19.03.1980
Neðri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (1241)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða að svo komnu máli þá till. sem hv. 5. þm. Suðurl. hefur lagt fram og leitað var afbrigða um fyrr á þessum fundi. Ég held að um það sé samið, að þingflokkar fái tækifæri til þess á eftir að skoða betur þá till. sem hann flutti og er að koma fyrst fram við 3. umr. málsins. Ég held þó að ástæða sé til að vekja enn einu sinni athygli á nokkrum atriðum þess máls sem hér er til umr., einkum og sér í lagi þeim vinnubrögðum sem hér hefur verið beitt.

Það lá fyrir við 2. umr. till. frá hv. 10. landsk. þm. um aðra leið til að bjarga fjárhag sveitarfélaganna en samþykkt var við lok 2. umr., þ.e. að ríkisvaldið gæfi eftir nokkuð af söluskattstekjum sínum og færði þær yfir til þeirra sveitarfélaga sem mesta þörf hefðu á því fjármagni. Var beðið um að þessi till. og sú varatill., sem hv. 1. landsk. þm. flutti í þessu máli, yrðu athugaðar í n., en því tilboði var hafnað eða alla vega var ekki boðað til nefndarfunda þótt tækifæri hefði gefist til tímans vegna. Þá er rétt að benda á að um það var einnig beðið, þegar á 2. umr. stóð, að hægt væri að fresta þessu máli þar til betur væri vitað um þá skattstiga sem ríkisstj. hyggðist leggja fram í frumvarpsformi til breytinga á skattalögunum. Við 3. umr. kemur hæstv. fjmrh. og segir nokkur orð sem ástæða er til að spyrja frekar út í. Það var ekki vonum fyrr, enda hafði Þjóðviljinn, málgagn hæstv. félmrh. og fjmrh., sagt undan og ofan af þessu máli í morgun í leiðara.

Rökin fyrir því, að sveitarstjórnum sé gefinn kostur á að leggja 10% álag ofan á útsvarið og koma því þannig upp í 12.1% af árstekjum gjaldenda, eru fyrst og fremst tvenns konar. Annars vegar er því haldið fram, að um hafa verið að ræða tilfærslu á tekjum frá ríki til sveitarfélaga, og hins vegar, að verðbólgan hafi skert þennan tekjustofn. Ef fyrra atriðið reynist rétt, og það er rétt, liggur auðvitað beint við að ríkið eigi að gefa eftir af tekjum sínum, eins og till. þeirra hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Péturs Sigurðssonar gerðu ráð fyrir. En sé verðbólgan aðalskaðvaldurinn er varla mikið kvíðbogaefni þar sem sú hv. ríkisstj., sem hér situr að völdum, hefur sagt frá því í sínum ágæta málefnasamningi, sem hæstv. forsrh. og utanrrh. segja að menn eigi að lesa kvölds og morgna, að verðbólgan verði komin árið 1982 niður í það sama og í nágrannalöndunum. Sagði hæstv, landbrh. líka eitthvað? (Gripið fram í: Það var fyrrv. forsrh. sem sagði þetta.) Já, og núv. hæstv. forsrh. (Gripið fram í: Ég sagði ekkert slíkt.) Hæstv. forsrh. sagði að þau ummæli ættu vel við um þennan stjórnarsáttmála líka. Þetta sagði hann í ágætri ræðu þegar hann óð reyk í umr. um daginn, eins og frægt er orðið og í blöð hefur komist, að maður ætti að lesa þann sáttmála vel. Þar er því lofað nánast, — ja, við skulum ekki segja lofað, en haldið fram, — að ríkisstj. ætli sér að koma verðbólgunni niður í 12% 1982. Við það vænkast heldur betur hagur sveitarfélaganna. Það hefði kannske verið eðlilegra, aðeins af þeim ástæðum, að hinkra við og beita frekar bráðabirgðaaðgerðum, eins og lagt var til af þeim hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Pétri Sigurðssyni. — En þetta gerðist nú ekki. Meiri hl. þessarar hv. d. stóð að því að auka heildarskattbyrðina um 4–5 milljarða kr. Ofan á það bætist síðan að ríkisstj. hefur lýst því yfir, að hún ætli að leggja á einhvers konar orkuskatt, sem mun vera annað eins. Þarna kemur því utan fjárlaga skattbyrði ofan á allt annað sem nemur um 10 milljörðum kr.

Hæstv. félmrh. svaraði fsp. við 2. umr. þessa máls, þar sem hann var spurður að því, hvað fælist í þeim orðum stjórnarsáttmálans þar sem rætt er um lækkun útsvars af lægstu tekjum. Ég ætla ekki að ítreka þá spurningu. En ég vil vekja athygli á því sem í svari hans kom fram. Hann las upp úr gildandi lögum, 68, gr. skattalaga, og sagði að ríkisstj. mundi fara að þeim lögum. Það voru svör hans við spurningunni. Ég er honum þakklátur fyrir að hann skyldi koma upp í ræðustól hér í hv. d. og skýra þingheimi og þjóð frá því, að ríkisstj. ætlaði sér að fara að lögum og að þetta ákvæði stjórnarsáttmálans þýddi það. — Ég segi þetta ekki út í bláinn. Þetta segi ég vegna þess að við þm. erum vanir því, að ekki sé farið að lögum. Frægasta dæmið um það eru auðvitað svokölluð Ólafslög, þar sem aðeins er farið eftir þeim greinum sem ríkisstj. telur sig þurfa að fara eftir í það og það skiptið.

