.03.1980
Efri deild: 49. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

124. mál, söluskattur

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir við hæfi, svo sem eins og hv. þm. Helga Seljan og raunar hv. þm. Davíð Aðalsteinssyni líka, að þakka flm. fyrir þetta frv., er þeir leggja hér fram, og þá náttúrlega ekki síst hv. 1. flm., Sigurlaugu Bjarnadóttur. Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn að maður lifir það að hún kemur hingað eins og með vængjaþyt viskugyðju og réttlætis í sali Alþingis þannig að það er eins og rómur heilbrigðrar skynsemi hljómi aftur í sölum þessarar hv. stofnunar við komu hennar og þm. ókyrrast í sætum, ég og fleiri og sprettum á fætur af löngun til þess að reyna að segja eitthvað af skynsemi líka í þessum málum. Maður freistast jafnvel til að taka sér í munn orð Gústafs Gíslasonar í Papey, sem sagði forðum: „Það er synd að rytan, svona ljúffengur fugl, skuli ekki verpa á sléttlendi“, og segja um hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur: Það er synd að svona ágætur félagsmálamaður skuli hafa valið sér hreiðursstað í heiðnabergi íhaldsins, þar sem manni finnst hún alls ekki eiga heima.

En hvað sem því líður hygg ég að hv. þm. Helgi Seljan hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann vakti athygli á þeirri undarlegu staðreynd, að þetta mál hafa þm. gjarnan flutt í stjórnarandstöðu. Ekki svo að skilja, heyrt hef ég hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur hreyfa gagnrýni á kerfið sem flokkur hennar átti frumkvæði að, ég hef heyrt hana hreyfa slíkri gagnrýni í stjórn. Það hefur ekkert vantað annað en hún stigi næsta skref í raun og veru svo að maður væri ánægður með hana.

En mér er minnisstætt einmitt þegar við hv. þm. Helgi Seljan fluttum sams konar mál á sínum tíma í stjórnarandstöðu. Þá var því svarað til af hinum vísu mönnum, sem tóku málið til athugunar í þágu embættisins, að svo flókið mál væri að fella niður söluskatt af flutningsgjöldum innanlands að því yrði alls ekki við komið. Okkur er öllum minnisstætt að sama andbára var höfð uppi gegn því að fella niður söluskatt af kjöti. Þó var felldur niður söluskattur af kjöti. Það reyndist framkvæmanlegt. Það getur vel verið að það hafi aukið mjög erfiði þeirra embættismanna sem starfa að söluskattsmálum, en þeir gerðu það nú samt þegar þeim var sagt að gera það.

Nú vilt svo til, að búið er að afnema söluskatt af ætum landbúnaðarafurðum á landi hér, en söluskattur er enn þá lagður ofan á flutningsgjald á þessum vörum eigi að síður. Þær vörur eru ekki teknar út úr bílfarminum þegar til verðlagningar kemur. Ég er alveg viss um að hægt er að gera þetta, að fella þennan skatt niður, sem er, eins og hv. 1. flm. sagði, fyrst og fremst óréttlátur og er það í vitund fólksins sem þessum lögum á að hlíta.

Það má vel vera að freista megi annarra einfaldari og grómtækari ráða til þess að jafna verðmun á landi hér í verslunum og sjálfsagt að teita þeirra. Því miður get ég ekki tekið undir með hv. þm. Davíð Aðalsteinssyni í því að hrósa þeim aðgerðum sem til hefur verið gripið í sambandi við málefni Skipaútgerðar ríkisins á síðustu árum. Þar hefur harla lítið verið gert. En hitt er rétt, að hin síðustu ár hafa menn farið að hugsa um hvaða ráð séu tiltæk til þess að sinna betur málefnum Skipaútgerðar ríkisins en áður, og nú eru uppi áætlanir um að gera eitthvað í þeim málum. Og ég er viss um það eins og hv. þm., að með þeim hætti er hægt að lækka stórkostlega flutningskostnað á hinum lengri leiðum innanlands.

Það fer varla milli mála að söluskatturinn hefur oft og tíðum reynst vandræðaskattur, bæði í því sem lýtur að réttlætinu í sambandi við vöruverð og ekki síður í hinu sem varðar innheimtu á þeim skatti, sem við höfum ýmsir rökstudda ástæðu til að ætla að heimtist misjafnlega inn. Smám saman hefur Alþ. verið að láta einstaka þm., eins og hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur, hafa sig út í að reyna að sníða vankanta af lögunum um söluskatt. Við hv. þm. Helgi Seljan höfum ástæðu til að stæra okkur af því, hann minnti mig á þá breytingu áðan þegar ég kallaði fram í fyrir hv. ræðumanni Sigurlaugu Bjarnadóttur, að okkur tókst að fá sniðinn ákaflega slæman agnúa af söluskattslögunum með því að fá afnuminn söluskatt af ákaflega þýðingarmikilli vörutegund, a.m.k. fyrir Vestfirðingana, þar sem er snjórinn, snjóruðningunum, flutningum á snjó af vegunum. Þannig hefur molast úr hinum verri agnúum. Það var þó gert í tíð vinstri stjórnar að afnema söluskatt á snjóruðningi og því ekki vonlaust að við gætum haldið áfram að koma einhverju skynsamlegu til leiðar í sambandi við hina verstu agnúa.

Ég mæli eindregið með því, að við tökum mál þetta nú til athugunar hér í Ed., þeirri d. þingsins sem Alþ. í heild annars að ólöstuðu — hefur oft reynst gagnleg til þeirra hluta, og reynum að fá óréttlætið afnumið og tökum með varúð yfirlýsingum um að það sé tæknilega erfitt að gera slíkt. Ég þakka flm. aftur fyrir flutning málsins og beini þeirri ósk minni til fjh.- og viðskn., sem mér skilst að muni fjalla um þetta mál, að það hljóti þar skjóta og einarðlega afgreiðslu.