19.03.1980
Neðri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. um tekjustofna sveitarfélaga. Við 2. umr. hér í deildinni var samþ. að veita sveitarfélögum heimild til þess að hafa útsvar allt að 10% hærra en fyrri heimildir leyfðu. Í þessu sambandi hafa orðið umr. um hversu mikla aukningu skattlagningar gæti af þessu leitt, og í þessu sambandi hlýtur mönnum að sjálfsögðu að vera hugsað til náskylds máls, sem eru tekjuskattslögin, skattstigahlið tekjuskattslaganna.

Ég tel ástæðu til að upplýsa hér, áður en mái þetta er afgreitt úr deildinni, að ríkisstj. hefur tekið ákvörðun um að flytja frv. um breyt. á lögum um tekju- og eignarskatt þar sem skattstigar verða ákveðnir á þann veg að af nettótekjum allt að 3 millj. hjá framteljanda verði tekjuskattur greiddur 20% af því sem þar er fyrir ofan og allt að 6 millj. kr. nettótekjum verði greiddur 35% skattur, en 50% skattur af því sem er þar fram yfir. (Gripið fram í: Miðast þetta við einstaklinga?) Þetta miðast að sjálfsögðu við framteljanda. Þeir eru einstaklingar hvort sem þeir eru í hjónabandi eða ekki. Persónuafsláttur verður 440 þús. kr. samkv. þessari tillögu, en tekjuskattur lögaðila er þá áformaður 61% eins og hann var á seinasta ári.

Ég tel rétt að upplýsa hér, að frv. þessa efnis verður lagt fram í þinginu öðru hvorum megin við helgina, vegna þess að ákvörðun skattstiga og persónuafsláttar skiptir nokkru máli í sambandi við útsvarsgreiðslu. Nú má vel vera, að Alþ. eigi eftir að breyta tillögum þeim sem ríkisstj. mun leggja fram. Tillögurnar verða athugaðar í hv. fjh.- og viðskn. deildanna og verða þar til nánari athugunar með sérfræðingum, en þetta er sú tillaga sem ríkisstj. kemur til með að leggja fyrir þingið og gengur út á að tekjuskatturinn skili ríkissjóði nokkurn veginn sömu tekjum og gömlu tekjuskattslögin hefðu gert ef tillit er tekið til tekjubreytinga milli áranna 1978 og 1979, en sú tala er um 38,8 milljarðar kr. að byggingarsjóðsgjaldi meðtöldu.

Það er rétt að skjóta því hér inn í, að í umr. um þetta mál hef ég oftar en einu sinni heyrt því slegið fram að tekjuskattur muni hækka um 65%. Það er auðvitað sérstök ástæða til þess að mótmæla svo fáránlegum fullyrðingum. Sannleikurinn er auðvitað sá, og leiðir nokkuð af því sem ég hef nú sagt, að innheimtur tekjuskattur er áætlaður 45–46% hærri fjárhæð en innheimtist á árinu 1979. Þegar menn aftur á móti tala um að hér sé um 65% hækkun að ræða er það vegna þess að menn miða við fjárlagatöluna eins og hún var sett fram fyrir meira en einu ári — tala sem reyndist síðan óraunhæf því að tekjuskatturinn reyndist meiri. Þegar sú tala var ákveðin vissu menn ekki fyllilega um tekjubreytinguna milli ára. Talan var því óraunhæf. Ef menn miða við þessa óraunhæfu tölu fá þeir út að um hafi verið að ræða 65% hækkun. En auðvitað er ekki hægt að miða við neitt annað en hvað tekjuskatturinn skilaði ríkinu miklum tekjum á árinu 1979. — En þetta var útúrdúr.

Í sambandi við útsvarið og tekjustofna sveitarfélaga, sem hér eru til umr., skiptir auðvitað verulega miklu máli hvað stór fjárhæð gengur til skattborgaranna í formi ónýtts afsláttar. Ég vil upplýsa það hér að ef lagt væri á samkv. gömlu lögunum, lögunum frá 1971, og afslátturinn og tekjurnar og þar með skatturinn væru hækkuð um 45% gengju upp í útsvar 1768 millj. kr. og upp í sjúkratryggingargjald 559 millj. kr. eða samtals 2 milljarðar 327 millj. kr. En ef það frv. verður að lögum, sem ríkisstj. mun leggja fram öðru hvorum megin við helgina og gengur út á að skattstigar verði þeir sem ég hef nú gert grein fyrir, verður ónýttur afsláttur upp í útsvar 3 milljarðar 850 millj. og upp í sjúkratryggingargjald 750 millj. kr. eða samtals áætlað 4 milljarðar 600 millj. kr.

Auðvitað er þessi upphæð áætlunarupphæð tölvunnar, sem byggir á tuttugasta hverju framtali eins og það lá fyrir á seinasta ári, og því getur hér alltaf skeikað einhverju. En þetta eru þær tölur sem við höfum í höndunum, þær einu sem eitthvað er á að byggja. Samkv. þessu er ljóst að það gengur upphæð af ónýttum afslætti upp í útsvar sem er 2.1 millj. hærri samkv. nýja tekjuskattsfrv. og samkv. skattstigunum, sem hér er verið að tala um að verði samþykktir í þinginu, en verið hefði samkv. gömlu lögunum. En ef hvort tveggja er með talið, bæði útsvar og sjúkratryggingargjald, er þarna um að ræða upphæð sem er 2.3 milljörðum hærri en verið hefði samkv. gömlu lögunum.

Þetta verða menn auðvitað að hafa í huga þegar þeir tala um að verið sé að auka útsvarsbyrðina með samþykkt þessarar heimildar til útsvarshækkunar, því að það kemur auðvitað til frádráttar og kemur þá einkum til góða þeim sem lægstar hafa tekjurnar.