Nú kemur hæstv. fjmrh. hér upp og segir okkur undan og ofan af því, hvað sé að gerast í ríkisstj. um skattstigamálið, og segir þá m.a. að sú breyting verði á milli ára, að nú megi gera ráð fyrir að ríkið verði að endurgreiða sveitarfélögunum 4.6 milljarða kr. vegna hækkaðs persónufrádráttar, en ef gömlu lögin giltu hefði sú upphæð aðeins orðið 2.3 milljarðar kr. Það var árið 1979 milli 1200 og 1300 millj. kr. Það er ástæða til að huga að því hvað þetta þýðir. Það er talið að fjöldi manna greiði ekki útsvar með þessum hætti. Það er gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. hæstv. fjmrh. að tekjuskattar einstaklinga séu 38.2 milljarðar, en sú tala eru hreinar tekjur, hreinar innheimtar tekjur á greiðslugrunni. Þetta er sú upphæð sem á að koma í kassann á yfirstandandi ári. En til þess að ná inn þeim tekjum þarf ríkið að leggja á talsvert meira, því að auðvitað þarf að greiða til baka útsvarið af brúttótekjunum af tekjuskattinum. Því er enn á ný um aukna millifærslu að ræða. Hér er enn á ný verið að þyngja skattbyrðina á þeim sem á annað borð greiða skatta í þessu landi. Þetta þýðir m.ö.o. að skattbyrði af meðaltekjum, jafnvel lágum tekjum, og hærri tekjum kemur til með að aukast enn meira en hægt er að lesa út úr fjárlagafrv.

Ég vildi gjarnan að hæstv. fjmrh., sem ekki er staddur hérna, en t.d. hæstv. landbrh., sem er hér staddur, skýrði fyrir hv. d. hvað hér er á ferðinni. Það væri vissulega ástæða til þess, að hann eða einhver annar úr ríkisstj. skýrði okkur frá því, hvað það þýðir sem hæstv. fjmrh. var að segja. Hann hafði um það fá orð, litlar útskýringar. En fyrir okkur, sem hlustuðum á hvað hann var að segja, kemur aðeins eitt í ljós, og það er að enn á að herða á ólinni. Ég vil þess vegna taka undir það sem hv. 3. þm. Vestf. sagði áðan, að full ástæða er til að staldra við í þeim umr. sem hafa farið fram um útsvarsálagninguna og bíða eftir því sem kemur út úr þessu skattstigamáli, hvað kemur út úr orkuskattinum og hvað kemur út úr því sem hæstv. ríkisstj. er hugsanlega með á prjónunum til viðbótar til þess að auka enn á skattaálögur, þannig að við getum tekið afstöðu til þessa máls þegar það liggur fyrir í heild sinni.

Það er út af fyrir sig hægt að halda því fram, eins og hæstv. fjmrh. gerði í sjónvarpi í gær, að það skipti í sjálfu sér engu máli hvort verðbólga geisi hér á landi, því þannig sé farið með tekjur ríkissjóðs að þær séu að langmestu leyti óbeinir skattar og þótt verðbólgan geisi muni koma tekjur á móti útgjöldum sem aukast í verðbólgunni og þess vegna sé allt í lagi. Þessi hugsunarháttur er svo ríkjandi hjá vissum stuðningsmönnum stjórnarinnar að það er ástæða til að staldra aðeins við. Og maður spyr: Hver er það sem er fulltrúi skattgreiðenda? Hver hér inni er fulltrúi þeirra sem vinna hörðum höndum og þurfa að greiða útsvör og skatta? Ég fæ ekki auga komið á slíka menn, a.m.k. ekki í herbúðum flokks hæstv. fjmrh., og því miður verð ég að segja það, og það þykir mér afar sorglegt, að mér sýnist þessi hugsunarháttur svo smitandi að m.a.s. mínir ágætu flokksbræður, sem sæti eiga í ríkisstj., sitja og steinþegja yfir þessu öllu saman. Ég er ansi hræddur um að hæstv. forsrh., hæstv. dómsmrh. og hæstv. landbrh. hefðu einhvern tíma tekið til máls undir þessum kringumstæðum, a.m.k. komið hér upp og þorað að segja álit sitt á þeirri herferð sem ríkisstj. hefur nú hafið í vasa skattgreiðenda þessa lands.

Ég vil að það komi skýrt fram, að það er heildarskattbyrðin sem skiptir öllu máli, þ.e. sú skattbyrði sem áleggst þegar saman koma tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaganna. Það verðum við að hafa hugfast þegar þetta mál er afgreitt. Ég vil þess vegna eindregið hvetja til þess að það verði hinkrað í nokkra klukkutíma á meðan hæstv. fjmrh. er að undirbúa sig svo að hann geti komið í mæltu máli saman því sem hann gæti sagt okkur og ríkisstj. greinilega hefur nú þegar ákveðið — eða þá að bíða í einn eða tvo sólarhringa þannig að við fáum á borðið hjá okkur allar þær upplýsingar sem þegar hafa komið fram í hæstv. ríkisstj. um hvernig hún ætli enn og aftur að auka skattbyrðar á almenningi þessa lands.